Brennu-Njáls saga/99

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Brennu-Njáls saga
99. kafli

Nú er að segja frá þeim Skarphéðni að þeir stefna upp til Rangár.

Skarphéðinn mælti: „Stöndum vér nú og hlýðum til.“

Þeir gerðu svo.

Síðan mælti hann: „Förum vér nú hljótt því að eg heyri mannamál upp með ánni. Eða hvort viljið þið heldur eiga við Lýting einn eða við bræður hans báða?“

Þeir kváðust heldur vilja eiga við Lýting einn.

„Í honum er þó veiðurin meiri,“ segir Skarphéðinn, „og þykir mér illa ef undan ber en eg treysti mér best um að eigi dragi undan.“

„Til skulum við svo stefna,“ segir Helgi, „ef við komumst í færi að eigi reki undan.“

Síðan gengu þeir þangað sem Skarphéðinn hafði heyrt mannamálið og sjá hvar þeir Lýtingur eru við læk einn. Skarphéðinn hleypur þegar yfir lækinn og í melbakkann öðrum megin. Þar stóð Hallgrímur á uppi og þeir bræður. Skarphéðinn höggur á lærið Hallgrími svo að þegar tók undan fótinn en þrífur Hallkel annarri hendi. Lýtingur lagði til Skarphéðins. Helgi kom þá að og brá við skildinum og kom þar í lagið. Lýtingur tók upp stein og laust Skarphéðin og varð Hallkell laus. Hallkell hleypur þá upp á melbakkann og kemst eigi á upp annan veg en hann skýtur niður knjánum. Skarphéðinn slæmir til hans öxinni Rimmugýgi og höggur í sundur í honum hrygginn. Lýtingur snýr nú undan en þeir Grímur og Helgi eftir og kemur sínu sári á hann hvor þeirra. Lýtingur kemst út á ána undan þeim og svo til hrossa og hleypir til þess er hann kemur í Ossabæ. Höskuldur var heima. Lýtingur finnur hann þegar og segir honum verkin.

„Slíks var þér von,“ segir Höskuldur, „þú fórst rasandi mjög. Mun hér sannast það sem mælt er að skamma stund verður hönd höggi fegin. Þykir mér sem þér þyki nú ísjávert hvort þú munt fá haldið þig fyrir Njálssonum.“

„Svo er víst,“ segir Lýtingur, „að eg komst nauðulega undan en þó vildi eg nú að þú kæmir mér í sætt við Njál og sonu hans og mætti eg halda búi mínu.“

„Svo skal vera,“ segir Höskuldur.

Síðan lét Höskuldur söðla hest sinn og reið til Bergþórshvols við hinn sétta mann. Þá voru synir Njáls heima komnir og höfðu lagst til svefns. Höskuldur fór þegar að finna Njál og gengu þeir á tal.

Höskuldur mælti til Njáls: „Hingað er eg kominn að biðja fyrir Lýtingi mági mínum. Hefir hann stórt af gert við yður, rofið sætt og drepið son þinn.“

Njáll mælti: „Lýtingur mun þykjast mikið afhroð goldið hafa í láti bræðra sinna. En ef eg geri nokkurn kost á þá mun eg þín láta að njóta og mun eg þó það skilja fyrir sættina að bræður Lýtings skulu óhelgir fallið hafa. Lýtingur skal og ekki hafa fyrir sár sín en bæta Höskuld fullum bótum.“

„Það vil eg,“ segir Höskuldur, „að þú einn dæmir.“

Njáll svarar: „Það mun eg nú gera sem þú vilt.“

„Vilt þú nokkuð,“ segir Höskuldur, „að synir þínir séu við?“

Njáll svarar: „Ekki mun þá nær sættinni en áður en halda munu þeir þá sætt er eg geri.“

Þá mælti Höskuldur: „Lúkum við þá málinu og sel þú Lýtingi grið fyrir sonu þína.“

„Svo skal vera,“ segir Njáll.

„Það vil eg,“ segir Njáll, „að Lýtingur gjaldi tvö hundruð silfurs fyrir víg Höskulds en búi á Sámsstöðum og þykir mér þó ráðlegra að hann selji land sitt og ráðist í braut. En eigi fyrir því, ekki mun eg rjúfa tryggðir á honum né synir mínir. En þó þykir mér vera mega að nokkur rísi sá upp í sveit að honum sé viðsjávert. En ef svo þykir sem eg geri hann héraðssekan þá leyfi eg að hann sé hér í sveit en hann ábyrgist mestu til.“

Síðan fór Höskuldur heim.

Þeir vöknuðu Njálssynir og spurðu föður sinn hvað komið hefði en hann sagði þeim að Höskuldur var þar, fóstri hans.

„Hann mundi biðja fyrir Lýtingi,“ segir Skarphéðinn.

„Svo var,“ segir Njáll.

„Það var illa,“ segir Grímur.

„Ekki mundi Höskuldur hafa skotið skildi fyrir hann,“ segir Njáll, „ef þú hefðir drepið hann þá er þér var ætlað.“

„Teljum vér ekki á föður vorn,“ segir Skarphéðinn.

Nú er að segja frá því að sætt þessi helst með þeim síðan.