Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/146

Úr Wikiheimild

Snið:Header

Þeir Kári Sölmundarson og Þorgeir skorargeir riðu þenna dag austur yfir Markarfljót og svo austur til Seljalandsmúla. Þar fundu þeir konur nokkurar.

Þær kenndu þá og mæltu til þeirra: „Minna gemsið þið en þeir Sigfússynir en þó farið þið óvarlega.“

Þorgeir mælti: „Hví er ykkur svo statt til Sigfússona eða hvað vitið þið til þeirra?“

„Þeir voru í nótt að Raufarfelli,“ sögðu þær, „og ætluðu í kveld í Mýdal. En það þótti okkur gott er þeim var þó ótti að ykkur og spurðu nær þið munduð heim koma.“

Þá fóru þær leið sína en þeir keyrðu hestana.

Þorgeir mælti: „Hvað er þér næst skapi? Vilt þú að við ríðum eftir þeim?“

Kári svarar: „Eigi mun eg þess letja.“

Þorgeir mælti: „Hvað skulum við ætla okkur?“

„Eigi veit eg það,“ segir Kári. „Kann það oft verða að þeir menn lifa langan aldur er með orðum eru vegnir. En veit eg hvað þú munt þér ætla. Þú munt ætla þér átta menn og er það þó minna en það er þú vóst þá sjö í skorinni og fórst í festi ofan til þeirra. En yður frændum er svo háttað að þér viljið yður allt til ágætis gera. Nú mun eg eigi minna að gera en vera hjá þér til frásagnar. Skulum við nú og tveir einir eftir ríða því að eg sé að þú hefir svo til ætlað.“

Síðan riðu þeir austur hið efra og komu ekki í Holt því að Þorgeir vildi ekki að bræðrum hans mætti um kenna hvað sem í gerðist. Þeir riðu þá austur til Mýdals. Þar mættu þeir manni nokkurum og hafði torfhrip á hrossi.

Hann tók til orða: „Of fámennur ert þú nú Þorgeir félagi.“

„Hvað er nú í því?“ sagði Þorgeir.

„Því,“ sagði sjá, „að nú bæri veiði í hendur. Hér riðu um Sigfússynir og munu sofa í allan dag austur í Kerlingardal því að þeir ætluðu ekki lengra í kveld en til Höfðabrekku.“

Síðan riðu hvorir leið sína. Riðu þeir Þorgeir austur á Arnarstakksheiði og er ekki að segja frá ferð þeirra fyrr en þeir komu til Kerlingardalsár. Áin var mikil. Riðu þeir nú upp með ánni því að þeir sáu þar hross með söðlum. Þeir riðu nú þangað til og sáu að menn sofa í dæl nokkurri og stóðu spjót þeirra ofan frá þeim. Þeir tóku spjótin og báru út á ána.

Þorgeir mælti: „Hvort vilt þú að við vekjum þá?“

Kári svarar: „Eigi spyrðu þessa af því að eigi hafir þú þetta áður ráðið með þér að vega eigi að liggjandi mönnum og vega skammarvíg.“

Síðan æptu þeir á þá. Vöknuðu þeir þá og hljópu upp allir og þrífa til vopna sinna. Þeir Kári réðu eigi á þá fyrr en þeir voru vopnaðir. Þorgeir skorargeir hleypur þar að sem fyrir var Þorkell Sigfússon. Í því bili hljóp maður að baki honum og fyrr en hann gæti unnið Þorgeiri nokkurn geig þá reiddi Þorgeir tveim höndum öxina Rimmugýgi og rak í höfuð þeim öxarhamarinn er að baki honum stóð svo að hausinn brotnaði í smán mola. Féll sá þegar og var dauður. En er hann reiddi fram öxina hjó hann á öxl Þorkatli og klauf frá ofan alla höndina og féll Þorkell dauður niður.

Í móti Kára réð Mörður Sigfússon og Sigurður Lambason og Lambi Sigurðarson. Hann hljóp að baki Kára og lagði til hans spjóti. Kári fékk séð hann og hljóp upp við lagið og brá í sundur við fótunum. Kom þá lagið í völlinn en Kári hljóp á spjótskaftið og braut í sundur. Hann hafði spjót í annarri hendi en í annarri sverð en engan skjöld. Hann lagði hinni hægri hendi til Sigurðar Lambasonar. Kom lagið í brjóstið og gekk spjótið út um herðarnar. Féll hann þá og var þegar dauður. Hinni vinstri hendi hjó hann til Marðar Sigfússonar og kom á mjöðmina og tók hana í sundur og svo hrygginn. Féll hann áfram og þegar dauður. Eftir það snerist hann á hæli svo sem skaftkringla og að Lamba Sigurðarsyni en hann fékk það eitt fangaráðið að hann tók á rás undan.

Nú sneri Þorgeir í móti Leiðólfi hinum sterka og hjó þar hvor til annars jafnsnemma og varð svo mikið högg Leiðólfs að allt tók af skildinum það er nam. Þorgeir hafði höggvið tveim höndum með öxinni Rimmugýgi og kom hin efri hyrnan í skjöldinn og klofnaði hann í sundur en hin fremri hyrnan tók við viðbeinað og í sundur og reist ofan í brjóstið á hol. Kári kom að í því og rak undan Leiðólfi fótinn í miðju lærinu. Féll Leiðólfur þá og var þegar dauður.

Ketill úr Mörk mælti: „Renna munum vér til hesta vorra og megum vér ekki við haldast fyrir ofureflismönnum þessum.“

Þeir runnu þá til hesta sinna og hljópu á bak. Þorgeir mælti: „Vilt þú að við eltum þá og munum við enn geta drepið þá nokkura?“

„Sá ríður síðast,“ segir Kári, „að eg vil eigi drepa en það er Ketill úr Mörk því að við eigum systur tvær en honum hefir farið þó best í málum vorum áður.“

Stigu þeir þá á hesta sína og riðu þar til er þeir komu heim í Holt. Lét Þorgeir þá bræður sína fara austur í Skóga því að þeir áttu þar annað bú og því að Þorgeir vildi eigi að bræður hans mætti kalla griðníðinga. Hafði Þorgeir þar þá mannmargt svo að aldrei var þar færra vígra karla en þrír tigir. Var þar þá gleði mikil. Þótti mönnum Þorgeir mjög hafa vaxið og framið sig og báðir þeir Kári. Höfðu menn í minnum mjög eftirreið þeirra er þeir riðu tveir að fimmtán mönnum og drápu þá fimm en renndu þeim tíu er undan komust.

Nú er frá þeim Katli að segja að þeir riðu sem mest máttu þeir til þess er þeir komu heim til Svínafells og sögðu sínar farar eigi sléttar.

Flosi kvað slíks að von „og er yður þetta viðvörun,“ segir hann. „Skuluð þér nú aldrei svo fara síðan.“

Flosi var allra manna glaðastur og bestur heima að hitta. Og er svo sagt að honum hafi flestir hlutir höfðinglegast gefnir verið. Var hann nú heima um sumarið og svo um veturinn.

En um veturinn eftir jól kom Hallur af Síðu austan og Kolur son hans. Flosi varð feginn komu hans. Töluðu þeir oft um málaferlin. Sagði Flosi að þeir höfðu mikið afhroð nú goldið þegar. Hallur kvaðst nærgætur orðið hafa málum þeirra. Flosi spurði hann þá ráðs hvað honum þætti þá líkast.

Hallur svarar: „Það legg eg til ráðs að þú sættist við Þorgeir ef kostur er og mun hann þó vera vandur að allri sætt.“

„Ætlar þú þá munu lokið vígunum?“ segir Flosi.

„Eigi ætla eg það,“ segir Hallur, „en við færri er þá um að eiga er við Kára er einn. En ef þú sættist eigi við Þorgeir þá verður það þinn bani.“

„Hverja sætt skulum vér bjóða honum?“ segir Flosi.

„Hörð mun yður sú þykja,“ segir Hallur, „er hann mun þiggja. Því aðeins mun hann sættast vilja nema hann gjaldi ekki fyrir það er hann hefir af gert en taki bætur fyrir Njál og sonu hans að sínum þriðjungi.“

„Hörð sætt er það,“ segir Flosi.

„Ekki er þér sjá sætt hörð,“ segir Hallur, „því að þú átt ekki vígsmál eftir Sigfússonu og eiga bræður þeirra vígsmál eftir þá en Hámundur hinn halti eftir son sinn. En þú munt nú ná sættum við Þorgeir því að eg mun ríða til með þér og mun Þorgeir mér nokkurninn vel taka. En engi þeirra, er mál þessi eiga, munu þora að sitja að búum sínum í Fljótshlíð ef þeir eru utan sætta því að það verður þeirra bani. Og er það að vonum við skaplyndi Þorgeirs.“

Var nú sent eftir Sigfússonum og báru þeir þetta mál upp við þá. Og lauk svo þeirra ræðum af fortölum Halls að þeim þótti svo allt sem hann talaði um fyrir þeim og vildu gjarna sættast.

Grani Gunnarsson mælti og Gunnar Lambason: „Sjálfrátt er oss ef Kári er einn eftir að hann sé eigi óhræddari við oss en vér við hann.“

„Ekki er svo að mæla,“ segir Hallur. „Mun yður verða sárkeypt við hann og munuð þér mikið afhroð gjalda áður en lýkur með yður.“

Síðan hættu þeir talinu.