Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/44

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

35


„Ykkur skal ekkert mein verða gjört hér, veslingur,“ sagði frúin hughreystandi. „Þú ert óhult, vertu óhrædd!“

„Guð blessi yður“, sagði stúlkan, og fól andlitið í höndum sér og grét. Drengurinn reyndi til að komast uppí fang hennar, þegar hann sá hana gráta.

„Vertu öldungis óhrædd, þú ert á meðal vina, veslings stúlka, segðu mér hvaðan þú kemur og hvers þú þarft við,“ sagði frúin.

„Eg kem frá Kentucky,“ sagði stúlkan. „Hvernig komstu þaðan?“ spurði frú Bird.

„Eg fór yfir ána á ísnum.“

„Á ísnum“ sögðu allir, sem viðstaddir voru.

„Já,“ sagði konan hægt. „Það gjörði eg.“

„Guð hjálpaði mér, þeir voru rétt á eptir mér, og það var engin önnur leið.“

„Frú,“ sagði Kudjó, „ísinn á fljótinu er allur brotinn, og flýtur í jökum.“

„Eg vissi það, eg vissi það,“ sagði hún æðislega, „en eg gjörði það, eg hefði ekki hugsað að eg gæti það — eg hugsaði ekki að eg kæmist yfir um, en eg hirti ekkert um það! Það var ekki um annað að gjöra, en að deyja að öðrum kosti. Drottinn hjálpaði mér,“ sagði hún. „Enginn veit, hversu hann hjálpar, nema þeir, sem reyna.“ Og það kom glampi í augu hennar.

„Varstu ambátt?" spurði Bird.

„Já, herra, ég var eign manns í Kentucky ríkinu!"

„Var hann vondur við þig?“