Fara í innihald

Hávamál

Úr Wikiheimild

I. Gestaþáttur

[breyta]
1. Gáttir allar
áður gangi fram
um skoðast skyli,
um skyggnast skyli,
því að óvíst er að vita
hvar óvinir
sitja á fleti fyrir.


2. Gefendur heilir!
Gestur er inn kominn!
hvar skal sitja sjá?
Mjög er bráður
sá er á bröndum skal
síns um freista frama.


3. Elds er þörf
þeim er inn er kominn
og á kné kalinn.
Matar og voða
er manni þörf,
þeim er hefir um fjall farið.


4. Vatns er þörf
þeim er til verðar kemur,
þerru og þjóðlaðar,
góðs um æðis
ef sér geta mætti
orðs og endurþögu.


5. Vits er þörf
þeim er víða ratar.
Dælt er heima hvað.
Að augabragði verður
sá er ekki kann
og með snotrum situr.


6. Að hyggjandi sinni
skyli-t maður hræsinn vera,
heldur gætinn að geði.
Þá er horskur og þögull
kemur heimisgarða til,
sjaldan verður víti vörum.
Því að óbrigðra vin
fær maður aldregi
en mannvit mikið.


7. Inn vari gestur
er til verðar kemur
þunnu hljóði þegir,
eyrum hlýðir,
en augum skoðar.
Svo nýsist fróðra hver fyrir.


8. Hinn er sæll
er sér um getur
lof og líknstafi.
Ódælla er við það
er maður eiga skal
annars brjóstum í.


9. Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir.
Því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.


10. Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað.
Slíkt er volaðs vera.


11. Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.


12. Er-a svo gott
sem gott kveða
öl alda sonum,
því að færra veit
er fleira drekkur
síns til geðs gumi.


13. Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir.
Hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður var'g
í garði Gunnlaðar.


14. Ölur eg varð,
varð ofurölvi
að ins fróða Fjalars.
Því er öldur best
að aftur um heimtir
hver sitt geð gumi.


15. Þagalt og hugalt
skyldi þjóðans barn
og vígdjarft vera.
Glaður og reifur
skyli gumna hver
uns sinn bíður bana.


16. Ósnjallur maður
hyggst munu ey lifa,
ef hann við víg varast.
En elli gefur
honum engi frið,
þótt honum geirar gefi.


17. Kópir afglapi
er til kynnis kemur,
þylst hann um eða þrumir
Allt er senn,
ef hann sylg um getur,
uppi er þá geð guma.


18. Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.


19. Haldi-t maður á keri,
drekki þó af hófi mjöð,
mæli þarft eða þegi.
Ókynnist þess
váar þig engi maður
að þú gangir snemma að sofa.


20. Gráðugur halur,
nema geðs viti,
etur sér aldurtrega.
Oft fær hlægis
er með horskum kemur
manni heimskum magi.


21. Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann æva-gi
síns um mál maga.


22. Vesall maður
og illa skapi
hlær að hvívetna.
Hitt-ki hann veit
er hann vita þyrfti
að hann er-a vamma vanur.


23. Ósvinnur maður
vakir um allar nætur
og hyggur að hvívetna.
Þá er móður
er að morgni kemur.
Allt er víl sem var.


24. Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini.
Hitt-ki hann finnur,
þótt þeir um hann fár lesi,
ef hann með snotrum situr.


25. Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini.
Þá það finnur
er að þingi kemur
að hann á formælendur fáa.


26. Ósnotur maður
þykist allt vita,
ef hann á sér í vá veru.
Hitt-ki hann veit
hvað hann skal við kveða,
ef hans freista firar.


27. Ósnotur maður
er með aldir kemur,
það er best að hann þegi.
Engi það veit
að hann ekki kann,
nema hann mæli til margt.
Veit-a maður
hinn er vætki veit,
þótt hann mæli til margt.


28. Fróður sá þykist
er fregna kann
og segja ið sama.
Eyvitu leyna
megu ýta synir
því er gengur um guma.


29. Ærna mælir
sá er æva þegir
staðlausu stafi.
Hraðmælt tunga,
nema haldendur eigi,
oft sér ógott um gelur.


30. Að augabragði
skal-a maður annan hafa,
þótt til kynnis komi.
Margur þá fróður þykist
ef hann freginn er-at
og nái hann þurrfjallur þruma.


31. Fróður þykist
sá er flótta tekur
gestur að gest hæðinn.
Veit-a gjörla
sá er um verði glissir,
þótt hann með grömum glami.


32. Gumnar margir
erust gagnhollir
en að virði vrekast.
Aldar róg
það mun æ vera:
Órir gestur við gest.


33. Árlega verðar
skyli maður oft fá,
nema til kynnis komi.
Situr og snópir,
lætur sem sólginn sé
og kann fregna að fáu.


34. Afhvarf mikið
er til ills vinar,
þótt á brautu búi.
En til góðs vinar
liggja gagnvegir,
þótt hann sé firr farinn.


35. Ganga skal,
skal-a gestur vera
ey í einum stað.
Ljúfur verður leiður,
ef lengi situr
annars fletjum á.


36. Bú er betra,
þótt lítið sé.
Halur er heima hver.
Þótt tvær geitur eigi
og taugreftan sal,
það er þó betra en bæn.


37. Bú er betra,
þótt lítið sé.
Halur er heima hver.
Blóðugt er hjarta
þeim er biðja skal
sér í mál hvert matar.


38. Vopnum sínum
skal-a maður velli á
feti ganga framar,
því að óvíst er að vita
nær verður á vegum úti
geirs um þörf guma.


39. Fann'g-a eg mildan mann
eða svo matargóðan
að ei væri þiggja þegið,
eða síns fjár
svo gjafa fúsan
að leið sé laun, ef þægi.


40. Fjár síns
er fengið hefir
skyli-t maður þörf þola.
Oft sparir leiðum
það er hefir ljúfum hugað.
Margt gengur verr en varir.


41. Vopnum og voðum
skulu vinir gleðjast:
það er á sjálfum sýnst.
Viðurgefendur og endurgefendur
erust lengst vinir,
ef það bíður að verða vel.


42. Vin sínum
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf.
Hlátur við hlátri
skyli höldar taka
en lausung við lygi.


43. Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
En óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera.


44. Veistu ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.


45. Ef þú átt annan,
þann er þú illa trúir,
Viltu af honum þó gott geta,
fagurt skaltu við þann mæla
en flátt hyggja
og gjalda lausung við lygi.


46. Það er enn um þann
er þú illa trúir
og þér er grunur að hans geði:
hlæja skaltu við þeim
og um hug mæla.
Glík skulu gjöld gjöfum.


47. Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.


48. Mildir, fræknir
menn best lifa,
sjaldan sút ala.
En ósnjallur maður
uggir hotvetna:
Sýtir æ glöggur við gjöfum.


49. Voðir mínar
gaf eg velli að
tveim trémönnum.
Rekkar það þóttust
er þeir rift höfðu:
Neis er nökkviðr halur.


50. Hrörnar þöll
sú er stendur þorpi á.
Hlýr-at henni börkur né barr.
Svo er maður
sá er manngi ann.
Hvað skal hann lengi lifa?


51. Eldi heitari
brennur með illum vinum
friður fimm daga,
en þá slokknar
er inn sétti kemur
og versnar allur vinskapur.


52. Mikið eitt
skal-a manni gefa:
Oft kaupir sér í litlu lof.
Með hálfum hleif
og með höllu keri
fékk eg mér félaga.


53. Lítilla sanda
lítilla sæva
lítil eru geð guma.
Því að allir menn
urðu-t jafnspakir:
Hálf er öld hvar.


54. Meðalsnotur
skyli manna hver:
æva til snotur sé.
Þeim er fyrða
fegurst að lifa
er vel margt vitu.


55. Meðalsnotur
skyli manna hver:
æva til snotur sé.
Því að snoturs manns hjarta
verður sjaldan glatt,
ef sá er alsnotur er á.


56. Meðalsnotur
skyli manna hver:
æva til snotur sé.
Örlög sín
viti engi fyrir:
þeim er sorgalausastur sefi.


57. Brandur af brandi
brennur uns brunninn er.
Funi kveikist af funa.
Maður af manni
verður að máli kunnur
en til dælskur af dul.


58. Ár skal rísa
sá er annars vill
fé eða fjör hafa.
Sjaldan liggjandi úlfur
lær um getur
né sofandi maður sigur.


59. Ár skal rísa
sá er á yrkjendur fáa
og ganga síns verka á vit.
Margt um dvelur
þann er um morgun sefur.
Hálfur er auður und hvötum.


60. Þurra skíða
og þakinna næfra,
þess kann maður mjöt
og þess viðar
er vinnast megi
mál og misseri.


61. Þveginn og mettur
ríði maður þingi að,
þótt hann sé-t væddur til vel.
Skúa og bróka
skammist engi maður
né hests in heldur,
þátt hann hafi-t góðan


62. Snapir og gnapir,
er til sævar kemur,
örn á aldinn mar:
Svo er maður
er með mörgum kemur
og á formælendur fáa.


63. Fregna og segja
skal fróðra hver,
sá er vill heitinn horskur.
Einn vita
né annar skal.
Þjóð veit, ef þrír eru.


64. Ríki sitt
skyli ráðsnotra hver
í hófi hafa.
Þá hann það finnur
er með fræknum kemur
að engi er einna hvatastur.


65. Orða þeira
er maður öðrum segir
oft hann gjöld um getur.


66. Mikilsti snemma
kom eg í marga staði
en til síð í suma.
Öl var drukkið,
sumt var ólagað:
Sjaldan hittir leiður í lið.


67. Hér og hvar
myndi mér heim of boðið,
ef þyrfta'g að málungi mat,
eða tvö lær hengi
að ins tryggva vinar,
þar er eg hafði eitt etið.


68. Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn,
heilyndi sitt,
ef maður hafa náir,
án við löst að lifa.


69. Era-t maður alls vesall,
þátt hann sé illa heill:
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.


70. Betra er lifðum
og sællifðum.
Ey getur kvikur kú.
Eld sá eg upp brenna
auðgum manni fyrir,
en úti var dauður fyr durum.


71. Haltur ríður hrossi,
hjörð rekur handarvanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé:
Nýtur manngi nás.


72. Sonur er betri,
þótt sé síð of alinn
eftir genginn guma:
Sjaldan bautarsteinar
standa brautu nær,
nema reisi niður að nið.


73. Tveir eru eins herjar:
Tunga er höfuðs bani.
Er mér í héðin hvern
handar væni.


74. Nótt verður feginn
sá er nesti trúir.
Skammar eru skips rár.
Hverf er haustgríma.
Fjöld um viðrir
á fimm dögum
en meira á mánuði.


75. Veit-a hinn
er vætki veit:
Margur verður af aurum api.
Maður er auðigur,
annar óauðigur,
skyli-t þann vítka vár.


76. Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.


77. Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern.




78. Fullar grindur
sá eg fyr Fitjungs sonum.
Nú bera þeir vonar völ.
Svo er auður
sem augabragð:
hann er valtastur vina.


79. Ósnotur maður,
ef eignast getur
fé eða fljóðs munuð,
metnaður honum þróast,
en mannvit aldregi:
fram gengur hann drjúgt í dul.


80. Það er þá reynt,
er þú að rúnum spyr
inum reginkunnum,
þeim er gerðu ginnregin
og fáði fimbulþulur;
þá hefir hann best ef hann þegir.


81. Að kveldi skal dag leyfa,
konu er brennd er,
mæki er reyndur er,
mey er gefin er,
ís er yfir kemur,
öl er drukkið er.


82. Í vindi skal við höggva,
veðri á sjó róa,
myrkri við man spjalla:
Mörg eru dags augu.
á skip skal skriðar orka,
en á skjöld til hlífar,
mæki höggs,
en mey til kossa.


83. Við eld skal öl drekka,
en á ísi skríða,
magran mar kaupa,
en mæki saurgan,
heima hest feita,
en hund á búi.

II. Fyrra dæmi Óðins

[breyta]
84. Meyjar orðum
skyli manngi trúa
né því er kveður kona,
því að á hverfanda hveli
voru þeim hjörtu sköpuð,
brigð í brjóst um lagin.


85. Brestanda boga,
brennanda loga,
gínanda úlfi,
galandi kráku,
rýtanda svíni,
rótlausum viði,
vaxanda vogi,
vellanda katli,


86. Fljúganda fleini,
fallandi báru,
ísi einnættum,
ormi hringlegnum,
brúðar beðmálum
eða brotnu sverði,
bjarnar leiki
eða barni konungs,


87. Sjúkum kálfi,
sjálfráða þræli,
völu vilmæli,
val nýfelldum.


88. Akri ársánum
trúi engi maður
né til snemma syni:
Veður ræður akri.
en vit syni:
hætt er þeirra hvort.


89. Bróðurbana sínum,
þótt á brautu mæti,
húsi hálfbrunnu,
hesti alskjótum:
Þá er jór ónýtur,
ef einn fótur brotnar.
Verði-t maður svo tryggur
að þessu trúi öllu.


90. Svo er friður kvenna,
þeirra er flátt hyggja,
sem aki jó óbryddum
á ísi hálum,
teitum, tvevetrum
og sé tamur illa,
eða í byr óðum
beiti stjórnlausu,
eða skyli haltur henda
hrein í þáfjalli.


91. Bert eg nú mæli,
því að eg bæði veit,
brigður er karla hugur konum:
Þá vér fegurst mælum,
er vér flást hyggjum:
það tælir horska hugi.


92. Fagurt skal mæla
og fé bjóða
sá er vill fljóðs ást fá,
líki leyfa
ins ljósa mans:
Sá fær er fríar.


93. Ástar firna
skyli engi maður
annan aldregi.
Oft fá á horskann,
er á heimskan né fá,
lostfagrir litir.


94. Eyvitar firna
er maður annan skal,
þess er um margan gengur guma.
Heimska úr horskum
gerir hölda sonu
sá inn máttki munur.


95. Hugur einn það veit
er býr hjarta nær,
einn er hann sér um sefa.
Öng er sótt verri
hveim snotrum manni
en sér engu að una.


96. Það eg þá reynda
er eg í reyri sat
og vætta'g míns munar.
Hold og hjarta
var mér in horska mær:
þeygi eg hana að heldur hefi'g.


97. Billings mey
eg fann beðjum á
sólhvíta sofa.
Jarls yndi
þótti mér ekki vera
nema við það lík að lifa.


98. „Auk nær aftni
skaltu, Óðinn, koma,
ef þú vilt þér mæla man.
Allt eru ósköp
nema einir viti
slíkan löst saman.“


99. Aftur eg hvarf
og unna þóttumst
vísum vilja frá.
Hitt eg hugða
að eg hafa mynda
geð hennar allt og gaman.


100. Svo kom eg næst
að in nýta var
vígdrótt öll um vakin,
með brennöndum ljósum
og bornum viði:
svo var mér vílstígur of vitaður.


101. Og nær morgni,
er eg var enn um kominn,
þá var saldrótt sofin.
Grey eitt eg þá fann
innar góðu konu
bundið beðjum á.


102. Mörg er góð mær,
ef görva kannar,
hugbrigð við hali.
Þá eg það reynda,
er ið ráðspaka
teygða eg á flærðir fljóð.
Háðungar hverrar
leitaði mér ið horska man,
og hafða eg þess vætki vífs.

III. Síðara dæmi Óðins

[breyta]
103. Heima glaður gumi
og við gesti reifur,
svinnur skal um sig vera,
minnugur og málugur,
ef hann vill margfróður vera.
Oft skal góðs geta.
Fimbulfambi heitir
sá er fátt kann segja:
það er ósnoturs aðal.


104. Inn aldna jötun eg sótta,
nú em eg aftur um kominn:
fátt gat eg þegjandi þar.
Mörgum orðum
mælta eg í minn frama
í Suttungs sölum.


105. Gunnlöð mér um gaf
gullnum stóli á
drykk ins dýra mjaðar.
Ill iðgjöld
lét eg hana eftir hafa
síns ins heila hugar,
síns ins svára sefa


106. Rata munn
létumk rúms um fá
og um grjót gnaga.
Yfir og undir
stóðumk jötna vegir,
svo hætta eg höfði til.


107. Vel keypts litar
hefi eg vel notið.
Fás er fróðum vant.
Því að Óðrerir
er nú upp kominn
á alda vé jarðar.


108. Efi er mér á
að eg væra enn kominn
jötna görðum úr,
ef eg Gunnlaðar né nyta'g,
innar góðu konu,
þeirrar er lögðumk arm yfir.


109. Ins hindra dags
gengu hrímþursar
Háva ráðs að fregna
Háva höllu í.
Að Bölverki þeir spurðu,
ef hann væri með böndum kominn
eða hefði honum Suttungur of sóið.


110. Baugeið Óðinn
hygg eg að unnið hafi.
Hvað skal hans tryggðum trúa?
Suttung svikinn
hann lét sumbli frá
og grætta Gunnlöðu.

IV. Loddfáfnismál

[breyta]
111. Mál er að þylja
þular stóli á
Urðarbrunni að.
Sá eg og þagða'g,
sá eg og hugða'g,
hlydda eg á manna mál.
Of rúnar heyrða eg dæma,
né um ráðum þögðu
Háva höllu að,
Háva höllu í,
heyrða eg segja svo:


112. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
að þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
Þér munu góð ef þú getur:
Nótt þú rís-at
nema á njósn sér
eða þú leitir þér innan út staðar.


113. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
að þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Fjölkunnigri konu
skal-at-tu í faðmi sofa,
svo að hún lyki þig liðum.


114. Hún svo gerir
að þú gáir eigi
þings né þjóðans máls.
Mat þú vilt-at
né mannskis gaman.
Fer þú sorgafullur að sofa.


115. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
að þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Annars konu
teygðu þér aldregi
eyrarúnu að.


116. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Á fjalli eða firði,
ef þig fara tíðir,
fástu að virði vel.


117. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Illan mann
láttu aldregi
óhöpp að þér vita,
því að af illum manni
fær þú aldregi
gjöld ins góða hugar.


118. Ofarla bíta
eg sá einum hal
orð illrar konu.
Fláráð tunga
varð honum að fjörlagi
og þeygi um sanna sök.


119. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur
þer munu góð ef þú getur:
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir,
farðu að finna oft.
Því að hrísi vex
og hávu grasi
vegur er vætki treður.


120. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Góðan mann
teygðu þér að gamanrúnum
og nem líknargaldur meðan þú lifir.


121. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Vin þínum
ver þú aldregi
fyrri að flaumslitum.
Sorg etur hjarta,
ef þú segja né náir
einhverjum allan hug.


122. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemi.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Orðum skipta
þú skalt aldregi
við ósvinna apa,


123. því að af illum manni
mundu aldregi
góðs laun um geta.
En góður maður
mun þig gjörva mega
líknfastan að lofi.


124. Sifjum er þá blandað,
hver er segja ræður
einum allan hug.
Allt er betra
en sé brigðum að vera.
Er-a sá vinur öðrum
er vilt eitt segir.


125. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Þremur orðum senna
skal-at-tu við þér verra mann:
Oft inn betri bilar,
þá er inn verri vegur.


126. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Skósmiður þú verir
né skeftismiður,
nema þú sjálfum þér sér.
Skór er skapaður illa
eða skaft sé rangt,
þá er þér böls beðið.


127. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Hvar er þú böl kannt,
kveð þú það bölvi að
og gef-at þínum fjándum frið.


128. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Illu feginn
ver þú aldregi,
en lát þér að góðu getið.


129. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Upp líta
skal-at-tu í orrustu!
- gjalti glíkir
verða gumna synir -
síður þitt um heilli halir.


130. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Ef þú vilt þér góða konu
kveðja að gamanrúnum
og fá fögnuð af,
fögru skaltu heita
og láta fast vera.
Leiðist manngi gott, ef getur.


131. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Varan bið eg þig vera
og eigi of varan.
Ver þú við öl varastur
og við annars konu
og við það ið þriðja
að þjófar né leiki.


132. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Að háði né hlátri
hafðu aldregi
gest né ganganda.


133. Oft vitu ógerla
þeir er sitja inni fyrir
hvers þeir eru kyns er koma.
Er-at maður svo góður
að galli né fylgi,
né svo illur að einugi dugi.


134. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Að hárum þul
hlæ þú aldregi.
Oft er gott það er gamlir kveða.
Oft úr skörpum belg
skilin orð koma
þeim er hangir með hám
og skollir með skrám
og váfir með vílmögum.


135. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Gest þú né geyja
né á grind hrekir.
Get þú voluðum vel.


136. Rammt er það tré,
er ríða skal
öllum að upploki.
Baug þú gef,
eða það biðja mun
þér læs hvers á liðu.


137. Ráðumk þér, Loddfáfnir,
en þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Hvar er þú öl drekkir,
kjós þú þér jarðar megin,
því að jörð tekur við öldri,
en eldur við sóttum,
eik við abbindi,
ax við fjölkynngi,
höll við hýrógi,
- heiftum skal mána kveðja, -
beiti við bitsóttum,
en við bölvi rúnar.
Fold skal við flóði taka.

V. Rúnatal

[breyta]
138. Veit eg að eg hékk
vindgameiði á
nætur allar níu,
geiri undaður
og gefinn Óðni,
sjálfur sjálfum mér,
á þeim meiði
er manngi veit
hvers af rótum renn.


139. Við hleifi mig sældu
né við horni-gi.
Nýsta eg niður,
nam eg upp rúnar,
æpandi nam,
féll eg aftur þaðan.


140. Fimbulljóð níu
nam ef af inum frægja syni
Bölþorns, Bestlu föður.
Og eg drykk of gat
ins dýra mjaðar,
ausin Óðreri.


141. Þá nam eg frævast
og fróður vera
og vaxa og vel hafast,
orð mér af orði
orðs leitaði,
verk mér af verki
verks leitaði.


142. Rúnar munt þú finna
og ráðna stafi,
mjög stóra stafi,
mjög stinna stafi,
er fáði fimbulþulur
og gerðu ginnregin
og reist Hroftur rögna.


143. Óðinn með ásum,
en fyr álfum Dáinn,
Dvalinn dvergum fyrir,
Ásviður jötnum fyrir.
Eg reist sjálfur sumar.


144. Veistu hve rísta skal?
Veistu hve ráða skal?
Veistu hve fáa skal?
Veistu hve freista skal?
Veistu hve biðja skal?
Veistu hve blóta skal?
Veistu hve senda skal?
Veistu hve sóa skal?


145. Betra er óbeðið
en sé ofblótið.
Ey sér til gildis gjöf.
Betra er ósent
en sé ofsóið.
Svo Þundur um reist
fyr þjóða rök,
þar hann upp um reis,
er hann aftur of kom.

VI. Ljóðatal

[breyta]
146. Ljóð eg þau kann
er kann-at þjóðans kona
og mannskis mögur.
Hjálp heitir eitt,
en það þér hjálpa mun
við sökum og sorgum
og sútum görvöllum.


147. Það kann eg annað
er þurfu ýta synir,
þeir er vilja læknar lifa.


148. Það kann eg hið þriðja:
ef mér verður þörf mikil
hafts við mína heiftmögu,
eggjar eg deyfi minna andskota,
bíta-t þeim vopn né velir.


149. Það kann eg ið fjórða:
ef mér fyrðar bera
bönd að bóglimum,
svo eg gel
að eg ganga má,
sprettur mér af fótum fjötur,
en af höndum haft.


150. Það kann eg ið fimmta:
Ef eg sé af fári skotinn
flein í fóki vaða,
fýgur-a hann svo stinnt
að eg stöðvig-a-g,
ef eg hann sjónum of sé'g.


151. Það kann eg ið sétta:
Ef mig særir þegn
á rótum rás viðar,
og þann hal
er mig heifta kveður,
þann eta mein heldur en mig.


152. Það kann eg ið sjöunda:
Ef eg sé hávan loga
sal um sessmögum,
brennur-at svo breitt,
að eg honum bjargig-a-g.
þann kann eg galdur að gala.


153. Það kann eg ið átta,
er öllum er
nytsamlegt að nema:
Hvar er hatur vex
með hildings sonum
það má eg bæta brátt.


154. Það kann eg ið níunda:
Ef mig nauður um stendur
að bjarga fari mínu á floti,
vind eg kyrri
vogi á
og svæfi'g allan sæ.


155. Það kann eg ið tíunda:
Ef eg sé túnriður
leika lofti á,
eg svo vinn'g
að þeir villir fara
sinna heimhama,
sinna heimhuga.


156. Það kann eg ið ellefta:
Ef eg skal til orrustu
leiða langvini,
und randir eg gel,
en þeir með ríki fara
heilir hildar til,
heilir hildi frá,
koma þeir heilir hvaðan.


157. Það kann ef ið tólfta:
Ef eg sé að tré uppi
váfa virgilná,
svo eg ríst
og í rúnum fá'g
að sá gengur gumi
og mælir við mig.


158. Það kann eg ið þrettánda:
ef eg skal þegn ungan
verpa vatni á,
mun-at hann falla,
þótt hann í fólk komi:
hnígur-a sá halur fyr hjörum.


159. Það kann eg ið fjórtánda:
ef eg skal fyrða liði
telja tíva fyrir,
ása og álfa
eg kann allra skil.
Fár kann ósnotur svo.


160. Það kann eg ið fimmtánda
er gól Þjóðrerir
dvergur fyr Dellings dyrum.
Afl gól hann ásum,
en álfum frama,
hyggju Hroftatý.


161. Það kann eg ið sextánda:
Ef eg vil ins svinna mans
hafa geð allt og gaman,
hugi eg hverfi
hvítarmri konu
og sný eg hennar öllum sefa.


162. Það kann eg ið sautjánda
að mig mun seint firrast
ið manunga man.
Ljóða þessa
munðu, Loddfáfnir,
lengi vanur vera.
Þó sé þér góð ef þú getur,
nýt ef þú nemur,
þörf ef þú þiggur.


163. Það kann eg ið átjánda,
er eg æva kenni'g
mey né manns konu,
- allt er betra
er einn um kann;
það fylgir ljóða lokum, -
nema þeirri einni
er mig armi ver
eða mín systir sé.

VII. Ljóðalok

[breyta]
164. Nú eru Háva mál kveðin
Háva höllu í,
allþörf ýta sonum,
óþörf jötna sonum.
Heill sá er kvað!
Heill sá er kann!
Njóti sá er nam!
Heilir þeir er hlýddu!