Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/97

Úr Wikiheimild

Snið:Header

Nú er þar til máls að taka að Njáll talaði við Höskuld fóstra sinn: „Ráðs vildi eg þér leita fóstri og kvonfangs.“

Höskuldi kveðst það vel að skapi og bað hann fyrir sjá „eða hvar vilt þú helst á leita?“

Njáll svarar: „Kona heitir Hildigunnur og er Starkaðardóttir Þórðarsonar Freysgoða. Þann veit eg kost bestan.“

Höskuldur mælti: „Sjá þú einn fyrir fóstri minn. Það skal mitt ráð sem þú vilt vera láta.“

„Hér munum við á leita,“ segir Njáll.

Litlu síðar kvaddi Njáll menn til ferðar með sér. Fóru þeir Sigfússynir og synir Njáls allir og Kári Sölmundarson. Þeir ríða austur til Svínafells. Fá þeir þar góðar viðtökur.

Um daginn eftir ganga þeir Njáll of Flosi á tal.

Þar koma niður ræður Njáls að hann segir svo: „Það er erindi mitt hingað að vér förum bónorðsför og mælum til mægða við þig Flosi en til eiginorðs við Hildigunni bróðurdóttur þína.“

„Fyrir hvers hönd?“ segir Flosi.

„Fyrir hönd Höskulds Þráinssonar fóstra míns,“ segir Njáll.

„Vel er slíkt stofnað,“ segir Flosi, „en þó hafið þér mikið í hættu hvorir við aðra eða hvað segir þú frá Höskuldi?“

„Gott má eg frá honum segja,“ segir Njáll, „og skal eg svo fé til leggja að yður þyki sæmilega ef þér viljið þetta mál að álitum gera.“

„Kalla munum vér á hana,“ segir Flosi, „og vita hversu henni lítist maðurinn.“

Var þá sent eftir henni og kom hún þangað.

Flosi segir henni bónorðið.

Hún kvaðst vera kona skapstór „og veit eg eigi hversu mér er hent við það er þar eru svo menn fyrir en það þó eigi síður að sjá maður hefir ekki mannaforráð. Og hefir þú það mælt að þú mundir eigi gifta mig goðorðslausum manni.“

„Það er ærið eitt til,“ segir Flosi, „ef þú vilt eigi giftast Höskuldi að þá mun eg engan kost á gera.“

„Það mæli eg eigi,“ segir hún, „að eg vilji eigi giftast Höskuldi ef þeir fá honum mannaforráð. En ellegar mun eg engan kost á gera.“

Njáll mælti: „Þá vil eg bíða láta mín um þetta mál þrjá vetur.“

Flosi svaraði að svo skyldi vera.

„Þann hlut vildi eg til skilja,“ segir Hildigunnur, „ef þessi ráð tækjust að við værum austur hér.“

Njáll kvaðst það vilja skilja undir Höskuld en Höskuldur kvaðst mörgum vel trúa en engum betur en fóstra sínum.

Nú ríða þeir austan.

Njáll leitaði Höskuldi um mannaforráð og vildi engi selja sitt goðorð.

Líður nú sumarið til Alþingis. Þetta sumar voru þingdeildir miklar. Gerði þá margur sem vant var að fara til fundar við Njál en hann lagði það til mála manna sem ekki þótti líklegt að eyddust sóknir og varð af því þræta mikil er málin máttu eigi lúkast og riðu menn heim af þingi ósáttir.

Líður nú þar til er kemur annað þing. Njáll reið til þings. Og er fyrst kyrrt þingið allt þar til er Njáll talar að mönnum væri mál að lýsa sökum sínum.

Margir mæltu að til lítils þætti það koma er engi kæmi sínu máli fram þó að til alþingis væri stefnt „og viljum vér heldur,“ segja þeir, „heimta vort mál með oddi og eggju.“

„Svo má eigi vera,“ segir Njáll, „og hlýðir það hvergi að hafa eigi lög í landi. En þó hafið þér mikið til yðvars máls um það og kemur það til vor er lögin kunnum og þeim skulum stýra. Þykir mér það ráð að vér köllumst saman allir höfðingjar og tölum um.“

Þeir gengu þá til lögréttu.

Njáll mælti: „Þig kveð eg að þessu Skafti Þóroddsson og aðra höfðingja að mér þykir sem málum vorum sé komið í ónýtt efni ef vér skulum sækja mál í fjórðungsdómum og verði svo vafið að eigi megi lúkast né fram ganga. Þykir mér það ráðlegast að vér ættum hinn fimmta dóm og sæktum þar þau mál er eigi mega lúkast í fjórðungsdómi.“

„Hversu skalt þú,“ sagði Skafti, „nefna fimmtardóminn, er fyrir forn goðorð er nefndur fjóðungsdómur, þrennar tylftir úr fjórðungi hverjum?“

„Sjá mun eg ráð til þess,“ segir Njáll, „að taka upp ný goðorð, þeir er best eru til fallnir úr fjórðungi hverjum, og segist þeir í þing með þeim er það vilja.“

„Þennan kost viljum vér,“ segir Skafti, „eða hversu vandar sóknir skulu hér vera?“

„Þau mál skulu hér í koma,“ segir Njáll, „um alla þingsafglöpun ef menn bera ljúgvitni eða ljúgkviðu. Hér skulu og í koma vefangsmál öll þau er menn vefengja í fjórðungsdómi og skal þeim stefna til fimmtardóms. Svo og ef menn bjóða fé eða taka fé til liðs sér og innihafnir þræla eða skuldarmanna. Í þessum dómi skulu vera allir hinir styrkjustu eiðar og fylgja tveir menn hverjum eiði er það skulu leggja undir þegnskap sinn er hinir sverja. Svo skal og ef annar fer með rétt mál en annar með rangt, þá skal eftir þeim dæma er rétt fara að sókn. Hér skal og sækja hvert mál sem í fjóðungsdómi utan það er nefndar eru fernar tylftir í fimmtardóm, þá skal sækjandi nefna sex menn úr dómi en verjandi aðra sex. En ef hann vill eigi úr nefna þá skal sækjandi nefna þá úr sem hina sem verjandi átti. En ef sækjandi nefnir eigi úr þá er ónýtt málið því að þrennar tylftir skulu um dæma. Vér skulum og hafa þá lögréttuskipun að þeir er sitja á miðjum pöllum skulu réttir að ráða fyrir lofum og lögum og skal þá velja til þess er vitrastir eru og best að sér. Þar skal og vera fimmtardómur. En ef þeir verða eigi á sáttir er í lögréttu sitja hvað þeir vilja lofa eða í lög leiða, þá skulu þeir ryðja lögréttu til og skal ráða afl með þeim. En ef sá er nokkur fyrir utan lögréttu að eigi nái inn að ganga eða þykist borinn vera máli þá skal hann verja lýriti svo að heyri í lögréttu og hefir hann þá ónýtt fyrir þeim öll lof þeirra og allt það er þeir mæltu til lögskila og varði lýriti.“

Eftir það leiddi Skafti Þóroddsson í lög fimmtardóm og allt þetta er nú var talið. Eftir það gengu menn til Lögbergs. Tóku menn þá upp ný goðorð. Í Norðlendingafjórðungi voru þessi ný goðorð: Melmannagoðorð í Miðfirði og Laufæsingagoðorð í Eyjafirði.

Þá kvaddi Njáll sér hljóðs og mælti: „Það er mörgum mönnum kunnigt hversu farið hefir með oss sonum mínum og Grjótármönnum að þeir drápu Þráin Sigfússon en var sæst á málið og eg tók við Höskuldi syni Þráins. Hefi eg nú ráðið honum kvonfang ef hann fær goðorð nokkuð en engi vill selja sitt goðorð. Vil eg nú biðja yður að þér leyfið að eg taki upp nýtt goðorð á Hvítanesi til handa Höskuldi.“

Hann fékk það lof af öllum. Tekur Njáll nú upp goðorðið til handa Höskuldi og var hann síðan kallaður Höskuldur Hvítanesgoði.

Eftir þetta ríða menn heim af þingi.

Njáll dvaldist skamma stund heima áður hann reið austur til Svínafells og synir hans og Höskuldur og vekur bónorðið við Flosa en hann kveðst efna mundu öll mál við þá. Var þá Hildigunnur föstnuð Höskuldi og kveðið á brúðlaupsstefnu og lýkur svo með þeim. Ríða þeir þá heim.

En í annað sinn riðu þeir til brúðlaups. Leysti Flosi út allt fé Hildigunnar eftir boðið og greiddi vel af hendi. Fóru þau til Bergþórshvols og voru þar þau misseri og fór allt vel með þeim Hildigunni og Bergþóru. Um vorið eftir keypti Njáll land í Ossabæ og fær það Höskuldi og fer hann þangað byggðum sínum. Njáll réð honum hjón öll. Og svo var dátt með þeim öllum saman að engum þótti ráð ráðið nema þeir réðu allir um. Bjó Höskuldur í Ossabæ lengi svo að hvorir studdu annarra sæmd og voru synir Njáls í ferðum með Höskuldi. Svo var ákaft um vináttu þeirra að hvorir buðu öðrum heim hvert haust og gáfu stórgjafar. Fer svo lengi fram.