Brennu-Njáls saga/108

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
108. kafli

Nokkuru síðar reið Mörður til Bergþórshvols og fann þá Skarphéðinn. Hann sló á mikið fagurmæli við þá og talaði hann dag allan og kveðst við þá margt vilja eiga. Skarphéðinn tók því öllu vel en kvað hann ekki þess leitað hafa fyrr.

Svo gerðist að hann kom sér í svo mikla vináttu við þá að hvorigum þótti ráð ráðið nema við aðra réðust um. Njáli þótti ávallt illt er Mörður kom þangað og fór svo jafnan að hann amaðist við.

Einu hverju sinni var það að Mörður kom til Bergþórshvols.

Hann mælti til þeirra Njálssona: „Veislu hefi eg þar stofnaða og ætla eg að drekka erfi eftir föður minn. En til þeirrar veislu vil eg bjóða yður Njálssonum og Kára og því heita að þér skuluð eigi gjafalaust í braut fara.“

Þeir hétu að fara. Fer Mörður nú heim og býr veisluna. Hann bauð þangað mörgum bóndum og var veisla sú fjölmenn. Koma þangað Njálssynir og Kári. Mörður gaf Skarphéðni gullsylgju mikla en Kára silfurbelti en Grími og Helga góðar gjafar.

Þeir koma heim og hrósa gjöfum þessum og sýna Njáli.

Hann segir að þeir mundu fullu keypt hafa „og hyggið að því að þér launið eigi því sem hann mundi vilja.“