Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/111

Úr Wikiheimild
Ótitlað


Í þenna tíma vaknaði Höskuldur Hvítanesgoði. Hann fór í klæði sín og tók yfir sig skikkjuna Flosanaut. Hann tók kornkippu og sverð í aðra hönd og fer til gerðisins og sáir niður korninu.

Þeir Skarphéðinn höfðu það mælt með sér að þeir skyldu allir á honum vinna. Skarphéðinn spratt upp undan garðinum. En er Höskuldur sá hann vildi hann undan snúa.

Þá hljóp Skarphéðinn að honum og mælti: „Hirð eigi þú að hopa á hæl, Hvítanesgoðinn“ og höggur til hans og kom í höfuðið og féll Höskuldur á knéin.

Hann mælti þetta við er hann féll: „Guð hjálpi mér en fyrirgefi yður.“

Hljópu þeir þá að honum allir og unnu á honum.

Eftir það mælti Mörður: „Ráð kemur mér í hug.“

„Hvert er það?“ segir Skarphéðinn.

„Það er eg mun fara heim fyrst en síðan mun eg fara upp til Grjótár og segja þeim tíðindin og láta illa yfir verkinu. En eg veit víst að Þorgerður mun biðja mig að eg lýsi víginu og mun eg það gera því að þeim mega það mest málaspell verða. Eg mun og senda mann í Ossabæ og vita hversu skjótt þau taki til ráða og mun sá spyrja þar tíðindin og mun eg láta sem eg taki af þeim.“

„Far þú svo með víst,“ segir Skarphéðinn.

Þeir bræður fóru heim og Kári. Og er þeir komu heim sögðu þeir Njáli tíðindin.

„Hörmuleg tíðindi eru þetta,“ segir Njáll, „og er slíkt illt að vita því að það er satt að segja að svo fellur mér þetta nær um trega að mér þætti betra að hafa látið tvo sonu mína og lifði Höskuldur.“

„Það er nokkur vorkunn,“ segir Skarphéðinn. „Þú ert maður gamall og er von að þér falli nær.“

„Eigi er það síður en elli,“ segir Njáll, „að eg veit gerr en þér hvað eftir mun koma.“

„Hvað mun eftir koma?“ segir Skarphéðinn.

„Dauði minn,“ segir Njáll, „og konu minnar og allra sona minna.“

„Hvað spáir þú fyrir mér?“ segir Kári.

„Erfitt mun þeim veita að ganga í mót giftu þinni,“ segir Njáll, „því að þú munt þeim öllum drjúgari verða.“

Sjá einn hlutur var svo að Njáli féll svo nær að hann mátti aldrei óklökkvandi um tala.