Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/41

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

32

þá þykir mér nú skörin vera komin upp í bekkinn, ef kristin kona má ekki gefa hungruðum veslingum mat að borða eða rúm til að hvíla í, einungis af því að þeir eru þrælar, og þeim hefir altaf verið misboðið og farið illa með þá alla sína æfi, veslings menn!“

„En María, hlustaðu nú á mig. Tilfinningar þínar eru alveg réttar, góða mín, og hugðnæmar, og eg ann þér fyrir þær, en samt megum við ekki láta tilfinningar okkar hlaupa með dómgreind okkar“.

„Nú jæja, Jón, eg veit nú hvorki upp eða niður í stjórnmálum, en eg get lesið biblíuna mína, og þar stendur að eg eigi að seðja hungraða, klæða nakta, hugga sorgbitna, og eptir því ætla eg að fara“.

„Hlustaðu nú á mig María; eg get leitt mjög ljós rök til að sýna —“

„Ó nei, Jón, enganveginn. Þú getur talað í alla nótt, en ekki komið með neinar sannanir; eg ber það undir þig sjálfan, Jón: mundir þú vilja, núna í kvöld, reka burtu frá dyrum þínum, skjálfandi, hungraðan aumingja, einungis vegna þess, að hann væri strokuþræll, mundirðu gjöra það?“

„Auðvitað væri mér það mjög þungbær skylda“. sagði Bird, með stillilegum málróm.

„Skylda! Jón, brúkaðu ekki þetta orð! þú veist það er ekki skylda, — getur ekki verið skylda! Veslings manneskjurnar hafa þolað nóg af kulda, hungri og hræðslu, þó allir séu ekki samtaka á móti þeim, og lög eða lög ekki, eg skal aldrei