Brennu-Njáls saga/129

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
129. kafli

Þeir tóku nú eld og gerðu bál mikið fyrir dyrunum.

Þá mælti Skarphéðinn: „Eld kveikið þér nú sveinar eða hvort skal nú búa til seyðis?“

Grani Gunnarsson svaraði: „Svo skal það vera og skalt þú eigi þurfa heitara að baka.“

Skarphéðinn mælti: „Því launar þú mér sem þú ert maður til er eg hefndi föður þíns og virðir það meira er þér er óskyldara.“

Þá báru konur sýru í eldinn og slökktu niður fyrir þeim. Sumar báru vatn eða hland.

Kolur Þorsteinsson mælti til Flosa: „Ráð kemur mér í hug. Eg hefi séð loft í skálanum á þvertrjám og skulum vér þar inn bera eldinn og kveikja við arfasátu þá er hér stendur fyrir ofan húsin.“

Síðan tóku þeir arfasátuna og báru þar inn eldinn. Fundu þeir eigi fyrr, er inni voru, en logaði ofan allur skálinn. Gerðu þeir Flosi þá stór bál fyrir öllum dyrum. Tók þá kvennaliðið illa að þola það er inni var.

Njáll mælti til þeirra: „Verðið vel við og mælið eigi æðru því að él eitt mun vera og skyldi langt til annars slíks. Trúið þér og því að guð er miskunnsamur og mun hann oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars.“

Slíkar fortölur hafði hann fyrir þeim og aðrar hraustlegri.

Nú taka öll húsin að loga. Þá gekk Njáll til dyra og mælti: „Hvort er Flosi svo nær að hann megi heyra mál mitt?“

Flosi kvaðst heyra mega.

Njáll mælti: „Vilt þú nokkuð taka sættum við sonu mína eða leyfa nokkurum mönnum útgöngu?“

Flosi svarar: „Eigi vil eg taka sættum við sonu þína og skal nú yfir lúka með oss og eigi frá ganga fyrr en þeir eru allir dauðir. En lofa vil eg útgöngu konum og börnum og húskörlum.“

Njáll gekk þá inn og mælti við fólkið: „Út skulu þeir nú allir ganga er leyft er. Og gakk þú út Þórhalla Ásgrímsdóttir og allur lýður með þér sá er lofað er.“

Þórhalla mælti: „Annar verður nú skilnaður okkar Helga en eg ætlaði um hríð en þó skal eg eggja föður minn og bræður að þeir hefni þessa mannskaða er hér er ger.“

Njáll mælti: „Vel mun þér fara því að þú ert góð kona.“

Síðan gekk hún út og margt lið með henni.

Ástríður af Djúpárbakka mælti við Helga Njálsson: „Gakk þú út með mér og mun eg kasta yfir þig kvenskikkju og falda þig með höfuðdúki.“

Hann taldist undan fyrst en þó gerði hann þetta fyrir bæn þeirra. Ástríður vafði höfuðdúki að höfði Helga en Þórhildur kona Skarphéðins lagði yfir hann skikkjuna og gekk hann út á meðal þeirra. Og þá gekk út Þorgerður Njálsdóttir og Helga systir hennar og margt annað fólk.

En er Helgi kom út þá mælti Flosi: „Sú er há kona og mikil um herðar er þar fer. Takið og haldið henni.“

En er Helgi heyrði þetta kastaði hann skikkjunni. Hann hafði haft sverð brugðið undir hendi sér og hjó til manns og kom í skjöldinn og af sporðinn og fótinn af manninum. Þá kom Flosi að og hjó á hálsinn Helga svo að þegar tók af höfuðið.

Flosi gekk þá að dyrum og mælti að Njáll skyldi ganga til máls við hann og svo Bergþóra. Þau gerðu svo.

Flosi mælti: „Útgöngu vil eg bjóða þér Njáll bóndi því að þú brennur ómaklegur inni.“

Njáll mælti: „Eigi vil eg út ganga því eg er maður gamall og er eg lítt til búinn að hefna sona minna en eg vil eigi lifa við skömm.“

Flosi mælti þá til Bergþóru: „Gakk þú út húsfreyja því að eg vil þig fyrir engan mun inni brenna.“

Bergþóra mælti: „Eg var ung gefin Njáli og hefi eg því heitið honum að eitt skyldi ganga yfir okkur bæði.“

Síðan gengu þau inn bæði.

Bergþóra mælti: „Hvað skulum við nú til ráða taka?“

„Ganga munum við til hvílu okkarrar,“ segir Njáll, „og leggjast niður, hefi eg lengi værugjarn verið.“

Hún mælti þá við sveininn Þórð Kárason: „Þig skal bera út og skalt þú eigi inni brenna.“

„Hinu hefir þú mér heitið amma,“ segir sveinninn, „að við skyldum aldrei skilja meðan eg vildi hjá þér vera. En mér þykir miklu betra að deyja með ykkur Njáli en lifa eftir.“

Hún bar þá sveininn til hvílunnar.

Njáll mælti við bryta sinn: „Nú skalt þú sjá hvar við leggjumst niður og hversu eg bý um okkur því að eg ætla héðan hvergi að hrærast hvort sem mér angrar reykur eða bruni. Mátt þú nú nær geta hvar beina okkarra er að leita.“

Hann sagði að svo skyldi vera. Þar hafði slátrað verið uxa einum og lá þar húðin. Njáll mælti við brytann að hann skyldi breiða yfir þau húðina og hann hét því. Þau leggjast nú niður bæði í rúmið og leggja sveininn í millum sín. Þá signdu þau sig og sveininn og fálu önd sína guði á hendi og mæltu það síðast svo að menn heyrðu. Þá tók brytinn húðina og breiddi yfir þau og gekk út síðan. Ketill úr Mörk tók í mót honum og kippti honum út. Hann spurði vandlega að Njáli mági sínum en brytinn sagði allt hið sanna.

Ketill mælti: „Mikill harmur er að oss kveðinn er vér skulum svo mikla ógæfu saman eiga.“

Skarphéðinn hafði séð er faðir hans hafði niður lagst og hversu hann hafði um sig búið.

Hann mælti þá: „Snemma fer faðir vor í rekkju og er það sem von er. Hann er maður gamall.“

Þá tóku þeir Skarphéðinn og Kári og Grímur brandana jafnskjótt sem ofan duttu og skutu út á þá og gekk því um hríð. Þá skutu þeir spjótum inn að þeim en þeir tóku öll á lofti og sendu út aftur.

Flosi bað þá hætta að skjóta „því að oss munu öll vopnaskipti þungt ganga við þá. Megið þér nú vel bíða þess er eldurinn vinnur þá.“

Þeir gera nú svo. Þá féllu ofan stórviðirnir úr ræfrinu.

Skarphéðinn mælti þá: „Nú mun faðir minn dauður vera og hefir hvorki heyrt til hans styn né hósta.“

Þeir gengu þá í skálaendann. Þar var fallið ofan þvertréið og var brunnið mjög í miðju.

Kári mælti til Skarphéðins: „Hlaup þú hér út og mun eg beina að mér þér en eg mun hlaupa þegar eftir og munum við þá báðir í braut komast ef við breytum svo því að hingað leggur allan reykinn.“

Skarphéðinn mælti: „Þú skalt hlaupa fyrri en eg mun þegar á hæla þér.“

„Ekki er það ráð,“ segir Kári, „því að eg má vel komast annars staðar út þó að hér gangi eigi.“

„Eigi vil eg það,“ segir Skarphéðinn, „hlaup þú út fyrri en eg mun þegar eftir.“

Kári mælti: „Það er hverjum manni boðið að leita sér lífs meðan kostur er og skal eg og svo gera. En þó mun nú sá skilnaður með okkur verða að við munum aldrei sjást síðan því að ef eg hleyp út úr eldinum þá mun eg eigi hafa skap til að hlaupa inn aftur í eldinn til þín og mun þá sína leið fara hvor okkar.“

„Það hlægir mig,“ segir Skarphéðinn, „ef þú kemst í braut mágur að þú munt hefna vor.“

Þá tók Kári einn setstokk logandi í hönd sér og hleypur út eftir þvertrénu. Slöngvir hann þá stokkinum út af þekjunni og féll hann ofan að þeim er úti voru fyrir. Þeir hljópu þá undan. Þá loguðu klæðin öll á Kára og svo hárið. Hann steypir sér þá út af þekjunni og stiklar svo með reykinum.

Þá mælti einn maður er þar var næstur: „Hvort hljóp þar maður út af þekjunni?“

„Fjarri fór það,“ sagði annar, „og kastaði Skarphéðinn þar eldistokki að oss.“

Síðan grunuðu þeir það ekki.

Kári hljóp til þess er hann kom að læk einum og kastaði sér í ofan og slökkti á sér eldinn. Þaðan hljóp hann með reykinum í gróf nokkura og hvíldi sig og er það síðan kölluð Káragróf.