Fara í innihald

Galdra-Loftur: leikrit í þremur þáttum/Fyrsti þáttur

Úr Wikiheimild
Galdra-Loftur (1915)
Höfundur: Jóhann Sigurjónsson
Fyrsti þáttur


FYRSTI ÞÁTTUR


Hólar í Hjaltadal. Stofa ráðsmannsins. Rökkur. Tveir gluggar. Túnið, sem hallar niður að ánni, og hálsar fyrir handan ána sjást óglögt gegnum gluggana. Fyrir leiksviðinu miðju, milli glugganna, stendur fornt skatol. Lokrekkja í horninu hægra megin. Borð, bekkir og stólar. Ljósastjakar, strokkkerti. Mikil og vönduð dragkista upp við þilið hægra megin. Bókahilla. Hægra megin, fremst á leiksviðinu, dyr frá göngunum. Minni dyr á miðju þili vinstra megin. Sunnudagskvöld. Sex ölmusumenn, sumir sitja, sumir eru á rjátli.

Fyrsti ölmusumaður

segir frá.

„Jeg bið þig ekki um vísdóm, því af honum hef jeg nóg sjálfur, en nú bið jeg þig um miskun þína.“

Annar ölmusumaður

Voru það seinustu orðin hans?

Fyrsti ölmusumaður

Já. Það voru seinustu orðin hans.

Annar ölmusumaður

Við vorum aðkomumenn á sama bæ, þegar jeg sá hann í fyrsta skifti. Hann sat á rúmstokk, með pokann sinn á bakinu.

Landshorna-flakkarinn

Hvaða maður var það? Jeg er ókunnugur í þessum landsfjórðungi.

Þriðji ölmusumaður

Það var aumingi. Ef hann bæri ekki poka á bakinu, hjelt hann, að hann mundi steypast á höfuðið, af því að það væri svo þungt af vísdómi.

Landshorna-flakkarinn

hlær.

Hann hefði verið gaman að sjá.

Fjórði ölmusumaður

Þjer hefði ekki komið hlátur í hug, hefðir þú sjeð hann. Þeir, sem eru veikir á sinninu, verðskulda öðrum fremur að vera guðs ölmusur.

Fimti ölmusumaður

hefur horft út um gluggann.

Áin fer sívaxandi. Það hlýtur að hafa rignt feiknin öll upp til fjallanna.

Tíu ára gömul telpa leiðir blindan ölmusumann inn. Hann heldur á litlum bögli undir handleggnum.

Blindi ölmusumaðurinn

Guð blessi ykkur.

Ölmusumennirnir

Guð blessi þig

Bindi ölmusumaðurinn víkur til vinstri.

Telpan

Hingað, afi minn.

Blindi ölmusumaðurinn

Það er af gömlum vana, dóttir mín — frá þeim árum, þegar okkur var boðið inn í biskupsstofuna.

Sest.

Hvað erum við margir.

Fjórði ölmusumaður

Við vorum sex fyrir.

Kirkjuklukkurnar hringja.

Fyrsti ölmusumaður

Þetta er önnur hringing. Bráðum kemur herra biskupinn.

Vinnukonan

kemur inn, gengur til telpunnar.

Biskupsfrúin vill finna þig. Hún sá þig og afa þinn úti á hlaðinu.

Telpan

dregur sig feimin í hlje.

Blindi ölmusumaðurinn

Far þú, barnið mitt. Frúin vill þjer ekki annað en alt það besta. Jeg bíð eftir þjer.

Vinnukonan og telpan fara.

Blindi ölmusumaðurinn

Hver stígur í stólinn í kvöld?

Fimti ölmusumaður

Dómkirkjupresturinn.

Blindi ölmusumaðurinn

Þegar herra biskupinn stígur ekki í stólinn, er söngurinn mesta ununin. Oft hefur mig undrað, að annað eins stórhýsi skuli vera jafn-mjúkraddað.

Þögn.

Loftur

kemur inn, svipast um.

Hjer eru þær allar í einum hóp, mögru kýrnar hans Faraós.

Gengur til blinda ölmusumannsins, leggur höndina á öxlina á honum.

Jeg á ekki við þig. Ertu með þetta, sem jeg bað þig um að útvega mjer?

Blindi ölmusumaðurinn

leysir utan af böglinum — gamalli bók í trjespjöldum.

Eigandinn sagði, að bókin væri ekki föl, en hann skyldi ljá þjer hana mánaðartíma, vegna þess að þú ert sonur ráðsmannsins og lærður maður.

Rjettir honum bókina.

Jeg lofaði að færa honum bókina aftur skilvíslega.

Loftur

blaðar í bókinni andartak.

Ef faðir minn spyr eftir mjer, skalt þú segja honum, að jeg sje lasinn og hafi lagt mig út af.

Tekur skilding upp úr vasapyngju sinni.

Hjerna er ofurlítil þóknun fyrir ómakið.

Opnar hurðina til vinstri, fer.

Fyrsti ölmusumaður

gýtur hornauga til hurðarinnar.

Hann á hægt með að skopast að okkur aumingjunum. Hann hefur aldrei þurft að svelta.

Blindi ölmusumaðurinn

Auðæfi eru ekki æfinlega til hamingju. Oft er óánægð lund samfara sífullum maga.

Fyrsti ölmusumaður.

Heyrt hef jeg því fleygt, að hann grúski í fleiri fræðum en þeim, sem lúta að prestskapnum einum. Þú ert ofgóður til að vera erindreki hans.

Blindi ölmusumaðurinn.

Yfir hverju býrðu, sem þú þorir ekki að segja hreinskilnislega?

Fyrsti ölmusumaður

Við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann. Á dögum biskupsins sæla urðu nokkrir lærisveinar skólans uppvísir að því, að fara með galdur. Alt, sem hefur skeð, getur komið fyrir aftur.

Biskupinn í messuskrúða og ráðsmaðurinn kirkjuklæddur koma.

Allir ölmusumennirnir

standa upp.

Guð gefi herra biskupinum langa lífdaga .

Biskupinn

vingjarnlega.

Sitjið þið kyrrir.

Blindi ölmusumaðurinn sest, hinir standa. Ráðsmaðurinn gengur að skatolinu, dregur út skúffu, tekur upp peningastranga.

Biskupinn

jafn-vingjarnlega.

Mjer hefur borist til eyrna, að þið væruð óánægðir með það, hvernig jeg úthlutaði ölmusunum.

Þykir ykkur jeg vera of smágjöfull?

Ölmusumennirnir

Nei, guð hjálpi okkur.

Biskupinn

í jafn-blíðum málrómi.

Ykkur er óhætt að koma til mín með allar ykkar áhyggjur. Hreinskilni er dygð.

Fyrsti ölmusumaður

herðir upp hugann.

Okkur finst einungis, að við, sem komum hjer að staðaldri, sjeum nánara tengdir biskupsstólnum en þeir förumenn, sem rekast hingað stöku sinnum.

Djarfari.

Fer jeg ekki með sannleika?

Allir ölmusumennirnir

nema sá blindi og landshorna-flakkarinn.

Jú.

Þriðji ölmusumaður

Herra biskupinn er jafn gjafmildur við alla.

Biskupinn

Hver ykkar er minst þurfandi? Jeg dreg af hans skerf, og bæti því við hluta þess, sem er aumastur.

Ölmusumennirnir

þegja.

Ráðsmaðurinn

Biskupinn bíður eftir svari.

Rjettir biskupinum peningana.

Fyrsti ölmusumaður

Ekki er jeg minstur þurfamaðurinn, en jeg verðskulda miskunsemi yðar síður en hinir.

Biskupinn

kuldalega.

Jeg spurði ekki um það.

Úthlutar ölmusunum.

Takið þið nú hver sinn skerf, og biðjið guð að uppræta öfundsýkina úr hjörtum ykkar. Farið í friði.

Ölmusumennirnir lúta biskupinum, tauta þakkaryrði, fara.
Blindi maðurinn situr kyr.

Blindi maðurinn

riðar.

Jeg gaf þjer sól og stjörnur, og þú þakkaðir mjer ekki.

Ráðsmaðurinn

skrifar í reikningsbók.

Fengju þeir að ráða, skiftu þeir eignum stólsins á milli sín, án annarar heimildar en öfundarinnar.

Biskupinn

Stóllinn er svo efnum búinn, að guðs ölmusur þurfa ekki að fara hjeðan tómhentir.

Biskupsfrúin kemur, staðnæmist í dyrunum.

Ráðsmaðurinn

Vegabætur og brýr myndu bæta hag bænda og auka tekjur stólsins. Þá gæti farið svo, að stóllinn fengi fjemagn til að byggja nýja kirkju, sem væri hærri undir ris en öll önnur hús á Íslandi.

Biskupinn

Jafnvel sá vesælasti ölmusumaður er musteri guðs, þó að það hrynji fyr en þau, sem bygð eru úr steini.

Biskupsfrúin

Ráðsmaðurinn ber umhyggju fyrir mörgu. Ert þú reiðubúinn að ganga í kirkju?

Biskupinn

Já, jeg er reiðubúinn, elskan mín.

Biskupsfrúin

við blinda manninn.

Tátan þín kemur að vörmu spori, þegar búið er að greiða henni.

Við biskupinn.

Hún minti mig svo mikið á dóttur okkar, þegar hún var á hennar aldri, að mjer datt í hug að gefa henni einn af gömlu kjólunum hennar.

Ráðsmaðurinn

Hvenær er búist við að biskupsdóttirin komi heim?

Biskupsfrúin

án þess að líta við honum.

Við eigum von á henni á hverjum degi.

Biskupinn

ástúðlega.

Þú hlakkar til að sjá hana aftur.

Biskupsfrúin

gengur til dyranna.

Já, þetta hefur verið langt ár, þó að jeg vissi hana í góðra manna höndum.

Þau fara.

Ráðsmaðurinn

lokar skatolinu.

Veist þú, hvort sonur minn hefur verið hjer?

Blindi maðurinn

Hann var hjer rjett áðan. Jeg átti að segja þjer, ef þú spyrðir eftir honum, að hann væri lasinn og hefði lagst útaf.

Ráðsmaðurinn

áhyggjufullur.

Biskupinn saknar hans í kirkjunni.

Opnar hljóðlega hurðina og hvíslar.

Loftur!

Svipurinn verður innilegur. Hann hallar aftur hurðinni, snýr sjer að blinda manninum.

Jeg hef ekki geð í mjer til að vekja hann. Hann hefur efalaust vakað yfir bókunum fram á rauða-nótt.

Brosir.

Hann var kallaður „litli biskupinn“, þegar hann var í bernsku, vegna þess, að hann var svo oft viðutan.

Gengur til dyranna, nemur staðar.

Jeg hitti þig eftir messu.

Fer.

Blindi maðurinn

hlustar eftir fótatakinu, dregur upp stóreflis dröfnóttan vasaklút, skildingum er hnýtt í eitt hornið, hann bætir nýju skildingunum við, situr kyr.

Loftur

kemur inn með bókina í hendinni, sest andspænis blinda manninum, horfir hvast á hann.

Hvað hefur þú verið lengi blindur?

Blindi maðurinn

Jeg hef ferðast nálega fjóra tugi ára í myrkrinu.

Ólafur

Þú hefur vafalaust þrásinnis óskað, að þú fengir aftur sjónina?

Blindi maðurinn

þegir stundarkorn.

Þekkir þú söguna um ferjumanninn og Þorlák helga?

Loftur

Nei.

Blindi maðurinn

Það var um hávetur, í frosti og skafrenningi. Ferjumaðurinn átti að flytja kapeláninn frá Skálholti yfir Hvítá. Þegar hann var kominn yfir ána, sátu þar 10 guðs ölmusur, og báðu um ferju heim til Skálholts. Af góðsemi gaf hann þeim öllum far. Báturinn varð of-hlaðinn og honum hvolfdi. Ferjumaðurinn var skinnvæddur, fötin fyltust af vatni og hann sökk til botns. Hann freistaði að vaða til lands. En þegar hann megnaði ekki að halda lengur niðri í sjer andanum, hjet hann á Þorlák helga, og bað þess, að lík sitt mætti reka á land Skálholts megin. Þá sá hann hönd, sem sópaði vatninu burt frá vitunum á honum. Þetta skeði þrívegis, og ferjumaðurinn náði landi, heill á húfi.

Loftur

Því segir þú mjer þessa sögu?

Blindi maðurinn

Jeg hef þrásinnis óskað, að hönd guðs miskunnar sópaði myrkrinu burtu frá augunum í mjer.

Loftur

röddin logar af ákafa.

Ertu viss um, að ósk þín hafi verið nógu brennandi?

Blindi maðurinn

þegir.

Loftur

Jeg veit, að ósk mannsins getur gert kraftaverk. Hún hefur gert það fyr á tímum og gerir það enn í dag.

Vinnukonan og telpan koma inn. Telpan er í nýjum kjól, vinnukonan heldur á pynkli.

Telpan

hleypur til afa síns.

Findu, afi; jeg hef fengið nýjan, ljómandi fallegan kjól. Það eru kniplingar í hálsmálinu.

Vinnukonan

Já, hún er orðin stássleg. Biskupsfrúin ljet hana fara úr gömlu flíkunum og gaf henni alfatnað.

Blindi maðurinn

Mundirðu eftir að þakka frúnni?

Vinnukonan

Já, hún mundi eftir því.

Loftur

hefur starað forviða á telpuna, gengur til hennar og strýkur á henni kollinn.

En hvað hárið á þjer er silkimjúkt. Viltu vera unnustan mín?

Telpan hniprar sig upp að afa sínum. Loftur brosir.

Ertu feimin?

Tekur upp vasapyngjuna.
Kirkjuklukkurnar hringja.

Vinnukonan

leggur frá sjer pynkilinn.

Nú verðurðu sjálf að sjá um dótið þitt. Jeg verð að flýta mjer í kirkju.

Fer.

Blindi maðurinn

stendur upp.

Við förum líka.

Loftur

heldur á silfurskildingi.

Geymdu hann í vasanum á fallega nýja kjólnum þínum.

Stingur skildinginum niður í vasa hennar.

Telpan

kyssir Loft.

Blindi maðurinn

á leið til dyranna, snýr sjer að Lofti.

Jeg óskaði þangað til, að það varð mjer til syndar. Þegar jeg ljet af að óska, fjekk jeg loksins frið í sálina.

Þau fara.

Loftur

horfir á eftir þeim andartak. Opnar bókina. Hún er í spjaldbindi. Upphafsstafurinn, letraður með rauðu bleki, tekur yfir hálfa síðu. Hann leggur bókina á borðið. Tekur lykil og opnar dragkistuna, krýpur, tekur bækur upp úr dragkistunni og hleður þeim í kringum sig. Er auðsýnilega að leita að einhverju.

Steinunn

kemur inn í dyrnar, í hálfum hljóðum.

Loftur!

Loftur

heyrir ekki.

Steinunn

hærra, sorgbitin.

Loftur!

Loftur

lítur upp. Þegar hann sjer Steinunni, dofnar yfir honum.

Ert það þú?

Steinunn

Bjóstu við einhverjum öðrum ?

Loftur

Jeg hjelt þú værir í kirkju.

Steinunn

Það var sú tíð, að þú þektir fótatakið mitt. Nú þekkir þú ekki einu sinni málróminn minn.

Loftur

Komstu til þess að álasa mjer?

Steinunn

Nei.

Þegir andartak.

Jeg fór í sparifötin mín í dag. Jeg veit, það gleður þig, að jeg sje vel til fara. Horfðu á mig.

Loftur

stendur upp.

Mjer þykir þú fallegust í hversdagsfötunum. Hvað viltu mjer?

Steinunn

alvarleg.

Jeg þarf að tala við þig.

Loftur

Vinnufólkið er farið að stinga saman nefjum, — jeg sje það á þjer.

Steinunn

Nei.

Loftur

Hvað er það þá, sem þú vilt mjer?

Steinunn

gengur þegjandi út að glugganum.

Loftur

gengur á eftir henni, mýkir röddina.

Er það um ókomna tímann?

Steinunn

krotar á rúðuna í leiðslu.

Einu sinni í sumar fanst mjer jeg hafa drýgt stóran glæp. Mjer fanst vera hráslagarökkur í stofunni, eins og það væri hjela á rúðunum. En rómur þinn þíddi hana.

Loftur

hefur staðið og horft á hana.

Heldurðu, að þú myndir sakna mín, ef jeg væri dáinn?

Steinunn

snýr sjer að honum.

Þú veist það.

Loftur

gengur að dragkistunni.

Jeg veit að þú yrðir sorgbitin fyrstu mánuðina. Ef til vill þangað til leiðið væri gróið.

Krýpur aftur niður.

Þó að sár flestra manna grói fyr en sár jarðarinnar.

Hleður fleiri bókum í kringum sig.

Steinunn

með þykkju.

Jeg vildi, jeg mætti brenna öllum bókunum þínum.

Loftur

Hvað hafa þær unnið til saka?

Steinunn

nærgætnislega.

Þú lítur svo þreytulega út. Þú vinnur alt of mikið. Það hefur engin manneskja þol til þess að vinna eins og þú, hvíldarlaust daga og nætur. Þú þarft þess heldur ekki. Jeg hef heyrt rektorinn dást að því, hvað þú værir lærður. Jeg er viss um, að þú gætir lokið náminu í vetur, þó þú litir ekki í bók framar.

Loftur

Það hygg jeg líka sjálfur.

Steinunn

En það geturðu ekki, ef þú ofbýður þjer og missir heilsuna. Þú ættir að minsta kosti ekki að neita þjer um svefn.

Loftur

í miðjum bókahlaðanum.

Því meira sem jeg les, því minna finst mjer jeg vita.

Steinunn

ráðþrota.

Öll metorðagirnd föður þíns safnast um þig, af því að þú ert einkabarnið hans. Jeg kvíði því stundum, að hún verði þjer of þung byrði.

Loftur

stendur upp.

Metnaður minn og föður míns eiga engar leiðir saman.

Steinunn

byrstari.

Hvað ætlarðu þjer sjálfur?

Loftur

Jeg? — Jeg vil standa með alla visku mannanna á þröskuldi leyndardómanna.

Steinunn

óttaslegin.

Leyndardómanna? Hvað áttu við?

Loftur

þegir, rjálar við blöðin í bókinni.

Steinunn

færir sig nær honum.

Vinnufólkið er farið að tala illa um þig. Það segir, að þú lesir í óguðlegum bókum. Það njósnar um þig. Það hefur heyrt þig tala út í loftið i einrúmi. Það heldur, að þú sjert á tali við anda.

Loftur

stígur tvö spor.

Þeir, sem ekkert vita, leggja trúnað á alt.

Steinunn

Jeg hef ekki varað þig við fyrri, af því jeg veit, að faðir þinn er í svo miklu áliti, að hans vegna þorir það ekki að hafa þetta í hámæli. En ósvífni þess fer vaxandi. Það segist hafa sjeð þig úti í kirkjugarði um hánótt.

Loftur

snýr sjer að henni.

Var það þetta, sem þú ætlaðir að segja mjer?

Steinunn

svarar ekki spurningunni, gengur fast að honum.

Sjálfs þín vegna ættir þú að hvíla þig um stund frá bókalestrinum. Þú þarft ekki þar fyrir að sitja auðum höndum. Gaktu að vinnu með heimafólkinu. Þá hættir það að tala illa um þig. Og mjer væri það óumræðileg gleði, að heyra ljáinn syngja í höndunum á þjer.

Loftur

En þú? Hvað heldur þú um þetta?

Steinunn

Þú hefur breyst mikið, þennan tíma, sem við höfum þekst. Við mig ert þú orðinn eins og annar maður. Stundum þekki jeg þig varla. Jafnvel andlitið er breytt. Þegar þú mintist á dauðann áðan, hjelt jeg að þú værir veikur.

Loftur

verður lævís á svipinn andartak, dettur í hug að hræða Steinunni, gleymir því í ákafanum.
Ef jeg vildi rjetta höndina út í myrkrið, veit jeg, að það yrði ekki árangurslaust. Hefur þú heyrt talað um Gottskálk biskup grimma og „Rauðskinnu“. Jeg kalla hana: „Bók máttarins“.

Steinunn

hrædd.

Já, það hef jeg.

Loftur

Sá, sem vissi alt það, sem stendur á þeirri bók, yrði voldugastur maður jarðarinnar. Þess vegna tók Gottskálk hana með sjer í gröfina. Hann unni engum valdsins. — Jeg hef sjeð bókina.

Steinunn

í angist.

Þú!

Loftur

Hjer um nóttina lá jeg úti í kirkjugarði á legstaðnum hans. Sú hugsun læddist að mjer, að jeg ef til vill í svefni gæti stafað mig fram úr einhverju í henni. Biskupinn stóð frammi fyrir mjer, í rauðum hökli, og las upp úr bókinni. Hann hjelt henni svo hátt, að jeg gat ekki sjeð framan í hann. En blöðin undust saman, um leið og hann las, og hrundu niður eins og aska.

Horfir grimdarlega á Steinunni, talar eins og hann læsi upp úr bók.

Sá, sem af allri sálu sinni óskar annari manneskju dauðans, hann lúti höfði, horfi til jarðar og mæli: —

Hann verður gripinn af skelfingu.

Nei, þau orð vil jeg ekki muna.

Gengur að stól, sest, tekur höndum fyrir andlitið og styður olnbogunum á hnjen.

Steinunn

stendur grafkyr andartak, svo birtir yfir svipnum. Hún gengur til hans og krýpur fyrir framan hann.

Það er þess vegna, að þú hefur litið svo veikindalega út, eins og eitthvað sífeldlega amaði að þjer.

Hálf-grátandi og hálf-brosandi.

Jeg var hrædd um, að það væri vegna mín.

Stendur upp, strýkur á honum hárið.

Jeg hef unnað þjer svo heitt. Jeg skammast mín að segja frá því, en jeg hef óskað þess, að þú yrðir veikur, og jeg fengi að hjúkra þjer. Jeg skyldi hafa verið yfir þjer dag og nótt.

Fórnar höndunum.

Þú trúir mjer ekki, en jeg hef grátið af hamingju.

Lætur hendurnar hníga.

Jeg sá einu sinni engjareit, gráan af þurki, grænka á einni einustu nótt. Vott grasið grjet af gleði.

Krýpur aftur á knje.

Við skulum berjast í sameiningu á móti valdi þess illa. Þegar jeg ferðast ein í myrkri, er jeg hrædd, en tvær manneskjur þurfa ekkert að óttast.

Það birtir yfir röddinni af ástúð.

Mjer hefur verið sagt, að alt óhreint hopi fyrir þeim, sem leiðir barn.

Hvíslar.

Loftur!

Loftur

stendur upp.

Jeg ætti að búa fjarri öllum mönnum. Mennirnir trufla mig. Hið ókunna hvíslar aldrei að mjer, nema þegar jeg er einn. Það hrökkva skærastir neistar af steinunum þegar þeim er slegið saman í myrkri. Einveran er myrkrið mitt. — Hvað skiftir það vinnufólkið, að jeg vaki? Jeg hef orðið þess var, að það hatar mig. Það er vegna þess, að jeg læt mjer ekki nægja jafn smásálarlegar óskir eins og það. Mínar óskir eru voldugar og takmarkalausar. Og í upphafi var óskin. Óskirnar eru sálir mannanna.

Steinunn

Heyrðirðu ekki hvað jeg sagði?

Loftur

Mjer gremst, að vinnufólkið skuli dirfast að tala illa um mig.

Háðslega.

Þegar jeg hugsa upphátt, heldur það að jeg sje á tali við anda.

Röddin breytist.

Jú, jeg heyrði hvað þú sagðir.

Steinunn

Manstu, hvað langt er síðan þú hefur kyst mig? Þykir þjer ekki lengur vænt um mig?

Loftur

Jeg veit ekki, hvort mjer er það gefið, að geta þótt vænt um nokkura manneskju. Ef við gleymdum bæði, því sem hefur farið milli okkar, væri það óskeð.

Steinunn

Getur þú gleymt því?

Loftur

Því skyldi það ekki geta verið draumur?

Steinunn

Líkaminn hefur sitt minni.

Háðslega.

Ertu hræddur við föður þinn?

Loftur

óþolinmóður.

Þolinmæði mín er ekki takmarkalaus. Þú veist jafn vel og jeg, hversvegna við höfum neyðst til þess að fara í felur. Faðir minn myndi afneita mjer, ef það kæmist upp um okkur. Hann ljeti reka mig úr skóla. Og fengi jeg aldrei framar að opna bók, fyndist mjer að jeg vera blindur. — að hálfu ári liðnu, þegar náminu er lokið, get jeg sett hart á móti hörðu. Þú hefur lofað að bíða eftir mjer. Óvarkárni er ekki hugrekki.

Steinunn

komin að gráti.

Ef þú sýndir mjer einhver vinarhót. — Þú hefur ekki kyst mig einn koss.

Loftur

Hvað eru kossar? Rjett áðan kysti jeg barnsmunn.

Steinunn

stendur upp, henni þyngir í skapi.

Hef jeg breyst, úr því þjer þykir ekki jafn vænt um mig, nú sem fyr.

Dregur djúpt andann, snertir silfurmillurnar á bolnum.

Einu sinni sagðir þú mjer, að þessar silfurmillur væru lifandi, þær ættu hver sína sál. Þú sagðir, að það, að jeg drægi andann, gæfi þeim líf. Jeg dreg andann eins og jeg hef dregið hann áður. Jeg tala og hlæ og græt á sama hátt og áður. Í vor varstu á fótum um sólaruppkomu, þegar jeg átti að kveikja upp eldinn. Þú sagðir, að þjer þætti svo gaman að því, að sjá eldsbjarmann á andlitinu á mjer. Nú verð jeg að láta mjer nægja að skrifa nafn þitt í öskuna. — Eldsbjarminn hefur þó varla breyst.

Loftur

Vertu ekki svona áköf.

Steinunn

gengur fast að honum.

Það máttu vita, að jeg hef engu gleymt, af því sem þú hefur sagt mjer. Jeg hef skrifað vígsluvottorðið, og kossarnir þínir hafa innsiglað það. Logandi lakkið getur ekki verið heitara, en kossarnir þínir voru. Og jeg hef tekið guð til vitnis. Hafi ást þín verið hræsni, eingöngu til að koma fram vilja þínum, þá hefur þjer skjátlast. Jeg er fátæk, og á engan vin.

Hlær.

En þjer sleppi jeg ekki. Þú hefur gefið mjer styrk.

Faðmar hann að sjer.

Jeg gæti brent þig upp til ösku í faðminum á mjer.

Loftur

Það getur einhver komið.

Steinunn

Mjer stæði á sama, hver kæmi. Jafnvel þó það væri faðir þinn. Jeg vildi einmitt óska að faðir þinn kæmi. Þú leynir mig einhverju.

Horfir framan í hann.

Jeg vildi óska, að hann bæri logandi ljós upp að andlitinu á þjer, svo að jeg sæi þinn sanna svip.

Sleppir honum.

Loftur

órólegur.

Jeg veit ekki hvort það er þín sök, en mjer finst jeg eiga í sífeldri baráttu við einhverja óumflýjanlega skyldu. Þú heimtar, að jeg hugsi sí og æ um þig og framtíðina, allar stundir dagsins. Jeg verð þess var, þó þú ekki nema lítir inn í stofuna. Það er næstum því orðið eins og ákæra, nú upp á síðkastið. Jeg get naumast risið undir því lengur. Hugsanir mínar verða að vera frjálsar.

Snertir bækurnar, verður íbygginn á svipinn.

Ef til vill finn jeg aldrei það, sem jeg er að leita að.

Steinunn

Jeg hata bækurnar þínar.

Loftur

Sumir menn geta fundið á sjer, hvar vatnsæðar eru í jörðu. Þeir geta losað sálina frá líkamanum. Það get jeg líka.

Horfir á Steinunni.

Þegar jeg kysti þig í fyrsta skifti, var sál mín utan við líkamann.

Steinunn

hlær háðslega.

Var sál þín utan við líkamann!

Loftur

Þú hlærð? Jeg skal segja þjer hvernig það atvikaðist.

Leiðir hana að bekknum, þau setjast.

Þú varst búin að vera hjer á staðnum nokkurn tíma, án þess að jeg veitti þjer eftirtekt. Kvöld eitt, þegar heitt var í veðri, fór jeg út, til þess að geta setið í næði yfir bókunum. Jeg heyrði einhvern syngja. Jeg gekk á sönginn. Þú sást mig ekki, því jeg dró mig í hlje á bak við stóran stein. Þú stóðst nakin úti í ánni, og jóst yfir þig vatninu. Jeg hef aldrei sjeð neitt, sem hefur haft jafn-djúp áhrif á mig. Jeg skalf af hræðslu.

Röddin hitnar.

Hefðir þú verið ein af selameyjunum, sem dansa á sjávarströndinni Jónsmessunótt, hefði jeg stolið hamnum þínum. Jeg hefði ekki skilað þjer honum, þó þú hefðir sagt mjer, að þú ættir mann og börn í sjónum. Jeg hefði viljað eiga þig sjálfur alla æfi, þó að það væri grimdarverk.

Færir sig nær.

Steinunn

stendur á fætur.

Loftur

stendur skyndilega á fætur, heldur fast utan um höndina á henni.

Nei, þú verður að hlusta á mig.

Þau setjast aftur.

Frá þeirri stundu gat jeg ekki gleymt þjer. Eina nótt, þegar hugsunin um þig hjelt mjer andvaka, læddist jeg út. Jeg lagðist endilangur á bakið.

Lokar augunum.

Sál mín seitlaði ofan í jörðina. Jeg stóð fyrir framan rúmið þitt og kysti þig. Þú hefur sjálf sagt mjer að sömu nóttina dreymdi þig, að jeg stóð við rúmstokkinn og kysti þig. Þú sást mig hverfa út úr dyrunum, þegar þú vaknaðir.

Hann hefur lætt handleggnum utan um mittið á henni, og beygir sig niður að henni til þess að kyssa hana; í hálfum hljóðum.

Steinunn!

Steinunn

stendur upp.

Sleptu mjer!

Loftur

hlær.

Það sagðir þú líka, þegar jeg kysti þig í fyrsta skifti.

Dregur hana ákaft að sjer og kyssir hana.

Við skulum fara upp í grænu lágina, þar sem við vorum stödd, þegar jeg vissi ekki hvort það var blóð mitt eða lækurinn, sem niðaði fyrir eyrunum á mjer.

Þau þegja bæði. Fótatak heyrist fyrir utan.

Ólafur

kemur inn, nemur staðar þegar hann sjer Steinunni, snýr sjer að Lofti.

Mjer datt í hug, að þú værir ekki í kirkju.

Ónáða jeg ykkur?

Loftur

ráðaleysislega.

Nei, nei.

Ólafur

dapur.

Fyrir mjer þurfið þið ekki að fara í neina launkofa. Jeg veit, að ykkur þykir vænt hvoru um annað.

Loftur

þegir.

Steinunn

horfir á Loft, gengur fram hjá Ólafi til dyranna.

Ólafur

Þarft þú að fara, þó jeg komi?

Steinunn fer.

Ólafur

gengur inn eftir stofugólfinu.

Jeg kom, Loftur, til þess að tala við þig í hreinskilni, um málefni, sem lengi hefur valdið mjer hugarangurs.

Sest á bekkinn, situr þögull.

Loftur

flytur stól og sest hjá honum.

Hvað er það, Ólafur?

Ólafur

Steinunn hafði dvalið hjer á staðnum rúman mánuð, þegar jeg kom heim úr seinustu skreiðarferðinni. Jeg sá á augabragði, að hún var breytt. Hún forðaðist mig. Áður var hún altaf blátt áfram við mig, þegar við hittumst.

Málrómurinn hitnar.

Þekkir þú, hve áköf ósk getur gert menn auðtrúa. Jeg, heimskinginn, hjelt að hún hefði tekið eftir því, að jeg elskaði hana, og að þetta væri feimni.

Loftur

stendur á fætur.

Ólafur!

Ólafur

Nei, þú mátt ekki taka fram í fyrir mjer.

Loftur sest aftur.

Það leið ekki á löngu, áður en jeg sá, að það varst þú, sem hún gaf hýrt auga. Þá gerði jeg mig sekan í því, sem jeg hefði aldrei trúað sjálfum mjer til. Jeg fór í launsátur. Snemma morguns, þegar þið hjelduð, að þið væruð einsömul, sá jeg þig kyssa hana.

Loftur

er staðinn á fætur, háðslega.

Var það glæpur?

Ólafur

stendur á fætur.

Síðan hef jeg átt í sífeldri baráttu við sjálfan mig. Mjer óx hatur í skapi. Jeg reyndi að uppræta það. En það var eins og jeg væri að lyfta þungum steini í lausum jarðvegi. Við hverja tilraun sökk steinninn dýpra.

Þegir.

Loftur

Við hvað áttu?

Ólafur

gengur að honum.

Jeg vil ekki bera óvildarhug til þín. Þú hefur verið vinur minn. Gerðu mjer skiljanlegt, að það stóð ekki í valdi þínu að breyta öðruvísi. Heyri jeg það af þínum eigin vörum, skal jeg reyna að fyrirgefa þjer.

Loftur

jafn-háðslega.

Þarf jeg þinnar fyrirgefningar við?

Ólafur

á örðugt með að stilla sig.

Þú hefur samviskubit. Síðan jeg kom heim, hefurðu forðast að hitta mig einan. Þeim, sem finnur, að hann hefur gert öðrum manni rangt til, verður það oft á, að hata hann.

Loftur

Hvað sakar þú mig um?

Ólafur

Manstu eftir því, þegar við vorum litlir drengir og vorum í „brúðkaupsleik“? Þú áskildir þjer konungsdóttur úr framandi landi, og jeg —

Innilega.

Jeg áskildi mjer Steinunni litlu, frænku mína.

Loftur

Þú mátt eiga konungsdótturina.

Ólafur

ræður sjer varla.

Þú vissir, að það var jeg, sem sá um að Steinunn kom hingað. Þú stríddir mjer á henni, í hvert skifti sem jeg nefndi hana á nafn.

Reiður.

Þú vissir, að jeg unni henni hugástum. Vogaðu ekki að bera á móti því!

Loftur

hikandi.

Jeg vissi ekki, að þjer þætti svona vænt um Steinunni

Í álösunarróm.

Hvers vegna trúðir þú mjer ekki fyrir því, að þú elskaðir hana?

Ólafur

Þú vissir, að það var eina stúlkan, sem mjer þótti vænt um. Jeg hjelt það væri nóg.

Hryggur.

Þegar annarhvor okkar, á bernskuárunum, fann sjaldgæft blóm eða berjalaut, eignaði hann sjer staðinn. Við gáfum stundum hvor öðrum staðinn, en við stálum honum aldrei.

Sár.

Þá þurftum við merkjagarð á milli okkar.

Loftur

lágróma.

Jeg var ekki sjálfum mjer ráðandi.

Ólafur

Jeg hef reynt að afsaka þig. Þú ert yngri en jeg, og þú ert ákafur í lund. Jeg hef reynt að setja mig í þín spor: Hefði jeg getað breytt þannig gagnvart vini mínum? Hvernig stendur á því, að þú alt í einu varðst ástfanginn? Þú hafðir þó sjeð Steinunni áður. Langaði þig til að sannfæra þig um, að Steinunn væri mjer samboðin? Eða ertu eins og krakki, sem hefur meira gaman að leikfangi, ef hann veit, að öðrum leikur hugur á að eignast það?

Loftur

Þú hlífir mjer ekki.

Ólafur

Því færir þú enga vörn fyrir þig?

Loftur

Hvað viltu, að jeg segi?

Ólafur

Jeg bjóst við því á hverjum degi, að þú kæmir til mín. En þú ljest þjer ekki nægja, að svifta mig Steinunni. Þú sviftir mig líka vináttu þinni. Jeg óskaði ekki eftir að sjá þig eins og iðrandi syndara. Mig langaði til þess að sjá hamingju ykkar.

Í ákafri geðshræring.

Jeg held, að jeg hefði getað rjett þjer höndina eins og bróður.

Loftur

snortinn.

Jeg veit, að jeg hef breytt rangt gagnvart þjer.

Gengur til hans, segir stillilega.

Getur þú fyrirgefið mjer, Ólafur?

Ólafur

situr þegjandi.

Loftur

snýr sjer frá honum.

Mjer hefur sjálfum orðið mörg stundin angursöm.

Ólafur

stendur upp.

Jeg skal reyna að halda áfram að vera vinur þinn.

Bendir á bækurnar á hillunni. Röddin er gjörbreytt.

Þarftu að vera svona önnum kafinn við lesturinn? Þú ant þjer ekki einusinni svefns.

Loftur

Jeg les fleiri bækur, en þær, sem koma skólanum við.

Ólafur

Það mundi bæði hlægja þig og ergja þig, ef þú vissir, hvernig vinnufólkið talar um þig.

Stutt þögn.

Loftur

Hvað segir vinnufólkið?

Ólafur

Það er hrætt við þig. Það heldur, að þú sjert í tygi við eitthvað yfirnáttúrlegt.

Loftur

Það er í annað sinn í dag, að jeg heyri þetta. Hafa biskupinn og faðir minn fengið veður af þessu?

Ólafur

Ekki enn.

Loftur

hlær kuldalega.

Það hlægir mig, að vinnufólkið er hrætt við mig.

Krýpur niður við bækurnar og hleður þeim gætilega niður í dragkistuna.

Ólafur

Jeg sagði upp í opið geðið á þeim, að þetta væri hjegóma-rugl. Því skyldir þú vera að reyna að komast í samband við myrkravöldin. Þú, sem fær allar óskir þínar uppfyltar. Enda trúi jeg ekki á nein yfirnáttúrleg völd, hvorki ill nje góð.

Loftur

Það er háðsleg gletni í röddinni.

Þegar við suðum valslappir og átum þær, til þess að verða sterkir, var þjer kunnugt um allar óskir mínar.

Ólafur

Þú átt við, að nú sje mjer ókunnugt um þær?

Loftur

lítur upp úr bókunum.

Hefur þú nokkurn tíma óskað þess, að þú þektir leyndardóma hinna framliðnu?

Ólafur

kuldalega.

Dauðir menn vita enga leyndardóma.

Loftur

stendur upp.

Þið þykist allir vera svo vitrir. Þeir rjettlátu fara til himna, en þeir ranglátu í eld glötunarinnar. En bækurnar hafa opinberað mjer nýjan sannleika. — Einu sinni var hauskúpa grafin upp úr gömlu leiði. Hún var dökkbrún af elli, alt holdið var rotnað af andlitinu, en augun voru lifandi og loguðu af angist. Sá maður hefur orðið fyrir þeirri hegning, að sálin fjekk ekki að losna við líkamann.

Ólafur

Trúir þú öllu, sem stendur í bókunum?

Loftur

Mjer er þetta minnisstæðara en margt annað, sem jeg veit með fullri vissu að er sannleikur.

Opnar eina af bókunum, strýkur mjúklega yfir opnuna.

Sumum eru þessi teikn jafn óskiljanleg sem fuglasporin á sjáfarströndinni. Þó tala þau við mig, eins og þau væru lifandi. Þau geta glatt mig og hrygt. Þau kenna mjer æfagamla speki. Sálir framliðinna búa í bókunum.

Ólafur

háðslega.

Já, eða lygar framliðinna.

Loftur

þegir andartak.

Þú trúir ekki á yfirnáttúrleg völd. Þú neitar þó ekki, að það sje til eldur niðri í jörðunni, — undir fótunum á þjer, þó að þú hafir aldrei sjeð hann.

Glottir.

Hann birtist aldrei öðruvísi, en eins og rauð kattarlöpp, sem leikur sjer að mönnunum. Eyðilegging er eðli hans. Og þó verður hann að þjóna mönnunum. Í upphafi tímanna hefur einhver vitringurinn tamið hann með gjörningum.

Dularfullur.

Ef jeg opinberaði þjer, að eldurinn niðri í jörðunni er ekki annað en skugginn af djöflinum, færirðu ef til vill að skilja mig.

Ólafur

Jeg fer að verða hræddur um, að þú sjert ekki með öllu viti.

Loftur

röddin logar af æsingu.

Guð skapaði manninn úr leiri, en leirinn var brendur í eldinum. Þess vegna hafa fæstir vald yfir sjálfum sjer. Hugsaðu þjer þá veru, sem eldurinn er skugginn af. Ef einhver maður gæti tamið þá veru .... Hestar eru uppáhaldið þitt. Þú getur ráðið við hvaða ótemju, sem þú vilt. Jeg ætla mjer að beisla myrkrið.

Ólafur

gengur að honum, rómurinn er þýður.

Jeg ber alvarlega umhyggju fyrir þjer, Loftur. Þú lifir ekki í veruleikanum. Þú lifir í sjúkum draumórum. Þú ofreynir þig. Þú verður að hvíla þig.

Loftur

rólegri.

Enginn veit, hve mikið getur glatast á einu gálausu augnabliki. Ef til vill áttu einhver mikil sannindi að birtast, einmitt á því augnabliki, en enginn var reiðubúinn til þess að taka á móti þeim. Þú veist ekki hvað oft jeg hef barist við svefninn, þegar hann ætlaði að yfirbuga mig. Jeg hata svefninn, vegna þess að hann stelur frá mjer tímanum. En þið lifið allir, eins og þið ættuð eilífðina í sjóði ykkar.

Ólafur

Hvíldin og vinnan verður að vera samfara. Mundu eftir því, að það er skylda þín gagnvart þeim, sem þjer þykir vænt um, að gæta að sjálfum þjer.

Loftur

óþolinmóður.

Það er gagnslaust, að eyða fleiri orðum. Við verðum , hvort sem er, aldrei á eitt sáttir.

Sest við borðið, opnar bókina.

Ólafur

Jeg ætlaði að vara þig við. Faðir þinn hefur mikið vald, en það eru takmörk fyrir því eins og öðru. Það getur orðið þjer hættulegt, ef biskupinn heyrir fleipur vinnufólksins.

Loftur

Þú ert óþreytandi, eins og lækur. Vinnufólkið getur ekki borið á mig neitt misjafnt. Þið sjáið ofsjónir, bæði þú og Steinunn. Jeg er leiður á ykkur.

Lýtur yfir bókina.

Ólafur

stendur þegjandi andartak, rómurinn verður harður og svipurinn ískaldur, gengur að Lofti.

Ertu leiður á Steinunni?

Loftur

heldur áfram að lesa, svarar ekki. Hófadynur heyrist úti fyrir. Loftur lítur upp.

Hver skyldi koma svona seint til kvöldmeessunnar?

Ólafur

í ákafri geðshræring.

Jeg bjóst við, að það mundi birta yfir andlitinu á þjer, þegar þú heyrðir Steinunni nefnda á nafn?

Grípur í öxlina á Lofti og kippir honum upp úr stólnum.

Hefurðu hana að leiksoppi?

Loftur

forviða.

Hvað gengur að þjer, maður?

Ólafur

Mjer eru ekki lengur kunnar óskir þínar. Það gæti verið, að þú þektir mig ekki heldur.

Sleppir Lofti.

Loftur

rjettir úr sjer.

Hver hefur beðið þig að skifta þjer af mínum málum?

Ólafur

tekur bókina.

Þú tókst frá mjer stúlkuna, sem jeg unni. Verðir þú henni ekki vænn, skaltu fá að kenna á því.

Brýtur spjaldbindið og kastar bókinni á gólfið.

Loftur

Ertu orðinn vitlaus?

Beygir sig og tekur bókina upp.

Dísa

stendur hlæjandi í dyrunum.

Jeg er komin!

Loftur

hissa.

Ert þú komin?

Dísa

Sjerðu mig ekki?

Hlær.

En hvað þið báðir eruð dauðans alvarlegir. Ætlið þið ekki að bjóða mig velkomna?

Heilsar þeim með kossi.

Komdu sæll, Ólafur. Komdu sæll, Loftur.

Loftur og Ólafur

Komdu sæl, og velkomin heim.

Dísa

áköf.

Það er kvöldmessa. Jeg heyrði sönginn. Eru pabbi og mamma í kirkju?

Loftur

Já.

Dísa

hlær.

Jeg held þau verði hissa, þegar þau sjá mig. Hvernig hefur ykkur liðið? — pabba og mömmu og ykkur öllum?

Hún fer úr reiðfötunum á meðan hún er að tala.

Loftur

Okkur hefur liðið vel. En þjer?

Dísa

Mjer hefur liðið ágætlega. Dæmalaust er gaman að vera komin heim. Jeg reið í háa lofti á undan samferðafólkinu. Eruð þið þeir einu, sem ekki eru í kirkju?

Loftur

Já.

Dísa

hlær.

O heiðingjarnir!

Ólafur

Steinunn frænka mín er ekki heldur í kirkju.

Dísa

Nú, hana þekki jeg ekki.

Áköf.

Jeg var rjett búin að gleyma hestinum mínum.

Við Ólaf.

Viltu flýta þjer að spretta af honum, svo hann geti velt sjer. Hann er löðrandi sveittur, blessuð skepnan.

Ólafur

fer.

Dísa

óðamála.

Hugsaðu þjer, hvað mig dreymdi í nótt.

Hátíðleg.

Jeg sá stóran dökkjarpan hest koma á sundi yfir ána. Hann dró alla ána á taglinu upp að staðnum.

Veifar handleggnum, til þess að sýna það. Gengur hratt að glugganum, opnar hann, bendir út.

Já, þaðan kom hann.

Ómur af söng úr kirkjunni.

Þei! Blessuð gamla kirkjan mín!

Hlustar. — Söngurinn þagnar. — Horfir á Loft, skellihlær.

Sjá þig, hvernig þú gónir!

Loftur

hikandi.

En hvað þú ert orðin fullorðinsleg, á þessu eina ári. Þegar þú fórst, varstu barn.

Dísa

upp með sjer.

Já, þú mátt reiða þig á, að jeg er orðin fullorðin. Jeg kemst ekki í neinn af gömlu kjólunum mínum.

Gengur hratt að Lofti, hvíslar hlæjandi.

Jeg hef meira að segja fengið biðil!

Hopar, hálf-skömmustuleg. Í sömu andránnni brosir hún á ný, bendir.

Þarna er kvisturinn, sem er eins og lítið, hrukkótt andlit. Jeg gleymi því aldrei, þegar þú gintir mig til þess að sitja heila klukkustund og bíða eftir því, að hrossafluga, sem var á flögri, settist framan í hann. Þá átti hann að depla augunum.

Skælir sig og deplar augunum. Ógnar honum með kreptum hnefa.

Óhræsis strákurinn þinn! Nei, nú fer jeg inn og heilsa upp á stofurnar okkar. Kemurðu með mjer?

Loftur

lætur eins og sjer standi á sama.

Svo yngismeyjan hefur fengið biðil?

Dísa

sigri hrósandi.

Því áttir þú ekki von á! Hvað hefðir þú gert, ef jeg hefði gefið honum jáyrði?

Loftur

horfir forviða á hana andartak.

Dísa

óþolinmóð.

Hana! — segðu það!

Loftur

Jeg hefði söðlað hvíta gunnfákinn minn, og riðið við mikið lið skemstu leið yfir öræfin. Jeg hefði skorað hann á hólm, og valið okkur vígvöll á eyðihólma í straumhörðu fljóti. Blóð hans hefði litað mölina eins og eyrarrósarflekkir.

Dísa

grípur hlæjandi fram í fyrir honum, eftir að hafa horft á hann með athygli litla stund.

Ha! ha! Þú heldur að þú getir talið mjer trú um alla skapaða hluti enn, eins og þegar við vorum krakkar. Þú átt engan gunnfák, ekkert lið, og öræfin eru ófær á veturna!

Loftur

verður alt í einu hryggur.

Ó, hvað jeg þrái það heitt, að við bæði værum enn þá börn!

Dísa

hæglát.

Því segir þú það svona dapurlega?

Horfir á hann með athygli og ástúð.

En hvað þú ert orðinn fölur og tekinn í andliti. Hefur þú legið veikur?

Loftur

verður ákveðinn á svipinn.

Nei, jeg er heill heilsu.

Beygir sig, og fleygir bókunum flausturslega niður í dragkistuna.

Dísa

horfir á hann.

Hefurðu orðið fyrir nokkru mótlæti?

Loftur

svarar ekki.

Dísa

alt í einu.

Jeg veit, að þú hlakkaðir til þess að fá að fara til útlanda, eins og faðir minn, til þess að verða verulega lærður maður. Faðir þinn ætlar ef til vill ekki að lofa þjer að fara?

Loftur

rjettir úr sjer.

Jeg veit það ekki.

Dísa

glöð.

Þarna sjerðu, að jeg rendi undireins grun í, hvað það er, sem veldur þjer áhyggju.

Áköf.

Jeg skal taka að mjer, að tala um fyrir föður þínum. Jeg man ekki eftir, að hann hafi nokkurn tíma neitað mjer um neitt, sem jeg hef beðið hann um. Vilji hann ekki láta sig, fæ jeg pabba í lið með okkur. Í því máli veit jeg, að faðir þinn beygir sig fyrir hans áliti. Þú þarft ekkert að óttast.

Loftur

dauflega.

Segðu mjer eitthvað um ferðina. Þið hafið farið fjöll? Voruð þið heppin með veðrið?

Dísa

Henni þykir miður.

Við höfðum ágætis veður alla leið. Við fórum Kjalveg.

Áköf.

Það er þó ekki komið missætti upp á milli pabba og föður þíns?

Loftur

Ekki það jeg til veit.

Dísa

rjálar við fötin sín.

Mömmu finst faðir þinn vera nokkuð ráðríkur. Það veit jeg. En mjer finst það vera það rjetta, að pabbi hafi allan hugann við guðs ríki. Þú hugsar víst ekki heldur um eignir og fjármál, þegar þú ert orðinn verulega lærður maður. Heldurðu það?

Loftur

hefur horft á hana, á meðan hún talar. Málrómurinn er innilegur, en óstyrkur.

Því hef jeg ekki hugsað oftar um þig!

Dísa

Því viltu ekki trúa mjer fyrir því, sem amar að þjer? Við höfum alt af verið eins og systkini.

Loftur

Jeg vildi óska, að jeg væri frjáls maður, og gæti þegar siglt til útlanda. Jeg held, að jeg hafi óskað þess, frá því þú stóðst í stofudyrunum.

Horfir á hana.

Hugsaðu þjer skip, sem liggur við akkeri og langar til þess að sigla.

Dísa

hristir höfuðið.

Jeg veit ekki, við hvað þú átt.

Loftur

rólegri.

Jeg hef margsinnis siglt í huganum. Jeg stóð inni á miðjum öræfum, og sigldi landinu langt, langt suður í höf. Jöklarnir voru hvít, þanin segl, sem sólin skein á, og blá fjöllin lyftust og hnigu í hafrótinu.

Dísa

hefur horft á hann aðdáunaraugum, alt í einu kemur bros á andlitið á henni.

Þetta minnir mig á gamla leikinn okkar, þegar þú flaugst með mig á flugábreiðunni þinni.

Bendir.

Þarna liggur hún ennþá, gamla ábreiðan okkar.

Gengur þangað.

Loftur

gengur að ábreiðunni.

Nú notar pabbi hana undir fæturna. Eigum við að reyna, hvort hún enn þá hefur sína fornu náttúru?

Dísa

Já.

Þau taka ábreiðuna og bera hana fram á gólfið.

Loftur

stígur á ábreiðuna.

Komdu og fljúgðu með mjer.

Dísa

hlær.

Ertu svona heimskur enn þá?

Loftur

kinkar kolli, alvarlegur.

Komdu.

Dísa

hristir höfuðið.

Nei, jeg vil það ekki.

Loftur

rjettir fram hendurnar.

Komdu, Dísa.

Dísa

gengur til hans, stígur á ábreiðuna.
Á meðan Dísa og Loftur tala saman, fer kvöldroðinn að slá bjarma á himininn.

Loftur

tekur utan um mittið á henni.

Nú látum við aftur augun, til þess að sjá betur.

Dísa lætur aftur augun. Loftur tautar, eins og hann þylji einhver töfraorð.

Fljúgðu, fljúgðu, klæði — hvert á land, sem þú vilt!

Blæs á augnalokin á Dísu.

Nú blæs vindurinn á augnalokin á okkur.

Lætur aftur augun. Þau rugga hægt fram og aftur.

Sjáðu, hvernig landið líður burt undan fótunum á okkur. Nú lyftumst við hátt upp yfir skýin. Heyrirðu niðinn í fjarska? — Það er hafið.

Tautar.

Fljúgðu, fljúgðu , klæði!

Opnar augun, horfir á Dísu.

Þekkirðu óskabrunninn, sem steinarnir dansa í? Þangað fljúgum við. Steinarnir hoppa upp úr vatninu, ótölulega margir, dropóttir og einlitir, hver með sína náttúru, jafn-margvíslega eins og hugsanir mannanna.

Gegnum opinn gluggann heyrist lágt forspil frá kirkjunni.

Einn af þeim er lífsteinninn, rauður eins og blóð. Annar er hulinhjálmssteinninn, dökkblár, með gyltum rákum. Þar er lausnarsteinninn dökklitaður; hann er eins og hjarta í laginu.

Loftur hefur krept hnefann og opnað hann aftur.

En þú sjerð ekki sjálfan óskasteininn, því hann liggur á botninum og hann tekur aldrei þátt í dansinum. En hvítur bjarminn af honum ljómar upp úr vatninu.

Röddin ljómar af fögnuði.

Þegar bjarminn ljómar á andlit einhvers manns, fær hann uppfylling óska sinna. Nú ljómar bjarminn á andlitið á mjer! — Dísa! Dísa!

Sleppir henni, stendur með útbreiddan faðminn.

Nú kyssirðu mig!

Dísa

opnar augun, horfir á hann, tekur utan um hálsinn á honum og kyssir hann.

Tjaldið.