Brennu-Njáls saga/110

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
110. kafli

Það var einn dag að Mörður kom til Bergþórshvols. Þeir gengu þegar á tal, Njálssynir og Kári. Mörður rægir Höskuld að vanda sínum og hefir nú enn margar nýjar sögur og eggjar einart Skarphéðin og þá að drepa Höskuld og kvað hann mundu verða skjótara að bragði ef þeir færu eigi þegar að honum.

„Gera skal þér kost á þessu,“ segir Skarphéðinn, „ef þú vilt fara með oss og gera að nokkuð.“

„Það vil eg til vinna,“ segir Mörður. Og bundu þeir það með fastmælum og skyldi hann þar koma um kveldið.

Bergþóra spurði Njál: „Hvað tala þeir úti?“

„Ekki er eg í ráðagerð með þeim,“ segir Njáll. „Sjaldan var eg þá frá kvaddur er hin góðu voru ráðin.“

Skarphéðinn lagðist ekki niður um kveldið og ekki bræður hans né Kári. Þessa nótt hina sömu kom Mörður ofanverða. Tóku þeir þá vopn sín Njálssynir og Kári og riðu í braut.

Þeir fóru þar til er þeir komu í Ossabæ og biðu þar hjá garði nokkurum. Veður var gott og sól upp komin.