Brennu-Njáls saga/89

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
89. kafli

Nú er þar til máls að taka er Hákon jarl missti Þráins. Hann mælti þá við Svein son sinn: „Tökum langskip fjögur og förum að Njálssonum og drepum þá því að þeir munu vitað hafa með Þráni.“

„Það er eigi gott ráð,“ segir Sveinn, „að snúa sökum á óvalda menn en láta þann undan setja er sökina ber á baki.“

„Eg skal þessu ráða,“ segir jarl.

Halda þeir nú eftir Njálssonum og leita þeirra og finna þá undir eyjunni.

Grímur sá fyrst skip jarlsins og mælti til Helga: „Herskip fara hér og kenni eg að hér fer jarl og mun hann oss engan frið bjóða.“

„Það er mælt,“ segir Helgi, „að hver sé vaskur er sig ver við hvern sem hann á um. Skulum vér og verja oss.“

Allir báðu hann fyrir sjá. Tóku þeir þá vopn sín.

Jarl kemur nú að og kallaði á þá og bað þá upp gefast. Helgi svarar að þeir mundu verjast meðan þeir mættu. Jarl bauð öllum grið, þeim er eigi vildu verja hann, en svo var Helgi vinsæll að allir vildu heldur deyja með honum. Jarl sækir nú að og hans menn en hinir verjast vel og voru þeir Njálssynir þar jafnan sem mest var raunin. Jarl bauð þeim oft griðin. Þeir svöruðu jafnan hinu sama og kváðust aldrei upp skyldu gefast. Þá sótti að þeim fast Áslákur úr Langeyju, lendur maður jarls, og komst upp á skipið þremur sinnum.

Þá mælti Grímur: „Þú sækir fast að og væri vel að þú hefðir erindi.“

Grímur þreif þá upp spjót og skaut undir kverk Ásláki og hafði hann þegar bana. Litlu síðar vó Helgi Egil merkismann jarls. Þá sótti að Sveinn Hákonarson og lét bera að þeim skjöldu og urðu þeir þá handteknir báðir Njálssynir.

Jarl vildi þegar láta drepa þá en Sveinn kvað það eigi skyldu og sagði að væri nótt.

Þá mælti jarl: „Drepið þá á morgun en bindið þá rammlega í nótt.“

„Svo mun vera verða,“ segir Sveinn, „en eigi hefi eg vaskari menn fyrir fundið en þessa og er það hinn mesti mannskaði að taka þá af lífi.“

Jarl mælti: „Þeir hafa drepið tvo hina vöskustu vora menn og skulum vér þeirra svo hefna að þessa skal drepa.“

„Menn voru þeir að vaskari,“ segir Sveinn, „en þó mun þetta gera verða sem þú vilt.“

Voru þeir þá bundnir og fjötraðir.

Eftir það sofnaði jarl og hans menn. En er þeir voru sofnaðir mælti Grímur til Helga: „Braut vildi eg komast ef eg mætti.“

„Leitum í nokkurra bragða þá,“ segir Helgi.

Grímur segir að þar nær honum liggur öx og horfir upp eggin. Grímur skreið þangað til og fær skorið af sér bogastrenginn við öxinni en þó fékk hann sár mikil í höndunum. Þá leysti hann Helga. Eftir það skreiddust þeir fyrir borð og komust á land svo að þeir jarl urðu ekki varir við. Þeir brutu af sér fjötrana og gengu annan veg á eyna. Tók þá að morgna. Þeir fundu þar skip og kenndu að þar var kominn Kári Sölmundarson. Fóru þeir þegar á fund hans og sögðu honum hrakning sína og sýndu honum sár sín og kváðu þá mundi jarl í svefni.

Kári mælti: „Illa verður slíkt er þeir skulu taka hrakningar fyrir vonda menn er saklausir eru eða hvað er nú gert næst skapi ykkru?“

„Fara að jarli,“ sögðu þeir, „og drepa hann.“

„Ekki mun oss þess auðið verða.“ segir Kári, „en ekki skortir ykkur áhuga. En þó skulum vér vita hvort hann er þar nú.“

Síðan fóru þeir þangað og var þá jarl í brautu.

Þá fór Kári inn til Hlaða á fund jarls og færði honum skatta sína.

Jarl mælti: „Hefir þú tekið Njálssonu til þín?“

„Svo er víst,“ segir Kári.

„Vilt þú selja mér þá?“ segir jarl.

„Það vil eg eigi,“ sagði Kári.

„Vilt þú sverja þess að þú vildir eigi að mér fara eftir?“ segir jarl.

Þá mælti Eiríkur jarlsson: „Ekki er slíks að leita. Hefir Kári jafnan verið vinur vor. Og skyldi eigi svo farið hafa ef eg hefði við verið. Njálssynir skyldu öllu hafa haldið heilu en hinir skyldu hafa haft refsing er til höfðu gert. Þætti mér nú sannlegra að gefa Njálssonum sæmilegar gjafar fyrirhrakningar þær er þeir hafa haft og sárafar.“

Jarl mælti: „Svo mundi vera víst en eigi veit eg hvort þeir munu taka vilja sættir.“

Þá mælti jarl við Kára að hann skyldi leita um sættir við þá Njálssonu. Síðan ræddi Kári við Helga hvort hann vildi taka sæmdir af jarli.

Helgi svaraði: „Taka vil eg af syni hans, Eiríki, en eg vil ekki eiga um við jarl.“

Þá segir Kári Eiríki svör þeirra bræðra.

„Svo skal þá vera,“ segir Eiríkur, „að þeir skulu af mér taka sæmdina ef þeim þykir það betra og segið þeim það að eg býð þeim til mín og skal faðir minn ekki mein gera þeim.“

Þetta þágu þeir og fóru til Eiríks og voru með honum þar til er Kári var búinn vestur að sigla. Þá gerði Eiríkur Kára veislu og gaf honum góðar gjafar og svo Njálssonum.

Síðan fóru þeir Kári vestur um haf á fund Sigurðar jarls og tók hann við þeim allvel og voru með jarli um veturinn.

En um vorið bað Kári Njálssonu að þeir færu í hernað með honum en Grímur kveðst það mundu gera ef hann vildi þá fara með þeim til Íslands. Kári hét því. Fóru þeir þá með honum í hernað. Þeir herjuðu suður um Öngulseyjar og allar Suðureyjar. Þá héldu þeir til Saltíris og gengu þar upp og börðust við landsmenn og fengu þar fé mikið og fóru til skipa. Þaðan fóru þeir suður til Bretlands og herjuðu þar. Þá héldu þeir til Manar. Þar mættu þeir Guðröði konungi úr Mön og börðust þeir við hann og höfðu sigur og drápu Dungal son konungs. Þar tóku þeir fé mikið. Þaðan héldu þeir norður til Kolu og fundu þar Gilla jarl og tók hann við þeim vel og dvöldust þeir með honum nokkura hríð. Jarl fór með þeim til Orkneyja á fund Sigurðar jarls. En um vorið gifti Sigurður jarl Gilla jarli Nereiði systur sína. Fór hann þá í Suðureyjar.