Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/26

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið villulesin

97. gr.

Sjálfstæðar ríkisstofnanir.

Í lögum má kveða á um að tilteknar stofnanir ríkisins, sem gegna mikilvægu eftirliti eða afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi, njóti sérstaks sjálfstæðis. Starf­semi slíkra stofnana verður ekki lögð niður, henni breytt að verulegu leyti eða fengin öðrum stofn­unum, nema með lögum sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi.

VI. KAFLI

Dómsvald.

98. gr.

Skipan dómstóla.

Skipan dómstóla, þar á meðal dómstig og fjöldi dómara, skal ákveðin með lögum.

99. gr.

Sjálfstæði dómstóla.

Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum.

100. gr.

Lögsaga dómstóla.

Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og sök um refsi­verða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.

Dómstólar skera úr um hvort lög samrýmist stjórnarskrá.

Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verð­ur ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

101. gr.

Hæstiréttur Íslands.

Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öll­um málum sem lögð eru fyrir dómstóla.

Þó má ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjara­samn­inga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skot­ið til annarra dómstóla.

102. gr.

Skipun dómara.

Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti dómara eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma. Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum.

Ráðherra skipar dómara og veitir þeim lausn. Dómara verður ekki vikið endanlega úr em­bætti nema með dómi, og þá aðeins ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til að gegna em­bætt­inu eða sinnir ekki skyldum sem starfinu tengjast.

103. gr.

Sjálfstæði dómara.

Dómarar skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum. 24