Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/5

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
5. kafli


Atli hét maður. Hann var sonur Arnviðar jarls úr Gautlandi hinu eystra. Hann var hermaður mikill og lá úti austur í Leginum. Hann hafði átta skip. Faðir hans hafði haldið sköttum fyrir Hákoni Aðalsteinsfóstra og stukku þeir feðgar til Gautlands úr Jamtalandi. Atli hélt liðinu úr Leginum út um Stokkssund og svo suður til Danmerkur og liggur úti í Eyrasundi. Hann var og útlagi bæði Danakonungs og Svíakonungs af ránum og manndrápum er hann hafði gert í hvorutveggja ríkinu.

Hrútur hélt suður til Eyrasunds. Og er hann kom í sundið sér hann fjölda skipa í sundinu.

Þá mælti Úlfur: „Hvað skal nú til ráða taka Íslendingur?“

„Halda fram ferðinni,“ Segir Hrútur, „því að ekki dugir ófreistað. Skal skip okkar Össurar fara fyrst en þú skalt leggja fram sem þér líkar.“

„Sjaldan hefi eg haft aðra að skildi fyrir mér,“ segir Úlfur.

Leggur hann fram skeiðina jafnfram skipi Hrúts og halda svo fram í sundið.

Nú sjá þeir er í sundinu eru að skip fara að þeim og segja Atla til.

Hann svaraði: „Þá gefur vel til fjár að vinna og reki menn af sér tjöldin og búist við sem hvatlegast á hverju skipi. Skip mitt skal vera í miðjum flotanum.“

Síðan greiddu þeir róðurinn á skipum Hrúts. Og þegar er hvorir heyrðu mál annarra stóð Atli upp og mælti: „Þér farið óvarlega. Sáuð þér eigi að herskip voru í sundinu eða hvert er nafn höfðingja yðvars?“

„Hrútur heiti eg,“ segir hann.

„Hvers maður ert þú?“ segir Atli.

„Hirðmaður Haralds konungs gráfeldar,“ segir Hrútur.

Atli mælti: „Lengi höfum við feðgar eigi kærir verið Noregskonungum yðrum.“

„Ykkur ógæfa er það,“ segir Hrútur.

„Svo hefir borið saman fund okkarn,“ segir Atli, „að þú skalt eigi kunna frá tíðindum að segja“ og þreif upp spjót og skaut á skip Hrúts og hafði sá bana er fyrir varð.

Síðan tókst orusta með þeim og sóttist þeim seint skip þeirra Hrúts. Úlfur gekk vel fram og gerði ýmist að hann skaut eða lagði. Ásólfur hét stafnbúi Atla. Hann hljóp upp á skip Hrúts og varð fjögurra manna bani áður Hrútur varð var við. Snýr hann þá í mót honum. En er þeir finnast þá leggur Ásólfur í skjöld Hrúts og í gegnum en Hrútur hjó til Ásólfs og varð það banahögg.

Þetta sá Úlfur óþveginn og mælti: „Bæði er nú Hrútur að þú höggur stórt enda átt þú mikið að launa Gunnhildi.“

„Þess varir mig,“ segir Hrútur, „að þú mælir feigum munni.“

Nú sér Atli beran vopnastað á Úlfi og skaut spjóti í gegnum hann. Síðan varð hin strangasta orusta. Atli hleypur upp á skip að Hrúti og ryðst um fast og nú snýr í mót honum Össur og lagði til hans og féll sjálfur á bak aftur því að annar maður lagði til hans. Hrútur sneri nú í mót Atla. Atli hjó þegar í skjöld Hrúts og klauf allan niður. Þá fékk Atli steinshögg á höndina og féll niður sverðið. Hrútur tók sverðið og hjó undan Atla fótinn. Síðan veitti hann honum banasár. Þar tóku þeir fé mikið og höfðu með sér tvö skip, þau er best voru, og dvöldust þar litla hríð síðan.

Þeir Sóti fórust hjá. Sigldi hann aftur til Noregs. Kom hann við Limgarðssíðu og gekk þar á land. Þar mætti hann Ögmundi sveini Gunnhildar.

Ögmundur kenndi Sóta þegar og spyr hann: „Hve lengi ætlar þú hér að vera?“

„Þrjár nætur,“ segir Sóti.

„Hvert ætlar þú þá?“ sagði Ögmundur.

„Vestur til Englands,“ segir Sóti, „og koma aldrei til Noregs meðan ríki Gunnhildar er.“

Ögmundur gekk þá í braut og fer á fund Gunnhildar því að hún var þaðan skammt á veislu og Guðröður sonur hennar. Ögmundur sagði Gunnhildi frá ætlan Sóta. En hún bað þegar Guðröð son sinn fara og taka Sóta af lífi.

Guðröður fór þegar og kom á óvart Sóta og lét leiða hann á land upp og festa þar upp en tók fé allt og færði móður sinni. Hún fékk til menn að færa allt féið á land upp og austur til Konungahellu og fór sjálf þangað.

Hrútur hélt aftur um haustið og hafði fengið fjár mikils og fór þegar á fund konungs og hafði af honum góðar viðtökur. Hann bauð þeim að hafa slíkt af fénu sem þeir vildu en konungurinn tók af þriðjunginn. Gunnhildur segir Hrúti að hún hafði tekið erfðina en látið drepa Sóta. Hann þakkaði henni og gaf henni allt hálft við sig.