Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/49

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
49. kafli


Nú er að segja frá Skammkatli að hann ríður að sauðum upp með Rangá og sér hann að glóar nokkuð í götunni og hleypur af baki og tekur upp og var það hnífur og belti og þykist hann kenna hvorttveggja og fer í Kirkjubæ. Otkell er úti staddur og fagnar honum vel.

Skammkell mælti til Otkels: „Kennir þú nokkuð til gripa þessa?“

„Kenni eg víst,“ segir Otkell.

„Hver á?“ segir Skammkell.

„Melkólfur þræll,“ segir Otkell.

„Kenna skulu þá fleiri,“ segir Skammkell, „en við tveir því að trúr skal eg þér í ráðum.“

Þeir sýndu mörgum mönnum og kenndu þeir allir.

Þá mælti Skammkell: „Hvað munt þú nú til ráða taka?“

Otkell svaraði: „Við skulum fara að finna Mörð Valgarðsson og sýna honum og vita hvað hann leggi til ráðs með okkur.“

Síðan fóru þeir til Hofs og sýndu Merði gripina og spurðu ef hann kenndi.

Hann kvaðst kenna „eða hvað er að því? Þykist þér til Hlíðarenda eiga eftir nokkuru að sjá?“

„Vant þykir oss með slíku að fara,“ segir Skammkell, „er slíkir ofureflismenn eiga í hlut.“

„Svo er víst,“ segir Mörður, „en þó mun eg vita þá hluti úr híbýlum Gunnars er hvorgi ykkar mun vita.“

„Gefa viljum vér þér fé til,“ segja þeir, „að þú leitir eftir þessu máli.“

Mörður svaraði: „Það fé mun mér fullkeypt en þó má vera að eg hætti á.“

Síðan gáfu þeir honum þrjár merkur silfurs að hann skyldi vera með þeim í ráðagerð og liðveislu. Hann gaf það ráð til að konur skyldu fara með smávarning og gefa húsfreyjum og vita hverju þeim væri launað „því að allir hafa það skaplyndi,“ segir Mörður, „að gefa það fyrst upp er stolið er ef það hafa að varðveita. Mun hér og svo ef af mannavöldum er. Skulu þær þá sýna mér af hverju gefið er hvargi. Vil eg þá vera laus máls þessa ef uppvíst verður.“

Þessu játuðu þeir. Fóru þeir heim síðan.

Mörður sendi konur í hérað og voru þær í brautu hálfan mánuð. Þær komu aftur og höfðu byrðar stórar. Mörður spurði hvar þeim hefði mest gefið verið. Þær sögðu að þeim hefði að Hlíðarenda mest gefið verið og Hallgerður yrði þeim mestur drengur.

Hann spyr hvað þeim væri þar gefið.

„Ostur,“ segja þær.

Hann beiddist að sjá. Þær sýndu honum og voru það sneiðir margar. Tók hann þær og varðveitti. Litlu síðar fór Mörður að finna Otkel. Bað hann að taka skyldi ostkistu Þorgerðar og var svo gert. Lagði hann þar í niður sneiðirnar og stóðst það á endum og ostkistan. Sáu þeir þá að þeim hafði heill hleifur gefinn verið.

Þá mælti Mörður: „Nú megið þér sjá að Hallgerður mun stolið hafa ostinum.“

Drógu þeir þá öll dæmi saman. Sagði Mörður þá að hann þóttist laus þessa máls. Skildu þeir að því.

Kolskeggur kom að máli við Gunnar og mælti: „Illt er að segja. Alræmt er að Hallgerður muni stolið hafa og valdið þeim hinum mikla skaða er varð í Kirkjubæ.“

Gunnar kvaðst ætla að svo mundi vera „eða hvað er nú til ráðs?“

Kolskeggur svaraði: „Þú munt þykja skyldastur að bæta fyrir konu þinni og þykir mér ráð að þú farir að finna Otkel og bjóðir honum góð boð.“

„Þetta er vel mælt,“ segir Gunnar, „og skal svo vera.“

Litlu síðar sendi Gunnar eftir Þráni Sigfússyni og Lamba Sigurðarsyni og komu þeir þegar. Gunnar sagði þeim hvert hann ætlaði. Þeir létu vel yfir því.

Gunnar reið við hinn tólfta mann í Kirkjubæ og kallaði út Otkel.

Þar var Skammkell og mælti: „Eg skal út ganga með þér og mun nú betra að hafa vitsmuni við. Mundi eg það vilja að standa þér þá næst er þú þyrftir mest sem nú mun vera. Þykir mér það ráð að þú látir drjúglega.“

Síðan gengu þeir út, Otkell og Skammkell, Hallkell og Hallbjörn. Þeir heilsuðu Gunnari. Hann tók því vel. Otkell spyr hvert hann ætlaði að fara.

„Ekki lengra en hingað,“ segir Gunnar, „og er það erindi mitt að segja þér um skaða þann hinn mikla og hinn illa er hér er orðinn að hann er af völdum konu minnar og þræls þess er eg keypti að þér.“

„Slíks var von,“ segir Hallbjörn.

Gunnar mælti: „Hér vil eg bjóða fyrir góð boð og bjóða að hinir bestu menn skipi um í héraðinu.“

Skammkell mælti: „Þetta eru áheyrileg boð og ójafnleg. Þú ert vinsæll af bóndum en Otkell er óvinsæll.“

„Bjóða mun eg,“ segir Gunnar, „að gera um sjálfur og lúka upp þegar og leggja á vináttu mína og greiða nú allt féið og mun eg bæta þér tvennum bótum.“

Skammkell mælti: „Þenna kost skalt þú eigi þiggja og er það grunnúðlegt ef þú ætlar að selja honum sjálfdæmi þar er þú ættir að taka.“

Otkell mælti: „Eigi vil eg selja þér sjálfdæmi Gunnar.“

Gunnar mælti: „Skil eg hér tillögur manna nærgi er launað verður, enda dæm þú nú sjálfur.“

Otkell laut að Skammkatli og mælti: „Hverju skal eg nú svara?“

Skammkell mælti: „Þetta skalt þú kalla vel boðið en víkja máli þínu undir Gissur hvíta og Geir goða. Munu það þá margir mæla að þú sért líkur Hallkatli föðurföður þínum er mestur kappi hefir verið.“

Otkell mælti: „Vel er þetta boðið Gunnar en þó vil eg að þú ljáir mér tómstundar til að finna Gissur hvíta og Geir goða.“

Gunnar mælti: „Far þú nú með sem þér líkar. En það munu sumir menn mæla að þú kunnir eigi að sjá sóma þinn er þú vilt eigi þessa kosti er eg býð þér.“

Ríður Gunnar heim.

Og er Gunnar var í brautu mælti Hallbjörn: „Hér veit eg mestan mannamun. Gunnar bauð þér aldrei svo góð boð að þú vildir þiggja eða hvað munt þú mega ætla þér að deila við Gunnar illdeilum þar sem engi er hans jafningi? En þó er hann svo vel að sér að hann mun láta standa boð þessi þó að þú þiggir síðar. Þykir mér ráð að þú farir að finna Gissur hvíta og Geir goða nú þegar.“

Otkell lét taka hest sinn og bjó sig að öllu. Otkell var ekki glöggskyggn. Skammkell gekk á leið með Otkatli.

Hann ræddi við Otkel: „Undur þótti mér er bróðir þinn vildi eigi taka af þér þetta starf. Vil eg bjóða þér að fara fyrir þig er eg veit að þér þykir mikið fyrir ferðum.“

„Það mun eg þiggja,“ sagði Otkell, „og ver þú sem réttorðastur.“

„Svo skal vera,“ segir Skammkell.

Tók Skammkell þá við hestinum og við klæðum Otkels en Otkell gengur heim.

Hallbjörn var úti og mælti til Otkels: „Illt er að eiga þræl að einkavin og munum vér þessa jafnan iðrast er þú hefir aftur horfið og er það óviturlegt bragð að senda hinn lygnasta mann þess erindis er svo mun mega að kveða að líf manna liggi við.“

„Hræddur mundir þú verða,“ segir Otkell, „ef Gunnar hefði á lofti atgeirinn er þú ert nú svo.“

„Eigi veit það,“ segir Hallbjörn, „hver þá er hræddastur en það munt þú eiga til að segja að Gunnar mun ekki lengi munda atgeirinum ef hann færir hann á loft og sé hann reiður.“

Otkell mælti: „Hvikið þér allir nema Skammkell.“

Voru þeir þá báðir reiðir.