Brennu-Njáls saga/41

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
41. kafli

Sigmundur hét maður. Hann var Lambason Sighvatssonar hins rauða. Hann var farmaður mikill, kurteis maður og vænn, mikill og sterkur. Hann var metnaðarmaður mikill og skáld gott og að flestum íþróttum vel búinn, hávaðamaður mikill, spottsamur og ódæll. Hann kom út austur í Hornafirði. Skjöldur hét félagi hans. Hann var sænskur maður og illur viðureignar. Þeir fengu sér hesta og riðu austan úr Hornafirði og luku eigi ferð sinni fyrr en þeir komu í Fljótshlíð til Hlíðarenda. Gunnar tók við þeim vel. Var þar frændsemi mikil með þeim Sigmundi. Gunnar bauð Sigmundi að vera þar um veturinn. Sigmundur kvaðst það þiggja mundu ef Skjöldur væri þar, félagi hans.

„Svo er mér frá honum sagt,“ sagði Gunnar, „að hann sé þér engi skapbætir en þú þarft hins heldur að bætt sé um með þér. Er hér og vönd vistin. Vildi eg ráða yður ráð frændum mínum að þér hlypuð eigi upp við frameggjan Hallgerðar konu minnar því að hún tekur það margt upp er fjarri er mínum vilja.“

„Veldurat sá er varar,“ segir Sigmundur.

„Þá er að gæta ráðsins,“ segir Gunnar, „en mjög munt þú verða reyndur og gakk með mér jafnan og hlít mínum ráðum.“

Síðan voru þeir í fylgd með Gunnari.

Hallgerður var vel til Sigmundar og þar kom að þar gerðist svo mikill ákafi að hún bar fé á hann og þjónaði honum eigi verr en bónda sínum. Og lögðu margir það til orðs og þóttust eigi vita hvað undir mundi búa.

Hallgerður mælti við Gunnar: „Eigi er gott við að una við það hundrað silfurs er þú tókst fyrir Brynjólf frænda minn enda skal eg hefna hans láta ef eg má,“ segir hún.

Gunnar kvaðst ekki vilja skipta orðum við hana og gekk í braut. Hann fann Kolskegg og mælti til hans: „Far þú og finn Njál og seg honum að Þórður sé var um sig þó að sættir séu því að mér þykir eigi trúlega vera.“

Hann reið og sagði Njáli en Njáll sagði Þórði. Kolskeggur reið heim og þakkaði Njáll þeim trúleika sína.

Það var einu hverju sinni að þeir sátu úti, Njáll og Þórður. Þar var vanur að ganga hafur um túnið og skyldi engi hann í braut reka.

Þórður mælti: „Undarlega bregður nú við.“

„Hvað sérð þú þess er þér þykir með undarlegu móti vera?“ segir Njáll.

„Mér þykir hafurinn liggja hér í dælinni og er alblóðugur allur.“

Njáll kvað þar vera eigi hafur og ekki annað.

„Hvað er það þá?“ segir Þórður.

„Þú munt vera maður feigur,“ segir Njáll, „og munt þú séð hafa fylgju þína og ver þú var um þig.“

„Ekki mun mér það stoða,“ segir Þórður, „ef mér er það ætlað.“

Hallgerður kom að máli við Þráin Sigfússon og mælti: „Mágur þætti mér þú vera ef þú dræpir Þórð leysingjason.“

„Eigi mun eg það gera,“ segir hann, „því að þá mun eg hafa reiði Gunnars frænda míns. Mun og þar stórt á liggja því að vígs þess mun brátt hefnt verða.“

„Hver mun hefna,“ segir hún, „hvort karl hinn skegglausi?“

„Eigi mun það,“ segir hann, „synir hans munu hefna.“

Síðan töluðu þau lengi hljótt og vissi engi maður hvað þau höfðu í ráðagerðum.

Einu sinni var það að Gunnar var eigi heima. Þá var Sigmundur heima og þeir félagar. Þar var kominn Þráinn frá Grjótá. Þá sátu þau Hallgerður úti og töluðu.

Þá mælti Hallgerður: „Því hafið þið heitið félagar Sigmundur og Skjöldur að drepa Þórð leysingjason fóstra Njálssona en þú hefir mér því heitið Þráinn að vera við staddur.“

Þeir gengu við allir að þeir höfðu þessu heitið henni.

„Nú mun eg gefa ráðið til,“ sagði hún. „Þið skuluð ríða austur í Hornafjörð eftir fé ykkru og koma heim um þing öndvert en ef þið eruð heima mun Gunnar vilja að þið ríðið til þings með honum. Njáll mun vera á þingi og synir hans og svo Gunnar. En þið skuluð þá drepa Þórð.“

Þeir játtu að þessi ráðagerð skyldi fram koma. Síðan bjuggust þau austur í fjörðu og varaðist Gunnar það ekki og reið Gunnar til þings.

Njáll sendi Þórð leysingjason austur undir Eyjafjöll og bað hann vera í brautu eina nótt. Hann fór austur og gaf honum eigi austan því að fljótið var svo mikið að langt var um óreitt. Njáll beið hans eina nótt því að hann ætlaði að hann skyldi riðið hafa til þings með honum. Njáll mælti við Bergþóru að hún skyldi senda Þórð til þings þegar hann kæmi heim. Tveim nóttum síðar kom Þórður austan.

Bergþóra sagði honum að hann skyldi til þings ríða „en nú skalt þú fyrst fara upp í Þórólfsfell og sjá þar um bú og vera þar eigi lengur en eina nótt eða tvær.“