Brennu-Njáls saga/144

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
144. kafli

Nú sendu þeir Ásgrímur mann til Þórhalls og létu segja honum í hvert óefni komið var.

„Of fjarri var eg þó nú,“ kvað Þórhallur, „því að enn mundi þetta mál eigi þann veg farið hafa ef eg hefði við verið. Sé eg nú aðferð þeirra að þeir munu ætla að stefna yður í fimmtardóm fyrir þingsafglöpun. Þeir munu og ætla að vefengja brennumálin og láta eigi dæma mega því að nú er sú aðför þeirra að þeir munu engis ills svífast. Skalt þú nú ganga til þeirra sem skjótast og segja þeim að Mörður stefni þeim báðum, Flosa og Eyjólfi, um það er þeir hafa fé borið í dóminn og láta varða fjörbaugsgarð. Þá skal hann stefna þeim annarri stefnu um það er þeir báru vætti þau er eigi áttu máli að skipta með þeim og gerðu í því þingsafglöpun. Seg þeim að eg segi svo ef tvær fjörbaugssakar eru á hendi einum manni að þann skal dæma skógarmann. Skuluð þér af því búa fyrri til yðvart mál að þá skuluð þér og fyrri sækja og dæma.“

Nú fór sendimaðurinn í braut og sagði þeim Merði og Ásgrími. Síðan gengu þeir til Lögbergs.

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta „nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg stefni Flosa Þórðarsyni um það er hann gaf fé til liðs sér hér á þinginu Eyjólfi Bölverkssyni. Tel eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, fjörbaugsmann, því aðeins ferjanda né festum helganda nema fjörbaugur eða aðalfestur komi fram að féránsdómi, en alsekan skógarmann ellegar. Tel eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Stefni eg máli þessu til fimmtardóms sem málið á í að koma að lögum. Stefni eg nú til sóknar og til sektar fullrar. Stefni eg lögstefnu. Stefni eg í heyranda hljóði að Lögbergi.“

Slíkrar stefnu stefndi hann Eyjólfi Bölverkssyni um það er hann hafði þegið féið. Stefndi hann og þeirri sök í fimmtardóm. Í annað sinn stefndi hann Flosa og Eyjólfi um þá sök er þeir báru vætti þau á þingi er eigi áttu máli að skipta með mönnum að lögum og gerðu í því þigsafglöpun. Lét hann og það varða þeim fjörbaugsgarð. Gengu þeir þá í braut og til lögréttu. Þar var þá fimmtardómurinn settur.

Þá er þeir Ásgrímur og Mörður voru í braut gengnir þá urðu dómendur ekki ásáttir hversu dæma skyldi því að þeir vildu sumir dæma með Flosa en sumir með Merði og Ásgrími. Urðu þeir Flosi og Eyjólfur þá að vefengja dóminn. Dvaldist þeim þar að því meðan stefnurnar höfðu verið.

Litlu síðar var þeim sagt Flosa og Eyjólfi að þeim var stefnt að Lögbergi í fimmtardóm tveim stefnum hvorum þeirra.

Eyjólfur mælti þá: „Illu heilli höfum vér hér dvalist er þeir hafa fyrri orðið að bragði að stefna en vér. Hefir hér nú fram komið slægð Þórhalls og er hann engum manni líkur að viti sínu. Eiga þeir nú fyrri að sækja í dóm sín mál. Lá þeim þar og allt við. En þó skulum vér nú ganga til Lögbergs og búa mál til á hendur þeim þá að oss komi það fyrir lítið.“

Fóru þeir þá til Lögbergs og stefndi Eyjólfur þeim um þingsafglöpun. Síðan gengu þeir til fimmtardómsins.

Þá er þeir Mörður og Ásgrímur komu til fimmtardómsins þá nefndi Mörður sér votta og bauð að hlýða til eiðspjalls síns og til framsögu sakar sinnar og til sóknargagna þeirra allra er hann hugði fram að bera á hendur þeim Flosa og Eyjólfi. Bauð hann lögboði að dómi svo að dómendur heyrðu um dóm þveran. Í fimmtardómi skyldi og sönnunarmenn fylgja eiðum og skyldu þeir og eiða vinna.

Mörður nefndi sér votta „nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg vinn fimmtardómseið. Bið eg svo guð hjálpa mér í þvísa ljósi og í öðru að eg skal svo sök þessa sækja sem eg veit réttast og sannast og helst að lögum. Og hygg eg Flosa sannan að sök þessi vera ef efni eru að því og eg hefka fé borið í dóm þenna til liðs mér um sök þessa og eg munka bera. Eg hefka fé fundið og eg munka finna hvorki til laga né til ólaga.“

Sönnunarmenn Marðar gengu þá tveir að dómi og nefndu sér votta „í það vætti að við vinnum eið að bók, lögeið. Biðjum við svo guð hjálpa okkur í þvísa ljósi og í öðru að við leggjum það undir þegnskap okkarn að við hyggjum að Mörður muni svo sækja sök þessa sem hann veit réttast og sannast og helst að lögum og hann hefurat fé borið í dóm þenna um sök þessa til liðs sér og hann munat bera og hann hefurat fé fundið og hann munat finna hvorki til laga né til ólaga.“

Mörður hafði kvadda Þingvallarbúa níu til sakarinnar. Síðan nefndi Mörður sér votta og sagði fram þær fjórar sakar er hann hafði til búnar á hendur þeim Flosa og Eyjólfi og hafði Mörður þau öll orð í framsögu sakar sinnar sem hann hafði í stefnum sínum. Sagði hann svo skapaðar fjörbaugssakar þessar fram í fimmtardóm sem hann kvað að þá er hann stefndi.

Mörður nefndi sér votta og bauð búum þeim níu í setu vestur á árbakka. Mörður nefndi sér votta og bauð þeim Flosa og Eyjólfi að ryðja kviðinn. Þeir gengu til að ryðja kvið og hugðu að og gátu hvergi rengdan, gengu frá við svo búið og undu illa við. Mörður nefndi sér votta og beiddi búa þá níu framburðar um kviðinn er hann hafði áður kvadda, að bera annað tveggja af eða á. Búar Marðar gengu þá að dómi og taldi einn fram kviðinn en allir guldu samkvæði. Þeir höfðu allir unnið fimmtardómseið og báru Flosa sannan að sökinni og báru á hann kviðinn. Báru þeir svo skapaðan fram kviðinn í fimmtardóm yfir höfði þeim manni er Mörður hafði sök sína fram sagt. Síðan báru þeir kviðu þá alla er þeir voru skyldir að bera til allra saka og fór það löglega fram.

Eyjólfur Bölverksson og þeir Flosi sátu um að rengja og gátu ekki að gert.

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta. „Nefni eg í það vætti að búar þessir níu, er eg kvaddi til saka þessa er eg höfðaði á hendur Flosa Þórðarsyni og Eyjólfi Bölverkssyni, hafa borið á kviðinn og borið þá sanna að sökum.“

Nefndi hann sér þessa votta. Í annað sinn nefndi hann sér votta „nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg býð Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum er handselda lögvörn hefir fyrir hann að taka til varna því að nú eru fram komin sóknargögn öll, boðið til eiðspjalls, unninn eiður, sögð fram sök, borið stefnuvætti, boðið búum í setu, boðið til ruðningar um kviðinn, borinn kviður, nefndir vottar að kviðburði.“

Nefndi hann sér þessa votta að gögnum þeim sem fram voru komin.

Þá stóð sá upp er sökin hafði yfir höfði verið fram sögð og reifði málið. Hann reifði það fyrst er Mörður bauð að hlýða til eiðspjalls síns og til framsögu sakar og til sóknargagna allra. Þá reifði hann það því næst er Mörður vann eið og sönnunarmenn hans. Þá reifði hann það er Mörður sagði fram sök og kvað svo að orði að hann hafði þau orð öll í reifingu sinni er Mörður hafði áður í framsögu sakar sinnar og hann hafði í stefnu sinni „og hann sagði svo skapaða sökina fram í fimmtardóm sem hann kvað að þá er hann stefndi.“

Þá reifði hann það er þeir báru stefnuvætti og taldi þá öll orð þau er hann hafði áður í stefnu sinni og þeir höfðu í vættisburði sínum „og nú hefi eg,“ sagði hann, „í reifingu minni. Og þeir báru svo skapaðan kviðinn fram í fimmtardóm sem hann kvað þá að er hann stefndi.“

Síðan reifði hann það er Mörður bauð búum í setu. Þá reifði hann það því næst er hann bauð Flosa að ryðja kviðinn „eða þeim manni er handselda lögvörn hefir fyrir hann.“ Þá reifði hann það er búar gengu að dómi og báru á kviðinn og báru Flosa sannan að sökinni „báru þeir svo skapaðan níu búa kvið þenna fram í fimmtardóm.“

Þá reifði hann það er Mörður nefndi votta að því er kviðurinn var á borinn. Þá reifði hann það er Mörður nefndi votta að gögnum og bauð til varnar.

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta „nefni eg í það vætti,“ segði hann, „að eg banna Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum er handselda lögvörn hefir fyrir hann að taka til varna því að nú eru öll sóknargögn fram komin þau er sökinni eiga að fylgja að reifðu máli og svo bornum gögnum.“

Síðan reifði reifingarmaður þetta vottorð. Mörður nefndi sér votta og beiddi dómendur að dæma um mál þetta.

Þá mælti Gissur hvíti: „Fleira munt þú Mörður eiga að gera því að eigi munu fernar tylftir dæma eiga.“

Flosi mælti nú við Eyjólf: „Hvað er nú til ráða?“

Eyjólfur svarar: „Nú er úr vöndu að ráða en þó skulum vér nú bíða því að eg get að nú geri þeir rangt í sókninni því að Mörður beiddi þegar dóms á málinu. En þeir eiga að nefna úr dóminum sex menn. Síðan eiga þeir við votta að bjóða okkur úr að nefna dóminum aðra sex menn en við skulum það eigi gera því að þá eiga þeir að nefna úr þá sex menn og mun þeim það yfir sjást. Er þá ónýtt allt mál þeirra ef þeir gera það eigi því að þrennar tylftir eiga að dæma málið.“

Flosi mælti: „Vitur maður ert þú Eyjólfur svo að fáir menn munu standa á sporði þér.“

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta „nefni eg í það vætti,“ sagði hann, „að eg nefni þessa sex menn úr dóminum“ - og nefndi þá alla á nafn - „ann eg yður eigi að sitja í dóminum. Nefni eg yður úr að alþingismáli réttu og allsherjar lögum.“

Eftir það bauð hann þeim Flosa og Eyjólfi við votta að nefna úr aðra sex menn úr dóminum en þeir Flosi vildu eigi úr nefna. Mörður lét þá dæma málið.

Og er dæmt var málið þá nefndi Eyjólfi sér votta og kallaði ónýttan dóm þeirra og allt það er þeir höfðu að gert, fann það til að dæmt hafði hálft fjórða tylft þar sem þrennar áttu að dæma „skulum vér nú sækja fimmtardómssakar vorar á þá og gera þá seka.“

Gissur hvíti mælti þá við Mörð Valgarðsson: „Allmjög hefir þér yfir sést er þú skyldir þetta rangt gera og er slíkt ógæfa mikil. Eða hvað skal nú til ráða taka Ásgrímur frændi?“ segir Gissur.

Ásgrímur mælti: „Nú skulum vér enn senda mann Þórhalli syni mínum og vita hvað hann leggur til ráðs með oss.“