Halla/5

Úr Wikiheimild
Halla höfundur Jón Trausti
5. kafli

Halla var hjartanlega ánægð með stöðu sína á heimilinu um þessar mundir.

Hún fann, að það bar vott um traust húsmóðurinnar á henni, að hún hafði falið henni þau störf, sem henni var annast um, að væru leyst sómasamlega af hendi.

Hún var líka ekki miður ánægð með það, þegar hún hugsaði til hins vinnufólksins, einkum stallsystra sinna; nú var hún minna með þeim að verki og hafði minna saman við þær að sælda, og það þótti henni vænt um.

Hún vissi vel, að þó oft væri glaumur og kæti þeirra á milli og þær umgengjust hana með skuggalausri glaðværð, að því er séð yrði, þá var þeim þó lítið hlýtt til hennar undir niðri. Hún vissi líka, að það hafði ekki batnað við þann frama, sem henni hafði hlotnast, og að þeim, sem alltaf var sagt fyrir verkum, þótti það óhæfilega mikill vegsauki fyrir hana að vera svo gott sem eigin húsmóðir, mega ganga þokkalega til fara, meðan þær gengu í mýrar- og moldarverk og voru blautar og óhreinar frá morgni til kvölds alla vikuna. Hún vissi, að þær hugsuðu þannig. Það kom ljóslega fram í augnaráði þeirra og glotti og stundum í beiskum gamanyrðum og spottglósum.

Og Halla hafði gaman af þessu. Hún hafði við ýmis tækifæri sýnt stallsystrum sínum, að hún hirti ekki um að líkjast þeim í neinu. Nú höfðu óhlutdrægar hendur tekið í taumana og sýnt þeim, að hún var meira metin en hver þeirra um sig.

Halla varð þess einnig vör, að karlmennirnir tóku eftir því trausti, sem gamla prestskonan hafði sýnt að hún bar til hennar, og að það hafði haft áhrif á þá. Hún fann, að þeir virtu sig meira eftir en áður - já, sumir sýndu henni næstum lotningu. Og hún lét þá skilja, að slíkur virðingarvottur væri sér velþóknanlegur.

Mest bar þó á gleði Ólafs sauðamanns yfir þessari veglegu stöðu, sem Halla hafði hlotið á heimilinu, og hann var ekki í rónni, fyrr en hann var búinn að segja frá því á hverjum einasta bæ í nágrenninu, og bætti því jafnan við, að sér þætti vænt um það, að fleiri sæju það en hann, hvílík afbragðsstúlka Halla væri.

Nú kom hann líka miklu oftar heim frá fénu en hann hafði áður gert, því nú var Halla alltaf heima við og átti ekki svo næsta annríkt, að hann gat oft haft tal af henni.

Aftur var Höllu lítið um það gefið, hve Ólafur gerði sér dælt við hana, og það var ekki laust við, að hún væri stundum önug við hann, svo það sat allt við það sama á milli þeirra; Ólafur hafði aldrei einurð á að stynja upp bónorðinu.

Halla stundaði verk sitt með stakri alúð. Henni fannst það helgasta skylda sín að vaka yfir því, að prestinn skorti ekki neitt af þeim þægindum, sem heimilið gat veitt honum og átti að veita honum. Og um það hugsaði hún mest af öllu.

Henni fannst stofan, þar sem presturinn bjó, hafa eitthvað dýrmætt að geyma, - eitthvað, sem allrar umönnunar þyrfti við til að vernda og hlúa að, og henni fannst það skylda sín að vera aldrei lengra frá henni en svo, að hún jafnan væri til taks, ef eitthvað vantaði; og hún var heldur ekki lengi að bregða við, ef það kom fyrir, að presturinn opnaði hurðina og kallaði á hana, til að biðja um eitthvað, sem hann vanhagaði um. Marrið í hurðinni, þegar hún var opnuð, var auk heldur nóg til að vekja skyldutilfinninguna hjá henni, svo hún hélt niðri í sér andanum og hlustaði, hvort nokkuð kæmi á eftir, sem henni bæri að gera.

Hún leit á hverjum morgni eftir fötum og plöggum prestsins, burstaði þau og þvoði þau með eigin höndum uppi við hverinn, löngu áður en hans var von á fætur á morgnana, og gerði sjálf við þau, ef eitthvað var að þeim. Hún hjálpaði húsmóðurinni til að matreiða handa honum - en við þá athöfn vildi gamla konan jafnan hafa hönd í bagga með, - en Halla bar á borð fyrir hann og af borðinu aftur, þegar hann hafði matast. Hún sá vel um, að hann fengi að hafa næði til að sofa fram eftir deginum, án þess allt of mikill hávaði væri í nánd við hann, og vakti hann síðan með morgunkaffinu, þegar henni fannst hann vera búinn að sofa hæfilega lengi, og annaðist um, að hann gæti jafnan verið kominn á fætur fyrir þann tíma dagsins, sem helst væri von á gestum, er kynnu að vilja finna hann. Hún steypti sjálf kertin, sem honum voru ætluð til ljósmetis - því olíulampar voru þá enn sjaldgæfir, - og hún reyndi eftir megni að bæta úr þeim óþægindum, sem lekinn og súgurinn í stofuskriflinu gerðu honum. - Í einu orði, hún annaðist hann eins vel og unnt var.

Hún fann líka sér til mikillar gleði, að hann var ánægður með verk hennar, og heyrði hann aldrei kvarta.

Hún reyndi líka að vera honum sem minnst til óþæginda sjálf og var því aldrei lengur inni í stofunni en hún nauðsynlega þurfti, ef hann var þar inni. Hún var líka hrædd um, að umgangur sinn kynni að trufla hann allt of mikið frá hugsunum hans og störfum, og fór því svo hljóðlega sem hún gat og forðaðist að yrða á hann, nema hún kæmist ekki hjá því.

Hún hafði verið vön að umgangast karlmenn alveg feimnislaust; en þótt hún væri ekki beinlínis feimin við prestinn, þá fannst henni þó ekki koma til mála, að hún gerði sér jafndælt við hann og aðra, sem hún var kunnugri og stóðu henni jafnar. Hún var ekki annað en þjónustustúlka hans, og hann stóð henni svo miklu, miklu ofar, ekki einungis að stöðu, heldur einnig að lærdómi og manngildi. Henni fannst djúp staðfest þar á milli.

Hún hafði verið óspör á að senda karlmönnum hýr tillit - það játaði hún fyrir sjálfri sér. - Og hún þekkti máttinn, sem þau höfðu. En það var ekkert annað en saklaus leikur.

Í umgengninni við prestinn var þó einnig honum ofaukið. Hún þorði varla að líta á hann. Aðrir máttu skilja tillit hennar eins og þeir vildu; aðeins ekki hann.

Hún reyndi því að hafa góðar gætur á augum sínum, þegar hún var í nánd við hann, og líta þeim á eitthvað annað, eða helst niður fyrir sig, svo þau segðu ekki neitt. sem tvírætt gæti verið.

Hún fann það líka, að henni var gjarnara að roðna, þegar presturinn leit á hana eða sagði eitthvað við hana, en ella. Hún var gröm við sjálfa sig yfir þessum veikleika, því hún vissi, að litbrigðin mátti líka þýða á ýmsa vegu. En hún gat ekki við þau ráðið.

Veslings Halla! - Hún vissi það ekki sjálf, að einmitt þannig, þegar öll glettni og allt yfirlæti var sem strokið burt af svip hennar, þegar hún líktist blómi, sem ekki þekkir fegurð sína og ilm, þegar alúð og skyldurækni fylltu huga hennar, samfara barnslegri gleði yfir því að njóta trausts og hylli vegna framkomu sinnar, - einnig þannig var hún fegurst og mest laðandi. - -

Höllu var að öðru leyti alls ókunnugt um hagi prestsins, ættir hans eða hvernig á honum stæði. Og þótt hana langaði til að vita um þetta, þá sá hún engan veg til þess, því þar var enginn maður í nágrenninu við hana, sem var nokkra vitund fróðari um þetta en hún sjálf.

Einu sinni herti hún upp hugann vg spurði húsmóður sína, gömlu prestskonuna, hvort presturinn væri giftur.

Gamla konan leit á hana stórum augum og glotti kuldalega, og hún hreytti um leið út úr sér, að hún vissi það ekki; en Höllu leist þá ekki á að spyrja hana um meira.

Hún sá, að hann hafði hring á hægri hendi, á sama fingri og algengt var að bera trúlofunarhringi á; en það var steinhringur, og gat því enga vissu gefið, því hún vissi þess engin dæmi, að steinhringir væru hafðir til slíkra hluta.

Hún sá hann skrifa mikið af bréfum og senda burtu, en hún sá aldrei, hvað utan á þeim stóð.

En eftir því sem leið á haustið, duldist henni það ekki, að prestinum leið ekki vel.

Hún tók eftir drungaskýjunum, sem hvíldu á svip hans, og hún hlustaði margsinnis á hann, þegar hann gekk um gólf í stofunni, æstur og órólegur. Hún heyrði hann hraða göngunni eða standa kyrran, eða jafnvel reika, og hún komst líka að því, að hann lá andvaka á nóttunni og gat ekki sofið. Hún hafði jafnvel heyrt hann andvarpa, og hún trúði því fastlega, að hann væri að biðjast fyrir.

Henni datt margsinnis í hug, hvort hann væri sjúkur.

Henni datt meira að segja í hug að spyrja hann að því. En hún var hrædd um, að það kynni að þykja of nærgöngult, kynni ef til vill að styggja hann, meðan hann kvartaði ekki sjálfur, og þess vegna hætti hún við það.

En eftir einu hafði hún tekið, og það var það, að presturinn gaf henni meiri gaum nú en áður. Hún fann það, þótt hún létist ekki sjá það og mætti ekki sjá það, að hann hætti að skrifa eða lesa og aðgætti hana nákvæmlega, þegar hún var eitthvað að gera inni í stofunni hjá honum. Hún sá það raunar, að hann vildi leyna því, að hann grúfði sig aftur yfir verk sitt, ef hann hélt, að hún hefði tekið eftir því, að hann gæfi gætur að henni. En það var ekki nema þangað til hún sneri sér við; þá fylgdu augu hans aftur hverri hreyfingu hennar.

Henni var ekki mikið um þetta gefið; og þessi vaxandi gaumur, sem presturinn gaf henni, var henni ærið umhugsunarefni, sem gerði hana órólega; - en samt fannst henni, sem hún mundi sakna þess, ef hann hætti því. - -

Svo var það eitt kvöld, skömmu fyrir veturnæturnar, að hún átti að fara inn til hans með nýtt, logandi kerti, sem hún ætlaði að færa honum.

Hún stansaði fyrir framan dyrnar ofurlitla stund og hlustaði. Hann gekk um gólf; það var ein af þeim stundum, sem hann háði sitt snarpa hugarstríð.

Hún heyrði það á fótatakinu, að hann var í einhverri baráttu við sjálfan sig, og hún kenndi í brjósti um hann, þótt hún skildi ekki, hvað það væri, sem honum bjó í brjósti. Einhver óró og kvíði greip hana, sem hún skildi ekkert í, og það var að því komið, að hún hætti við að fara inn til hans.

Samt drap hún hægt, en þó greinilega á dyrnar. Hún heyrði að hann stansaði; hann hafði þó heyrt, að einhver var að koma.

Hún opnaði og gekk inn.

Hann stóð hreyfingarlaus á gólfinu í hálfskugga, því kertið, sem hann hafði, var að slokkna út af niðri í stikunni.

Hún flýtti sér að ganga frá nýja kertinu í stikunni, en gat ekki leynt þeim áhrifum, sem aðkoman hafði haft á hana, svo handtökin voru óviss og brjóstin lyftu sér af þungum andardrætti.

Hún vissi, að hann horfði á hana á meðan. Það jók óró hennar, svo henni fipaðist og hún var rétt búin að missa niður kertið.

Í sömu svipan og án þess hún hefði heyrt til hans var hann kominn fast að henni eins og til að hjálpa henni.

Hún hjálpaði sér þó sjálf. En svo varð henni litið á hann.

Hann stóð kyrr sem fyrr og horfði á hana. Henni fannst sem hann mundi langa til að segja eitthvað við sig.

Aldrei hafði hún séð hann slíkan; og það var ekki laust við, að henni stæði hálfgerður beygur af honum.

Hún stóð kyrr og horfði á ljósið, sem hún var ekki búin að sleppa; hún var að bíða, hún vissi ekki sjálf eftir hverju.

Allt í einu hrökk hún við. Hún fann mjúka, hlýja hendina á honum strjúkast um kinn sér og staðnæmast undir hökunni.

Hún lyfti upp höfðinu og leit framan í hann.

Í fyrsta skipti mættust augu þeirra.

Aldrei hafði hún fyrr séð slík augu. Aldrei hafði hún getað hugsað sér annað eins djúp af viðkvæmni og sárri hugarraun, hjálparvon og bæn, eins og það, sem hún sá í þessum karlmannsaugum.

Hún stóð sem steini lostin af undrun og heyrði og sá eins og hálft í leiðslu. Hún fann, að mjúku fingurnir, sem hann hélt enn þá undir hökunni á henni, titruðu, og hún heyrði, að hann reyndi að segja eitthvað, sem hann varla gat gert skiljanlegt. Röddin var óstyrk og orðin hálfköfnuð á vörum hans. Loksins gat hann þó gert setninguna skiljanlega:

„Halla - ég á yður mikið að þakka. Þér komið ævinlega með ljós - með sólskin inn í stofuna til mín.“

Lengri varð ekki samræðan. Það var sem Halla kæmi til sjálfrar sín við að heyra hann tala, þótt hún skildi ekki til fulls, fyrr en síðar, hvað hann sagði. Hún blóðroðnaði og leit niður fyrir sig.

Hún fann, að hann beygði sig niður eins og hann vildi kyssa hana; en hún beið ekki eftir því. Hún sagði: „Góða nótt“ - og gekk út úr stofunni í skyndi.

Síra Halldór stóð eftir á gólfinu hreyfingarlaus og höggdofa.

Það var líkast því sem hann hefði verið að dreyma og hann hefði gert það, sem hann gerði, í leiðslu. En nú hrökk hann upp.

Hvað hafði hann gert? Hann hugsaði til þess með skelfingu, að hann hafði tapað valdinu yfir sjálfum sér, að hann hafði gert sig brotlegan við þær skyldur, sem á honum hvíldu sem vígðum manni - brotlegan við þann hjartans ásetning sinn, sem hann hafði innsiglað með dýru drengskaparheiti. Hann hafði ekki getað ímyndað sér þá, að í því heiti feldist sú krafa, sem sér væri um megn að halda. Og nú hafði hann brotið á móti henni.

Hann settist niður og fór að hugsa betur um þetta. Hann hafði verið í öngum sínum, eins og oftar, háð stríð við hugsanir sínar og tilfinningar. Hún hafði komið eins og frelsandi engill inn til hans og dreift skuggunum frá sálu hans. Hann sá hana enn þá fyrir sér eins og hún hafði staðið við borðið, þegar hún var að ganga frá kertinu. Hún var óstyrk, henni var þungt um andann, svo brjóstin gengu upp og niður, eins og öldur - ef til vill allt saman hans vegna; og hún var óvanalega feimin. Allt þetta fór henni svo eðlilega og gerði hana svo undur aðlaðandi, - já, töfrandi. Það var sem streymdi út frá henni dámagn, sem svipti hann sjálfræðinu.

Og hvað hafði hann þá gert? Hann hafði strokið um rjóðu kinnina og stutt fingrunum undir hökuna á henni, eins og hann væri að gera gælur við ófermdan krakka; og litið framan í hana um leið og hann stamaði fram meinlausri setningu. Þetta var allt og sumt!

Hann var ekki í efa um, hvernig sumar af þeim stúlkum sem hann hafði þekkt, mundu skilja þetta: aðeins sem meinlausan og marklausan leik, og ekkert meira.

En hvernig mundi hún skilja það? Hún, sem var saklaus og ósnortin og barnslega viðkvæm. Hún hafði litið undan og blóðroðnað og flýtt sér frá honum.

Hann hafði verið henni of nærgöngull; nú varð það ekki aftur tekið. Hafði hann móðgað hana?

Hvað mundi hún ætla að gera? Hætta að koma inn til hans? Afsegja að þjóna honum? Klaga hann fyrir húsmóðurinni, gömlu prestsekkjunni, ströngu og þurrlegu - ? Hver veit, hvað þessari viðkvæmu sveitastúlku kynni að detta í hug?

En þannig mátti þetta ævintýr ekki enda.

Eða mundi hún ekki láta neitt á neinu bera, gera sín verk - en umgangast hann steinþegjandi, með tvöfalt meiri kulda og tortryggni en hingað til? Átti að verða ísköld, helblá jökulsprunga á milli þeirra framvegis?

Nei, nei, við það gat hann ekki lifað. Nú var hún orðin honum dýrmætari en allt annað; nú gat hann ekki hugsað til að lifa án hennar á þessu prestssetri. Hann mátti til að tala við hana, hann mátti til, þó ekki væri til annars en biðja hana að fyrirgefa sér, - eða - eða.

Nei, hann hrökk við fyrir sinni eigin hugsun. En mátti til að tala við hana sem allra fyrst, og hann beið með óþreyju eftir tækifærinu.

Hann stóð á fætur og fór aftur að ganga um gólf. Honum var léttara um hjartað, þótt hann væri enn langt frá því að vera rólegur. Honum fannst sem hrokkið hefði utan af sér hlekkur - sá hlekkurinn, sem mest þjakaði honum. - Hann var aftur kominn inn í eitt af sínum gömlu ævintýrum; það var byrjun - og enn þá var ekki unnt að ráða í, hvernig framhaldið yrði.

Þessi atburður var líka ærið umhugsunarefni fyrir Höllu.

Hún fann, að hún hafði komist í geðshræringu, fann, að hún hafði roðnað, og var hrædd við, að hún ætti bágt með að leyna því, ef hitt fólkið sæi hana þá þegar. Hún gerði sér því hitt og annað til tímaeyðslu frammi í bænum fyrst um sinn, meðan hún væri að jafna sig.

Henni fannst enn þá förin eftir mjúku fingurna brenna sig undir hökunni; henni fannst hún enn þá horfa framan í andlitið, sem hún sá, þegar hún leit upp. Hún hafði aldrei séð eins vel framan í hann, og svipur hans hafði aldrei grafið sig eins djúpt í huga hennar og í þetta skipti.

Andlitið, augun, já, allur svipurinn var svo þrunginn af sorg og viðkvæmni, svo ákaflega huggunarsnauður og myrkur, að hún hafði aldrei getað ímyndað sér slíkt.

Og röddin! - Það var eins og hún kæmi úr lokuðum hraunhvelfingum; og þó hafði hún keim af hans vanalegu rödd, sem henni fannst svo þýð og hreimfögur.

Allt þetta var henni erfið gáta, sem hún skildi ekkert í.

Hún fann, að hann hafði enn þá ekkert verið búinn að segja af því, sem honum var niðri fyrir. Henni fannst hún hafa gert honum rangt til með því að fara frá honum. Ef til vill hafði hún sært hann svo, að hann héldi þessu samtali aldrei áfram. Og það vildi hún þó síst af öllu.

Hana hálflangaði til að fara aftur inn til hans og spyrja hann um, hvað hann hefði átt ótalað við hana; en hún hætti við það; það var ekki sæmilegt.

Það hlaut þó að vera eitthvað þýðingarmikið. Ætlaði hann að ávíta hana? Og fyrir hvað? Hún leit í huganum yfir allt, sem hún hafði gert í hans þágu; hún var ekki sek í neinni vanrækslu.

Hann hafði heldur ekki byrjað í ávítunarrómi. Það var öðru nær. Hann hafði sagt, að hann væri henni þakklátur, því hún kæmi ætíð með sólskin inn í stofuna til sín.

Hvað átti hann við?

Ráðningarnar gátu verið henni bæði til hryggðar og gleði. Þær gátu ekki verið nema á tvo vegu: Annaðhvort var þetta marklaust orðaflapur, sem enga þýðingu hafði, eða - hann elskaði hana.

Ef það væri einskisvert orðaflapur, - ef hann aldrei framar hirti um að halda þessu áfram, sem hann var byrjaður á að segja, eða ef hann léti það dragast og umgengist hana jafnókunnuglega og áður, - þá fannst henni hún ekki mundi geta séð hann framar; að hún mundi fá svo megna óbeit á honum, að hún yrði að fara burtu af heimilinu, hvað sem það kostaði.

En ef hann elskaði hana?

Nei, það var óhugsandi. Hún, bláfátæk sveitastúlka, og hann - presturinn! Hún mátti ekki hugsa annað eins. Hann gat ekki tekið svo langt niður fyrir sig.

En hún hvarf þó aftur og aftur að þeirri hugsun. Hún hafði oft hugsað um það áður, hve mikla eftirtekt hann veitti henni, stöðugt meiri og meiri. Hún hugsaði líka mikið um þá breytingu, sem orðin var á honum á seinni tímum. Hvað var það, sem að honum gekk? Var hann sjúkur? Sjúkur af ást - til hennar! Hún gat ekki annað en brosað að slíkum hégóma!

Hún reyndi að telja sér trú um, að hann væri bundinn einhverri annarri. Vildi hann aðeins hafa hana fyrir leikfang?

Nei, - öðru eins gat hún ekki trúað. Hann var of vænn maður til þess, of góður og einlægur. Eða vildi hann brjóta af sér einhver eldri bönd, til þess að geta tekið hana að sér? Var það það, sem að honum gekk? Því gat hún heldur ekki trúað.

Þannig vafðist hugur hennar milli vonar og ótta. Henni fannst óþolandi að bíða eftir ráðningunni á þessari gátu; hún hefði fegin viljað gefa það lítið, sem hún átti til, til að fá hana þá þegar.

Svo datt henni í hug að láta tilviljunina svara.

Að vísu var ekki mikið á því svari byggjandi; það kannaðist hún sjálf við. En hún hafði gaman af að reyna það samt.

Hún gekk inn í baðstofuna. Allir voru háttaðir og sofnaðir þar fyrir góðri stundu.

Tunglið var í fyllingu og hátt á himni og skein inn um þekjugluggann uppi yfir rúminu hennar í frambaðstofunni. Geislinn varpaði skýrri mynd af rúðunum og gluggaumgerðinni á mitt rúmið og gólfið fyrir framan það.

Halla seildist í spil, sem hún vissi, að voru á hillu yfir rúmi tveggja vinnumanna, sem stundum voru að spila í frístundum sínum. Hún tók ofurlítinn stokk ofan af spilabunkanum, án þess að vita, hve mörg þau voru, og fór að telja þau fram í tunglskinið á rúminu. Svarið var undir því komið, hvað seinasta spilið segði.

Hún kastaði einu og einu spili:

„Hann elskar mig. - Hann elskar mig ekki. - Hann elskar mig. - Hann elskar mig ekki. - Hann elskar mig.“

„Hann elskar mig“ kom á seinasta spilið, og hjartað kipptist við í brjóstinu á Höllu.

Þannig hafði tilviljunin svarað.

Hún lét spilin aftur upp á hilluna og fór að hátta.

En hún gat ekki sofnað. Hún var að hugsa um það, sem spilin höfðu sagt. Hún vildi ekki kannast við það fyrir sjálfri sér, að hún legði neinn trúnað á það, en ef þau hefðu nú logið, þá fann hún, að sér mundi verða illa við öll spil, sem hún sæi, alla sína ævi.

En ef þau hefðu nú sagt satt - ?

Hún ímyndaði sér, hvernig fólkinu mundi verða við þá sögu, ef það fréttist, að hún væri trúlofuð prestinum!

Hún sá í anda svipinn á kunningjastúlkum sínum, sem urðu að sætta sig við rétta og slétta bændasyni eða vinnumenn, - ef þær annars áttu nokkuð að fá, - en hún fengi prest!

Eða augun í piltunum, sem hafði litist vel á hana, þegar þeir sæju hana ganga frá altarinu með prestinum!

Og hún sá fyrir sér syfjaða andlitið á veslings Ólafi sauðamanni, þegar hann sæi áhrif - eða áhrifaleysi - allra spesíanna, sem hann hafði lagt svo mikið kapp á að safna!

Já, henni var sem hún sæi framan í húsmóður sína, gömlu prestsekkjuna, þegar hún færi að óska sér til hamingju. Hún vissi, að hún mundi ekki segja mikið; en hún gat nærri um hugrenningar hennar og tilfinningar, þegar hún vissi, að hún, vinnukonan hennar, ætti að taka við sæti hennar á heimilinu, undireins og það losnaði.

Halla var þröngsýn eins og barn í ástamálum og eftir því bjartsýn. Hún gat varla hugsað sér hjónaband án ástar, og þaðan af síður ástir án hjónabands. Ef presturinn elskaði hana, þá hlaut hann að geta gifst henni; annars elskaði hann hana ekki. -

Út frá þessum hugleiðingum sofnaði Halla loksins. En svefninn var léttur og óvær, og hugsanir héldu áfram á sína vísu í draumum hennar.

Af og til hrökk hún upp, vakti ofur litla stund og sofnaði svo aftur; en hver blundur færði henni nýjan og nýjan draum.

Hana dreymdi prestinn, þar sem hann stóð frammi fyrir henni, studdi fingrunum undir hökuna á henni og horfði framan í hana; en það var á allt öðrum stað en kvöldinu áður, miklu bjartara umhverfis þau, og hún hélt á blómi, en ekki kerti.

Hana dreymdi hann uppi í prédikunarstólnum, þar sem henni fannst hann stækka og fríkka og að lokum sveipast geislahring, - eins og allt það, sem menn sjá í gegnum tárin.

Og hana dreymdi, að hann kom inn að rúminu hennar, laut niður að henni til að kyssa hana og hvíslaði: „Halla, ég elska þig!“ -

En undir morguninn skipti draumurinn um efni.

Hana dreymdi Guðrúnu gömlu fóstru sína.

Það var gömul kona, sem hún hafði kynnst þegar hún var munaðarlaust barn. Hún hafði verið látin sofa hjá henni og gamla konan tekið ástfóstri við hana, verið henni fádæma góð, frætt hana um margt og kennt henni margt fallegt, sem hún ávallt mundi, einkum sögur og ævintýri, gömul kvæði og heilræðavísur. Enga manneskju hafði Halla elskað eins mikið og hana til þessa. Nú var hún dáin fyrir mörgum árum.

Aldrei hafði Höllu dreymt hana fyrr en nú. Nú birtist hún henni, hún vissi ekki hvar. Hún sagði ekkert við hana; en hún var myrk og alvarleg á svipinn, og tillitið lýsti aumkun og aðvörun.

Eftir það gat Halla ekki sofnað. Þessi draumur um fóstru hennar gerði hana alvarlega um stund. Hvers vegna hafði hana aldrei dreymt hana áður, og hvers vegna birtist hún henni einmitt nú? Hví var hún svona alvarleg á svipinn og hvers vegna sagði hún ekkert við hana?

En bjartsýnið sigraði. Jafngóð manneskja og fóstra hennar hafði verið gat þó ekki komið til að boða henni neitt illt.

Svo fór hún að hugsa um hina draumana, sem voru henni geðfelldari og sem fljótt urðu henni að vökudraumum.

Allan daginn var Halla að hugsa um þetta og velta því fyrir sér á ýmsar lundir. Sömu vonirnar og sömu efasemdirnar hryggðu hana og glöddu til skiptis.

Hún vann verk sín eins og hún var vön; en það var auðvelt að sjá, að hún var öll annars hugar. Henni hafði aldrei fipast eins oft og aldrei hætt eins við að gleyma.

Hún gaf prestinum nánar gætur um daginn. Að vísu var hún sjaldan inni hjá honum, og ekki nema stutt í einu, og þeim fóru engin markverð orð á milli. En hún fann, að honum var enn hið sama niðri fyrir eins og kvöldinu áður; hann sat um tækifæri til að geta talað við hana og gaf nákvæmar gætur að hverju hennar spori. Hún var því ekki lengur í efa um, að hann ætti eitthvað ósagt.

Kvöldið kom án þess nokkuð bæri til tíðinda.

Allt heimilisfólkið var komið inn í baðstofu og setst um kyrrt. Flestir voru þreyttir og urðu hvíldinni fegnir. Enn þá var ekki farið að kveikja að jafnaði; og þetta kvöld var tunglskinið inn um baðstofugluggana látið nægja. Menn háttuðu að vanda, hver ofan í holu sína, og sofnuðu fljótt.

Halla gekk fram í bæjardyr og hlustaði við stofuþilið; presturinn gekk um gólf þar inni.

Síðan gekk hún út á hlaðið. Veðrið var undur fagurt - fegursta hauskvöldið, sem komið hafði um langan tíma. Hinn gamli trúnaðarvinur elskendanna, tunglið, skein í heiðríkju. Jörðin var auð og stirndi ofur lítið af hrími. Skuggarnir af bæjarhúsunum köstuðust skáhallt fram á hlaðið; aðeins undir þiljunum bar skugga á.

Henni var venju fremur órótt innan brjósts, hún var óstyrk og hjartað sló ákaft.

Hún gekk eins og utan við sig fram á hlaðið, beint fram undan stofugluggunum, og stóð þar kyrr um stund, án þess að gera sér grein fyrir, hvers vegna hún gerði það.

Hún leit inn í stofugluggana. Þar var ekkert ljós; presturinn gekk um gólf við tunglskímuna. Henni kom í hug að gera sér eitthvert erindi og ganga inn til hans. En henni hraus hugur við því; það var orðið svo framorðið.

Svo varð henni reikað vestur um hlaðið að skemmudyrunum. Þær stóðu opnar; en það var engin nýjung; það kom svo oft fyrir, að það var gleymt að loka þeim. Tunglið skein inn um dyrnar, og lagði breiða ljósrönd yfir dálítinn kafla af gólfinu, sem var auður. Allt í kringum hana var staflað reiðingum og ýmsum búsáhöldum.

Halla stansaði og horfði á þetta. Einhver ónotabeygur læsti sig um hana. Þarna var það, á þessum bletti, innar af dyrunum, sem tunglskinið nú breiddi sig yfir - þarna var það, að hún hafði legið meðvitundarlaus í blóði sínu, þegar hesturinn sló hana.

Hún var þá barn að aldri, og það var í fyrsta sinn, sem henni var lofað til kirkju. Hún var að leika sér á hlaðinu með öðrum börnum. En hestur, sem þar var bundinn við hestasteininn, sló hana, svo hún hraut inn á skemmugólfið og lá þar í óviti með blæðandi sár á höfðinu.

Hún greip með hendinni upp á höfuðið á sér; þar var örið enn þá.

Hún hafði daglega gengið um þennan stað ng aldrei dottið þetta í hug fyrr en nú. Nú stóð þessi atburður sem ljóslifandi fyrir henni. Og það fór um hana hrollur við þessa endurminningu.

En hún hafði ekki langan tíma til að hugsa um það. Hún hrökk saman. Hún heyrði marra í stofuhurðinni, sem boðaði henni, að dyrunum væri lokið upp. Presturinn var að koma.

Hún vissi ekki, hvað hún átti af sér að gera. Hún vildi ekki verða á vegi hans, - ekki núna. Hún kenndi sig ekki færa um það. Hún var svo óstyrk, svo óróleg og hjartað barðist svo óvanalega í brjósti hennar. Og eins og til að fela sig, gekk hún inn í skemmuna.

En það skipti engum tökum. Hann var kominn á eftir henni. Hún heyrði skrefin hans yfir hlaðið - inn í skemmuna. Hann fleygði aftur hurðinni, svo tunglsljósið náði aðeins inn til þeirra gegnum rifurnar. Fundum þeirra bar saman á sama blettinum sem hún áður hafði virt fyrir sér og hugsað um.

Hún vildi flýja - en hvert? Nú var öllum sundum lokað. Hún fann hann leggja handlegginn utan um mittið á sér; ekki titrandi og hikandi eins og fingur hans voru, sem hann hafði stutt undir hökuna á henni kvöldið áður, heldur fast og eindregið, eins og handleggurinn væri úr járni.

Hún reyndi að hljóða upp yfir sig; en hljóðið dó í hálsinum á henni. Hún reyndi að hreyfa handlegginn til að ýta honum frá sér; en það var sem viljinn væri lamaður; - engin fyrirskipun heilans kom til framkvæmda. Allt þetta flókna sigurverk, sem við í einu orði nefnum sál, var sem hætt að hreyfast.

Hún fann varir hans rétt við vangann á sér, heyrði hann anda inn í eyra sér orðunum, sem hún hafði bæði þráð og kviðið fyrir:

„Halla, ég elska þig, - elska þig!“

Hún heyrði hann endurtaka það með ástríðuákefð, eins og hann efaðist um, að hún heyrði það eða skildi; og hann þrýsti henni fastar að sér, eins og hann væri hræddur um að missa hana, þótt hún hefði ekki enn þá gert minnstu tilraun til að slíta sig af honum.

„Halla, ég elska þig!“

Hana svimaði. Það var líkast því, að hún væri að gleyma sjálfri sér. Allt hennar tilfinningalíf var á slíku reiki, að það líktist helst ólgandi sjó, sem enginn vindblær, enginn straumur beinir í stefnu, en þar sem öldurnar falla hver yfir aðra.

Loks var sem ein tilfinning brytist fram í gegnum allar aðrar. Brytist út frá hjartanu og sendi logandi heitan straum út í hverja æð og hverja taug, hverja lífsfrumlu í öllum líkama hennar. - Tilfinning ósegjanlegs unaðar. -

Halla, ég elska þig!“

Og Halla lagði höfuðið upp að brjóstum hans og rétti fram varirnar til þess að meðtaka heilt steypiflóá af brennandi kossum - frá „fyrirmynd trúaðra í lærdómi, hegðun, elsku, trú og skírlífi“.