Brennu-Njáls saga/130

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
130. kafli

Nú er að segja frá Skarphéðni að hann hleypur út á þvertréið þegar eftir Kára. En er hann kom þar er mest var brunnið þvertréið þá brast niður undir honum. Skarphéðinn kom fótum undir sig og réð þegar til í annað sinn og rennur upp vegginn. Þá reið að honum brúnásinn og hrataði hann inn aftur.

Skarphéðinn mælti þá: „Séð er nú hversu vera vill.“

Gekk hann þá fram með hliðvegginum.

Gunnar Lambason hljóp upp á vegginn og sér Skarphéðinn. Hann mælti svo: „Hvort grætur þú nú Skarphéðinn?“

„Eigi er það,“ segir Skarphéðinn, „en hitt er satt að súrnar í augunum. En hvort er sem mér sýnist, hlærð þú?“

„Svo er víst,“ segir Gunnar, „og hefi eg aldrei fyrr hlegið síðan þú vóst Þráin á Markarfljóti.“

Skarphéðinn mælti: „Þá er þér hér nú minjagripurinn.“

Tók hann þá jaxl úr pússi sínum er hann hafði höggvið úr Þráni og kastaði til Gunnars og kom í augað svo að þegar lá úti á kinninni. Féll Gunnar þá ofan af þekjunni.

Skarphéðinn gekk þá til Gríms bróður síns. Héldust þeir þá í hendurog tróðu eldinn. En er þeir komu í miðjan skálann þá féll Grímur dauður niður. Skarphéðinn gekk þá til enda hússins. Þá varð brestur mikill. Reið þá ofan öll þekjan. Varð Skarphéðinn þá þar í millum og gaflhlaðsins. Mátti hann þaðan hvergi hrærast.

Þeir Flosi voru við eldana þar til er morgnað var mjög. Þá kom þar maður einn ríðandi að þeim.

Flosi spurði þann að nafni en hann nefndist Geirmundur og kveðst vera frændi Sigfússona „þér hafið mikið stórvirki unnið,“ segir hann.

Flosi svarar: „Bæði munu menn þetta kalla stórvirki og illvirki. En þó má nú ekki að hafa.“

„Hversu margt hefir hér fyrirmanna látist?“ segir Geirmundur.

Flosi svarar: „Hér hefir látist Njáll og Bergþóra og synir þeirra allir, Þórður Kárason og Kári Sölmundarson, Þórður leysingi. En þá vitum vér ógjörla um fleiri menn þá er oss eru ókunnari.“

Geirmundur mælti: „Dauðan segir þú þann nú er vér höfum hjalað við í morgun.“

„Hver er sá?“ segir Flosi.

„Kára Sölmundarson fundum við Bárður búi minn,“ segir Geirmundur, „og fékk Bárður honum hest sinn og var brunnið af honum hárið og svo klæðin.“

„Hafði hann nokkuð vopna?“ segir Flosi.

„Hafði hann sverðið Fjörsváfni,“ segir Geirmundur, „og var blánaður annar eggteinninn og sögðum við Bárður að dignað mundi hafa en hann svaraði því að hann skyldi herða í blóði Sigfússona eða annarra brennumanna.“

Flosi mælti: „Hvað sagði hann til Skarphéðins?“

Geirmundur svarar: „Á lífi sagði hann þá Grím báða þá er þeir skildu en þó kvað hann þá nú mundu dauða.“

Flosi mælti: „Sagt hefir þú oss þá sögu er oss mun eigi setugrið bjóða því að sá maður hefir nú á braut komist er næst gengur Gunnari að Hlíðarenda um alla hluti. Skuluð þér það nú og hugsa Sigfússynir og aðrir vorir menn að svo mikið eftirmál mun hér verða um brennu þessa að margan mun það gera höfuðlausan en sumir munu ganga frá öllu fénu. Grunar mig nú það að engi yðvar Sigfússona þori að sitja í búi sínu og er það rétt að vonum. Vil eg nú bjóða yður öllum austur til mín og láta eitt ganga yfir oss alla.“

Þeir þökkuðu honum boð sitt og kváðust það þiggja mundu.

Þá kvað Móðólfur Ketilsson vísu:

Stafr lifir einn, þar er inni
unnfúrs viðir brunnu,
synir ollu því snjallir
Sigfúss, Níals húsa.
Nú er, Gollnis sonr, goldinn,
gekk eldr of sjöt rekka,
ljós brann hyr í húsum,
Höskulds bani hins röskva.

„Öðru nokkuru munum vér hælast mega,“ segir Flosi, „en því er Njáll hefir inni brunnið því að það er engi frami.“

Flosi gekk þá upp á gaflhlaðið og Glúmur Hildisson og nokkurir menn aðrir.

Þá mælti Glúmur: „Hvort mun Skarphéðinn nú dauður?“

En aðrir sögðu hann fyrir löngu dauðan mundu vera.

Þar gaus upp stundum eldurinn en stundum slokknaði niður. Þeir heyrðu þá niðri í eldinum fyrir sér að kveðin var vísa:

Mundit mellu kindar
miðjungs brúar Iðja
Gunnr um geira sennu
galdrs bráregni halda,
er hræstykkins hlakka
hraustr síns vinir mínu
tryggvi eg óð og eggjar
undgengin spjör dundu.

Grani Gunnarsson mælti: „Hvort mun Skarphéðinn hafa kveðið vísu þessa lífs eða dauður?“

„Engum getum mun eg um það leiða,“ segir Flosi.

„Leita viljum vér,“ segir Grani, „Skarphéðins eða annarra manna þeirra sem hér hafa inni brunnið.“

„Eigi skal það,“ segir Flosi, „og eru slíkt heimskir menn sem þú ert þar sem menn munu safna liði um allt héraðið. Mun sá allur einn er nú á dvalar og hinn er þá mun verða svo hræddur að eigi mun vita hvert hlaupa skal og er það mitt ráð að vér ríðum allir í braut sem skjótast.“

Flosi gekk þá skyndilega til hesta sinna og allir hans menn.

Flosi mælti til Geirmundar: „Hvort mun Ingjaldur heim að Keldum?“

Geirmundur kveðst ætla að hann mundi heima vera.

„Þar er sá maður,“ segir Flosi, „er rofið hefir eiða við oss og allan trúnað.“

Flosi mælti þá til Sigfússona: „Hvern kost viljið þér nú gera Ingjaldi? Hvort viljið þér gefa honum upp eða skulum vér nú fara að honum og drepa hann?“

Þeir svöruðu allir að þeir vildu nú fara að honum og drepa hann.

Þá hljóp Flosi á hest sinn og allir þeir og riðu í braut. Flosi reið fyrir og stefndi upp til Rangár og upp með ánni. Þá sá hann mann ríða ofan öðrum megin árinnar. Hann kenndi að þar var Ingjaldur frá Keldum. Flosi kallar á hann. Ingjaldur nam þá staðar og sneri við fram að ánni.

Flosi mælti til hans: „Þú hefir rofið eiða við oss og hefir þú fyrirgert fé og fjörvi. Eru hér nú Sigfússynir og vilja gjarna drepa þig. En mér þykir þú við vant um kominn og mun eg gefa þér líf ef þú vilt selja mér sjálfdæmi.“

Ingjaldur svarar: „Fyrr skal eg nú ríða til móts við Kára en selja þér sjálfdæmi. En eg vil því svara Sigfússonum að eg skal eigi hræddari við þá en þeir eru við mig.“

„Bíð þú þá,“ segir Flosi, „ef þú ert eigi ragur því að eg skal senda þér sending.“

„Bíða skal eg víst,“ segir Ingjaldur.

Þorsteinn Kolbeinsson bróðurson Flosa reið fram hjá honum og hafði spjót í hendi. Hann var röskvastur maður með Flosa einhver og mest verður. Flosi þreif af honum spjótið og skaut til Ingjalds og kom á hina vinstri hliðina og í gegnum skjöldinn fyrir neðan mundriðann og klofnaði hann allur í sundur. En spjótið hljóp í fótinn fyrir ofan knéskelina og svo í söðulfjölina og nam þar staðar.

Flosi mælti þá til Ingjalds: „Hvort kom á þig?“

„Á mig kom víst,“ segir Ingjaldur, „og kalla eg þetta skeinu en ekki sár.“

Ingjaldur kippti þá spjótinu úr sárinu og mælti til Flosa: „Bíð þú nú ef þú ert eigi blauður.“

Hann skaut þá spjótinu aftur yfir ána. Flosi sér að spjótið stefnir á hann miðjan. Hopar hann þá hestinum undan en spjótið fló fyrir framan brjóst Flosa og missti hans. Spjótið kom á Þorstein miðjan og féll hann þegar dauður af hestinum. Ingjaldur hleypir nú í skóginn og náðu þeir honum ekki.

Flosi mælti þá til sinna manna: „Nú höfum vér fengið mikinn mannskaða. Megum vér nú og vita er þetta hefir að borist hvert heillaleysi vér höfum. Er það nú mitt ráð að vér ríðum á Þríhyrningshálsa. Megum vér þaðan sjá mannareiðir um allt héraðið því að þeir munu nú hafa sem mestan liðssafnað og munu þeir ætla að vér höfum riðið austur til Fljótshlíðar af Þríhyrningshálsum. Og munu þeir þá ætla að vér ríðum austur á fjall og svo austur til héraða. Mun þangað eftir ríða eftir mestur hluti liðsins en sumir munu ríða hið fremra austur til Seljalandsmúla og mun þeim þó þykja þangað vor minni von. En eg mun nú gera ráð fyrir oss og er það mitt ráð að vér ríðum upp í fjallið Þríhyrning og bíðum þar til þess er þrjár sólir eru af himni.“

Þeir gera nú svo að þeir ríða upp í fjallið og í dal einn er síðan er kallaður Flosadalur. Sjá þeir nú þaðan allra manna ferðir um héraðið.