Brennu-Njáls saga/27

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
27. kafli

Litlu síðar fara þeir og báðu konunnar, riðu vestur yfir Þjórsá og fóru þar til er þeir komu í Tungu. Ásgrímur var heima og tók við þeim vel og voru þar um nóttina. En um daginn gengu þeir á tal. Þá vakti Njáll til um bónorðið og bað Þórhöllu til handa Helga syni sínum. Ásgrímur svaraði því máli vel og sagði eigi þá menn vera að hann væri fúsari við að kaupa en þá. Síðan töluðu þeir um málið og lauk svo að Ásgrímur festi Helga dóttur sína og var kveðið á brúðlaupsstefnu. Gunnar var að veislu þessi og margir aðrir hinu bestu menn.

En eftir veisluna bauð Njáll Þórhalli Ásgrímssyni til fósturs og fór hann til hans og var með honum lengi síðan. Hann unni meira Njáli en föður sínum. Njáll kenndi honum lög svo að hann varð mestur lögmaður á Íslandi.