Brennu-Njáls saga/33

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
33. kafli

Gunnar reið og þeir allir til þings. En er þeir komu á þing þá voru þeir svo vel búnir að engir voru þeir þar að jafnvel væru búnir og fóru menn út úr hverri búð að undrast þá. Gunnar reið til búða Rangæinga og var þar með frændum sínum. Margur maður fór að finna Gunnar og spyrja hann tíðinda. Hann var við alla menn léttur og kátur og sagði öllum slíkt er vildu.

Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sá hann konur ganga í móti sér og voru vel búnar. Sú var í ferðarbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kvenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskikkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt. Gunnar var í tignarklæðum þeim er Haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin.

Hún sagði að svo væri „og er það ekki margra að hætta á það,“ segir hún.

„Þykir þér hvergi fullkosta?“ segir hann.

„Eigi er það,“ segir hún, „en mannvönd mun eg vera.“

„Hversu munt þú svara ef eg bið þín?“ segir Gunnar.

„Það mun þér ekki í hug,“ segir hún.

„Eigi er það,“ segir hann.

„Ef þér er nokkur hugur á,“ segir hún, „þá finn þú föður minn.“

Síðan skildu þau talið.

Gunnar gekk þegar til búðar Dalamanna og fann menn úti fyrir búðinni og spyr hvort Höskuldur væri í búð en þeir sögðu að hann var víst þar. Gekk þá Gunnar inn. Höskuldur og Hrútur tóku vel við Gunnari. Hann settist niður í meðal þeirra og fannst það ekki í tali þeirra að þar hefði nokkur misþykkja í meðal verið.

Þar kom niður ræða Gunnars að hann spurði hversu þeir bræður mundu því svara ef hann bæði Hallgerðar.

„Vel,“ segir Höskuldur, „ef þér er það alhugað.“

Gunnar segir sér það alvöru „en svo skildum vér næstum að mörgum mundi það þykja líklegt að hér mundi ekki samband verða.“

„Hversu líst þér Hrútur frændi?“ segir Höskuldur.

Hrútur svaraði: „Ekki þykir mér þetta jafnræði.“

„Hvað finnur þú til þess?“ segir Gunnar.

Hrútur mælti: „Því mun eg svara þér um þetta er satt er. Þú ert maður vaskur og vel að þér en hún er blandin mjög og vil eg þig í engu svíkja.“

„Vel mun þér fara,“ segir Gunnar, „en þó mun eg það fyrir satt hafa að þér virðið í fornan fjandskap ef þér viljið eigi gera mér kostinn.“

„Eigi er það,“ segir Hrútur, „meir er hitt að eg sé að þú mátt nú ekki við gera. En þó að vér keyptum eigi þá vildum vér þó vera vinir þínir.“

Gunnar mælti: „Eg hefi talað við hana og er þetta ekki fjarri hennar skapi.“

Hrútur mælti: „Veit eg að svo mun vera að ykkur er báðum girndarráð. Hættið þið og mestu til hversu fer.“

Hrútur sagði Gunnari ófregið allt um skapferði Hallgerðar og þótti Gunnari það fyrst ærið margt er áfátt var. En þar kom um síðir að saman féll kaupmáli þeirra. Var þá sent eftir Hallgerði og var þá um talað svo að hún var við. Létu þeir nú enn sem fyrr að hún festi sig sjálf. Skyldi þetta boð vera að Hlíðarenda og skyldi fara fyrst leynilega en þó kom þar er allir vissu.

Gunnar reið heim af þingi og reið þegar að finna Njál og sagði honum kaupin. Hann tók þungt á kaupum hans. Gunnar spurði hvað hann fyndi til að honum þótti slíkt svo óráðlegt.

Njáll svaraði: „Af henni mun standa allt hið illa er hún kemur austur hingað.“

„Aldrei skal hún spilla okkru vinfengi,“ segir Gunnar.

„Það mun þó svo nær leggja,“ segir Njáll, „en þó munt þú jafnan bæta fyrir henni.“

Gunnar bauð Njáli til boðs og öllu því þaðan sem hann vildi að færi. Njáll hét að fara. Síðan reið Gunnar heim og reið um héraðið að bjóða mönnum.