Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/26

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

17

löngu lokkar hans féllu mjúklega niður um sakleysislega andlitið; rósrauðu varirnar voru opnar, og feita höndin hans lá ofan á ábreiðunni; bros var á andliti hans eins og sólarbjarmi.

„Veslingurinn minn! veslings drengurinn!“ sagði Elísa, „það er búið að selja þig, en móðir þín ætlar að bjarga þér.“ — Það draup ekki eitt einasta tár á koddann. Í slíkum þrautum hefur hjartað engin tár að láta í té; það drýpur að eins blóði og blæðir sjálft burt í kyrþey. Hún tók pappírsblað og ritblý og skrifaði í flýti: — „Ó, frú, kæra frú! Hugsið mig eigi vanþakkláta — áfellið mig eigi né hugsið illt um mig á nokkurn hátt. Eg heyrði alla samræðu ykkar hjónanna í kveld. Eg ætla að reyna til að bjarga drengnum mínum, — það munuð þér eigi lá mér. Guð blessi yður og launi yður alla góðsemi!“

Hún braut blaðið í flýti og skrifaði utan á það. Svo tók hún dálítið af fötum handa drengnum sínum upp úr kommóðunni, batt þau í böggul og reyrði hann með handklæði fast að mitti sér; og svo viðkvæmt er móðurminnið, að jafnvel í skelfingu þessarar stundar gleymdi hún ekki að láta í litla böggulinn eitt eða tvö af uppáhalds leikföngum hans; en uppi við hafði hún fagurmálaðan páfugl, til að skemmta honum með, þegar hún þyrfti að vekja hann.

Það var dálítil fyrirhöfn að vekja drenginn, en eptir nokkra tilraun settist hann upp og fór að leika sér að fuglinum sínum, meðan móðir hans var að láta á sig sjalið og hattinn. —

<div style="float:right;font-size:80%;color:darkblue;" id="2">2