Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/90

Úr Wikiheimild

Snið:Header

Þetta sumar bjuggust þeir Kári og Njálssynir til Íslands. Og þá er þeir voru albúnir gengu þeir á fund jarls. Hann gaf þeim góðar gjafar og skildu þeir með mikilli vináttu.

Láta þeir nú í haf. Þeir hafa útivist skamma og gaf þeim vel byri og komu við Eyrar. Þeir fengu sér hesta og ríða frá skipi og riðu til Bergþórshvols. En er þeir komu heim urðu allir menn þeim fegnir. Þeir fluttu heim fé sitt og réðu skipi til hlunns.

Þar var Kári þann vetur með Njáli.

En um vorið bað Kári Helgu dóttur Njáls og fluttu þeir Grímur og Helgi með honum og lauk svo að hún var föstnuð Kára og var ákveðið á brúðlaupsstefnu og var boðið hálfum mánuði fyrir mitt sumar. Voru þau með Njáli þann vetur. En um vorið keypti Kári land að Dyrhólmum austur í Mýrdal og gerði þar bú. Þau fengu þar fyrir ráðamann og ráðakonu en þau voru með Njáli jafnan.