Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/86

Úr Wikiheimild
Ótitlað


Síðan fór jarl suður með herinn og var Kári í för með honum og svo Njálssynir. Þeir komu suður við Katanes. Jarl átti þessi ríki í Skotlandi: Ros og Mýræfi, Syðrilönd og Dali. Komu þar að móti þeim menn af þeim ríkjum og sögðu að jarlar voru þaðan skammt í braut með her mikinn. Þá snýr Sigurður jarl þangað herinum og heitir þar Dungalsgnípa er fundurinn var fyrir ofan. Laust þegar í bardaga mikinn með þeim. Skotar höfðu látið fara sumt liðið laust og kom það í opna skjöldu jarlsmönnum og varð þar mannfall mikið þar til er þeir Njálssynir sneru í móti þeim og börðust við þá og komu þeim á flótta. Verður þá þó bardaginn harður. Snúa þeir Grímur og Helgi þá fram hjá merkinu jarls og berjast hið djarflegasta. Nú snýr Kári í móti Melsnata jarli. Melsnati skaut spjóti að Kára. Kári henti og skaut aftur spjótinu og í gegnum jarlinn. Þá flýði Hundi jarl en þeir ráku flóttann allt þar til er þeirspurðu til Melkólfs Skotakonungs að hann dró her saman í Dungalsbæ. Átti jarl þá ráð við menn sína og sýndist það öllum ráð að snúa aftur og berjast eigi við svo mikinn landher. Sneru þeir þá aftur.

En er jarl kom í Straumey skipti hann þar herfangi. Síðan fór hann norður til Hrosseyjar. Njálssynir fylgdu honum og Kári. Jarl gerði þá veislu mikla og að þeirri veislu gaf jarl Kára sverð gott og spjót gullrekið en Helga gullhring og skikkju en Grími skjöld og sverð. Eftir það gerði hann þá hirðmenn sína Grím og Helga og þakkaði þeim framgöngu góða.

Þeir voru með jarli þann vetur og um sumarið þar til er Kári fór í hernað. Þeir fóru með honum. Þeir herjuðu víða um sumarið og fengu hvervetna sigur. Þeir börðust við Guðröð konung úr Mön og sigruðu hann og fóru við það aftur og höfðu fengið mikið fé. Voru þeir með jarli um veturinn og sátu þar í góðu yfirlæti.

Um vorið beiddust þeir Njálssynir að fara til Noregs. Jarl mælti að þeir skyldu fara sem þeim líkaði og fékk þeim gott skip og röskva menn. Kári sagði þeim að hann mundi þetta sumar koma til Noregs með skatta Hákonar jarls og „munum vér þá þar finnast,“ segir Kári. Og á það sammæltust þeir að finnast þar.

Síðan létu þeir Njálssynir út og sigldu til Noregs og komu norður við Þrándheim. Dvöldust þeir þar.