Brennu-Njáls saga/28

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
28. kafli

Skip kom út í Arnarbælisós og stýrði skipinu Hallvarður hvíti, víkverskur maður. Hann fór til vistar til Hlíðarenda og var með Gunnari um veturinn og bað hann jafnan að hann skyldi fara utan. Gunnar talaði fátt um og tók á engu ólíklega. Og um vorið fór hann til Bergþórshvols og spurði Njál hve ráðlegt honum þætti að hann færi utan.

„Ráðlegt þykir mér það,“ segir Njáll, „munt þú þér þar vel koma sem þú ert.“

„Vilt þú nokkuð taka við fjárfari mínu,“ segir Gunnar, „meðan eg er í brautu því að eg vil að Kolskeggur bróðir minn fari með mér en eg vildi að þú sæir um búið meðan með móður minni.“

„Ekki skal það við nema,“ segir Njáll, „allt skal eg styðja þig um það er þú vilt.“

„Vel mun þér fara,“ segir Gunnar.

Ríður hann þá heim.

Austmaður kom enn á tal við Gunnar að hann mundi utan fara. Gunnar spyr ef hann hefði nokkuð siglt til annarra landa.

Hann kveðst siglt hafa til landa þeirra allra er voru meðal Noregs og Garðaríkis „og svo hafi eg siglt til Bjarmalands.“

„Vilt þú sigla með mér í Austurveg?“ segir Gunnar.

„Það vil eg víst,“ segir hann.

Síðan réð Gunnar utanferð sína með honum. Njáll tók við öllu fjárfari Gunnars.