Brennu-Njáls saga/109

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
109. kafli

Litlu síðar höfðu þeir heimboð með sér, Höskuldur og Njálssynir, og buðu þeir fyrri Höskuldi. Skarphéðinn átti hest brúnan, fjögurra vetra gamlan, bæði mikinn og sjálegan. Hann var graður og hafði ekki verið fram leiddur. Þann hest gaf Skarphéðinn Höskuldi og með hross tvö. Allir gáfu þeir Höskuldi gjafar og mæltu til vináttu.

Síðan bauð Höskuldur þeim heim í Ossabæ. Hann hafði þar marga fyrirboðsmenn og mikið fjölmenni. Hann hafði látið taka ofan skála sinn en hann átti útibúr þrjú og voru þau búin mönnum að sofa í. Þeir koma þar allir er hann hafði boðið. Veislan fór allvel fram. Og er menn skyldu heim fara valdi Höskuldur mönnum góðar gjafar og fór á leið með Njálssonum. Sigfússynir fylgdu honum og fjölmennið allt. Mæltu hvorir að engir skyldu í millum þeirra komast.

Nokkuru síðar kom Mörður í Ossabæ og kallaði Höskuld til máls við sig. Þeir gengu á tal.

Mörður mælti: „Mikill verður mannamunur með yður Njálssonum. Þú gafst þeim góðar gjafar en þeir gáfu þér gjafar með miklu spotti.“

„Hvað færir þú til þess?“ segir Höskuldur.

„Þeir gáfu þér hest er þeir kölluðu vonfola og gerðu það til spotts við þig því að þeim þótti þú og óreyndur. Eg kann og það að segja þér að þeir öfunda þig um goðorðið. Tók Skarphéðinn því upp á þingi er þú komst eigi til þings á fimmtardómsstefnu. Ætlar Skarphéðinn og aldrei laust að láta goðorðið.“

„Eigi er það,“ segir Höskuldur, „eg tók við á leiðmóti í haust.“

„Njáll hefir því valdið þá,“ segir Mörður. „Þeir rufu og,“ segir Mörður, „sætt á Lýtingi.“

„Ekki ætla eg það þeim að kenna,“ segir Höskuldur.

„Eigi munt þú mæla í móti því.“ segir Mörður, „þá er þið Skarphéðinn fóruð austur að Markarfljóti féll öx undan belti honum og hafði hann ætlað að drepa þig.“

„Það var,“ segir Höskuldur, „viðaröx hans og sá eg er hann lét undir belti sér. Og er hér svo skjótt frá mér að segja,“ segir Höskuldur, „að þú segir aldrei svo illt frá Njálssonum að eg muni því trúa. En þó að því sé að skipta og segir þú það satt að annaðhvort sé að eg drepi þá eða þeir mig þá vil eg miklu heldur þola dauða af þeim en eg geri þeim nokkuð mein. En þú ert maður að verri er þú hefir þetta mælt.“

Síðan fór Mörður heim.

Nokkuru síðar fer Mörður að finna Njálssonu. Hann talar margt við þá bræður og Kára.

„Sagt er mér,“ segir Mörður, „að Höskuldur Hvítanesgoði hafi mælt að þú Skarphéðinn hafir rofið sætt á Lýtingi. En eg varð þess vís að honum þótti þú hafa haft við sig fjörráð er þið fóruð austur til Markarfljóts. En mér þykja þau ekki minni fjörráð er hann bauð þér til veislu og skipaði þér í útibúr það er first var húsum og var þar borinn að viður alla nóttina og ætlaði hann að brenna yður inni. En það bar við að Högni Gunnarsson kom um nóttina. Og varð þá ekki af því að þeir gengju að því að þeir hræddust hann. Síðan fylgdi hann þér á leið og mikill flokkur manna. Þá ætlaði hann þér aðra atgöngu að veita og setti þá til Grana Gunnarsson og Gunnar Lambason að vega að þér en þeim varð bilt og þorðu þeir eigi á þig að ráða.“

En er hann hafði þetta mælt þá mæltu þeir fyrst í mót. En þar kom að þeir trúðu og gerðust þá í fáleikar af þeirra hendi til Höskulds og mæltu nær ekki við hann hvar sem þeir fundust. En Höskuldur gaf þeim lítið tillæti og fór svo fram um hríð.

Höskuldur fór austur til Svínafells um haustið að heimboði og tók Flosi vel við honum. Hildigunnur var þar og.

Flosi mælti til Höskulds: „Það segir Hildigunnur mér að fáleikar séu miklir með yður Njálssonum og þykir mér það illa. Og vil eg bjóða þér að þú ríðir eigi vestur og mun eg fá þér bústað í Skaftafelli en eg mun senda Þorgeir bróður minn að búa í Ossabæ.“

„Það munu þá sumir menn mæla,“ segir Höskuldur, „að eg flýi þaðan fyrir hræðslu sakir og vil eg það eigi.“

„Þá er það líkara,“ segir Flosi, „að stórvandræði leiði af.“

„Illa er það,“ segir Höskuldur, „því að heldur vildi eg vera ógildur en margir hlytu illt af mér.“

Höskuldur bjóst heim fám nóttum síðar en Flosi gaf honum skarlatsskykkju og var hlaðbúin í skaut niður. Reið Höskuldur heim í Ossabæ. Er nú kyrrt um hríð.

Höskuldur var maður svo vinsæll að fáir voru hans óvinir. En hin sama er óþykkt með þeim allan veturinn.

Njáll hafði tekið til fósturs son Kára er Þórður hét. Hann hafði og fóstrað Þórhall son Ásgríms Elliða-Grímssonar. Þórhallur var röskur maður og harðger í öllu. Hann hafði numið svo lög að Njáli að hann var hinn þriðji mestur lögmaður á Íslandi.

Nú vorar snemma um vorið og færðu menn snemma niður sæði sín.