Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/147

Úr Wikiheimild
Ótitlað


Hallur af Síðu og Kolur son hans og þeir sex saman riðu vestur yfir Lómagnúpssand og svo vestur yfir Arnarstakksheiði og léttu eigi fyrr en þeir komu í Mýdal. Þar spurðu þeir að hvort Þorgeir mundi heima í Holti en þeim var sagt að hann mundi heima vera. Hallur var spurður hvert hann ætlaði að fara en hann kvaðst þangað ætla í Holt.

Þeir kváðu hann með nokkuru góðu fara mundu. Dvaldist Hallur þar nokkura stund, og áðu. Eftir það tóku þeir hesta sína og riðu á Sólheima um kveldið og voru þar um nóttina.

En um daginn eftir riðu þeir í Holt. Þorgeir var úti og svo Kári og menn þeirra því að þeir kenndu ferð Halls. Hann reið í blárri kápu og hafði litla öxi silfurrekna í hendi. En er þeir komu í túnið þá gekk Þorgeir í móti þeim og tók Hall af baki og minntust þeir Kári báðir við hann og leiddu hann í milli sín í stofu og settu hann á pall í hásæti og spurðu hann margra tíðinda. Var hann þar um nóttina.

Um morguninn eftir vakti Hallur til máls við Þorgeir ef hann vildi sættast og sagði hverjar sættir þeir buðu honum og talaði þar um mörgum orðum fögrum og góðgjarnlegum.

Þorgeir svarar: „Kunnigt má þér það vera að eg vildi engum sættum taka við brennumenn.“

„Allt var það annað mál,“ segir Hallur. „Þér voruð þá vígreiðir. Hafið þér nú og mikið að gert um mannadráp síðan.“

„Svo mun yður þykja,“ segir Þorgeir, „en hverja sætt bjóðið þér Kára?“

„Boðin mun honum sættin sú er sæmileg er,“ segir Hallur, „ef hann vill sættast.“

Kári mælti: „Þess vil eg biðja þig, Þorgeir vinur, að þú sættist því að þinn hlutur má ekki verða betri en góður.“

„Illt þykir mér að sættast og skiljast við þig nema þú takir slíka sætt sem eg tek,“ segir Þorgeir.

„Eigi vil eg það,“ segir Kári, „að sættast. En þó kalla eg nú að við höfum hefnt brennunnar. En sonar míns kalla eg vera óhefnt og ætla eg mér einum það að hefna hans slíkt sem eg fæ að gert.“

En Þorgeir vildi eigi fyrr sættast en Kári sagði á ósátt sína ef hann sættist eigi. Handsalaði Þorgeir þá grið Flosa og hans mönnum til sáttarfundarins en Hallur seldi önnur í móti er hann hafði tekið af Flosa og Sigfússonum. En áður þeir skildust gaf Þorgeir Halli gullhring og skarlatsskikkju en Kári silfurmen og voru á gullkrossar þrír. Hallur þakkaði þeim vel gjafarnar og reið í braut með hinni mestu sæmd og létti eigi fyrr en hann kom til Svínafells. Tók Flosi vel við honum.

Hallur sagði Flosa allt frá erindum sínum og svo frá viðræðum þeirra Þorgeirs og svo það að Þorgeir vildi eigi fyrr sættast en Kári gekk að og bað hann og sagði ósátt sína á ef hann sættist eigi en Kári vildi þó eigi sættast.

Flosi mælti: „Fám mönnum er Kári líkur og þann veg vildi eg helst skapfarinn vera sem hann er.“

Þeir Hallur dvöldust þar nokkura hríð. Síðan riðu þeir vestur að ákveðinni stundu til sáttarfundarins og fundust að Höfðabrekku sem mælt hafði verið með þeim. Kom Þorgeir þá til móts við þá vestan að. Töluðu þeir þá um sætt sína. Gekk það allt eftir því sem Hallur hafði sagt.

Þorgeir sagði þeim fyrir sættirnar að Kári skyldi vera með honum jafnan er hann vildi „skulu hvorigir öðrum þar illt gera að heima mínu. Eg vil og ekki eiga að heimta að sérhverjum þeirra og vil eg að þú Flosi varðir einn við mig en heimtir að sveitungum þínum og vil eg að sú gerð haldist öll er ger var á þingi um brennuna. Vil eg Flosi að þú gjaldir mér þriðjung minn óskerðan.“

Flosi gekk skjótt að þessu öllu. Þorgeir gaf hvorki upp utanferðir né héraðssektir.

Nú riðu þeir Flosi og Hallur austur heim.

Hallur mælti til Flosa: „Efn þú vel mágur sætt þessa bæði utanferð þína og suðurgönguna og fégjöld. Munt þú þá þykja röskur maður þó að þú hafir ratað í stórvirki þetta ef þú innir rösklega af hendi alla hluti.“

Flosi kvaðst svo skyldu gera. Reið Hallur nú heim austur en Flosi reið heim til Svínafells og var nú heima um hríð.