Brennu-Njáls saga/148

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þorgeir skorargeir reið heim af sáttarfundinum. Kári spurði hvort saman gengi sættin. Þorgeir sagði að þeir voru sáttir að fullu. Kári tók hest sinn og vildi í braut ríða.

„Eigi þarft þú í braut að ríða,“ segir Þorgeir, „fyrir því að það var skilið í sætt vora að þú skyldir hér vera jafnan hvern tíma er þú vildir.“

Kári mælti: „Ekki skal svo vera mágur því að þegar ef eg veg víg nokkurt þá munu þeir það mæla að þú sért í ráðum með mér og vil eg það eigi. En það vil eg að þú takir við handsölum á fé mínu og eignir ykkur Helgu Njálsdóttur konu minni og dætrum mínum. Mun það þá ekki upp tekið af þeim sökudólgum mínum.“

Þorgeir játaði því sem Kári vildi beitt hafa. Tók Þorgeir þá handsölum á fé Kára.

Síðan reið Kári í braut. Hann hafði hesta tvo og vopn sín og klæði og nokkurt lausafé í gulli og silfri. Kári reið nú vestur fyrir Seljalandsmúla og upp með Markarfljóti og svo upp í Þórsmörk. Þar eru þrír bæir er í Mörk heita allir. Á miðbænum bjó sá maður er Björn hét og var kallaður Björn hvíti. Hann var Kaðalsson, Bjálfasonar. Bjálfi hafði verið leysingi Ásgerðar móður Njáls og Holta-Þóris. Björn átti þá konu er Valgerður hét. Hún var Þorbrandsdóttir, Ásbrandssonar. Móðir hennar hét Guðlaug. Hún var systir Hámundar föður Gunnars að Hlíðarenda. Hún var gefin til fjár Birni og unni hún honum ekki mikið en þó áttu þau börn saman. Þau áttu gnóttir í búi. Björn var maður sjálfhælinn en húsfreyju hans þótti það illt. Hann var skyggn og skjótur á fæti. Þangað kom Kári til gistingar og tóku þau við honum báðum höndum. Var hann þar um nóttina.

Um morguninn töluðust þeir við.

Kári mælti til Bjarnar: „Það vildi eg að þú tækir við mér. Þykist eg hér vel kominn með þér. Vildi eg að þú værir í ferðum með mér er þú ert maður skyggn og frár enda ætla eg að þú munir öruggur til áræðis.“

„Hvorki frý eg mér,“ segir Björn, „skyggnleiks né áræðis eða nokkurrar karlmennsku. En því munt þú hingað kominn að nú mun fokið í öll skjól. En við áskorun þína Kári,“ segir Björn, „þá skal ekki gera þig líkan hversdagsmönnum. Skal eg víst verða þér að liði öllu slíku sem þú beiðir.“

Húsfreyja hans varð áheyrsla og mælti: „Tröll hafi þitt hól,“ sagði hún, „og skrum og skyldir þú eigi mæla ykkur tál báðum og hégóma í þessu. En gjarna vil eg veita Kára mat og aðra góða hluti þá er eg veit að honum má gagn að verða. En á harðræði Bjarnar skalt þú Kári ekki treysta því að eg uggi að þér verði að öðru en hann segir.“

Björn mælti: „Oft hefir þú veitt mér ámæli en eg treysti mér svo vel að eg mun fyrir engum manni á hæl hopa. Er hér raun til að því leita fáir á mig að engir þora.“

Þar var Kári nokkura stund á laun og var það á fárra manna viti. Ætluðu menn nú að hann mundi riðinn norður um land á fund Guðmundar hins ríka því að Kári lét Björn það segja nábúum sínum að hann hefði fundið Kára á förnum vegi og riði hann þaðan upp á Goðaland og svo norður á Gásasand og svo til Guðmundar hins ríka norður á Möðruvöllu. Spurðist það þá um allar sveitir.