Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/51

Úr Wikiheimild
Þessi síða hefur verið prófarkalesin

45

hann fjekk ekki lengi frið til þess að sofa, því brátt heyrðist svo mikið brak og brestir, að það var eins og allri höllinni væri snúið við. Dyrnar skullu upp á gátt, og Umli sá ekki annað en eitt gapandi gin í öllum dyrunum.

„Ef þig langar í bita, þá færðu hann hjer,“ sagði Umli og kastaði heilu nautslæri upp í ginið í dyrunum. „Lof mjer svo að sjá, hver þú ert, kanske jeg kannist við þig?“

Ójú, ekki vantaði það, því að þetta var enginn annar en kölski sjálfur sem var á ferðinni. Þeir fóru nú að spila, því sá gamli satan ætlaði að reyna að græða eitthvað af landskuldinni aftur af Umla. En hvernig sem spilað var, græddi Umli altaf, því hann gerði krossmark á hæstu spilin, og þegar Umli var búinn að græða allt sem fjandinn hafði á sjer, varð sá gamli að grípa til gulls og silfurs, sem hann átti geymt í höllinni.

Allt í einu slokknaði eldurinn fyrir þeim, og það varð svo dimmt, að þeir sáu ekki lengur á spilin.

„Nú verðum við að höggva okkur í eldinn,“ sagði Umli, og hjó viðaröxinni í trjedrumb, og rak í fleyg en drumburinn vildi ekki klofna straks, hvernig sem Umli reyndi að ná honum í sundur. „Þeir segja að þú sjert sterkur,“ sagði Umli við kölska. „Spýttu nú í lófana og reyndu að kljúfa drumbinn, svo við getum fengið eld og haldið áfram að spila.“

Þetta gjörði sá gamli, fór með báðar hendur í sprunguna í drumbnum og togaði allt hvað af tók, en um leið sló Umli fleyginn úr, svo skratti var fastur, og síðan reyndi Umli öxarhamarinn á bakinu á honum. Kölski bað sem best hann kunni, um að fá að losna, en það vildi Umli ekki heyra nefnt, áður en sá gamli lofaði að hann skyldi ekki koma í höllina framar og gera þar brak og braml, og svo varð hann líka að lofa að byggja brú yfir sundið, og sú brú átti að vera svo vönduð, að menn gætu gengið þar yfir allann ársins hring, og