Fara í innihald

Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins/Kristinna laga þáttur

Úr Wikiheimild
Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins (1992)
Höfundur: óþekktur
Kristinna laga þáttur

1.

Á dögum feðra vorra voru þau lög sett að allir menn skulu kristnir vera á landi hér og trúa á einn Guð, föður og son og anda helgan.

Barn hvert skal færa til kirkju er alið er, sem fyrst má, með hverigri skepnu sem er. Skaparfi barns er skyldur að færa barn til skírnar, og sá maður er hann biður til. En ef hann er eigi hjá, og skal bóndi sá færa barn til skírnar er vist veitir konunni þá er hún verður léttari, og sá maður er hann biður til. En ef hvorgi er þeirra hjá, og skulu þeir menn færa barn til skírnar er þar eru lögfastir innan húss. Ef þeir hafa eigi lið til, eða eru þeir eigi til, og skulu þá þeir menn er næstir eru færa barn til skírnar eða veita lið. Ef sá maður hefir eigi sýslu á að færa barn til skírnar er skyldur er til [K: eða sá synjar er beðinn er til fararinnar], og varðar það fjörbaugsgarð hvorumtveggja þeirra og á sá sök þá er vill. Þeirri sök skal stefna heiman og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

Bóndi er skyldur að ala menn þrjá fulltíða þá er barn færa til skírnar, en hinn fjórða mann barnið, enda hross eða eyk ef þeim fylgir. Ef bóndi á fé minna en hann eigi þingfararkaupi að gegna, og á hann að veita þeim húsrúm og selja þeim mat og hey svo sem búar virða. Goldið skal á fjórtán nóttum matar verð og heys. Ef bóndi synjar vistar eða þess beina er til er mæltur, og verður hann útlagur þrem mörkum, og á sá sök er vistar er synjað. Það er stefnusök. Skal kveðja til búa fimm á þingi þess er sóttur er.

Þeir menn er barn færa til skírnar skulu fara til lögheimilis prests, nema þeir finni hann áður, og biðja hann skíra barn. Það er mælt ef hann varnar, og varðar honum fjörbaugsgarð, og eigu þeir sök er barnið færðu til skírnar. Það er stefnusök. Skal kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

Ef þeir finna prest á förnum vegi, og lætur hann rétt skírn uppi að hann láti að heimili sínu, ef hann hefir eigi lengur verið heiman en dagstund. Ef prestur hefir um nótt verið heiman eða lengur og hitta menn hann á förnum vegi og biðja hann barnskírnar, og lætur hann rétt skírn uppi að hann láti að kirkjubæ hinum næsta, ef barn er eigi sjúkt. En ef barn er sjúkt og megi sjá sótt á barninu, og skal þar skíra sem vatni náir fyrst.

2.

Prestur skal eigi svo heiman fara nótt eða lengur að eigi hafi hann þá reiðu með sér er barn megi skíra. En ef hann fer svo heiman nótt eða lengur, og verður hann sekur þrem mörkum ef hann kemur í enga raun um. En ef það stendur fyrir skírninni, og varðar þá fjörbaugsgarð, og eiga þeir sök er barn færðu til skímar.

Ef prestur er á búi, og varðar honum það eigi við lög þótt hann fari svo frá húsi að hann hafi eigi þá reiðu með sér er barn megi skíra með, ef hann fer til sömu gistingar að kveldi.

3.

Ef barn er fætt í úteyjum, og eru hinir sömu menn allir skyldir að færa barn til skírnar sem á meginlandi, ef hjá eru, og svo búðunautar. Sá er skyldur að ljá skips er beðinn er og fyrir á að ráða, og svo að fara með þeim, hver er til er bændur svo sem fyrst má fyrir veðurs sökum. Bóndi er skyldur að ala þá menn fimm, og barn hinn sétta mann. Þeir eru jafnskyldir að ferja þá menn aftur út heim, er utan farðu.

Ef kona verður léttari á förnum vegi, og eigu förunautar hennar að færa barn til skírnar eða þeir er til eru beðnir fyrst. Ef sá maður færir eigi barn til skírnar er skyldur er til, eða synjar maður honum farar eða skips eða eykjar að nauðsynjalausu, og varðar það fjörbaugsgarð. Það eru stefnusakir, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

4.

Ef barn er svo sjúkt að við bana sé hætt og náir eigi prestsfundi, og á þá karlmaður ólærður að skíra barn. Ef það er að búanda húsi, og skal taka vatn í keraldi. Ef barn verður sjúkt á förnum vegi, og skal taka vatn þar er vatni náir eða sjá ef eigi náir vatni. Hann skal svo mæla: „Eg vígi þig, vatn, í nafni föður,“ og gera kross á vatninu með hendi sinni hinni hægri, „og sonar,“ og gera annan kross á vatninu, „og anda heilags,“ og gera hinn þriðja kross á vatninu. Hann skal bregða þumalfingri sínum í kross á vatninu við hvert orð þeirra þriggja. Þá skal hann gefa nafn barninu svo sem það skal heita, hvort sem er sveinn eða mær, og mæla svo: „Eg skíri þig,“ og nefna barnið, „í nafni föður,“ og drepa barninu í vatnið um sinn, jafnt fram fyrir sig, „og sonar,“ og drepa í vatnið í annað sinn höfði barnsins til vinstri handar, „og anda heilags,“ og drepa hið þriðja sinn til hægri handar höfði barnsins í vatnið, svo að það verði alvott í hvert sinnið. Þó er rétt að um sinn sé í drepið í vatnið eða hellt á eða ausið, ef eigi verður ráðrúm að öðru.

Nú náir hvorki vatni né sjá, og ef getur snjá, þá skal hann svo gera kross á snjánum og kveða slík orð yfir sem hann skyldi á vatninu. Hann skal drepa barninu í snjá og láta fylgja þau orð öll sem þá að hann dræpi því í vatn. Hann skal taka snjó til og bræða með höndum sér og ríða á svo að það verði alvott. Eigi skal hann svo drepa barninu í snjáinn að það sæki kuldi svo að því sé við bana hætt, heldur skal hann ríða á snjávinum með höndum sér.

[K: Karlmaður á skírn að veita barninu, en ef hann kann eigi orð til eða atferli, og er rétt að kona kenni honum.] Rétt er að kona kenni honum að skíra barn, en eigi skulu konur skíra barn nema engi kostur sé annar á. Þá skal kona skíra barn ef hin mesta nauðsyn er á, og er hvortki hjá karlmaður né sveinbarn það er hún megi hendur þess á leggja að skíra barn, en barn sé ódautt aðeins. Því að einu skal faðir veita skírn barni sínu ef eigi er annar maður til.

5.

Ef faðir skírir barn sitt sjúkt, og skal-at hann skilja sæng við konu sína fyrir þá sök. [K: En ef faðir skírir sjálfur barn sitt sjúkt, og skal hann skilja sæng við konu sína. Ef hann skilur eigi sæng við hana, og varðar honum fjörbaugsgarð. Svo skal fara um kvonfang hans sem biskup lofar.]

Sveinn sjö vetra gamall skal skíra barn ef eigi er rosknari maður til. Því aðeins skal yngri sveinn skíra ef hann kann bæði Pater noster og Credo in deum. Skíra skal kona barn ef eigi eru karlar til, og varðar henni þvílíkt sem karlmanni ef hún kann eigi. Eigi skal barn oftar skíra þótt skorti orð eða atferli, ef áður var skírt í nafni föður og sonar og anda heilags, enda hafi nokkuð vott orðið. Ef prestur fer eigi svo að skírn að biskupi þyki rétt, og varðar það fjörbaugsgarð, og á biskup sök. Tólf vetra gömlum körlum, og svo konum, er skylt að kunna að skíra barn, og þau orð og atferli er þar fylgja. En ef þau kunnu eigi fyrir óræktar sakir, eða verður eigi rétt að farið þá er er þörf verður, og varðar fjörbaugsgarð. Biskup á að ráða fyrir sök.

Sá maður er skírt hefir barn skal fara til fundar við prest og kveða fyrir honum orð þau er hann hafði í barnskírn, og segja til atferla þeirra er fylgt hafa. Nú þykir presti eigi rétt að skírn farið, hvort sem skortir orð eða atferli, þá varðar fjörbaugsgarð bæði konum og körlum tólf vetra gömlum. Ef presti þykir rétt sú skírn, og andast barn, og skal það grafa að kirkju og syngja líksöng. Ef barn lifnar þá skal prestur veita því alla reiðu þá er upp er þaðan frá er því er í vatn drepið. Eigi skal skíra í annað sinn ef rétt var að skírn farið. Ef það hefir skírt verið í nafni föður og sonar og anda heilags, þá skal eigi skíra í annað sinn, þótt eigi sé vatn vígt eða einu sinni í drepið.

Ef presti þykir eigi áður með fullu rétt skírt, og hafa skort orð eða atferli, og andast barn, og skal það eigi grafa að kirkju. En ef barn lifnar, og skal prestur veita því fulla skírn svo sem ekki væri áður yfir sungið. Ef barn andast prímsignt, og hefir eigi meiri skírn, og skal það grafa út við kirkjugarð, þar er mætist vígð mold og óvígð, og syngja eigi líksöng yfir. Ef barn elst svo nær páskum eða hvítadögum, og vill maður fresta skírn þangað til þvottdags þess annarstveggja, og verður honum það rétt ef barn er eigi sjúkt. En ef barn er sjúkt, og skal þegar skíra. En ef hann vill bíða skírnar, og skal hann finna prest og láta hann ráða hvort bíða skal þvottdags að skírn eða eigi.

Karlmanni hverjum fulltíða, er vit hefir til þess, er skylt að kunna orð þau að skíra barn, og þau atferli er þar fylgja. En ef hann kann eigi fyrir óræktar sakir, og varðar fjörbaugsgarð, og á biskup að ráða fyrir sök þeirri. Hverjum manni er skylt, bæði karlmanni og konu er hyggjandi hefir til, að kunna Pater noster og Credo. En ef hann vill eigi kunna og hafi hann vit til, það varðar fjörbaugsgarð. Biskup skal ráða hver þá sök skal sækja. Hafa skal prestur jafnan reiðu til að skíra barn ef hann er að lögheimili sínu.

6. AÐ FÆRA LÍK TIL KIRKJU.

Lík hvert skal til kirkju færa það er að kirkju á lægt svo sem menn verða fyrst búnir til. Arftökumaður á að færa lík til kirkju ef hann er hjá, og sá maður sem hann biður til. Ef eigi er erfingi hjá eða hann er eigi fulltíði, og skal bóndi sá færa lík til kirkju er vist veitti hinum andaða þá síðast. Ef hvorgi er þeirra hjá, og skulu færa lögfastir menn, þeir er þar eru næstir.

Taka skal af fé því er hinn andaði átti, léreft eða vaðmál að búa um lík. En ef sá átti eigi fé til, og er hinn þá skyldur að fá til og búa um lík, er til kirkju færir. Alla löghelga daga er mönnum rétt að búa um lík og gera kistu að, og með að fara og grafa nema þrjá daga á tólf mánuðum. Páskadag hinn fyrsta og jóladag hinn fyrsta og föstudag hinn langa á og eigi að grafa lík. Með á að fara ef vill, en eigi á þá jörðu að skeðja til þess að grafa lík.

7.

Til þeirrar kirkju skal lík færa sem biskup lofar gröft að. Bóndi sá er þar býr á gröft uppi að láta, og skal þar grafa sem hann lofar, eða prestur sá er þar er, ef búandi er eigi hjá eða kveður hann ekki að. Nú kveður hvorgi þeirra að, eða er hvorgi þeirra hjá, þá skal hann grafa þar er hann vill, nema hið næsta kirkju, þar skal eigi. Nú grefur hann lík hið næsta kirkju utan ráð þeirra, þá verður hann útlagur um það þrem mörkum. En ef bóndi lætur eigi gröft uppi, þá er hann útlagur þrem mörkum, og á hvor þeirra sök við annan, og skal þó vera þar sem grafið er. Ef graftarkirkja er innan hrepps, þá eru þeir eigi skyldir að taka við líki er firr búa ef hinnig mundi kostur. Nú gerir maður sér kirkju, og segir hann það þegar að hann vill engi mann þar láta grafa fyrr en sig eða börn sín eða konu sína, og verður honum það rétt ef biskup lofar, þó að þar sé graftarkirkja. En þegar er hann hefir nokkurn mann annan látið grafa, þá er hann skyldur að taka við öllum líkum þaðan frá.

Lík skal og eigi nökkvið niður grafa, útlagur er sá þrem mörkum er það gerir.

Svo er og mælt, ef sá maður er fluttur á skipi er lík færir til kirkju eða barn til skírnar, að þeir hinir sömu menn eru skyldir til að ferja hann aftur ef eigi má landveg fara, og verða þeir útlagir þrem mörkum ef þeir vilja eigi. Nú eigu þeir lýritnæmar sakir, þá á hann að fastna þeim lögbót ef hann vill farður vera aftur, og hafa bætt áður þeir skilist. Þeir eru eigi skyldir farningar ef sakir eru við hann nema hann vili þetta. En ef hann á sakir við þá, og situr hann eigi sökum sínum við þá þótt þeir feri hann.

Nú hittir maður lík úti, og skal hann hylja hræ svo að eigi falli kykvendi á, og segja til þeim manni er þar býr næstur og tvo húskarla hafi og um sjálfum sér, en sá skal til kirkju hafa fært sem fyrst. Útlagur er hann ellegar þrem mörkum nema þeir sakni eigi sýknra manna og hyggi skógarmanns lík vera. Nú andast maður í almenningu, þá er menn eru þar, og skulu þeir færa lík hans til kirkju, er hann hefir verið innan búðar með.

Bóndi er skyldur að ala þann mann er lík færir til kirkju með fimmta mann, og hross eða eyk ef þeim fylgir. Ef hann synjar þeim, og er hann útlagur um það þrem mörkum, og á sá sök er vistar er synjað. Það er stefnusök, og skal kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er.

8.

Sá maður er kirkju varðveitir á gröft uppi að láta, og skal þar grafa sem hann ræður eða prestur sá er þar er. Lík skal eigi bera í kirkju bert eða blóðugt. Eigi skal þess manns lík í kirkju bera er boðorð hafði svo að eigi átti kirkjugengt meðan hann lifði. Ef maður ber lík í kirkju er frá er skilið, en hann skal bæta kirkju löstinn tólf aurum. Ef hann vill eigi gjalda það fé kirkju, og verður hann útlagur um þrem mörkum, og á hann þó að inna kirkju sitt fé. Lík skal eigi grafa áður kólnað er. Ef maður grefur lík áður kalt er, og verður hann sekur um það þrem mörkum, og á sá sök er vill. Ef menn hrapa svo grefti að kviður ber að önd sé í brjósti þá er maður er niður grafinn, og verður það að morði.

Leg öll skulu vera jafndýr hvort sem eru nær kirkju eða fjarri í kirkjugarði. Tólf álnum skal kaupa leg undir mann nema barn sé tannlaust, og skal þar kaupa sex álnum. Prestur skal og hafa fyrir líksöng sex álnir. Sá maður skal gjalda legkaup og líksöngskaup er lík færir til kirkju, þar á kirkjubæ þeim er lík var grafið hinn fimmta dag viku þá er fjórar vikur eru af sumri, og þar í túni fyrir karldurum. Sá maður er kirkju varðveitir, og prestur, á hvor þeirra að nefna votta að um sitt fé ef eigi kemur fram, og er rétt þar að stefna um og telja hinn sekjan þrem mörkum um haldið. Hinn svarar réttu fyrir sig, sá er færði lík til kirkju, ef hann bauð þeim að handsala fé, ef þeir áttu gjalddaga saman og eindaga þar, og skulu þeir taka þau handsöl. Sá er lík færir til kirkju á að hafa sína aura af fé hins andaða, eða heimta að erfingja ef hinnig er eigi til. Ef hvorgi átti fé, erfingi né hinn andaði, og tekur-a þar fé sem ekki er til, og skal þá veita leg og líksöng. Nú vinnur til sums en eigi til alls þess, þá skal fyrst hafa til þess að búa um lík, en þá að kaupa líksöng, legkaup skal síðast inna.

Ef göngumaður andast inni að manns, og skal bóndi færa lík hans til kirkju. Ef sá maður hafði fé á sér, hinn andaði, og skal þar taka af til þurftar honum. Ef hann hafði þar meira fé eða átti hann í öðrum stöðum, og á bóndi það fé að taka, sá er honum veitti vist þá er hann andaðist, nema honum væri ráðin vist að lögfardögum, sú er honum væri við vært, og gengi hann að sínu ráði á brott en eigi frænda, og á bóndi það eitt fé á brott að taka, er sá hafði þangað haft er þar andaðist, en eigi meira. Frændur eigu allt annað.

Nýmæli: Ef lík er fært úr þingum prests, þá er hann skyldur að fylgja því til grafar ef honum eru áður orð ger, enda sé það innan hrepps, og skal hann þá hafa líksöngskaup, og svo ef honum eru eigi áður orð ger, þótt hann fari hvergi. Eigi er prestur skyldur að fylgja líki úr hrepp ef þar er nokkur graftarkirkja. En ef hann vill eigi fylgja líki úr hrepp sem nú var tínt, þá á sá líksöngskaup er yfir syngur. Ef prestur er svo farinn úr þingum sínum að hann hefir engi fengið í stað sinn, þá á hann eigi að hafa líksöngskaup þótt menn andist þar.

Nýmæli: Ef maður andast í úteyjum, og eru þeir menn skyldir að færa lík til kirkju er tínt var að á meginlandi ætti að færa. Búðunautar ef hann andast í fiskiskálum. Sá er skyldur að ljá skips er beðinn er, ef hann á til. Ef maður varnar skips eða farar, sá er bændur er, og verður hann útlagur um það þrem mörkum.

Ef maður andast á þingvelli eða leiðvelli eftir er menn eru á brott farnir, og á sá maður að færa lík hans til kirkju er næstur býr þeirra manna er tvo húskarla hefir og of sjálfum sér. Ef maður andast á þingum eða á leiðum, og skulu búðunautar hans færa lík til kirkju, eða förunautar. Ef maður andast á þingvelli eftir er menn eru á brott farnir þaðan, og skal bóndi sá færa lík til kirkju er á þingvelli býr. Ef maður andast í farmannabúðum, og skulu búðunautar hans færa lík til kirkju.

9.

Ef sjár eða vatn kastar líkum á land, og á landeigandi að færa lík til kirkju. Ef fé rekur á land með líki, og skal þar taka af til þurftar honum, hinum andaða. Ef meira fé er, og á landeigandi að halda því til dóms. Ef lík göngumanns finnst í haga, og skal landeigandi færa lík hans til kirkju, og eignast fé það er hinn hafði á sér. Ef hinn átti meira fé, hinn andaði, og eigu frændur hans það. Ef lík finnst í landi manns eða í úthýsum, og á landeigandi að færa lík það til kirkju, og varðveita fé, ef hinn hafði á sér, til handa frændum. Ef lík finnst á fjöllum þeim er vatnföll deila merki, og skal sá maður færa það lík til kirkju er næstur býr vötnum þeim í héraði er upp spretta næst líki á fjalli, enda hafi tvo húskarla og of sjálfum sér. Þangað skal lík færa til héraðs sem þau vötn falla. Ef lík finnst í afréttum eða almenningum, og á sá lík það að færa til kirkju er næst býr þeirra manna er á tvo húskarla eða fleiri og of sjálfum sér.

Ef maður færir lík það eigi til kirkju er hann er skyldur til að lögum, og verður hann útlagur um það þrem mörkum. Sá á sök er vill. Stefna skal heiman og kveðja fimm heimilisbúa á þingi þess er sóttur er. Ef maður er sóttur um það að hann færði eigi lík til kirkju, og verst hann því máli ef hann getur þann kvið að hann hugði að sá maður ætti eigi kirkjulægt, og fellur niður útlegðin, en dómur á að dæma á hendur honum að hafa til fært á fjórtán nóttum hinum næstum eftir vopnatak. Ef maður færir lík það til kirkju er eigi á kirkjulægt, og varðar það fjörbaugsgarð nema hann geti þann kvið, að hann hugði að sá maður ætti kirkjulægt, og skal hann frá hafa fært á fjórtán nóttum hinum næstum eftir þinglausnir, og bæta löstinn kirkju tólf aurum.

[X: „Að eg stefni N. um það að hann hafi lík þess manns, N., borið í kirkju eða bera látið, er hann átti eigi kirkjulægt. Tel eg hann útlagan um það þrem mörkum og bæti kirkjunni löst tólf aurum. Stefni eg til þings.“]

Fjögur eru þau lík er eigi skal að kirkju grafa. Það er eitt ef maður andast óskírður. Annað er skógarmanns lík þess er óæll er og óferjandi. Það lík skal eigi að kirkju grafa nema biskup sá lofi er yfir þeim fjórðungi er. En hið þriðja lík er það, er eigi á að kirkju að grafa, ef maður vinnur á sér verk þau er honum verða að bana, svo að hann vildi unnið hafa, nema hann fái iðran síðan, og gangi hann til skriftar við prest, og skal þá grafa lík hans að kirkju. Og þótt eigi nái hann prestfundi, og segi hann ólærðum mönnum til að hann iðrast, og svo þótt hann megi eigi mæla, og geri hann þær jartegnir að menn finni að hann iðrast í hugnum, þótt hann komi eigi tungunni til, og skal þó grafa að kirkju lík. Það lík skal eigi að kirkju grafa hið fjórða er biskup bannar [St: en hann skal sagt hafa til þess áður svo að menn viti]. Það lík er eigi á að kirkju lægt skal þar grafa er firr sé túngarði manns en í örskotshelgi, og þar er hvortki sé akur né eng, og eigi falli vötn af til bólstaða, og syngja eigi líksöng yfir.

10.

Kirkja hver skal standa í sama stað sem vígð er, ef má fyrir skriðum eða vatnagangi eða eldsgangi eða ofviðri, eða héruð eyði að úr afdölum eða útströndum. Þar er rétt að færa kirkju er þeir atburðir verða. Þar er rétt að færa kirkju er biskup lofar. Ef kirkja er upp tekin mánaði fyrir vetur eða lestist hún svo að hún er ónýt, og skulu lík eða bein færð á brott þaðan fyrir veturnætur hinar næstu. Til þeirrar kirkju skal bein færa er biskup lofar gröft að.

Þar er maður vill bein færa, og skal landeigandi kveðja til búa níu og húskarla þeirra, svo sem til skipdráttar, að færa bein. Þeir skulu hafa með sér pála eða rekur. Hann skal sjálfur fá húðir til að bera bein í, og eyki að færa. Þá búa skal kveðja er næstir búa þeim stað er bein skal upp grafa, og hafa kvatt sjö nóttum fyrir eða meira méli. Þeir skulu koma til í miðjan morgin. Búandi á að fara og húskarlar hans allir, þeir er heilindi hafa til, nema smalamaður. Þeir skulu hefja gröft upp utarla í kirkjugarði, og leita svo beina sem þeir mundu fjár ef þar væri von í jörðu. Prestur er skyldur að fara til að vígja vatn og syngja yfir beinum, sá er bændur er til. Rétt er hvorts er vill að gera eina gröf að beinum eða fleiri.

Þau auðæfi öll er þeirri kirkju hafa fylgt er upp er tekin, og hún sjálf, hvort sem það er í löndum eða lausum aurum eða í kirkjubúnaði, það skal fara til þeirrar kirkju er bein voru til færð.

Ef landeigandi lætur eigi fara að færa bein til kirkju svo sem mælt er, eða fara menn eigi til, þeir sem kvaddir eru, og verður hver þeirra sekur þrem mörkum, og á landeigandi sök við þá er kvaddir eru, en sá við hann er vill. Stefna skal sökum þeim heiman, og kveðja heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er, enda skal dómur dæma á hönd þeim beinafærslu, og hafa færð bein til kirkju fjórtán nóttum eftir vopnatak.

11.

Ef kirkja brennur upp, eða lestist hún svo að aðra þarf að gera, og skal þar kirkju gera sem biskup vill, og svo mikla sem hann vill, og þar kalla kirkju sem hann vill. Landeigandi er skyldur að láta kirkju gera á bæ sínum, hvergi er fyrr lét gera. Hann skal upp hefja smíð svo að ger sé á tólf mánuðum hinum næstum þaðan í frá er kirkja lestist, svo að tíðir megi í veita ef hann of förlar. Landeigandi á að leggja fé til kirkju svo að biskup vili vígja fyrir þeim sökum. Þá skal biskup til fara að vígja kirkju þá.

12.

Búandi er skyldur, sá er þar býr, að halda kirkjudag þann að jafnlengd hverri um sinn á tólf mánuðum, og hjú hans og gestir þeir er þar eru um nóttina áður, og þeir menn er tíund sína leggja þangað að biskup vill að þar haldi þeir kirkjudag. Þar skal hver maður halda kirkjudag sem biskup vill halda láta, og halda svo að helgi sem páskadag, en jafnt fer hann sem messudagar aðrir. Ef menn fara stefnuför þangað í tún er menn halda kirkjudag á þeim degi, og vilja stefna bónda eða hjúum hans eða gestum, og eigu þeir menn sakir við hina er fyrir eru, og er rétt að þeir stefni hinum að móti ef þeir vilja, svo sem rúmheilagt sé, hvar þess er þeir gera eigi heimanför til þess.

13.

Þangað skal hver maður leggja lögtíund sína hálfa til þeirrar kirkju sem biskup kveður að, og skal biskup skipta héraði til þess af hverjungi bæ til hverrar kirkju hver skal gjalda tíund sína hvergi sem á landi býr. Sá er tíund skal leysa af hendi, hann skal gjalda þar í túni fyrir karldurum á kirkjubænum hinn fimmta dag viku er fjórar vikur eru af sumri. Hann skal gjalda það fé í vaðmálum eða vararfeldum, í gulli eða í brenndu silfri. Hann skal gjalda hálfan þann hlut ef hann vill er hann geldur þangað, það er fjórðungur allrar tíundar hans, í vaxi eða í viði eða í tjöru, ef hann vill, og kost á hann að gjalda allt í vaðmálum, ef hann vill það heldur.

Ef eigi kemur fé það fram svo sem mælt er, og er þeim manni rétt er kirkju varðveitir að nefna votta að, ef fé það kemur eigi fram, og stefna þar um í túni heima fyrir karldyrum að sín um tíundarhald, og telja hinn sekjan um sex mörkum, og gjalda tvennum gjöldum þann hlut tíundar sem ógoldinn er, svo sem búar virða. Honum er rétt að stefna sinni stefnu um hvorn fjórðunginn, enda er rétt að stefna einni stefnu um báða fjórðungana, af því að einn er aðili að báðum, og heimta sem aðra tíund.

Þar er maður leggur fé til kirkju, hvort sem það er í löndum eða lausum aurum, í búfé eða tíundum af þeim bólstöðum er héraðsmenn skulu þangað inna, og skal sá maður er kirkju varðveitir láta gera þann máldaga á skrá allan, hvað hann hefir fjár gefið þangað, eða aðrir héraðsmenn til þeirrar kirkju. Þann máldaga er honum rétt að lýsa að Lögbergi eða í lögréttu eða á vorþingi því er hann heyr, hvað þar liggur fjár til þeirrar kirkju. Hann skal láta ráða skrá og lýsa þann máldaga heima að kirkju um sinn á tólf mánuðum hverjum, þá er menn hafa þangað tíðasókn flestir. Ef maður tekur það fé er til kirkju er lagt, eða geldur á brott eða gefur eða selur sölum öðrum mönnum, og varðar það fjörbaugsgarð þeim er selur, og svo hinum er kaupir vísvitandi, og á sá sök þá er kirkju varðveitir, ef hann vill sótt hafa, en sá er vill ef hann vill eigi sækja. En ef sá maður lógar fé frá kirkju er hana varðveitir, eða sá er til hefir gefið, og varðar þeim slíkt fjörbaugsgarð sem öðrum mönnum að frá taki, og á sök við þá hver er vill. Það er stefnusök, og skal kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er. Nú ef kviður ber á, þá á að dæma hann fjörbaugsmann en gripinn aftur til kirkju ef ólógað er. En ef lógað er grip, þá skal dæma jafnmarga aura aftur til kirkju sem búar virða að það var vert er á brott var tekið. Þeim þeirra skal stefna til gjalda um kirkjufé er frá seldi eða keypti er manni þykir févænlegra, en fjörbaugsgarð varðar hvorumtveggja.

Bóndi sá er á kirkjubólstað býr á að bera eld til kirkju eða hringja klukku, eða sá er hann krefur. Presti er rétt að bera eld til kirkju og kveykva kerti eða hringja klukku, og þeim mönnum sem hann krefur til. Ef kirkju verður grand nokkuð af eldi af meðför þeirra manna sem nú eru taldir til, eða lestist klukka, og halda þeir eigi ábyrgð, hvarvetna þess er þeir geta þann kvið að þeir færi svo með sem þá er þeir ætti sjálfir og vildi vel með fara. Ef maður hleypur til óbeðið að bera eld til kirkju eða hringja klukku eða kveikja kerti, og á sá þá að ábyrgjast er óbeðið tók til.

14.

Sá maður er á kirkjubæ býr er skyldur að fæða prest tvö missari ef hann á þar lögheimili, og syngur hann þar hvern dag löghelgan nauðsynjalaust. Ef prestur syngur þar sjaldnar, og er bóndi sá er á kirkjubæ býr skyldur að ala prest að dagverði, þá er hann syngur messu þar um daginn, og mann eða hross ef honum fylgir. Ef fleiri búa á einum kirkjubæ en einn bóndi, og skal að þeim hlut hver þeirra ala prest sem þeir hafa af landi, hvort sem þeir eru landeigendur eða eigi. Útlagur er sá er synjar.

Ef leiglendingur býr á kirkjubæ, og rénar kirkja svo að eigi má tíðir í veita í hverju veðri, og skal hann gera orð landeiganda að koma til að bæta kirkju. Landeigandi á svo til að fara, að að sé gert á hálfum mánaði hinum næsta þaðan frá er honum voru orð ger, svo að veita megi tíðir í. Ella er hann sekur þrem mörkum. Ef leiglendingur náir eigi fundi landeigenda, er hann farinn af landi eða úr fjórðungi, og er hann þá skyldur að gera að kirkju, og heimta til kostnað af landeiganda. En ef kviður ber það að þó mætti veita tíðir í kirkju, og er eigi landeigandi skyldur að gjalda honum þá fé fyrir verk. Guðs þökk skal hann þá fyrir hafa. Ef yngri menn eigu kirkjubólstað en sextán vetra gamlir karlar, eða konur yngri en tvítugar, og á sá maður að halda kirkju upp að öllu, er lögráðandi er fjár hinna ungu manna. Hann skal taka jafnmarga aura af fé hinna ungu manna sem búar virða að hann hefir lagið til kirkjuþurfta.

Þar skal kirkja hver standa sem hún er vígð, og svo fé það allt er þangað er til lagið eða keypt eða gefið. En ef nokkur lógar því fé á brott, og varðar það fjörbaugsgarð, enda skal aftur dæma féið allt til kirkju. Nú á annar maður land en annar kirkju, og lógar sá fé frá kirkju er land á. Þá á sök þá við hann sá er kirkju á. En ef sá lógar frá er kirkju á, og á þá landeigandi sök við hann, en sá er vill ef þeir vilja eigi sækja. Nú á maður fleiri kirkjur en eina, og skal hann skipta búningi og fé með þeim svo sem hann vill ef biskup lofar, enda á maður að kaupa tíðir af kirkjufé ef hann hefir eigi annað til, enda lofi biskup. Sá maður er kirkju á skal til fá vaxljós og eigi færri messur en tíu milli alþinga tveggja. Hann skal beiða þann prest er þar er næst, að hann syngi lögtíðir, og er hann útlagur þrem mörkum ef hann gerir eigi svo. Sá maður er kirkju á skal gera að kirkju svo að í öllum veðrum sé tíðir í gerandi, og á hann að grafa torf í landi hans þar er hvorki sé akur né eng. Sá maður skal ala prest er á landi býr og mann einn með honum eða hest. Sá maður á og að fá þrjár messur milli alþinga tveggja eða ellegar er hann útlagur þrem mörkum. Nú hrörnar kirkja svo að ósyngjanda er í, og skal sá maður er býr á landi gera þeim orð er kirkju á svo snemma sumars að að verði gert. Nú vill hann eigi að gera, og skal sá er land á heimta til búa fimm hvort þeim þyki tíðir í gerandi í svo búinni kirkju. Nú þykja þeim eigi tíðir í gerandi í öllum veðrum, og eignast sá þá kirkju er land á ef hann gerir að. Ef hann gerir að kirkju og hefir eigi áður sýnt búum, og eignast hann þó, ef hann hefir þeim gert orð áður er kirkju á, ef það ber kviður að eigi var syngjanda í öllum veðrum í kirkju áður. Nú brotnar kirkja ofan, og skal sá er land á gera þeim orð er kirkju á. Nú vill sá eigi upp gera, þá skal sá er land á hafa gert á þeim tólf mánuðum hinum næstum kirkju, og eignast hann þá kirkju, eða fært bein á brott að lofi biskups. Ef sá vill eigi kaupa tíðir á kirkju er á, og er hann útlagur um það þrem mörkum, en sá eignast kirkju er tíðir kaupir á. Ef sá maður er svo ungur að hann á eigi varðveislu fjár síns, eða sé hann af landi farinn, og vilja þeir eigi varðveita kirkju er fé hans hafa, og gera aðrir menn að, og á sá kost þá er tekur til fjár síns, hvort hann vill slíkt fá þeim sem þá hefir kostað er að hafa gert, eða vill hann að þeir eignist kirkju.

Það er manni og rétt að láta læra prestling til kirkju sinnar. Hann skal gera máldaga við sveininn sjálfan ef hann er sextán vetra. En ef hann er yngri þá skal hann gera við lögráðanda hans. Sá máldagi á að haldast allur er þeir gera með sér. Nú gera þeir eigi máldaga annan en maður tekur prestling til kirkju að lögmáli réttu. Hann skal fá honum fóstur og kennslu, og svo láta ráða honum sveininum, að bæði sé óvegslaust sveini og svo frændum hans, og svo við gera sem hans barn væri. Nú vill sveinn eigi nema og leiðist bók. Þá skal hann færa til annarra verka, og ráða honum til svo að hvortki verði af örkumbl né ílit, og halda til sem ríkast að öllu annars. Nú vill hann hverfa til námsins, og skal þar honum þá til halda. En þá er hann hefir vígslu tekið og hann er prestur, og er sá maður er honum fékk kennslu skyldur að fá honum messuföt og bækur þær er biskupi sýnist svo sem veita megi tólf mánaða tíðir með. Prestur skal fara til kirkju þeirrar er hann var lærður til, og syngja þar hvern dag löghelgan messu og óttusöng að meinlausu og aftansöng og um langaföstu og jólaföstu og imbrudaga alla. Hann skal lýsa að Lögbergi máldaga þann er við prest er ger, eða í lögréttu. Honum er rétt að verja lýriti innihafnir hans ef hann vill að Lögbergi. Ef prestur flýr kirkju þá er hann er til lærður, eða firrist svo að hann veitir eigi tíðir að sem mælt er, og varðar þeim manni skóggang er við honum tekur eða tíðir þiggur að honum eða er samvistum við hann. Jafnt varðar samvista við hann sem við skógarmann, síðan er lýriti er varið að Lögbergi, og er það fimmtardómssök, og skal sök þá lýsa að Lögbergi, og heimta hann sem annan mansmann. Svo skal prestur leysast frá kirkju að læra annan í stað sinn, þann er biskupi þyki þeim slíkt fullting í, er yfir þeim fjórðungi er. Ef prestur verður sjúkur, og skal sá maður ráða er kirkju heldur hve lengi hann vill varðveita hann. Sá maður á kost er kirkju varðveitir, ef honum þykir lengjast sótt hans, að færa prest á hendur frændum. Ef honum batnar, og er hann laus frá kirkju þá. En ef prestur andast frá þeim stað sem hann var til lærður, og átti hann fé eftir, og skal kirkja taka og sá maður er hana varðveitir, þrjú hundruð sex álna aura. En ef hann átti meira fé, þá skulu það hafa frændur prestsins.

15. OF BISKUPA.

Biskupa skulum vér eiga á landi hér tvo, og skal annar vera að stóli þeim í Skálaholti, en annar skal vera að Hólum í Hjaltadal, og skal sá hafa um Norðlendingafjórðung yfirför um sinn á tólf mánuðum hverjum. En sá biskup er í Skálaholti er skal hafa yfirför um þrjá fjórðunga, fara sitt sumar um hvern, Austfirðingafjórðung og Rangæinga og Vestfirðinga. Biskup er skyldur, þá er hann fer um fjórðung, að koma í löghrepp hvern svo að menn nái fundi hans, og vígja kirkjur og sönghús eða bænahús og biskupa börn og veita mönnum skriftagöngur. Þar er biskup vígir kirkju, og á hann þar tólf aura, en það fé gefur biskup til þeirrar kirkju sem hann hefir þar vígt. Þar er hann vígir sönghús eða bænahús, það skal hvort kaupa sex aurum. Ef biskup synjar þess sem hann er skyldur til að lögum, og megu þeir halda tíundum hans að móti. Búandi sá er vist veitir biskupi er skyldur að fá honum reiðskjóta þann dag er hann fer í brott. Húskarlar hans og búar og þeirra griðmenn eru skyldir að ljá biskupi hrossa, þeir sem hann biður til. Sekur er sá þrem mörkum um er synjar, ef hann á hross til.

Biskup skal segja til þess í héraði hverju að kirkjusókn hverjum í hönd skal inna fé það er menn skulu gjalda biskupi. Hver maður er skyldur að láta koma sína tíund til þess búanda sem biskup kveður á. Þar verður gjalddagi á fé því hinn fimmta dag viku þá er fjórar vikur eru af sumri. En ef eigi kemur fé það fram þar svo sem mælt er, og er þeim manni rétt er biskup hefir um boðið að nefna votta að eigi fer gjald fram. Honum er rétt að stefna þar um og heimta sem aðra tíund, enda er rétt að hann lýsi til fjárins á þingi sem biskup vill, og eru hin sömu viðurlög. Svo er mælt þar er maður skal gjalda tíund biskupi, hann skal gjalda í gulli eða brenndu silfri, í vaðmálum eða vararfeldum. Þá er maður tekur við fé biskups að hans ráði, og hverfi fé það eða glatist á annan veg, og heldur sá eigi ábyrgð er við tók ef hann getur þann kvið, að hann færi svo með sem þá að hann ætti. Ef fé það verður þjófstolið er biskup á, og er sá aðili þeirrar sakar er fé það hafði að varðveita, enda er rétt að sá sæki um sem biskup vill. Rétt er manni að heimta fé biskups þar er hann býður um þótt hann seli eigi sök í hönd manni. Eigi þarf vottorð til þess nema vili. Hvergi á fé að taka frá kirkju þótt tíðir sé brott teknar nema biskup lofi og landeigandi, og sá er til gaf eða hans erfingjar. Þar á brott að taka er þeir verða á það sáttir en hvergi ella.

16. OF PRESTAVISTIR OG KAUP.

Prestar eigu að taka sér lögheimili að fardögum, enda er rétt að þeir taki síðar, allt til lögleiðar þeirrar er verður drottinsdag þann er þvottdaginn næsta áður lifa átta vikur sumars. Prestur sá er þing hefir á að segja til lögheimilis síns á leið. En ef hann segir eigi á leið til [K: og er hann skyldur að segja heimilisbúum sínum fimm til] eða tekur hann sér eigi lögheimili að átta vikum sumars, og verður hann útlagur um það þrem mörkum, enda er rétt að stefna honum að þess bónda sem hinn vill er sækir, þeirra er hann hefir kirkju haft of þau missari í þingum. Sá á sök er vill.

Prestar eigu að selja tíðir sínar og meta eigi dýrra en tólf marka á millum alþinga tveggja. Sex merkur skal hann taka sex álna aura, en aðrar sex skal hann taka slíkar sem þar ganga að skuldamóti því sem þar eigu héraðsmenn er prestur hefir sér fengið vistar með bónda. Það fé skal vera, er presti skal gjalda, í vöru eða búfé eða lögaurum öllum. Ef prestur metur dýrra tíðir sínar en að lögum eða selur, og verður hann sekur of það þrem mörkum, enda er-at hinn skyldur að gjalda honum meira en lögkaup þótt hann hafi dýrra keypt. Ef land er illt yfirfarar eða tilfarar, og á biskup því að ráða að auka fétöku prests sem hann vill, og á það að halda þótt það sé meira en lögkaup.

Prestur á eigi að syngja fleiri messur of dag en tvær. Hann á enga að syngja náttmessu nema jólanótt hina fyrstu. Útlagur er hann þrem mörkum ef hann skipar eigi svo, enda skal eigi kaupa þá messu að honum.

Ef prestur rýfur skrift að manni, svo að biskupi þeim þykir nauðsynjalaust, er sá prestur er þá undir, og varðar það fjörbaugsgarð. Skal kveðja til níu heimilisbúa hans á þingi.

Prestar skulu vera hlýðnir biskupi, og sýna honum bækur sínar og messuföt. Sá prestur skal messu syngja sem biskup vill, en sá eigi er hann vill af taka þá þjónustu. Prestar skulu eigi fara með sundurgerðir þær er biskup bannar, og láta af höggva kanpa sína og skegg, og láta gera krúnu á hverjum mánaði um sinn, og hlýða biskupi að öllu. Ef prestur vill eigi hafa það er biskup býður, og verður hann sekur um það þrem mörkum við biskup, og á biskup sök þá að sækja að prestadómi í kirkju á alþingi, og skal biskup nefna presta tólf í dóm þann, og segja þar sök sína fram á hendur honum, og skal biskup bera sjálfur kvið um þá sök og prestar tveir með honum, og skal eiðlaust sækja sök þá. Ef prestur verður sannur að sök, og á dómur að dæma á hendur honum þrjár merkur að gjalda biskupi, miðvikudag í mitt þing á alþingi í búanda kirkjugarði, annað sumar eftir. En ef eigi kemur fé fram, og skal sækja sem annað dómrof. Biskup er skyldur að fá krisma öllum prestum sínum á hverju ári og vígja messuskrúð þeirra. Ef þeir vilja hafa vín og hveitimjöl, þá skal hver þeirra gjalda honum þrjár álnir á tólf mánuðum.

17.

Ef prestar koma út hingað til lands, þeir er verið hafa fyrr út hér, og lofaði biskup þeim að veita tíðir, og er mönnum rétt að kaupa tíðir að þeim lengur er þeir hafa sýnt biskupi bækur sínar og messuföt, eða þeim presti er biskup býður um. En ef útlendir prestar koma út hingað, þeir er eigi hafa hér fyrr verið, og skal eigi tíðir að þeim kaupa, og eigi skulu þeir börn skíra nema barn sé svo sjúkt að ólærður maður ætti að skíra. Heldur skulu þeir skíra en ólærðir menn. Ef hann náir eigi öðrum presti, þá er rétt að kaupa tíðir að þeim ef þeir hafa rit og innsigli biskups þess er þá vígði, til þess að rétt sé að þiggja að þeim þjónustu og tíðir. Ef prestur hefir eigi innsigli, og er rétt að hann hafi vitni tveggja manna, þeirra er hjá voru vígslu hans, og segi orð biskups þau að mönnum sé rétt að þiggja tíðir og alla þjónustu að honum.

Ef biskupar koma út hingað til lands eða prestar þeir er eigi eru lærðir á latínutungu, hvorts þeir eru ermskir eða girskir, og er mönnum rétt að hlýða á tíðir þeirra ef vilja. Eigi skal kaupa tíðir að þeim, og enga þjónustu skal að þeim þiggja. Ef maður lætur þann biskup vígja kirkju eða biskupa börn er eigi er á latínu lærður, og verður hann sekur þrem mörkum um það við þenna biskup er hér er áður, enda skal þessi taka vígslukaup. Svo skal kirkju vígja og biskupa börn sem ekki sé að gert þótt þeir hafi yfir sungið er eigi eru á latínutungu lærðir.

18.

Menn skulu trúa á Guð einn og á helga menn til árnaðarorðs sér, og blóta eigi heiðnar vættir. Þá blótar maður heiðnar vættir er hann signar fé sitt öðrum en Guði og helgum mönnum hans. Ef maður blótar heiðnar vættir, og varðar það fjörbaugsgarð, og skal kveðja heimilisbúa níu til á þingi.

Ef maður fer með galdra eða fjölkynngi, og varðar honum það fjörbaugsgarð, og skal stefna heiman og sækja við tylftarkvið. Þá fer hann með galdra ef hann kveður það eða kennir eða lætur hann kveða að sér eða fé sínu. Ef maður fer með fordæðuskap, það varðar skóggang. Það eru fordæðuskapir, ef maður gerir í orðum sínum eða fjölkynngi sótt eða bana mönnum eða fé. Það skal sækja við tylftarkvið. Menn skulu eigi fara með steina eða magna þá til þess að binda á menn eða fénað. Ef maður trúir á steina til heilindis sér eða fé sínu, og varðar það fjörbaugsgarð.

Skal-at maður eiga fé óborið. Ef maður á óborið fé, og lætur ómerkt ganga til þess að hann trúir heldur á það en annað fé, eða fer hann með hindurvitni með hverigu móti sem er, þá varðar honum fjörbaugsgarð.

Ef maður gengur berserksgang, og varðar það fjörbaugsgarð, og varðar svo karlmönnum þeim er hjá eru, nema þeir hefti hann að, þá varðar engum þeirra ef þeir vinna stöðvað. Ef oftar kemur að, og varðar það fjörbaugsgarð.

19.

Vér skulum halda drottinsdag hinn sjönda hvern svo að þá skal ekki vinna nema það er nú mun eg telja: Menn eigu að reka búfé sitt heim og heiman, og eigu konur að heimta nyt af fé og bera heim, hvort sem skal að menn beri heim eða ferja á skipi eða bera á hrossi, ef vötn ganga milli bæjar og stöðuls, og eigu konur að gera til nyt þá. Það er mælt ef eldur kemur í hús manns eða í andvirki, hvertki sem er, eða ganga að vötn eða skriður eða ofviðri, á hveriga lund er þeir hlutir vilja meiða fé manns, og skal hann svo bjarga allri björg við skaða sem rúmheilagt sé. Ef fé manns verður sjúkt í haga úti, og er honum rétt að reiða heim ef það hefir þá heldur líf sitt, enda er honum rétt að láta af það fé og gera til sem þá að rúmheilagt sé.

Menn eigu að fara drottinsdag förum sínum, og á hver þeirra að hafa hálfa vætt fata sinna, og á engi þeirra að veita öðrum þótt annar eigi meiri föt en annar minni. Þeim er rétt að bera á sjálfum sér eða fara á skipi eða bera á hrossi. Maður á að fara með göngumannaföt drottinsdag, þótt það vegi meira en hálfa vætt. Maður á og að fara með þingföt sín og með mat, þótt meira vegi en hálfa vætt, það er hann skal á þingi hafa. Rétt er að hafa hálfa vætt varnings umfram ef hann vill. Ef maður hefir meiri klyfjar, og kemur hann þvottdag, og er bóndi skyldur að ala þá um helgina. Svo skulu þeir til skipa að maður hafi klyfjahross eitt eða tveir menn þrjú ef svo gengur betur.

Búandi er skyldur að ala þingmenn jafnmarga hjónum, þá er fyrstir koma, og fara til öndverðs þings, og að þinglausnum af þingi. Útlagur er bóndi þrem mörkum ef hann synjar, og á sá sök er vistar er synjað, og er rétt þá að stefna þegar og kveðja búa fimm á þingi.

Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur eða með sleða eða með andvirki sitt, þótt það vegi meira en hálfa vætt, hvatki sem er þess er hann þarf í gegn að hafa skrúði því er hann vill úr seli hafa eftir helgina. Manni er og rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, á rekastrandir eða í skóga, ef hann á, með andvirki sitt það er hann þarf að hafa í gegn viði eða kolum þeim er hann vill heim færa eftir helgina. Svo skulu þeir til ætla að maður hafi eigi fleiri hross en eitt í togi. Eigi varðar við lög að hestar renni eftir.

Rétt er að þerra úti föt eða vöru, þótt drottinsdagur sé, ef menn eru nauðstaddir að. Ber er og rétt að lesa og heim að hafa, þótt drottinsdagur sé, og eigi meiri en menn hafi í höndum sér. Þar er maður færir bú sitt drottinsdag í fardögum, þá er honum rétt að reka málnytu sína til þess bæjar er hann skal búa þau misseri. Eigi skal þá reiða yfir vötn eða ferja. Ef maður finnur sauð einn um haust í rétt, og er honum rétt að hafa heim með sér hvorts hann vill reiða eða annan veg með fara. Ef maður kaupir geldfé á haust, og er honum rétt að reka heim og með að fara þótt drottinsdagur sé, en hann skal eigi ferja um vötn eða reiða.

Ef menn koma af hafi og eru svo staddir að mönnum er háski eða fé þeirra eða þótt menn feri farma hér fyrir land fram, og er rétt að hrjóða skip og bera farm af þótt drottinsdagur sé, ef mönnum þykir skip í háska eða fé þeirra. Hver maður þeirra er þar er skal gefið hafa á sjö nóttum hinum næstum þaðan frá er þeir hruðu skip sitt áln vaðmáls eða ullarreyfi það er sex geri hespu, gefa þeim mönnum er svo lítið fé eigu að eigi gjaldi þingfararkaup. Sekur er maður um þrem mörkum ef hann gefur eigi. Sá á sök er vill.

Ef maður finnur rekatré af skipi, og er rétt upp að leggja. Ef tré er meira en hann megi á skip leggja, og skal hann eigi höggva í sundur, en rétt er honum að flytja að landi og gefa af hinn fimmta hlut. Ef maður finnur rekatré í fjöru sinni, og á hann upp að velta úr flæðarmáli drottinsdag. Ef hann má eigi upp koma, og á hann það tré að merkja. Eigi skal hann í sundur höggva tréið. Hann eignast hvargi sem á land kemur ef hann hefir lögmark á lagið. Ef maður fer för sinni drottinsdag, og kemur hann að þar er löghlið er aftur bætt, og á hann að brjóta upp þótt heilagt sé. Sá er útlagur er hlið bætti, en eigi hinn er braut garðinn.

20.

Maður á að bera klyfjar helga daga er hann fer til þings, hálfa vætt annað en mat sinn og klæði, og er hann fer af þingi. Eigi skal maður drottinsdag hefja upp för sína ef hann fer með klyfjar. Það er og að tvo skal karlmenn ala ef þeir hafa einn klyfjahest, en þrjá ef þeir hafa tvö hross, um helgina, og ala jafnmarga menn hjúum ef þeir fara til alþingis, þá er fyrstir koma og til öndverðs þings fara, og svo þá er af þingi fara að þinglausnum. Útlagur er hann þrem mörkum ef hann synjar.

21.

Brúðmenn skal ala fimm saman með brúðguma eða brúði, en þrjá annars staðar, til þess er þeir eru þrír tigir. Stefnumenn skal og ala fimm saman en þrjá annars staðar til þess er þrír tigir eru, hálfan mánað þann eftir páska en mánað ef þeir fara úr fjórðungi.

Farmenn skal og ala fimm saman með stýrimanni en þrjá annars staðar. Þá menn skal og ala er til vorþings fara eða til leiðar. Þingmönnum, farmönnum, brúðmönnum, göngumönnum, þeim mönnum fernum er lofað að bera klyfjar drottinsdag. Svo er og mælt um eldi þeirra manna er búa fara að kveðja eða lýsa víg eða sár sem við stefnumenn.

22.

Ef maður fer á róðrarskipi, og skal maður eigi hafa meira höfga en hálfa vætt helgan dag. Rétt er að ráða skipi til hafnar helgan dag, og svo að hrjóða það ef því er hætt. Rétt er og helgan dag að fara úr Vestmannaeyjum, ef þeir hafa veðurfastir setið, og gefa penning veginn fyrir mann hvern, lögsilfurs hins forna. Svo er og að fara úr úteyjum öllum helgan dag með farm, að gefa skal penning fyrir mann.

Drepa skal sel helgan dag ef í nót liggur en taka eigi úr. Útlagur er hann þrem mörkum ef hann gerir fleira að.

Svo er mælt að jafnt skal halda nóttina fyrir helgan dag sem daginn sjálfan. Ef rúmheilagt er eftir löghelgan dag, og er mönnum rétt að fara til sýslu sinnar hinn öfra hlut nætur. Mývetningum er það rétt að leggja net sín í vatn helgan dag eftir eykt ef rúmheilagt er eftir. Rétt er og mat að sjóða helgan dag þá til verðgjafa, og svo annan mat til að gera þann er þá skal hafa. Elda er og rétt að gera, og kljúfa torf til, en kurflaður skal viður fyrir. Ef klæði rifnar af manni þá er heilagt er, og skal sauma að honum. Ef maður fer með tréreiði eða viðbönd, og brotna fyrir honum, eða klyfberar, eða hvergi skrúði er sá er, þá skal hann binda saman ef það hlýðir. Nú hlýðir það eigi, þá skal hann höggva tré til viðja, og bæta allri bót svo að honum hlýði með tálgu og bandi þó að heilagt sé.

23.

Ef fé manna er í sveltikví, og er rétt út að láta þó að heilagt sé. Eigi skulu þeir draga út fé. Annaðtveggja skulu þeir láta út allt fé eða inni allt. Ef menn ganga á merki helgan dag, og er rétt að skera jarðkrossa, og svo að gera önnur merki að. Ef fé manna gengur úr afrétt, og er rétt að reka aftur og ríða eftir, eða rekur fé úr sveltikvíum. Rétt er og að bera einn sauð á baki sér þótt hann sé þyngri en hálf vætt.

Menn eigu að tjalda allt til nætur er til vorþings fara eða til leiðar, og bera klyfjar á þvottdegi til þess er sól er skafthá. Net öll skal upp taka fyrir eykt. Þeir menn er út róa skulu heimta upp vaði sína fyrir eykt og róa að landi síðan, og bera feng sinn úr flæðarmáli, og búa um svo að hvortki falli á fuglar né dýr. Ef þeir menn eru á skipinu er búa ómegðarbúi, og sé menn öreiga, og er rétt að fiskja þeim til þess er sól er skafthá.

Nú vinna menn á eykt, og eru þeir útlagir um það þrem mörkum, nema þeir fái þann kvið að þeir sá eigi sól og þeir vissu eigi hve fram var, og varðar þeim það ekki. Ef þrælar manns eða skuldarmenn vinna á eykt að sínu ráði, og verða þeir útlagir um það fjórum aurum ef þeir eigu sér úrkostu.

Ef fé gengur í akur eða eng, og skal það á brott reka þótt heilagt sé. Hross skal maður taka og tauma og hefta þótt heilagt sé. En ef hann fer för sinni, og skal hann eigi reka fleiri hross fyrir sér en eitt. Rétt er og við að höggva til tjaldviða og til eldiviðar ef menn fara för sinni í óbyggðum, þótt heilagt sé. Keyrivönd skal maður höggva þótt heilagt sé.

En ef maður vinnur fleira en nú er talið löghelgan dag, hverngi daginn sem það er, og verður hann útlagur um það þrem mörkum, og á sök þá hver er vill. En ef hin meiri er helgi á deginum, og varðar þá sex merkur. Sökum þeim skal stefna heiman, og kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er.

24.

Vér skulum halda þvottdag hinn sjönda hvern nónhelgan svo að þá skal ekki vinna er eykt líður, nema það er nú mun eg telja: Það á að vinna þá allt sem drottinsdag á að vinna. Þá er eykt, er útsuðursátt er deild í þriðjunga, og hefir sól gengna tvo hluti en einn ógenginn. Ef menn láta fé af þvottdag, og skal borið af skinni fyrir eykt. Þá eigu menn að saxa um aftaninn og skera mör og gera mat til, þann er um helgina þarf að hafa, þótt svo sé til ætlað að nokkuð gangi af, og varðar eigi við lög.

Nýmæli: Ef menn vinna á eykt þvottdag, og varðar það útlegð um þrjár merkur, og skal búanda fyrst sækja ef hann er í verki. Ef griðmenn eru í verki eða skuldarmenn eða þrælar, og á frelsingja fyrst að sækja ef þeir hafa unnið á eykt, og verða þeir sóttir um, og verjast þeir því máli ef þeir fá þann kvið að eigi mátti sól sjá og þeir mundi skemur vinna ef sól sæi. Það er og bjargkviður ef það ber að aðfærsla þeirra væri svo lítil að þeir þörði eigi heim að ganga fyrir ofríki bóndans, og verður bóndi þar útlagur en eigi þeir.

Ef maður ber klyfjar þvottdag og vill hann heim þreyta, og á að bera til þess er sól er skafthá. Ef hann má eigi þreyta heim, og skal hann tekið hafa sér gisting og ofan lagðar klyfjar þá er sól er í vestri. Útlagur er bóndi þrem mörkum ef hann synjar honum vistar. Hinn skal bera klyfjar til hins næsta bæjar er á leið er, og biðja þar vistar. Útlagur er búandi ef hann synjar. Hinn skal fara til hins þriðja bónda áleiðis og leggja ofan klyfjar og biðja sér vistar þar og fatahirslu. Ef bóndi synjar honum vistar, og verður hann útlagur um það, enda ábyrgist hann klyfjarnar ef hinn lætur eftir liggja, er á, þar í túni hans. Bera á maður klyfjar af fjalli ef honum hefir seinna orðið en hann ætlaði, þótt dægur sé lögheilög.

25.

Brúðmenn eigu að bera klyfjar þvottdag til þess er sól er skafthá. Búandi er skyldur að ala þá með fimmta mann. Útlagur er hann ef hann synjar þeim vistar, ef brúðgumi er í för eða brúður. Þrjá menn er hann skyldur að ala ella.

Farmenn eigu að bera klyfjar þvottdag til þess er sól er skafthá. Bóndi er skyldur að ala þá með hinn fimmta mann ef stýrimaður er í för, en þrjá menn ella. Útlagur er bóndi þrem mörkum ef hann synjar þeim vistar, og eigu þeir sök er vistar er synjað, og skal stefna heiman og kveðja búa fimm til á þingi.

Þeir bændur eru til mannaeldis skyldir er þingfararkaupi eigu að gegna, en eigi þeir er minna fé eigu. Þeim manni er rétt, er með goðorð fer til vorþings, þótt meir sé en eykt, að bera klyfjar eða fara á skipi, og svo þingheyjöndum öllum þeim er til öndverðs þings fara. Föt sín og tjöld eigu þeir að hafa, og mat. Hafa á maður hálfa vætt varnings umfram ef hann vill. Bóndi er skyldur að ala þá menn um nótt er til vorþings fara, og hálfu færri en hjú, þá er þingheyjendur eru og fyrst koma. Goði skal eigi koma síðar til vorþings þvottdag en hann hafi tjaldað búð sína þá er sól er skafthá, og sé búinn að ganga þá til þinghelgi. Útlagur er hann ef vinnur lengur.

Þá er sól skafthá, ef maður stendur í fjöru þar er mætist sjár og land að hálfföllnum sjá, og mætti hann sjá í haf út þá er sól gengur að vatni, enda sýnist honum svo, ef spjót væri sett undir sólina það er svo væri háskeft að maður mætti taka hendi til fals, að oddurinn tæki undir sólina en spjótskaftshalinn í sjáinn niður ef í heiði mætti sjá, og mældi hann níu fet frá.

Ef maður vinnur drottinsdag eða þvottdag eftir eykt eða löghelgan dag hverngi sem er, fleira en nú er tínt, þá er hann útlagur um það þrem mörkum. Sá á sök er vill. Sök þeirri skal stefna heiman, og kveðja til fimm heimilisbúa á þingi þess er sóttur er. Svo skal nóttina halda fyrir löghelgan dag sem daginn sjálfan. Ef rúmheilagt er eftir helgan dag, og er rétt að fara til sýslu hinn öfra hlut nætur.

26.

Jólahelgi eigum vér að halda á landi hér. Það eru dagar þrettán. Svo skal halda hinn fyrsta og hinn áttunda og hinn þrettánda sem páskadag hinn fyrsta. En annan dag jóla og hinn þriðja og hinn fjórða, þá skal halda sem drottinsdag að öllu annars, nema því að þá er rétt að moka undan fé hinn þriðja dag jóla og hinn fjórða, hvorn er vill. Meðaldaga alla aðra á jólum, þá er rétt að moka og reiða á völl, þann hluta vallar er nær er fjósi, ef hann hefir eyki til, og velta þar af. Ef maður dregur myki út og hefir eigi eyk til, og skal færa í haug. Það eigu menn að vinna meðaldaga á jólum, að láta fé af það er um jól þarf að hafa, og heita mungát og reiða andvirki það er skylt er, hey ef það er haglegra að gefa en hitt sem heima er, enda mætti eigi gera lok á fyrir jólin. Eigi skal og reiða meira forverk heys en vel vinni um jól.

27.

Páskahelgi eigum vér að halda. Það eru dagar fjórir. Páskadag hinn fyrsta skal halda sem jóladag hinn fyrsta en annan og hinn þriðja og hinn fjórða skal halda sem drottinsdag.

En frá páskadeginum fyrsta skulu vera vikur fimm til drottinsdags þess er gagndagavika hefst upp eftir. Annan dag viku og hinn þriðja og miðvikudag í gagndögum, þá skulum vér halda að helgi sem þvottdag, enda fasta einmælt, þeir menn er til lögföstu eru taldir. Rétt er að hafa hvítan mat að kveldi ef vill. Ef ber á annan dag viku eða hinn þriðja í gagndögum, Filippusmessu og Jakobus eða crucismessu eða kirkjudag, og er rétt að eta þá tvímælt, en eigi slátur. Lögskylt er að fasta dag og nótt fyrir uppstigningardag. Hinn fimmta dag í gagndögum er uppstigningardagur. Hann skulum vér halda sem páskadag.

Frá páskadeginum fyrsta skulu vera vikur sjö til drottinsdags í hvítadögum, þar er vika heil á milli og gagndagaviku. Þvottdag fyrir hvítadaga er mönnum skylt að fasta dag og nótt. Drottinsdag í hvítadögum skulum vér halda sem hinn fyrsta páskadag. Annan dag viku skulum vér halda sem drottinsdag. En hinn þriðja og miðvikudag þá er mönnum rétt að bera klyfjar, þar er menn færa bú sitt, og ferja farma og vöru sína til skips og reka fé sitt í afrétt og klippa sauði. [St: Svo var sett í landslögum á dögum þeirra Þorláks biskups og Brands biskups.]

28.

Messudaga eigum vér að halda lögtekna á landi hér, þá er nú man eg segja: Frá hinum þrettánda degi jóla eru nætur sjö til hins átta dags frá hinum þrettánda. Þá eru átta nætur til Agnesarmessu, þá fjórar nætur til Pálsmessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru sjö nætur til Brígiðarmessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan er ein nótt til kyndilmessu [K: Maríumessu]. Þaðan eru tuttugu nætur til Pettarsmessu, og er eigi fasta fyrir. Þaðan eru tvær nætur til Matthíasmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru sextán nætur til Gregoríusmessu en sautján ef hlaupár er. Þaðan eru níu nætur til Benediktusmessu. Þaðan eru fjórar nætur til Maríumessu. Þaðan er einni nótt miður en þrír tigir nátta til Jóansmessu. Þaðan eru tvær nætur til gagndags hins eina. Hann skulum vér halda að helgi svo sem þvottdag, og fasta dagföstu nema hann verði á páskaviku eða kirkjudag, þá er rétt að hafa tvímælt og eigi kjöt nema beri á páska. Þá er rétt að eta kjöt ef vill hina löghelgu daga en eigi ella. Þaðan eru sex nætur til Filippusmessu og Jakobus, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru tvær nætur til crucismessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru sjö nætur hins fjórða tigar til Kólumkillamessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru fimmtán nætur til Jóansmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru fimm nætur til Pettarsmessu og Páls, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru níu nætur til Seljumannamessu, og eigi fasta fyrir. [K: Sautján nætur til Jakobsmessu, og fasta fyrir dag og nótt.] Þaðan eru tólf nætur til Þorláksmessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru fimm nætur til Jakobusmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru fjórar nætur til Ólafsmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru tólf nætur til Lárentíusmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru fimm nætur til Maríumessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru níu nætur til Bartólómeusmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru fimmtán nætur til Maríumessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru sex nætur til crucismessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru sjö nætur til Mattheusmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru átta nætur til Mikjálsmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan er einni nótt minnur en þrír tigir til Símonsmessu og Júdas, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru til allraheilagramessu fjórar nætur, og fasta fyrir dag og nótt nema messudaginn beri á annan dag viku, þá skal fasta föstunóttina næstu messudeginum, og skal bóndi gefa náttverð hjóna sinna, þeirra er til lögföstu eru komnir, innanhreppsmönnum þeim er eigi gegna þingfararkaupi, og imbrunáttaverð tveggja [Ab: ella um nótt fyrir Þorláksmessu]. Hver bóndi er skyldur að gefa þriggja nátta verð hjóna sinna og gefa eigi fiskanáttverð, og skulu hreppsmenn skipta matgjöfum þeim á samkomu um haust.

Frá allraheilagramessu eru tíu nætur til Marteinsmessu, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru ellefu nætur til Sesilíumessu og er þar dagfasta fyrir ef hún stendur á föstudegi. Þaðan er ein nótt til Klemensmessu. Þaðan eru sjö nætur til Andreasmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru sex nætur til Nikolasmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan er ein nótt til Ambrósíusmessu. Þaðan eru sex nætur til Magnúsmessu og Luciae, og eigi fasta fyrir. Þaðan eru átta nætur til Tómasmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Þaðan eru tvær nætur til Þorláksmessu, og fasta fyrir dag og nótt. Hún verður einni nótt fyrir þann dag er að jólum skal fá en tveim nóttum fyrir jóladag hinn fyrsta.

[Z: Öngva nótt skal þá skylt að fasta fyrir messudag þann er hann skal sjálfan fasta, nema fyrir annarrar tíðar sakir sé þá skylt að fasta. Nónhelgi er fyrir Jónsmessu baptistae, svo fyrir Pétursmessu og fyrir Maríumessu fyrri. Fyrir messudaga þá alla er tveggja dægra fasta er fyrir skal eigi vinna lengur en til miðs aftans. Rétt er að vinna til náttmáls fyrir messudaga þá alla er eigi er tveggja dægra fasta fyrir.]

29.

Fimmtán eru dagar þeir á tólf mánuðum er menn eigu eigi fleira að vinna [K: fleira veiða] en það sem nú mun eg telja: Hvítabjörn eigu menn að veiða og gera heiman för til, og á sá björn er banasári kemur á, hvergi er land á, nema þrælar veiði eða skuldarmenn, þá á sá er fé átti að þeim mönnum. Rosmhval eigu menn að veiða, og á sá hálfan er veiðir en hálfan sá er land á. Rekhval eigu menn að flytja og festa, og skera ef eigi festir. Ef landgangur verður að fiskum, og skulu menn taka þá. En þá er landgangur að fiskum ef menn höggva höggjárnum eða taka höndum. Eigi skal net hafa við né öngla. Fugla eigu menn að taka fjaðursára þá er höndum má taka. Gefa skal af hinn fimmta hlut svo sem annars staðar af drottinsdagaveiði. Jóladag hinn fyrsta á svo að veiða sem nú er talið, og eigi fleira, og hinn átta og hinn þrettánda og páskadag hinn fyrsta og uppstigningardag og drottinsdag í hvítadögum og svo Maríumessur fjórar og allraheilagramessu og Jóhannsmessu baptista og Pettarsmessu og Páls um sumar, og kirkjudag og Þorláksmessu. En drottinsdaga alla aðra og messudaga, þá verður eitt hald á öllum öðrum dögum.

[Sk: Gefa skal af hvölum öllum ef fluttir eru eða skornir hinn fimmta hlut alla löghelga daga.]

30. UM LEYFIDAGA.

Þessir eru leyfisdagar: Sebastiani, Vincentii, Blasii, Agathae, Johannis ante portam Latinam, Barnabae, Viti, Johannis et Pauli, Commemoratio Pauli, Septem fratrum, Mariae Magdalenae, Ad vincula Petri, Inventio Stephani, Sixti, Ypoliti, Octava Mariae, Augustini, Decollatio Johannis baptistae, Mauritii, Cosmae et Damiani, Remigii, Dionysii, Gereonis, Lucae, Virginum, Severini, Briccii, Theodori, Barbarae. Leyfi er tvímælt að hafa Barbárumessu ef eigi stendur á föstudegi.

31. UM BOÐFÖSTUR.

Þessar föstur bauð Þorlákur biskup alþýðu umfram það er lögföstur eru taldar: Föstudaga alla rúmhelga skal fasta, nema föstudag í páskaviku, þá er lofað að eta tvímælt. Frá því er vetur kemur skal fasta föstunætur allar til páska, nema þá er næst jólum eftir, þá er lofað að hafa hvítan mat. Frá því er vetur kemur skal fasta miðvikudag hvern til jóla. Frá jólum er eigi boðin miðvikudagafasta til níu vikna föstu. Þá er níu vikna fasta kemur til sjö vikna föstu skal fasta þrjá daga í viku og eina nótt. Lofað er að hafa tvímælt annan dag viku í sjö vikna föstu og hinn þriðja. Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af.

Frá páskum til vetrar er setumönnum skylt að fasta föstunætur en eigi verkmönnum. Öllum mönnum er lofað að hafa hvítan mat föstunótt hina næstu eftir uppstigningardag, lofað þeim mönnum er eigi hafa vel föstumat að hafa hvítan mat föstunætur fyrir hvítadaga. Sex dægra föstu skal fasta, aðra fyrir allraheilagramessu eða Símonsmessu, en aðra skal fasta fyrir jól, sem næst má jólum. [Sk: Setumenn skulu fasta föstunætur frá páskum til vetrar nema milli uppstigningardags og hvítadaga. Engar eru verkmönnum náttföstur boðnar um sumar nema lögskyldar sexdægrur tvennar, fyrir allraheilagramessu og fyrir jól.] Þessar föstur eru boðnar heilum mönnum og eigi eldrum en sjöræðum og eigi yngrum en sextán vetra gömlum.

Engi nótt skal skylt að fasta fyrir messudag þann er hann sjálfan skulu menn fasta, nema fyrir annarrar tíðar sakir sé þá skylt að fasta. Öllum mönnum voru boðnar hér á landi tvær sex dægra föstur, heilum, yngrum en sjöræðum og eldrum en sextán vetra gömlum, og svo þessar allar föstur.

32.

Langaföstu eigum vér að halda, það eru sjö vikur. Drottinsdag þann skulum vér ganga í föstu sem upp er sagt á þingi eða á leiðum. Þá er maður gengur í föstu, og skal hann etið hafa kjöt fyrir miðja nótt. En þá skal eigi eta kjöt á þeim sjö vikum fyrr en sól rennur á fjöll páskadag. Annan dag viku hinn fyrsta í langaföstu, og hinn þriðja, er rétt að hafa tvímælt og eigi kjöt. En alla daga þaðan frá til páska nema drottinsdaga, þá skal fasta. Miðvikunætur allar og föstunætur allar er lögskylt að fasta um langaföstu og þvottnótt í imbrudögum.

33.

Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna. Föstudaga eigum vér að fasta í jólaföstu og næturnar, og hinn næsta dag jólum fyrir, og jólanótt, og fyrir hinn þrettánda dag skulum vér fasta um daginn.

34.

Imbrudaga skulum vér halda tólf að föstu á tólf mánuðum, og næturnar. Eina imbrudaga skal halda á annarri viku langaföstu jafnan, og á hvítadagaviku aðra. Rétt er að eta hvítan mat að kveldi þvottnótt þá imbrudaga er um hvítadaga verða. Svo skulum vér halda imbrudaga fyrir jól og fyrir Mikjálsmessu sem upp er sagt á þingum eða á leiðum. [Sk: Of haust fyrir Michaelsmessu skulum vér halda svo imbrudögum að þvottdagur sá er verður í imbrudögum skal vera næstur eftir krossmessu ávallt. En fyrir jól skulum vér svo halda að drottinsdagur einn skal vera í milli þvottdags í imbrudögum og jóladags.] Of langaföstu og imbrudaga alla og þvottdag fyrir hvítadaga varðar manni fjörbaugsgarð ef hann etur kjöt. En um allar föstutíðir aðrar verður maður útlagur um þrem mörkum þótt hann eti kjöt, og á sá sök er vill. Útlagur er jafnan sá maður er til föstu er taliður ef hann hefir hvítan mat þá er lögfasta er, annan en kjöt. Allt eru það stefnusakir. Skal kveðja til heimilisbúa á þingi þess er sóttur er, níu til fjörbaugssaka en fimm til útlegðarsaka.

Ef maður verður svo staddur í úteyjum um langaföstu að hann hefir eigi annan mat til en kjöt, og skal hann heldur eta kjöt en fara öndu sinni fyrir matleysi. Hann skal eigi eta kjöt imbrudaga og föstudaga. Svo skal hann eta að hann ali önd sína við, eigi skal hann hyldast á. Gengið skal hann hafa til skriftar við kennimann á sjö nóttum hinum næstum er hann kemur úr eyjum. Það er kjöt ef menn láta af naut eða færsauði eða geitur eða svín.

Ef svín kemur á hrossakjöt, og skal maður ala þrjá mánaði, og fella hold af, en feita aðra þrjá. Ef svín kemur á mannshræ, og skal það ala mánaði sex, og fella hold af ef hylst hefir en feita aðra sex. Þá er rétt að nýta svín ef hann vill. Björn eigu menn að nýta hvort sem er viðbjörn eða hvítabjörn, og rauðdýri, hjört eða hrein. Rosmhval og sel, það skal eta á þeim tíðum aðeins er kjöt er ætt. Fugla eigu menn að eta þá er kjötætt er, þá alla er á vatni fljóta. Klófugla skulu menn eigi eta, þá er hrækló er á, örnu og hrafna, vali og smyrla. Rétt er að eta hænsn og rjúpur. Þar eru egg æt undan þeim fuglum er fuglar eru ætir. Á þeim tíðum skal egg eta er menn eigu að eta hvítan mat.

Kvikfé eigu menn að nýta það er af láta sjálfir. Þó er rétt að nýta þótt eigi láti sjálfir af, ef maður veit hvað verður, hvort sem er að ferst í vötnum eða drepa skriður eða hríðir eða hvatki er því verður þess er maður veit. Af skal gefa hinn fimmta hlut af öllu fé nema menn sæfi, og skal gefið á sjö nóttum hinum næstum þaðan frá er féið fór. Innanhreppsmönnum skal gefa, þeim er eigi eigu þingfararkaupi að gegna. Sekur er hann um þrem mörkum ef hann gefur eigi svo. Kálf skal ala þrjár nætur. Þó er rétt að nýta hann, að hann sé fyrr skorinn, ef honum er matur gefinn, og gefa af hinn fimmta hlut. Það fé er og óætt er mannsbani verður. Hross eigu menn eigi að eta og hunda og melrakka og köttu, og engi klódýr og eigi hræfugla. Ef maður etur þau kykvendi er frá er skilið, og varðar það fjörbaugsgarð.

35.

Þeim manni er skylt að fasta lögföstu er hann er tólf vetra gamall áður að sumarmálum. Eigi skal honum þann vetur telja er hann er svo alinn að nokkur nótt er af. Maður á að halda lögföstu til þess er hann er sjötugur. Heill maður á að halda lögföstu, en eigi sá er sjúkur er. Yngri maður en tólf vetra gamall, og eldri en sjötugur, er eigi skyldur að fasta nema hann vili.

Konu þeirri er eigi skylt að fasta er barn hefir kviknað í kviði. Kona sú er eigi til lögföstu talið er barn hefir á brjósti um hina fyrstu langaföstu. Hafa á hún barn á brjósti hið sama til hinnar þriðju langaföstu. Eigi skal það standa lengur fyrir lögföstu hennar en eina föstu. Jafnskylt er þeim mönnum að varna við kjötvi á föstutíðum, er eigi eru taldir til föstu, sem hinum er fasta eigu.

36.

Sá maður er varðveitir hinn unga mann eða óvita og lætur hann eta kjöt á föstutíðum, eða óátan þótt eigi sé föstutíðir, og varðar honum svo við lög sem hann eti sjálfur, en ekki hinum er etur, ef hann átti eigi vit til að sjá við. Ef maður ber í mat manns það er eigi er ætt, og vill hann það gera til háðungar honum, og varðar það fjörbaugsgarð þeim er gerir en ekki þeim er etur.

37.

Setumönnum er skylt að fasta um engiverk, en eigi þeim verkmönnum er í engiverki eru, og eigi þeim manni er smala rekur heim, og eigi þeim manni er önnungsverk hefir fyrir búi manns. Það er önnungsverk, er maður vinnur hvern dag það er bóndi vill. Eigi skal setumaður hlaupast til verks þá daga er hann skyldi fasta, til þess að hann skyli þá heldur matast en áður. Saman kemur lögfasta með öllum mönnum þá er imbrudagavika hefst upp á haust, og til þess er líður Pettarsmessu á sumar. Sá maður, er hann skal fasta, hann skal hafa etið mat sinn fyrir miðja nótt þá er hann fastar um daginn eftir og matast eigi áður líður eykt. Svo skal hann varna við kjötvi næturnar þær er lögskylt er að fasta sem um daginn eftir.

Þá skal nótt vera á haust og á vetur er maður má eigi sjá dag, og væri hann þar er hann mætti sjá í haf út í skýlausu veðri. Þá skal nótt vera á sumar er sól gengur um norðurátt. Það er norðurátt er sól er komin í beggja átt, norðurs og útnorðurs, til þess er hún kemur í beggja átt, norðurs og landnorðurs.

Þá er maður fastar um nótt, og skal hann hafa þurran mat. Það er þurr matur: Gras og aldin og jarðarávöxtur allur. Það á maður og að eta þá er hann fastar, fiska alls kyns og hvala aðra en rosmhval og sel. Þá skal þá aðeins eta er kjötætt er. Hrosshval skal eigi eta og náhval og rauðkembing.

Það er mælt um sakir þær allar er nú eru taldar í Kristinna laga þætti að þeim sökum skal stefna heiman og kveðja til heimilisbúa á þingi þess er sóttur er, níu um skóggangssakir og fjörbaugssakir, nema maður hafi stefnt um fjölkynngi, þá skal kveðja tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er. En um þriggja marka sakir og um útlegðir, þá skal kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er.

Svo settu þeir Þorlákur biskup og Ketill biskup að ráði Össurar erkibiskups og Sæmundar og margra kennimanna annarra Kristinna laga þátt sem nú var tínt og upp sagt.

38. Nýmæli: KVONFANG MANNA.

Það var nýmæli gert þá er Magnús Gissurarson var biskup orðinn að nú er lögskylt að fasta nætur þær átta er áður voru eigi lögskyldar. Ein er jólanótt, önnur páskanótt, þriðja fyrir uppstigningardag, fjórða fyrir hvítsunnudag og miðvikunætur fjórar um langaföstu þær er eigi voru áður lögteknar.

Það var annað nýmæli að jafna ætt skal byggja sifjar og frændsemi, að fimmta manni hvorttveggja þar sem hjúskaparráðum skal ráða, og skal þar er frændsemi er að fimmta manni gjalda hina meiri tíund. En þar er frændsemi er að fimmta manni og sétta skal gjalda hundrað álna. En þar er að sétta manni er hvorttveggja skal gjalda tíu aura, þá liggur ekki fégjald á þaðan frá þótt hjúskaparráðum sé ráðið.

Það var fornt lögmál þar er þriðjabræðra er með mönnum að frændsemi að þar skyldi til ómegðar leggja tíu aura, en nú er það af tekið.

39. MISSERISTAL.

Hinn fimmti dagur viku skal vera fyrstur í sumri. Þaðan skal telja þrjá mánuði þriggja tiga nátta og nætur fjórar til miðsumars. En frá miðju sumri skal þrjá mánuði þriggja tiga nátta til vetrar. Laugardagur skal fyrstur vera í vetri, en þaðan frá skulu vera sex mánuðir þriggja tiga nátta til sumars, en tíu vikur skulu vera af sumri er menn koma til alþingis. Dagur skal fyrr koma alls misseristals en nótt.

Lög öll skulu vera sögð upp á þrimur sumrum. Skal þá lögsögumaður af hendi bjóða lögsöguna. Nýmæli ekki skal vera lengur ráðið en þrjú sumur og skal að Lögbergi hið fyrsta sumar upp segja á vorþingum helguðum eða leiðum. Laus eru öll nýmæli ef eigi verða upp sögð hið þriðja hvert sumar.

40.

Það er mælt í lögum vorum að menn skulu tíunda fé sitt allir lögtíund á landi hér. Það er lögtíund, að sá maður skal gefa sex álna eyri á tveim missarum, er hann á tíu tigu fjár sex álna aura. Sá maður er hann á tíu sex álna aura fyrir utan föt sín, hversdagsbúning, skuldlausa, sá skal gefa öln vaðmáls eða ullarreyfi það er sex geri hespu, eða lambsgæru. En sá er á tuttugu aura, sá skal tvær álnir. En sá er á fjóra tigu, sá skal þrjár álnir. En sá er hálft hundrað aura á, sá skal fjórar álnir. En sá er átta tigu á, sá skal fimm álnir. En sá er á tíu tigu, sá skal sex álnir.

Það fé þarf eigi til tíundar að telja er áður er til guðsþakka gefið, hvort sem það er til kirkna lagið eða brúa eða til sáluskipa, hvort sem það er í löndum eða lausum aurum.

41.

Prestar þurfu eigi að tíunda það fé er þeir eigu í bókum og messuklæðum og það allt er þeir þurfu til guðsþjónustu. Tíunda skulu þeir annað fé. Búsafleifar þarf maður eigi að tíunda um vor ef hann heldur búi sínu, en ef hann bregður búi sínu eða selur hann úr búi, það skal hann tíunda. [Sk: Ef maður heldur búi sínu, og skal tíunda matarafgang ef meiri er en vætt hafi hjóna hvert, og svo heyjaafgang ef fornari eru en veturgömul.]

Ef maður á goðorð, og þarf eigi það til tíundar að telja. Veldi er það en eigi fé.

Bændur allir skulu tíund gera, þeir er þingfararkaupi eigu að gegna, af fé sínu skuldlausu. Eigi skal ómögum fé ætla þó að hann eigi fram að færa, en þó að hann eigi minna fé, ef hann á tíu aura skuldlausa, og skal hann þá tíund gera af, hvort sem hann er bóndi eða griðmaður, nema hann eigi ómaga þá er hann skyli af verkum sínum fram færa. Rétt er að þurfamenn þeir allir þiggi tíund er eigi skulu gjalda tíund. Jafnt skulu gjalda tíund konur sem karlar.

42.

Samkomur skulu menn eiga um haust í hrepp hverjum, eigi fyrr en fjórar vikur lifa sumars, og skipta tíundum, og skal skipt tíundum drottinsdag hinn fyrsta í vetri. Fimm menn skal til taka í hrepp hverjum að skipta tíundum og matgjöfum og sjá eiða að mönnum, þá er best þykja til fallnir, hvort sem þeir eru griðmenn eða bændur, og sækja menn um lagaafbrigð.

Nýmæli: Hver maður skal eið vinna að fé sínu, og er skyldur þess þá er hann er sextán vetra gamall, enda skulu allir eið vinna á hverjum þrem vetrum. Griðmenn skulu eið vinna fyrir búanda, eða sjálfeldismenn. Fyrir þeim bónda er rétt að þeir vinni eiðinn er þeim mönnum þyki það fullt er til eru teknir að sjá eiða að mönnum í hrepp hverjum, og eru bændur skyldir að segja til tíundar þeirra á samkomum.

43.

Þar skal maður gjalda vortíund sem skipt er hausttíund hans. En ef það er hvergi, þá skal þar gjalda sem hann er vistfastur Marteinsmessu.

44.

Skyldur er hver maður til þeirrar samkomu að fara er hann á tíund að gera, eða fá annan mann fyrir sig, þann er lögskilum haldi upp fyrir hann, og handsöl sé að þiggjandi. Ef hann kemur eigi fyrir miðjan dag, og engi maður af hans hendi, þá verður hann útlagur um það þrem mörkum, og skal hann þá tíund gjalda sem skipt verður á hönd honum.

Þar skal telja fé manna, hve mikið fé hver á. Skal virða lönd og lausa aura, virða til sex álna aura, og skal það fé virða er að lögfardögum er skuldlaust. Sjálfur skal hver maður virða sitt fé og telja, en þá er hann hefir talið fé sitt og virt, þá skal hann taka bók í hönd sér eða kross og nefna votta „í það vætti, að eg vinn lögeið að bók, og segi eg það Guði að eg á svo fé sem eg hefi nú talið eða minna“. En ef hann vill eigi eið vinna þá er hann er beiddur, þá verður hann sekur um það tólf mörkum. Þá er hann beiddur er hann er beðinn. Hans tala skal standa á fé sjálfs, og skal hann af því gera tíund nema hann sveri til fjórðungi minna en sé. Ef hann sver til fjórðungi minna, þá er hann sekur um það tólf mörkum, og skal hann svo mikla tíund gjalda sem samkomumenn vilja telja og skipta á hönd honum eiðlaust, þá er maður hefir eið svarðan, og skal hann svo tíund af gera sem hann hefir til svarið nema fé hans vaxi eða þverri tíu tigum. Ef fé hans þverr tíu tigum þaðan frá er hann hefir svarið til, og er honum rétt að fara til samkomu og telja fé sitt og vinna eið að og gera þar tíund af er hann sver til. Nú vex fé hans tíu tigum eða meira, þá er honum rétt að fara til samkomu, og segja til þess og gera þar tíund af. Nú hyggja hreppsmenn að meira hafi vaxið fé hans en hann segi, eða hann vili ekki frá segja þó að fé hans hafi vaxið tíu tigum eða meira, þá eigu samkomumenn að gera honum orð að hann komi til samkomu eða vinni eið að fé sínu í annað sinn. Ef hann vill eigi eið vinna í annað sinn þá er samkomumenn vilja, þá verður hann sekur um það tólf mörkum, og er það eiðfall, og skal hann svo mikla tíund gjalda sem samkomumenn telja, og þeim gjalda sem þeir ráða á að kveða. Þar er manni verður eiðfall, og eigu hreppsmenn sök þá, hver þeirra er fyrst vill. Sök þeirri skal stefna að lögheimili þess er sóttur er, og telja hann sekjan um tólf mörkum, og kveðja til fimm heimilisbúa hans á þingi. Ef kviður ber á hann eiðfallið, og skal dómur dæma sex merkur þeim er sótti, en aðrar sex skulu fylgja annarri tíund.

45. ÞURFAMANNATÍUND.

Hreppsmenn þeir er til eru teknir skulu skipta hvers manns tíund í fjóra staði nema minni sé en eyris tíund, enda er þó rétt að hún hverfi í einn stað. Fjórðung einn tíundar skal gefa þurfamönnum, innanhreppsmönnum þeim er til ómagabjargar þurfu að hafa á þeim missarum, og skipta með þeim, gefa þeim meira er meiri er þörf. Eigi á tíund að gefa úr hrepp nema samkomumenn verði á það sáttir og þyki utanhreppsmönnum meiri þörf. Það fé er gefa skal þurfamönnum, það skal vera í vaðmálum eða í vararfeldum, í ullu eða gærum eða mat eða kykfé, öllu öðru en hrossum. Það skal goldið vera þeim mönnum er við skulu taka og fram komið að Marteinsmessu.

Ef þá er eigi fram komið, og verður það tíundarhald, og verður sá sekur um það sex mörkum er gjalda á. Þurfamaður sá er skipt er til handa, hann er aðili að sök þeirri, bæði sækjandi og seljandi. Sá er annar aðili er til sóknar er tekinn í hreppinum, og tíund skipti til handa honum. Sök þeirri skal stefna að lögheimili þess er sóttur er og kveðja til búa fimm á þingi, þá er næstir eru stefnustaðnum. Þeim manni er rétt að stefna heima að sín, er tíund skipti til handa þurfamönnum, hinn fimmta dag viku er fjórar vikur eru af sumri, ef eigi er áður fram komið. Rétt er að hann taki þann dag við vaðmálum til handa þurfamönnum ef hinn vill þá goldið hafa. Eigi er hann skyldur að taka í öðru fé nema hann vili.

Nýmæli: Ef eigi kemur þann dag fram, og skal sá maður er til sóknar er tekinn ganga út í tún að sín, eða sá maður er hann selur sök, og nefna votta að því að hann er búinn að taka við tíund þeirri er hann skyldi gjalda, og nefna hann, og kveða á hve mikið féið er, og hann sér engi þann er gjaldi haldi upp fyrir hann. Hann skal nefna votta í annað sinn, „í það vætti,“ skal hann kveða, „að eg stefni N. N-syni um það er hann heldur tíund fyrir N. N-syni, og tel eg hann sekjan um það sex mörkum, og gjalda fjórðunginn tvennum gjöldum svo sem búar virða þann hluta er goldinn er, ef sumur er goldinn. Stefni eg til gjalda og til útgöngu um fé það,“ og kveða á hvar hann stefnir til þings, „og stefni eg lögstefnu“. Hann skal kveðja til fimm búa á þingi þaðan frá er hann stefndi.

46.

Annan fjórðung tíundar skal hafa biskup. Það skal vera í vaðmálum eða í vararfeldum, í lambagærum eða í gulli eða í brenndu silfri. Þá er biskup fer um fjórðung, hann skal segja til að kirkjusóknum í hrepp hverjum, hver við þeim fjórðungi tíundar skal taka er hann skal hafa. Þar er mæltur eindagi á fé því er menn skulu biskupi gjald, hinn fimmta dag viku er fjórar vikur eru af sumri, að lögheimili þess manns er biskup býður um að taka við fé því.

Nýmæli: Rétt er þótt fyrr sé goldið.

Ef þá kemur eigi fram, þá skal sá er réttur er sækjandi ganga út í tún að sín og nefna votta að því vætti, að hann er búinn við fé því að taka er hann skyldi gjalda, og nefna hann, og kveða á hve mikið féið er, og hann sér engi þann mann er gjald það inni af hendi. Honum er rétt að stefna svo um þenna fjórðung tíundar sem um hinn er fyrr var um tínt. Það er honum og rétt að stefna síðar um það fé að lögheimili þess manns er gjalda skal. Þess á hann og kost að segja biskupi til og láta hann heimta svo sem hann vill.

47.

Nú eru eftir tveir fjórðungar tíundar. Það er hálf tíund hvers manns. Það skal leggjast til kirkna og presta reiðu, svo til hverrar kirkju sem biskup vill, og hann skiptir tíundum til, og reiða þeim manni í hönd er kirkju varðveitir þá er tíundum er til skipt. Hann skal kaupa að presti tíðir svo sem hann má viður komast, og þá hluti er til kirkjuþurftar þarf að hafa sem fé það vinnst til. Svo skulu menn gjalda tíund af öllum bæjum í héraði til kirkna sem biskup hefir boðið, hverigir sem á bólstöðum búa. Búandi sá er á kirkjubæ þeim býr er tíundinni er til skipt, hann er réttur heimtandi og sækjandi og seljandi þeirrar sakar ef hann vill. En ef hann vill eigi, þá er réttur aðili þeirrar sakar lærður maður sá er kirkju þjónar, sá er til kirkjuþurfta vill hafa féið.

Nýmæli: Fjórðung tíundar, þann er til presta reiðu skal leggja, þann skal gjalda í vaðmálum eða í vararfeldum eða í lambagærum eða í gulli eða í brenndu silfri. En þann fjórðung tíundar er til kirkjuþurfta skal leggja, þann skal gjalda í vaxi eða í viði eða í reykelsi eða í tjöru eða í léreftum nýjum, þeim er hæf sé til kirkjubúnaðar, svo sem getur að kaupa með vaðmálum í því héraði. Rétt er þótt vaðmál ein sé goldin.

Það fé skal goldið hið síðasta hinn fimmta dag viku er fjórar vikur eru af sumri. En ef eigi kemur þá fram þá skal sá er heimtandinn er stefna þann dag um í túni að kirkjubænum þeim er tíundin á til að hverfa, og sækja þar sem um aðra tíund. Hann skal stefna sinni stefnu um hvorn fjórðunginn, og láta varða sex merkur í hvorumtveggja stað haldið. Kostur er og að stefna einni stefnu um báða fjórðungana, og fylgja þá ein álög því að eim er aðili að báðum.

Rétt er að stefna heiman til vorþinga um tíundarmál þar er menn eru samþinga, og rétt er að lýsa á vorþingi í þingbrekku um tíundarmál ef þeir eru samþinga, og sækja þar í dóm ef hinn er þar, er sóttur er. Þá er rétt um biskupsfjórðung að sækja, þótt sá sé eigi á þingi er sóttur er. Ef lýst er á þingi, þá skal kveðja til heimilisbúa fimm þess er sóttur er.

48.

Ef maður hefir ómagaeyri að varðveita, þann er hann tekur vöxtu af, og skal þann hluta vaxtarins tíunda er undir hann ber, sem það fé er hann átti áður.

Íslenskir menn allir skulu tíunda fé sitt, en um útlenda menn ef þeir koma út hingað, og er-at þeim skylt að tíunda hér fé sitt áður þeir hafa hér verið þrjá vetur samfast, nema þeir geri bú fyrr. En það vor skulu þeir gera tíund er þeir gera bú, og þau missari eftir. En ef vorir landar fara héðan, og eigu þeir fé eftir, og skal sá maður gjalda tíund af er varðveitir það fé. En um það fé sem hann hefir á brott með sér, og er-at honum hér skylt að gjalda tíund af því þótt hann sé alllengi á brott. En ef hann kemur út hingað, þá skal hann gjalda tíund af því fé er hann hefir út með sér hinn næsta vetur eftir er hann kemur út um sumarið áður, þótt hann sé í Görðum erlendis. Ef maður kemur út hingað, og hefir vaxið fé hans eða þorrið, eða hann hefir eigi eiða fyrr að unnið, og er hann skyldur að vinna eið að fé sínu ef menn vilja beiða hann.

49. UM EIÐUNNING.

Ef hjú eigu fé saman, og skal karlmaður eið vinna fyrir fé þeirra beggja. Ef karlmaður og kona eigu fé saman þótt þau sést eigi hjóna, og skal karlmaður vinna þar eið. Ef karlar eigu fé saman, og er rétt þótt annar vinni þar eið. Ef þeir metast við og vill hvorgi vinna eið, og er sök við hvorntveggja. Sá skal eið vinna fyrir fé hvert er lögráðandi er fjárins. Ef vöxtu ber undir mann af þess manns fé er erlendis er, og skal hann það fé svo tíunda sem vöxtu bæri undir hann af ómagaeyri.

Nýmæli: Þar skal maður tíund gjalda í þeim hrepp sem hann á lögheimili þau misseri, hvargi sem fé er.

Rétt er að sættast á tíundarmál meðan eigi er stefnt um. Þó er rétt að sættast á þótt stefnt sé um, og skal eigi meira niður falla álaganna en helmingurinn. Ef maður tekur minni sátt en þrjár merkur, og varðar honum þriggja marka sekt, og á sá sök er vill. Hin sömu eru viðurlög um tíund hvegi lengi er tíund er haldið.

[Bd: Hver maður er tíund gerir skal gjalda lýsitoll til graftarkirkju, tvær álnar vaðmáls eða tvo aura vax. Rétt er þeim að gjalda tvær merkur lýsis er eigi gera skiptitíund fjórar álnar, þó að hjóna sé. Nú gefur maður fé börnum sínum, og ábyrgjast þau sjálf. Þá skulu þau gera tíund og gjalda lýsitoll.]

Nýmæli: Ef tíund gelst eigi heima í héraði, enda er eigi stefnt um, þá er rétt að lýsa hið næsta sumar eftir á alþingi að Lögbergi. Innanhreppsmenn eigu að lýsa þvottdag og föstudag um tíundarmál, og þeir menn er af þeim taka sakir. Ef hreppsmenn hafa eigi lýst fyrir helgina, þá er rétt hverjum að lýsa eftir helgina er vill til uns dómar fara út.

50.

Sá er lýsa vill um tíundarmál, hann skal ganga til Lögbergs og nefna sér votta þar „í það vætti,“ skal hann kveða, „að eg lýsi sök á hendur N. um það að hann hafi haldið þeim fjórðungi tíundar,“ og kveða á hver sá er, „tel eg hann sekjan um það sex mörkum, og gjalda þann hluta sem ógoldinn er tvennum gjöldum sem búar virða,“ og kveða á hvar hann lýsir til dóms, „og lýsi eg löglýsingu“.

Þar er maður lýsir um tíundarmál, og skal hann kveðja til heimilisbúa fimm þess er sóttur er. En þar er maður stefnir heiman um tíundarmál, og skal hann þar kveðja til fimm búa á þingi, þá er næstir eru stefnustaðnum. Engi er ruðning til um búa þá nema að leiðarlengd. Eigi skal meta spell á tíundarmálum ef rétt er höfðuð sökin. Ef maður tekur gagnsök upp í gegn tíundarmáli, og á eigi að meta þá sök nema hún sé fjörbaugssök eða meiri. Meta skal ef tíundarsök er. Því aðeins er rétt að lýsa á þingi og sækja hið sama sumar um tíundarmál ef sá er á þingi er sóttur er.

Eigi skal tíundarsök fyrnast heldur en önnur fjárheimting. Ef hann geldur eigi hin fyrstu misseri þá er hann átti að gjalda, þá skal stefna að lögheimili þess er sóttur er eða lýsa á þingi.

Þá er maður stefnir heima að sín þá er fjórar vikur eru af sumri um tíundarmál, og á dómur að dæma að gjalda í þeim stað hinum sama fjórtán nóttum eftir vopnatak, innstæða og sex merkur álaga, og skal þeim dæma þrjár merkur er sækir, en aðrar þrjár skulu fylgja þeim fjórðungi tíundar sem um er stefnt. En ef stefnt er að lögheimili þess er sóttur er, og skal þar þá dæma að gjalda innstæða og álög fjórtán nóttum eftir vopnatak. En ef lýst er á þingi um tíundarmál, og á dómur að dæma innstæða og álög að lögheimili þess er sóttur er fjórtán nóttum eftir vopnatak. En um víti öll þau er hér fylgja og útlegðir, þar skal dæma sex álna aura.

51.

Ef finnst af líki kristins manns, og á að syngja líksöng allan yfir ef sér merki á hvort verið hefir karlmaður eða kona. Svo skal skipta hið sama ef menn vitu víst af hvers líki það er, er fundið er, þótt eigi sé merki á hvort verið hefir karlmaður eða kona, nema nokkuð hafi þess verið áður um hag hans er fyrir þær sakir skyli eigi syngja líksöng yfir líki hans.

52.

Þar er menn leggja fé til kirkju að biskupa ráði og að erfingja sátt, þá á það jafnfast að vera sem í lögréttu sé lofað, og eru slík viðurlög er frá er brugðið, og er slík heimting til. Það er biskupum lofað, þar er þeir gera máldaga í lönd manna, að þeir skulu eigi lýsa láta að Lögbergi nema þeir vili. En í þingbrekku skulu þeir láta segja til á vorþingi því er þeir heyja, og hafa votta við, hið næsta vor eftir.

Nýmæli: Ef menn vilja hafa tíðir löghelga daga, og taka þeir þar prest í þing. Þeir skulu tólf mörkum kaupa að honum á milli alþinga tveggja. Það skal hálft vera vara eða til vöru virt og sex álna aurar en hálft þeir aurar er þar ganga í því þingi. Það fé skal gjalda er fjórar vikur eru af sumri og hinn fimmta dag viku að heimili prests. Prestur verður útlagur þrem mörkum ef hann mest dýrra en svo, og á sá maður sök þá er við hann keypti. Nú vill sá eigi, og á þá hver er vill.

Biskupar skulu kost eiga að gera skírslur oftar en um sinn um faðerni manna ef þeim þykir þess þurfa og skal sú skírsla rétt er síðar er ger.

53.

Eigi skal maður bera vopn í kirkju, né í bænahús það er tíðir eru að veittar, og eigi skal setja vopn við kirkjuveggi. En þau eru vopn til þess talið, öx og sverð og spjót og sviður og bryntröll. Ef maður bregður af þessu máli, þá varðar fjörbaugsgarð. Sakar þeirrar aðili er sá maður er biskup býður um, eða prestur sá er tíðir veitir að kirkju, eða bóndi sá er þar býr. Sök þá skal sækja við vottorð ef því kemur við, en ellegar við tylftarkvið. En maður er varður sök þeirri ef hann getur þann kvið, að hann bæri þess örendis vopn til kirkju að smíða að henni nokkuð þess er hún þurfti. Það er og til varnar, ef maður býður að handsala gerð biskups á þessu máli og þau handsöl með er honum þyki tæk. Þá skal því eigi níta. En sá á sök þessa er vill, ef engi vill sækja þeirra manna er áður voru taldir til þess að sök ætti.

54.

Þá eina menn skal að kirkju grafa er biskup sá lofar er yfir þeim fjórðungi er. Ef maður færir þess manns lík til kirkju er biskup hefir bannað, og varðar það fjörbaugsgarð þeim er færði. Varðveislumaður kirkju á sök, og skal kveðja til á þingi níu heimilisbúa þess er sóttur er. Þeim varðar og fjörbaugsgarð er við tekur, og svo presti ef hann syngur yfir líksönginn.

Nýmæli: Ef maður býr á kirkjubóli, þá skal hann þar halda húsum og görðum svo að land spillist eigi. En ef land spillist í ábúð hans, þá skal það bæta kirkju slíku sem búar virða við bók. Ef maður bætir kirkjuland, þá skal hann Guðs þökk fyrir það hafa, en eigi má hann fébætur fyrir það heimta.

55.

Eindagi er á tíðakaupi presta hinn fimmta dag viku er sjö vikur eru af sumri, við alla þingunauta, og liggur við hálf fimmta mörk sex álna aura ef haldið er, og er að heimili prests stefnustaður um tíðakaup hans við alla þingunauta.

56.

Ef menn vinna fleira en það sem lofað er á þeim dögum fimmtán er hið meira hald er á, það varðar fjörbaugsgarð, og á sá sök er vill. Rétt er manni að bjarga fé sínu og andvirki sem rúmheilagt sé, ef von er að eldur eða ofviðri eða vötn eða skriður meiði ellegar.

Það varðar fjörbaugsgarð ef maður etur fé það er svidda verður, og kallast óátan.

Af eru teknir útróðrar og öll veiður fugla og fiska um löghelgar tíðir.

57.

Öll tíund sú er minni er en skiptingartíund, þá skal hún hverfa með þurfamannatíund á haust, nema biskup vili hana einkum til kirkna láta leggja. Biskup skal ráða til hverrar kirkju tíund skal leggja af hverjum bæ, og skal það haldast meðan hinn sami biskup ræður fyrir.

Það skal rétt ef biskup leyfir að þar sé kirkja ger er eigi er áður, og hann leggi til þeirrar kirkju tíund af þeim bæ þótt hún liggi áður til annarrar kirkju. Heimilt á biskup að taka tíundir frá kirkjum þótt hann hafi áður til lagðar, ef þær eru verr varðveittar en mælt er. Nú hefir biskup ekki um rætt, og lætur vera sem áður var, og er honum rétt þá er hann vill að skipta á annan veg, og skipta eigi oftar en um sinn.

Nýmæli: Þar er maður á að gjalda tíund hina meiri af fé sínu, þá skal hann virða fé sitt allt til sex álna aura og gjalda jafnfríða aura af sem þeir er virðir voru, en það eru sex álna aurar, kýr og ær að þinglagi því sem þar er í því héraði. Það er lögeyrir, sex álnar vaðmáls eða vararfeldir nýir, svo að þeir sé eigi verr virðir en vara. Eyrir gulls fyrir þrjú hundruð álna. Mörk vegin brennds silfurs er jöfn við eyri gulls. Melrakkaskinn sex og lambagærur sex, það er hvorttveggja lögeyrir.

„Í það vætti, að eg em búinn að taka við tíund þeirri,“ og kveða á hver tíund er, „og N.N. skyldi gjalda,“ og kveða á hve mikil er. „Eg sé hann eigi hér kominn í lögeindaga stað, og engi þann mann er gjaldi því haldi upp fyrir hann, hefi eg hér N. lögsjánda til með mér að sjá gjald ef boðið væri. Nefni eg mér þessa votta í það vætti, að eg stefni N. um það er hann heldur N. tíund fyrir mér. Eg tel hann eiga að verða sekjan fyrir það sex mörkum, og gjalda tvennum gjöldum þann hluta tíundar er ógoldinn er svo sem búar virða. Stefni eg til gjalda og til útgöngu um fé það allt saman, álög og innstæða. Stefni eg honum til þings usque og stefni eg lögstefnu. Stefni eg í lögeindaga stað réttum.“ Fimm búa skal kveðja á þingi þaðan frá er hann stefndi.

58.

Svo er mælt í lögum, að maður skal þar gjalda alla tíund sína sem hann er í vist um haustið þá er skipt er tíundum. En ef þar er engi samkoma, í þeim hrepp sem hann er vistfastur, til þess að skipta tíundum manna, þá skal þar gjalda sem hann er vistfastur um Marteinsmessu, og skal sá maður jafnan gjalda tíund af fénu sem lögráðandi er fjárins.

59.

Ef maður hefir ómagaeyri að varðveita, þann er hann tekur vöxtu af, og skal hann það fé allt tíunda er undir honum er, sem það er hann átti áður.