Brennu-Njáls saga/23

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
23. kafli

Gunnar reið heiman tveim nóttum síðar og tveir menn með honum. Þeir riðu þar til er þeir komu á Bláskógaheiði. Þar riðu menn í móti þeim og spurðu hver sá væri hinn mikli maður er svo lítt var sýndur. Förunautar hans sögðu að þar var Kaupa-Héðin hinn mikli.

Þeir svöruðu: „Eigi er þar hins verra eftir von er slíkur fer fyrir.“

Héðinn lét þegar sem hann mundi á þá ráða en þó fóru hvorir leið sína.

Gunnar fór með öllu sem fyrir hann var lagt og var á Höskuldsstöðum um nótt og fór þaðan ofan eftir dal og kom á næsta bæ hjá Hrútsstöðum. Þar lét hann falt smíðið og seldi þrjá smíðisgripi. Bóndi fann að á var smíðinu og kallaði fals í. Héðinn réð þegar á bónda. Það var sagt Hrúti og sendi hann eftir Héðni. Hann fór þegar á fund Hrúts og hafði þar góðar viðtökur. Skipaði Hrútur honum gegnt sér og fór orðtak þeirra sem Njáll gat til. Þá sagði Hrútur honum hversu upp skyldi taka málið og stefndi fyrir málinu en hann mælti eftir og stefndi rangt. Þá brosti Hrútur og grunaði ekki. Þá mælti hann að Hrútur skyldi stefna í annað sinn. Svo gerði Hrútur. Héðinn stefndi þá í annað sinn og stefndi þá rétt og vitnaði undir förunauta sína að hann stefndi handseldri sök Unnar Marðardóttur. Hann fór til svefns um kveldið sem aðrir menn.

En er Hrútur var sofnaður tóku þeir föng sín og höfðu til hesta sinna, ríða síðan yfir ána og svo fram Hjarðarholts megin þar til er þraut dalinn og eru þar í fjöllunum millum og Haukadals og komu sér þar er eigi mátti finna þá fyrr en riðið væri að þeim.

Söðlar þeirra og vopn höfðu varðveitt verið í smiðju svo að þeir máttu sjálfir út ná. Urðu því engir menn varir við brautferð þeirra.

Þessa nótt öndverða vaknaði Höskuldur á Höskuldsstöðum og vakti upp alla heimamenn sína.

„Eg vil segja yður draum minn,“ segir hann. „Eg þóttist sjá bjarndýri mikið ganga út úr húsunum og vissi eg að eigi fannst þessa dýrs maki og fylgdu því húnar tveir og vildu þeir vel dýrinu. Það stefndi til Hrútsstaða og gekk þar inn í húsin. Síðan vaknaði eg. Nú vil eg spyrja yður hvað þér sáuð til hins mikla manns.“

Einn maður svaraði honum: „Það sá eg að fram undan ermi hans kom eitt gullhlað og rautt klæði en á hinni hægri hendi hafði hann gullhring.“

Höskuldur mælti: „Þetta er engis manns fylgja nema Gunnars frá Hlíðarenda. Þykist eg nú sjá allt eftir og skulum vér nú ríða á Hrútsstaði.“

Þeir gengu út allir og fóru á Hrútsstaði og drápu á dyr en maður gekk út og lauk upp hurðinni. Þeir gengu þegar inn. Hrútur lá í lokrekkju og spyr hverjir komnir eru. Höskuldur sagði til sín og spurði hvað þar væri gesta.

Hann svarar: „Hér er Kaupa-Héðinn.“

Höskuldur mælti: „Breiðari mun um bakið því að eg get hér verið hafa Gunnar frá Hlíðarenda.“

„Þá mun hér slægleiksmunur orðið hafa,“ segir Hrútur.

„Hvað er að orðið?“ segir Höskuldur.

„Eg sagði honum hversu upp skyldi taka fjárheimtuna Unnar og stefndi eg mér sjálfur en hann stefndi eftir. Og mun hann þann hafa málatilbúnaðinn og er sá réttur.“

„Mikill er viskumunur orðinn,“ segir Höskuldur, „og mun eigi Gunnar einn hafa um ráðið. Njáll mun þessi ráð hafa til lagið því að engi er hans maki að viti.“

Þeir leita nú Héðins og er hann allur í brautu. Þeir söfnuðu liði og leituðu þeirra þrjá daga og þrjár nætur og fundu þá eigi.

Gunnar reið suður af fjallinu til Haukadals og fyrir austan skarð og norður til Holtavörðuheiðar og létti eigi fyrr en hann kom heim. Hann fann Njál og sagði honum að vel hafði dugað ráðið.