Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/22

Úr Wikiheimild

Snið:Header

„Nú skalt þú ríða heiman við hinn þriðja mann. Skalt þú hafa voskufl ystan klæða og undir söluvoðarkyrtil mórendan. Þar skalt þú hafa undir hin góðu klæði þín og taparöxi í hendi. Tvo hesta skal hafa hver yðvar, aðra feita en aðra magra. Þú skalt hafa héðan smíði. Þér skuluð ríða þegar á morgun og er þér komið yfir Hvítá vestur þá skalt þú láta slota hatt þinn mjög. Þá mun eftir spurt hver sá sé hinn mikli maður. Förunautar þínir skulu segja að þar sé Kaupa-Héðinn hinn mikli, eyfirskur maður, og fari með smíði. Hann er maður skapillur og margmæltur, þykist einn vita allt. Hann rekur aftur kaup sín oftlega og flýgur á menn þegar er eigi er svo gert sem hann vill. Þú skalt ríða vestur til Borgarfjarðar og láta þá falt hvarvetna smíðið og reka aftur kaupin mjög. Þá mun sá orðrómur á leggjast að Kaupa-Héðinn sé manna verstur viðfangs og síst sé logið frá honum.

Þú skalt ríða til Norðurárdals og svo til Hrútafjarðar og til Laxárdals og til þess er þú kemur á Höskuldsstaði. Þar skalt þú vera um nótt og sitja utarlega og drepa niður höfði. Höskuldur mun mæla að ekki skuli eiga við Kaupa-Héðin og segja að hann sé óvinveittur. Síðan munt þú fara í braut um morguninn eftir og koma á næsta bæ hjá Hrútsstöðum. Þar skalt þú láta falt smíðið og hafa það uppi af er verst er og berja í brestina. Bóndi mun að hyggja og mun hann finna brestina. Þú skalt hnykkja af honum og mæla illt við hann.

Hann mun segja að það sé von að þú gefist honum eigi vel „er þú gefst öllum öðrum illa.“

Þá skalt þú fljúga á hann þó að þú sért því óvanur og still þó aflinu að þú verðir eigi kenndur og ekki sé grunað. Þá mun sendur maður á Hrútsstaði að segja Hrúti að betra mun að skilja ykkur. Hann mun þegar senda eftir þér en þú skalt og þegar fara. Þér mun skipað á hinn óæðra bekk gegnt öndugi Hrúts. Þú skalt kveðja hann. Hann mun vel taka þér og spyrja hvort þú sért norðlenskur. Þú skalt segja að þú sért eyfirskur maður. Hann mun spyrja hvort þar séu allmargir ágætismenn.

„Ærinn hafa þeir klækiskap,“ skalt þú segja.

„Er þér kunnigt til Reykjardals?“ mun hann segja.

„Kunnigt er mér um allt Ísland,“ skalt þú segja.

„Eru í Reykjardal kappar miklir?“ mun hann segja.

„Þjófar eru þar og illmenni,“ skalt þú segja.

Þá mun Hrútur hlæja og þykja gaman að. Munuð þið þá tala um menn í Austfirðingafjórðungi og skalt þú öllum leggja nokkuð ámæli. Tal ykkart mun koma á Rangárvöllu. Þá skalt þú segja að þar sé síst mannval síðan Mörður gígja var dauður. Hann mun spyrja hvað þú færir til þess að eigi megi koma maður í stað hans. Þú skalt því svara að hann var maður svo vitur og svo mikill lagamaður og málafylgju að aldrei varð á um hans höfðingskap.

Hann mun spyrja hvort þér sé nokkuð af kunnigt „hversu fór með okkur?“

„Kunnigt er mér,“ skalt þú segja, „að hann tók af þér konuna en þú hafðir ekki.“

Þá mun Hrútur svara: „Þótti þér ekki á verða fyrir honum er hann náði eigi fénu en bjó þó til málið?“

„Hér má eg þér vel svara,“ skalt þú segja, „þú skoraðir honum til einvígis en hann var maður gamall og réðu vinir hans honum að hann berðist eigi við þig og drap svo niður málinu.“

„Mælti eg það,“ mun Hrútur segja, „og þótti það heimskum mönnum sem lög væri en málið mátti þó upp taka á öðru þingi ef hann hefði þrek til haft.“

„Veit eg það,“ skalt þú segja.

Hann mun þá spyrja þig: „Kannt þú nokkuð í lögum?“

„Kunna þótti eg norður þar,“ skalt þú segja, „en þó munt þú segja mér verða hversu málið skal upp taka.“

Hrútur mun mæla: „Að hverju máli vilt þú spyrja?“

„Að því,“ skalt þú segja, „er mig skiptir engu, hversu upp skal taka fjárheimtuna Unnar.“

„Stefna skal málinu svo að eg heyri á eða að lögheimili mínu,“ mun Hrútur segja.

„Stefn þú nú þá,“ skalt þú segja, „en eg mun í annað sinn.“

Þá mun Hrútur stefna og skalt þú að því vandlega hyggja hver atkvæði hann hefir. Þá mun Hrútur mæla að þú skulir stefna. Þú skalt þá stefna og skal rangt svo að eigi sé meir en annað hvert orð rétt. Þá mun Hrútur hlæja og mun hann þá ekki gruna en mæla þó að fátt sé rétt í. Þú skalt kenna förunautum þínum að þeir hafi glapið þig. Þá skalt þú biðja Hrút að hann mæli fyrir þér og að hann leyfi að þú stefnir í annað sinn og mælir eftir honum. Hann mun leyfa þér og stefna sjálfur málinu. Þú skalt þegar stefna eftir og mæla þá rétt og spyrja Hrút hvort rétt sé stefnt. Hann mun segja þér að eigi megi það ónýta.

Þá skalt þú mæla hátt svo að förunautar þínir heyri: „Stefni eg handseldri sök Unnar Marðardóttur.“

En þegar er menn eru sofnaðir þá skuluð þér upp standa og fara hljóðlega, ganga út og bera söðla yðra í haga til hinna feitu hestanna og ríða þeim en láta hina eftir. Þér skuluð ríða upp úr búfjárhögum og vera þar þrjár nætur. Svo nokkuru mun yðvar leita farið lengi. Síðan skuluð þér ríða heim suður og ríða um nætur en liggja um daga. En vér munum fara til þings og veita að málunum.“

Gunnar þakkaði honum og reið heim fyrst.