Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/137

Úr Wikiheimild
Ótitlað


Nú er þar frá að segja að Þorgeir skorargeir reið austan með miklu liði. Voru þeir bræður hans með honum, Þorleifur krákur og Þorgrímur hinn mikli. Þeir riðu þar til er þeir komu til Hofs til Marðar Valgarðssonar og biðu þar til þess er hann var búinn. Mörður hafði safnað hverjum manni er vopnfær var og fundu þeir það eina á að hann var hinn öruggasti í öllu.

Riðu þeir nú þar til er þeir komu vestur yfir ár. Þá biðu þeir Hjalta Skeggjasonar. Hann kom þá er þeir höfðu skamma stund beðið. Fögnuðu þeir honum vel og riðu síðan allir saman til þess er þeir komu til Reykja í Biskupstungu og biðu þeir þar Ásgríms Elliða-Grímssonar og kom hann þar til móts við þá.

Riðu þeir þá vestur yfir Brúará. Ásgrímur segir þeim þá allt sem farið hafði með þeim Flosa.

Þorgeir mælti: „Það mundi eg vilja að vér reyndum karlmennsku þeirra áður lyki þinginu.“

Riðu þeir allt þar til er þeir komu á Beitivöllu. Kom þar til móts við þá Gissur hinn hvíti með allmikið fjölmenni. Tóku þeir þá tal langt með sér. Riðu þeir þá á Völlu hina efri og fylktu þeir þar öllu liði sínu og riðu svo á þing ofan.

Flosi og menn hans hljópu til vopna allir og var þá við sjálft að þeir mundu berjast en þeir Ásgrímur og þeirra sveit gerðust ekki til þess og riðu til búða sinna. Var nú kyrrt þann dag svo að þeir áttust ekki við.

Þar voru komnir höfðingjar úr öllum fjórðungum á landinu og hafði aldrei verið þing jafnfjölmennt áður svo að menn myndu.