Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/73

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Þessi síða hefur verið staðfest

64

og köttur, breiddi rúmábreiðuna hingað og þangað um gólfið á herberginu, færði koddana í nátttreyjur Ophelíu, stóð á höfði, söng, dansaði og lét alls konar ólátum frammi fyrir speglinum.

Einhverju sinni kom Ophelía að henni, er hún var búin að vefja dýrindis indversku sjali, er Ophelía átti, um höfuðið á sér, og gekk þannig búin fram og aptur um herbergið með ýmsum fettum og brettum. Ophelía hafði gleymt lyklinum í skránni á dragkistu sinni; það kom ekki opt fyrir, að henni yrði það á, en Topsý hagnýtti sér það vel.

„Topsý“, sagði hún, — þolinmæði hennar var nú á förum — „því læturðu svona, barn?“

„Veit ekki missus, víst af því eg er svo vond.“

„Eg veit ekki, hvaða ráð eg á að hafa við þig, Topsý.“

„Ó, missus, þér verðið að lemja mig; gamla missus hýddi mig allt af. Eg er ekkert vön að vinna, nema eg sé hýdd.“

„Mig langar ekki til að berja þig, Topsý. Þú getur verið þæg, ef þú vilt, og gjört það sem þú átt að gera; hvers vegna viltu það ekki?“

„Ó, missus, eg er vön að vera hýdd, eg held eg hafi gott af því.“

Ophelía fór þá að reyna þetta ráð, en Topsý hljóðaði þá og bað um vægð, og lofaði bót og betrun; en þegar hún stundu síðar fékk að fara út og börnin hópuðust í kring um hana að venju, þá lét hún í ljósi mikla reiði og óánægju yfir meðferðinni.