Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/4

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
4. kafli


Um vorið spurði hann til Sóta að hann var farinn suður til Danmerkur með erfðina. Þá gekk Hrútur á fund Gunnhildar og segir henni frá ferðum Sóta.

Gunnhildur mælti: „Eg mun fá þér tvö langskip skipuð mönnum og þar með hinn hraustasta mann, Úlf óþveginn, gestahöfðingja vorn. En þó gakk þú að finna konung áður þú farir.“

Hrútur gerði svo. Og er hann kom fyrir konung þá segir hann konungi um ferð Sóta og það með að hann ætlar eftir honum að halda.

Konungur mælti: „Hvern styrk hefir móðir mín til lagið með þér?“

Hrútur svarar: „Langskip tvö og fyrir liðinu Úlf óþveginn.“

Konungur mælti: „Vel er þar til fengið. Nú vil eg fá þér önnur tvö langskip og munt þú þó þurfa þessa liðs alls.“

Síðan fylgdi hann Hrúti til skips og mælti: „Farist þér nú vel.“

Síðan sigldi Hrútur liði sínu suður.