Brennu-Njáls saga/91
Hrappur átti bú á Hrappstöðum en þó var hann jafnan að Grjótá og þótti hann þar öllu spilla. Þráinn var vel til hans.
Einu hverju sinni var það þá er Ketill úr Mörk var að Bergþórshvoli, þá sögðu Njálssynir frá hrakningum sínum og kváðust mikið eiga að heimta að Þráni nær sem þeir töluðu til. Njáll sagði að það væri best að Ketill talaði til við Þráin bróður sinn.
Hann hét því. Gáfu þeir Katli tómstund til að tala við Þráin.
Litlu síðar innti Ketill til við Þráin. Njálssynir fréttu Ketil en hann kveðst fátt mundu frá herma orðum þeirra „en það fannst á að Þráni þótti eg mikils virða mágsemd við yður.“
Síðan hættu þeir talinu og þóttust þeir sjá að erfiðlega horfði og spurðu föður sinn ráðs hversu með skyldi fara, kváðust eigi una að svo búið stæði.
Njáll svaraði: „Eigi er slíkt svo óvant. Það mun þykja um sakleysi ef þeir eru drepnir og er það mitt ráð að skjóta að sem flestum um að tala við þá, að sem flestum verði heyrinkunnigt ef þeir svara illa og skal Kári um tala því að hann er skapdeildarmaður. Mun þá vaxa óþokki með yður því að þeir munu hlaða illyrðum saman er menn eiga hlut að. Þeir eru menn heimskir. Það kann og vera að mælt sé að synir mínir séu seinir til aðgerða og skuluð þér það þola um stundarsakir því að allt orkar tvímælis þá er gert er. En svo fremi skuluð þér orði á koma er þér ætlið nokkuð að að gera ef yðvar er illa leitað. En ef þér hefðuð við mig um ráðið í fyrstu þá mundi aldrei orði á hafa verið komið og mundi yður þá engi svívirðing að verða. En nú hafið þér af hina mestu raun og mun það þó svo aukanda fara um yðra svívirðing að þér munuð ekki fá að gert fyrr en þér leggið vandræði á yður og vegið með vopnum og er því langa nót til að draga.“
Eftir það hættu þeir talinu og varð hér margs manna umræða á.
Einu hverju sinni var það að þeir bræður töluðu til að Kári mundi fara til Grjótár. Kári kveðst önnur ferð þykja betri en þó læst hann fara mundu við það er þetta voru ráð Njáls. Síðan fer Kári til fundar við Þráin. Tala þeir þá um málið og þykir þeim eigi einn veg báðum. Kári kemur heim og spyrja Njálssynir hversu orð fóru með þeim Þráni.
Kári kvaðst ekki herma mundu orð þeirra „því að mér er von að mælt sé slíkt svo að þér heyrið.“
Þráinn hafði sextán karla víga á bæ sínum og riðu átta með honum hvert er hann fór. Þráinn var skrautmenni mikið. Hann reið jafnan í blárri kápu og hafði gylltan hjálm og spjót í hendi jarlsnaut og fagran skjöld og gyrður sverði. Með honum var jafnan í för Gunnar Lambason og Lambi Sigurðarson og Grani son Gunnars frá Hlíðarenda. Víga-Hrappur gekk honum þó næst jafnan. Loðinn hét og heimamaður hans. Hann var og í ferðum með Þráni. Tjörvi hét bróðir Loðins er enn var í ferðum með Þráni. Þeir lögðu verst til þeirra Njálssona Víga-Hrappur og Grani Gunnarsson og ollu því mest er þeim var engi sæmd ger eða boðin.
Synir Njáls ræddu nú um við Kára að hann mundi fara með þeim til Grjótár. Og það gerði hann og kvað það vel að þeir heyrðu svör Þráins. Bjuggust þeir þá fjórir Njálssynir og Kári hinn fimmti. Þeir fara til Grjótár. Þar var anddyri breitt og máttu margir menn standa jafnfram.
Kona ein var úti og sá ferð þeirra og segir Þráni. Hann bað menn ganga í anddyrið og taka vopn sín. Þeir gerðu svo. Stóð Þráinn í miðjum dyrum en þeir stóðu til sinnar handar hvor Víga-Hrappur og Grani Gunnarsson, þar næst Gunnar Lambason, þá Loðinn og Tjörvi, þá Lambi Sigurðarson, þá hver að hendi því að karlar voru allir heima.
Þeir Skarphéðinn ganga að neðan og gekk hann fyrstur, þá Kári, þá Höskuldur, þá Grímur, þá Helgi. En er þeir koma að dyrunum féllust þeim allar kveðjur er fyrir voru.
Þá mælti Skarphéðinn: „Allir séum vér velkomnir.“
Hallgerður stóð í anddyrinu og hafði talað hljótt við Hrapp. Hún mælti: „Það mun engi mæla sá er fyrir er að þér séuð velkomnir.“
Skarphéðinn mælti: „Ekki munu mega orð þín því að þú ert annaðhvort hornkerling eða púta.“
„Goldin skulu þér þessi orð áður þú ferð heim,“ segir Hallgerður.
Helgi mælti: „Þig er eg kominn að finna Þráinn ef þú vilt geramér sæmd nokkura fyrir hrakningar þær er eg hlaut í Noregifyrir þínar sakir.“
Þráinn mælti: „Aldrei vissi eg að þið bræður munduð gera drengskap ykkarn til fjár eða hversu lengi skal fjárbón sjá yfir standa?“
„Það munu margir mæla,“ segir Helgi, „að þú ættir að bjóða sæmdina þar sem líf þitt lá við.“
Þá mælti Hrappur: „Þar gerði nú gæfumuninn er sá hlaut skellinn er skyldi og dró yður undir hrakningina en oss undan.“
„Lítil var það gæfa,“ segir Helgi „að bregða trúnaði sínum við jarl en taka þig við.“
„Þykist þú eigi að mér eiga bótina?“ segir Hrappur. „Eg mun bæta þér því sem mér þykir maklegt.“
„Þau ein skipti munum við við eigast,“ segir Helgi, „að þér mun ekki betur gegna.“
Skarphéðinn mælti: „Skiptið ekki orðum við Hrapp en gjaldið honum rauðan belg fyrir grán.“
Hrappur mælti: „Þegi þú Skarphéðinn, ekki skal eg spara að bera mína öxi að höfði þér.“
„Reynt mun slíkt verða,“ segir Skarphéðinn, „hver grjóti hleður að höfði öðrum.“
„Farið heim taðskegglingar,“ segir Hallgerður, „og munum vér yður svo jafnan kalla héðan í frá en föður yðvarn karl hinn skegglausa.“
Þeir fóru eigi fyrr heim en allir urðu sekir þessa orða, þeir er fyrir voru, nema Þráinn. Hann þekti menn af orðum þessum.
Þeir fóru í braut Njálssynir og fóru þar til er þeir komu heim. Þeir sögðu föður sínum.
„Nefnduð þér nokkura votta að orðunum?“ segir Njáll.
„Enga,“ sagði Skarphéðinn, „vér ætlum ekki að sækja þetta nema á vopnaþingi.“
„Það mun engi nú ætla,“ segir Bergþóra, „að þér þorið handa að hefja.“
„Haf þú lítinn við húsfreyja,“ segir Kári, „að eggja sonu þína því að þeir munu þó ærið framgjarnir.“
Eftir það tala þeir lengi hljótt allir feðgar og Kári.