Brennu-Njáls saga/149

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
149. kafli

Nú er þar til máls að taka er Flosi er. Hann mælti til brennumanna félaga sinna: „Eigi mun oss enn duga kyrru fyrir að halda. Munum vér hljóta að hugsa um utanferðir vorar og fégjöld og efna sættir vorar sem drengilegast, taka oss fari þar hver er líkast þykir.“

Þeir báðu hann fyrir sjá.

Flosi mælti: „Austur munum vér ríða til Hornafjarðar því að þar stendur skip uppi er á Eyjólfur nef, þrænskur maður, en hann vill biðja sér konu og nær hann eigi ráðinu nema hann setjist aftur. Munum vér kaupa skipið að honum því að vér munum hafa fé lítið en margt manna. Er það skip mikið og mun það taka oss upp alla.“

Hættu þeir þá talinu.

En litlu síðar riðu þeir austur og léttu eigi fyrr en þeir komu í Bjarnanes í Hornafjörð. Fundu þeir þar Eyjólf því að hann hafði þar verið á vist um veturinn. Þar var tekið vel við Flosa og voru þeir þar um nóttina. En um morguninn eftir falaði Flosi skipið að stýrimanni. Hann kvaðst ekki mundu þver í vera að selja skipið ef hann hefði það fyrir sem hann vildi. Flosi spurði í hverjum aurum hann vildi fyrir hafa. Austmaðurinn kveðst vildu fyrir hafa land og þó nær sér. Sagði Eyjólfur þá Flosa allt sem farið var um kaup þeirra bónda. Flosi kveðst skyldu saman róa svo að keypt yrði en kaupa síðan skipið að honum. Austmaðurinn gladdist við þetta. Flosi bauð honum land í Borgarhöfn. Austmaðurinn heldur nú á málinu við bónda svo að Flosi var hjá. Flosi lagði þá til orð sín með þeim svo að saman gekk með þeim kaupið. Lagði Flosi til landið í Borgarhöfn með Austmanninum en tók handsölum á kaupskipinu. Flosi hafði og af Austmanninum tuttugu hundruð vöru og varð það í kaupi þeirra.

Reið Flosi þá aftur. Hann var svo vinsæll af sínum mönnum að hann hafði þar vöru að láni eða gjöf sem hann vildi. Flosi reið nú heim til Svínafells og var heima um hríð. Flosi sendi þá Kol Þorsteinsson og Gunnar Lambason austur í Hornafjörð. Skyldu þeir þar vera við skip og búast um og tjalda búðir og sekka vöru og draga að slíkt sem þurfti.

Nú er að segja frá Sigfússonum að þeir segja Flosa að þeir vilja ríða vestur í Fljótshlíð að skipa til búa sinna og hafa þaðan vöru og slíkt annað sem þeir þyrftu.

„Er nú eigi Kára að varast,“ sögðu þeir, „ef hann er fyrir norðan land sem sagt er.“

Flosi svarar: „Eigi veit eg um sögur slíkar hvað satt er sagt um ferðir Kára. Þykir mér það oft rjúfast er skemmra er að frétta en slíkt. Er það mitt ráð að þér farið margir saman og skiljist lítt og verið um yður sem varastir. Skalt þú nú og, Ketill úr Mörk, muna draum þann er eg sagði þér og þú baðst að við skyldum leyna, því að margir eru þeir nú í för með þér er kallaðir voru.“

Ketill mælti: „Allt mun það sínu fram fara um aldur manna sem ætlað er fyrir áður en gott gengur þér til vörunnar þinnar.“

Töluðu þeir nú ekki um fleira. Síðan bjuggust þeir Sigfússynir og menn með þeim þeir sem til voru ætlaðir. Voru þeir átján saman. Riðu þeir þá í braut. Og áður en þeir fóru minntust þeir við Flosa. Hann bað þá vel fara og kvað þá eigi mundu sjást oftar suma er í braut riðu en þeir létu eigi letjast. Riðu þeir nú leið sína. Flosi mælti að þeir skyldu taka vöru hans í Meðallandi og flytja austur og svo í Landbroti og í Skógahverfi.

Síðan ríða þeir til Skaftártungu og svo fjall og fyrir norðan Eyjafjallajökul og ofan í Goðaland og svo ofan um skóga í Þórsmörk.

Björn úr Mörk gat séð mannareiðina og fór þegar til fundar við þá. Þar kvöddu hvorir aðra vel. Sigfússynir spurðu að Kára Sölmundarsyni.

„Fann eg Kára,“ segir Björn, „og var það nú mjög fyrir löngu. Reið hann þaðan norður á Gásasand og ætlaði hann norður á Möðruvöllu til Guðmundar hins ríka og þótti mér nú sem hann mundi heldur óttast yður. Þóttist hann nú mjög einmani.“

Grani Gunnarsson mælti: „Meir skyldi hann þó síðar óttast oss. Mun hann svo fremi vita að hann kæmi í kast við oss. Hræðumst vér hann nú alls ekki er hann er einn síns liðs.“

Ketill úr Mörk bað hann þegja og hafa engi stóryrði frammi. Björn spurði nær þeir mundu aftur.

„Nær viku munum vér dveljast í Fljótshlíð,“ sögðu þeir, kváðu þá á dag fyrir honum nær þeir mundu á fjall ríða. Skildu þeir við þetta. Riðu nú Sigfússynir til búa sinna og urðu heimamenn þeirra þeim fegnir. Voru þeir þar nær viku.

Nú kemur Björn heim og finnur Kára og segir honum allt um ferðir Sigfússona og fyrirætlan þeirra. Kári kvað hann sýnt hafa í þessu vinskap mikinn og trúleik við sig.

Björn mælti: „Það ætlaði eg ef eg héti nokkurum manni trausti mínu eða umsjá að þeim skyldi mun í fara.“

Húsfreyja hans mælti: „Fyrr væri illa en þú værir drottinsviki.“

Kári dvaldist þar sex nætur síðan.