Brennu-Njáls saga/136

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
136. kafli

Flosi reið austan og þeir tíu tigir manna er að brennu höfðu verið með honum. Þeir riðu þar til er þeir komu til Fljótshlíðar. Skipuðu þá Sigfússynir til búa sinna og dvöldust þar um daginn en um kveldið riðu þeir vestur yfir Þjórsá og sváfu þar um nóttina.En um morguninn snemma tóku þeir hesta sína og riðu fram á leið.

Flosi mælti til manna sinna: „Nú munum vér ríða í Tungu til Ásgríms Elliða-Grímssonar til dagverðar og troða illsakar við hann.“

Þeir kváðu það vel gert. Þeir ríða nú þar til er þeir eiga skammt í Tungu.

Ásgrímur stóð úti og nokkurir menn með honum. Þeir sjá þegar flokkinn er mátti heiman.

Menn Ásgríms mæltu: „Þar mun vera Þorgeir skorargeir.“

Ásgrímur mælti: „Ekki in heldur ætla eg það því að þessir menn fara með hlátri og gapi en frændur Njáls, slíkir sem Þorgeir er, munu eigi hlægja fyrr en nokkuð er hefnt brennunnar. Og mun eg geta annars til og má vera að yður þyki það ólíklegt. Það er ætlun mín að vera muni Flosi og brennumenn með honum og munu þeir ætla að troða illsakar við oss og skulum vér nú inn ganga allir.“

Þeir gera nú svo. Ásgrímur lét sópa hús og tjalda og setja borð og bera mat á. Hann lét setja forsæti með endilöngum bekkjum um alla stofuna.

Flosi reið í túnið og bað menn stíga af hestum og ganga inn. Þeir gerðu svo. Þeir Flosi komu í stofuna. Ásgrímur sat á palli. Flosi leit á bekkina og sá að allt var reiðubúið það er menn þurftu að hafa.

Ásgrímur kvaddi þá ekki en mælti til Flosa: „Því eru borð sett að heimull er matur þeim er hafa þurfa.“

Flosi sté undir borð og allir menn hans en lögðu vopn sín upp að þili. Þeir sátu á forsætum er eigi máttu uppi sitja á bekkjunum en fjórir menn stóðu með vopnum fyrir framan þar sem Flosi sat meðan þeir mötuðust. Ásgrímur þagði um matmálið og var svo rauður á að sjá sem blóð. En er þeir voru mettir báru konur af borðum en sumar báru innar handlaugar. Flosi fór að engu óðara en hann væri heima. Bolöx lá í pallshorninu. Ásgrímur þreif hana tveim höndum og hljóp upp á pallsstokkinn og hjó til höfuðs Flosa. Glúmur Hildisson gat séð tilræðið og hljóp upp þegar og gat tekið öxina fyrir framan hendur Ásgrími og sneri þegar egginni að Ásgrími því að Glúmur var rammur að afli. Þá hljópu upp miklu fleiri menn og vildu ráða á Ásgrím en Flosi kvað engan mann skyldu Ásgrími mein gera „því að vér höfum gert honum ofraun en hann gerði það eina að er hann átti og sýndi hann það að hann var ofurhugi.“

Flosi mælti til Ásgríms: „Hér munum vér nú skiljast heilir og finnast á þingi og taka þar til óspilltra mála.“

„Svo mun vera,“ segir Ásgrímur, „og mundi eg það vilja, um það er þessu þingi er lokið, að þér færuð lægra.“

Flosi svaraði engu. Gengu þeir þá út og stigu á hesta sína og riðu í braut.

Þeir riðu þar til er þeir komu til Laugarvatns og voru þar um nóttina. En um morguninn riðu þeir fram á Beitivöllu og áðu þar. Þar riðu að þeim flokkar margir. Var þar Hallur af Síðu og allir Austfirðingar. Flosi fagnaði þeim allvel og sagði þeim frá ferðum sínum og viðskiptum þeirra Ásgríms. Margir lofuðu þetta og sögðu slíkt rösklega gert vera.

Þá mælti Hallur: „Þetta líst mér annan veg en yður því að þetta þykir mér óviturlegt bragð. Mundu þeir þó muna harmsakar sínar þó að þeir væru eigi af nýju á minntir en þeim mönnum allvant um er svo leita annarra manna þunglega.“

Fannst það á Halli að honum þótti þetta mjög ofgert.

Þeir riðu þaðan allir saman þar til er þeir komu á Völlu hina efri og fylktu þar liði sínu og riðu síðan á þing ofan. Flosi hafði látið tjalda Byrgisbúð áður hann riði til þings en Austfirðingar riðu til sinna búða.