Brennu-Njáls saga/150

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Kári talar nú við Björn: „Við skulum ríða austur um fjall og ofan í Skaftártungu og fara leynilega um þingmannasveit Flosa því að eg ætla að koma mér utan austur í Álftafirði.“

Björn mælti: „Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og eg.“

Húsfreyja mælti: „Ef þú fylgir Kára illa þá skalt þú það vita að aldrei skalt þú koma í mína rekkju sinn síðan. Skulu frændur mínir gera fjárskipti með okkur.“

„Það er líkara húsfreyja,“ segir Björn, „að fyrir öðru þurfi ráð að gera en það beri til skilnaðar okkars því að eg mun mér bera vitni um það hver garpur eða afreksmaður eg er í vopnaskipti.“

Þeir ríða nú um daginn á fjall og aldrei almannaveg og ofan í Skaftártungu og fyrir ofan bæi alla til Skaftár og leiddu hesta sína í dæl nokkura. En þeir voru á njósn og höfðu svo um sig búið að þá mátti ekki sjá.

Kári mælti þá til Bjarnar: „Hvað skulum við til taka ef þeir ríða hér ofan að okkur af fjallinu?“

„Munu eigi tveir til,“ segir Björn, „annaðhvort að ríða undan norður með brekkunum og láta þá ríða um fram eða bíða ef nokkurir dveljast eftir og ráða þá að þeim.“

Margt töluðu þeir um þetta og hafði Björn í sínu orði hvort að hann vildi flýja sem harðast eða hitt að hann vildi bíða og taka í móti og þótti Kára að þessu allmikið gaman.

Nú er að segja frá Sigfússonum að þeir riðu þann dag heiman sem þeir höfðu sagt Birni. Þeir komu í Mörk og drápu þar á dyr og vildu finna Björn en húsfreyja gekk til dyra og heilsaði þeim. Þeir spurðu þegar að Birni.

Hún sagði að hann var riðinn ofan undir Eyjafjöll og svo austur í Holt „því að hann á þar fjárheimtur,“ sagði hún.

Þeir trúðu þessu og vissu að Björn átti þar fé að heimta, riðu síðan austur á fjall og léttu eigi fyrr en þeir komu í Skaftártungu og riðu ofan með Skaftá og áðu þar sem þeir Kári ætluðu.

Skiptu þeir þá liði sínu. Ketill úr Mörk reið austur í Meðalland og átta menn með honum en hinir lögðust niður til svefns og urðu eigi fyrr við varir en þeir Kári komu að þeim.

Þar gekk nes lítið í ána fram. Gekk Kári þar í fram og bað Björn standa að baki sér og hafa sig eigi allmjög frammi, „en ger mér gagn slíkt er þú mátt.“

„Hitt hafði eg ætlað,“ segir Björn, „að hafa engan mann að hlífiskildi mér en þó er nú þar komið að nú munt ráða verða. En með vitsmunum mínum og hvatleik þá mun eg þó verða þér að gagni en óvinum okkrum ekki óskeinisamur.“

Þeir stóðu nú upp allir og hljópu að þeim og varð skjótastur Móðólfur Ketilsson og lagði spjóti til Kára. Kári hafði skjöldinn fyrir sér og kom þar í lagið og festi í skildinum. Kári snaraði skjöldinn svo hart að spjótið brotnaði. Hann hafði brugðið sverðinu og hjó til Móðólfs. Hann hjó í móti. Sverðið Kára kom á hjaltið og stökk af í braut og á úlfliðinn Móðólfi og tók af höndina og féll sverðið niður og svo höndin en sverð Kára hljóp á síðuna Móðólfi og inn í millum rifjanna. Féll Móðólfur þá og var þegar dauður. Grani Gunnarsson þreif spjót og skaut að Kára en Kári skaut niður við skildinum svo að fastur stóð í vellinum en tók með hinni vinstri hendi spjótið á lofti og skaut aftur að Grana og tók þegar skjöld sinn hinni vinstri hendi. Grani hafði skjöld fyrir sér. Kom spjótið í skjöldinn og gekk þegar í gegnum og kom í lærið Grana fyrir neðan smáþarmana og þar í gegnum og svo í völlinn og komst hann eigi af spjótinu fyrr en félagar hans drógu hann af og bjuggu um hann í dæl nokkurri með hlífum. Maður einn skaust að og ætlaði að höggva fót undan Kára og komst á hlið honum. Björn hjó af þessum manni höndina og skaust aftur síðan að baki Kára og fengu þeir honum engan geig gervan. Kári slæmdi til þessa manns sverðinu og hjó hann í sundur í miðju. Þá hljóp Lambi Sigurðarson að Kára og hjó til hans með sverði. Kári brá við flötum skildinum og beit sverðið ekki á. Kári lagði til hans sverðinu framan í brjóstið svo að út gekk meðal herðanna. Varð það hans bani. Þá hljóp að Kára Þorsteinn Geirleifsson og ætlaði á hlið Kára. Hann fékk séð Þorstein og slæmdi til hans sverðinu um þverar herðarnar svo að í sundur tók manninn. Litlu síðar hjó hann mann banahöggi, Gunnar úr Skál, góðan bónda. Björn hafði særða þrjá menn þá er ætlað höfðu til að vinna á Kára og var þó aldrei svo frammi að honum væri nein raun í. Varð hann og ekki sár og hvorgi þeirra félaga á fundinum en þeir voru allir sárir er undan komust. Hljópu þeir á hesta sína og hleyptu út á Skaftá sem mest máttu þeir og urðu svo hræddir að þeir komu hvergi til bæja og hvergi þorðu þeir að segja tíðindin. Þeir Kári æptu að þeim er þeir hleyptu út á ána.

Björn mælti: „Rennið þér nú brennumenn,“ segir hann.

Þeir riðu austur í Skógahverfi og léttu eigi fyrr en þeir komu til Svínafells. Flosi var ekki heima er þeir komu þar og varð því þaðan ekki eftir leitað. Öllum þótti þeirra ferð hin svívirðlegasta. Kári reið í Skál og lýsti þar vígum þessum á hendur sér. Sagði hann þar lát húsbónda og þeirra fimm og sár Grana og kvað betra mundu að færa hann til húss ef hann skyldi lifa. Björn mælti og kvaðst eigi nenna að drepa hann fyrir mágsemdar sökum en kvað hann þó þess maklegan en þeir er svöruðu kváðu fá fúnað hafa fyrir honum. Björn kvað nú kost vera að fúnuðu svo margir af Síðumönnum sem hann vildi. Þeir sögðu þá þó ill að vera. Þeir Kári og Björn riðu þá í braut.