Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/17

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

II. Hver gjörði hann að herra yfir mér?

Georg Harris, fjörugur og gáfaður ungur múlattamaður, sem var þræll á næstu bújörð, var maður Elísu og faðir Harrys litla. Sama daginn, sem Shelby hafði samþykkt að selja Tómas og Harry litla, hafði frú Shelby farið að heiman. Elísa stóð á veggsvölunum og horfði hnuggin í bragði á eptir vagninum, sem var að hverfa; þá var lögð hönd á öxl hennar. Hún sneri sér við, og gleðibros skein í hinum fögru augum hennar.

„Georg, ert það þú? hvað þú gjörðir mér bylt við! Jæja, ég er fegin að þú komst. Frúin er farin að heiman og verður í burtu til kvölds. Komdu því inn í litla herbergið mitt, þar getum við verið alveg út af fyrir okkur.“

Um leið og hún sagði þetta, leiddi hún hann inn í lítið og laglegt herbergi, sem lá fyrir innan veggsvalirnar, þar sem hún var vön að sitja við sauma sína, og mátti heyra þangað, ef húsmóðir hennar kallaði til hennar.

„Hvað ég er glöð! Því brosirðu ekki? Og líttu á Harry, hvað hann stækkar.“ Drengurinn stóð við hliðina á móður sinni og helt í pilsið hennar og leit hálf-smeykur til föður síns, gegn um lokkasafnið, sem fell niður um andlit hans. „Er hann ekki fallegur?“ sagði Elísa og kyssti hann.

8