Fara í innihald

Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/90

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið staðfest

81

Óðara en Legree var búinn að snúa bakinu við þeim, tóku menn þeir, er verið höfðu verkfæri í höndum hins guðlausa manns til þessa ódáðaverks, að þvo sár Tómasar og reyna í fávizku sinni að lífga hann við, eins og það væri nokkur velgjörð fyrir hann. Þeir bjuggu honum legurúm úr viðarullar rusli og lögðu hann þar á.

„Ó, Tómas frændi, við höfum verið hræðilega vondir við þig“ sögðu þeir.

„Eg fyrirgef ykkur af öllu hjarta“ sagði Tómas veiklulega.

Tveim dögum. síðar var vagni ekið í gegnum trjágangana, og ungur maður stökk ofan úr vagninum, gekk heim að húsinu og spurði eptir húsbóndanum.

Maðurinn var Georg Shelby, sem var barn að aldri, þegar Haley keypti Tómas frænda. Vér verðum að víkja til baka í sögunni, til þess að gjöra grein fyrir, hvernig það atvikaðist að hann var þangað kominn.

Bréfið, sem Ophelía hafði skrifað frú Shelby, hafði legið sinn eða tvo mánuði á einhverjum afskekktum póstafgreiðslustað, og komst eigi til skila fyr en allt var um garð gengið og Legree var búinn að kaupa Tómas frænda.

Frú Shelby las bréfið með hinni mestu hluttekning, en í bráðina var henni með öllu ómögulegt að verða við tilmælum bréfsins. Hún var að hjúkra manni sínum, sem lá mjög hættulega veikur. Georg Shelby, sem nú var orðinn fulltíða maður, var hennar eina stoð og stytta um þessar mundir, því hún treysti engum öðrum til að gegna störfum föður hans.

Faðir hans andaðist nokkrum dögum síðar, og frestaðist ferð Georgs þá enn um hríð.



6