Halla/4

Úr Wikiheimild
Halla höfundur Jón Trausti
4. kafli

Síra Halldóri leið ekki vel á prestssetrinu.

Það var of snögg breyting fyrir hann, að koma úr höfuðstaðarlífinu, eftir að hafa vanist því í mörg ár, koma frá vinum og vandamönnum og setjast nú að á sveitabæ á útkjálka, þar sem hann engan einasta mann þekkti.

Það var heldur ekki meira en svo vistlegt fyrir unga prestinn á gamla prestssetrinu.

Hann fann það vel, að hann átti þar ekki heima enn sem komið var. Hann sá það líka, að gamla prestskonan sneiddi hjá honum og að vinir hennar og vandamenn fóru að dæmi hennar.

Vinnufólkið gat hann heldur ekki umgengist; það var ekki hans vinnufólk. Það var allan daginn að verkum sínum hér og þar, úti og inni, og þegar dagsverkinu var lokið, settist það að inni í baðstofu, en þangað lagði hann aldrei leið sína.

Hann stytti sér að vísu stöku stundir með því að gefa sig á tal við vinnumennina, ef þeir voru að vinnu heima við bæinn. En þá leið sjaldan á löngu, þangað til hann sá andlitinu á gömlu prestsekkjunni bregða fyrir, annaðhvort innan við glugga eða einhvers staðar í nánd, og líta alvarlega til þeirra. Hann skildi það svo, að hún héldi, að hann tefði vinnumennina, ef hann stæði allt of lengi á tali við þá. Og svo hætti hann því.

Hann fann það líka, að gestirnir, sem komu á heimilið, voru ekki hans gestir og komu sjaldnast að finna hann, og þess vegna gaf hann sig sjaldan að þeim að fyrra bragði. Honum þótti raunar vænt um, þegar einhverjir bændur úr nágrenninu komu inn til hans, og hann passaði sig með að eiga jafnan til ofur lítinn dropa af víni, til þess heldur að hæna þá að en hitt.

Þeir voru að vísu engir fyrirmyndarmenn að fasi og háttprýði, svo þeir væru aðlaðandi lagsbræður fyrir hann; en hann vissi, að þeir voru máttarstólpar sveitarinnar og safnaðarins og að með þeim átti hann að vinna ævistarf sitt framvegis; og honum fannst alla jafnan einhver ekki óviðfelldin sveitablær koma inn í stofuna með þeim, ekki alveg laus við heyilm og áburðarþef, en þó lyftandi og viðrandi í mollulofti því, er honum fannst umkringja sig daglega.

En svo kunnu þeir sér ekki hóf og sátu of lengi og drukku of mikið og þvogluðu honum til stórleiðinda, svo hann varð oftast dauðfeginn, þegar þeir loksins fóru. -

Húsnæðið, sem hann hafði, var líka fáum kostum gætt, þótt það ætti að heita besta herbergið á bænum.

Það var stofa með timburþili fram á hlaðið, með tveim gluggum á með hvítmáluðum gluggaumgjörðum, en torfveggjum á allar aðrar hliðar, nema hvað tvöfalt timburþil skildi hana frá bæjardyrunum, og á því voru dyrnar inn í stofuna; en til hliðar við þær voru dyrnar að stiganum upp á loftið, uppi yfir stofunni.

Bæjarhúsin, sem voru á bak við, höfðu ýtt á grindina í stofuhúsinu, svo þilið framan á henni bungaði fram á hlaðið og stofan var öll gengin úr skorðum og orðin skökk. Meðal annars var gólfið gengið upp úr miðjunni, og var þar allmikill hryggur um þvera stofuna; en svo lækkaði gólfið til beggja enda. Þetta var orsök til þess, að hurðin, sem gekk inn í stofuna, laukst aldrei upp nema vel til hálfs, og stóð þá föst á mishæðunum á gólfinu. Hafði hornið á henni á löngum tíma sorfið bogmyndað far í gólfið, og jafnframt slitnað af hurðinni. Nú gekk hurðin ekki lengra en farið náði, en marraði hátt og ónotalega, þegar hornið á henni straukst eftir gólfinu.

Öll var stofan þiljuð innan með breiðum borðum, sem flett hafði verið úr völdum rekavið, því timbur fluttist þá mjög lítið sem verslunarvara þar um slóðir. Hafði hún í upphafi vega sinna verið blámáluð, en málningin nú víða farin af, því stofan var orðin gömul, og vegna þess, hve skökk hún var orðin og missigin, voru víða komnar fram ómálaðar randir og skellur á borðunum, sem áður höfðu verið huldar undir máluðum listum og brúnaviðum; en rifur og glufur göptu hvarvetna, eins og áður er á minnst.

Yfir þvera stofuna gekk biti, sem hélt uppi loftinu; var það bjálki mikill, fóðraður utan með máluðum borðum. Var ekki hærra undir bitann en svo, að meðalmaður í hærra lagi þurfti að beygja höfuðið, ef hann vildi ekki reka sig upp undir hann; en presturinn komst þó hjá slíkum óþægindum, því svo var að sjá sem forsjónin hefði fyrir löngu ætlað honum þessa stofu og af umhyggju fyrir hinu dýrmæta höfði þessa þjóns síns skapað hann mátulega háan undir bitann.

Við afturvegginn á stofunni var rúm prestsins, en borð þar gagnvart, úti við gluggana, og stólar tveir hjá. Meðfram hinum veggjunum var raðað kistum og koffortum, sem heimafólkið átti; einnig stóð þar dragkista gömlu prestsekkjunnar - sem hún nú aldrei opnaði sjálf, síðan presturinn kom í stofuna - og skákborð prestsins sáluga. En á veggjunum hér og þar og einkum úti í hornunum héngu spariföt heimafólksins, bæði karla og kvenna, þau sem ekki voru of dýrmæt til að hanga uppi; því þau allra-allrabestu voru auðvitað vandlega samanbrotin niðri í hirslum. Mátti þar sjá fagra og fáránlega muni, sem ætlaðir voru til skjóls og prýðis hver sínum líkamshluta, svo sem milluboli, stutttreyjur, síðtreyjur með tin- eða látúnshnöppum, 50-60 ára kventreyjur, með rósasaum á börmum og ermum, rósavettlinga, svuntur, linda og alls konar kvenlegan höfuðbúnað - í stuttu máli sýnishorn af öllum búnaði, frá ystu klæðum og inn að bekkjaofnum nærpilsum, sem héngu við hliðina á hrosshárugu reiðpilsi með ísaumuðum rósabekk við skautið, sem prestsekkjan átti. Á einum stað á einum veggnum, þar sem fötin byrgðu ekki alveg, hékk mynd af Jóni Vídalín, sem presturinn sálugi hafði rifið upp úr Nýjum félagsritum og gengið frá í umgjörð utan af spegli. Önnur veggjaprýði var þar ekki.

Það hefði þó ekki verið frágangssök að una við allt þetta, hefði stofan verið betri í raun en útliti. En það var öðru nær. Lakast af öllu var það, að þegar hvasst var, þá súgaði um hana alla, og í úrkomum lak bæði inn með glugganum og niður um loftið, svo gólfið flóði í vatni. -

Það hefði verið synd að segja, að síra Halldór rækti ekki hvílu sína; enda var hún það eina, sem við var unandi í þessu hreysi, því þangað hafði prestsekkjan gamla látið flytja sín bestu rúmföt.

Hann fór að vísu ekki að hátta fyrr en á sama tíma og aðrir, og stundum nokkuð seinna, en reis miklu seinna úr rekkju. Var það kallaður kaupstaðasiður þar í héraðinu, og þó einkum eignaður Reykjavík.

Allar aðrar stundir hélt hann einnig lengst af til í stofunni, og notaði þetta eina borð, sem þar var, fyrir þvottaborð, matborð, skrifborð og lestrarborð, og var hann því oftast við það að hitta, eða hann gekk um gólf í stofunni.

Tvo kunningja eignaðist þó presturinn snemma þar á prestssetrinu.

Annar var svartflekkóttur hundur, sem orðinn var gamall í vistinni, hrumur og latur, lá oftast heima við og hafði það hlutverk að éta skánir og gelta að gestum. Hann var flaðrandi og vinalegur og þótti undur gott að láta klóra sér á kviðnum. Undireins og hann sá prestinn nálgast, fleygði hann sér upp í loft og prjónaði með löppunum, til þess að hann ætti hægra með að leika þennan leik við sig. Prestur skildi, hvað seppi vildi, og lét því sjaldan hjá líða að gleðja hann, og seppi vottaði honum þakklæti sitt með því að sleikja á honum hendina eða stökkva á fætur, þótt hann gamall væri og stirður, og flaðra upp um hann. Og aldrei fór prestur svo burtu frá bænum, að seppi skakklappaðist ekki með honum, eða þá að minnsta kosti fylgdi honum úr garði.

Hinn kunninginn var Ólafur sauðamaður. Prestur hafði einhvern veginn - hann vissi ekki hvernig - komist í nánari kynni við hann en aðra menn á heimilinu. Og þar sem Ólafur var þá ekki tekinn við sauðagæslunni fyrir fullt og allt, en var oft heima við, höfðu þeir mörg tækifæri til að hittast. Það var heldur ekki að sjá, að gamla prestsekkjan veitti því neina eftirtekt; það var sem hún byggist ekki við, að Ólafur gerði mikið þann tímann, sem hann ekki væri hjá fénu, og þá var ekkert því til fyrirstöðu, að hann hefði ofan af fyrir prestinum stund og stund, fyrst hann gat notað hann til þess.

Síra Halldór hafði líka hálfgaman af Ólafi og gat setið tímunum saman og hlustað á það, sem hann var að segja frá, þótt ekki væri það efnisríkt. Það var líka sem hann yrði aldrei þreyttur á að virða fyrir sér lagið á Ólafi og útgang hans og útlit, einkum þó þetta sísyfjaða andlit, sem varla gat vaknað, þótt maðurinn veltist um af hlátri. Hann hafði líka gaman af því, eins og fleiri, að draga dár að Ólafi á sína vísu og án þess að reita hann til reiði; þó var honum best skemmt, þegar Ólafur skildi það ekki.

Ólafur var að sínu leyti hjartanlega ánægður með kunningsskapinn og þótti hinn mesti frami að því að vera handgengnari nýja prestinum en aðrir á heimilinu, og sneiddi sig þá um leið meira hjá öðrum heimamönnum en hann hafði nokkurn tíma áður gert.

Hann varð þess að vísu var, að ekki var laust við, að presturinn henti gaman að honum; en það var á allt annan hátt en aðrir gerðu það, og hann fann líka, að hann gat umborið honum meira en nokkrum öðrum.

Hann fékk líka brátt hið besta traust á presti og ruglaði í hann öllum sínum hjartans áhugamálum, um kindurnar og peningasöfnunina og stúlku, sem hann ynni hugástum, en hefði ekki komið sér að biðja enn þá; en varaðist að nefna Höllu á nafn. Í öllum þessum málum leitaði hann ráða prestsins og ásjár.

Prestur lét sem sér líkaði þetta allt saman vel, stappaði í hann stálinu að halda uppteknum hætti og fullvissaði hann um, að engin skynsöm stúlka gæti staðist jafnefnilegan og myndarlegan mann, sem ætti heila hlaða af spesíum!

Annars fór honum nú að sýnast það ráðlegast að leyfa Ólafi ekki að gera sér dælla við sig en komið væri, og sinnti honum því minna, þegar dagar liðu fram.

En þegar göngurnar voru um garð gengnar, þurfti Ólafur að taka við fénu og var upp frá því sjaldnar heima.

En áður en hann tók við fénu, varð hann eftir skipun húsmóðurinnar að lóga Flekk gamla, svo að presturinn missti báða þessa kunningja sína í einu. - -

En langoftast sá hann Höllu af öllum heimamönnum. Hún var eina manneskjan, sem nokkuð gekk um stofuna að staðaldri, bæði þegar hún var að gera það, sem gera þurfti þar inni, og þegar hún sótti eitthvað þangað ofan í læstar hirslur, annaðhvort fyrir gömlu prestsekkjuna eða aðra heimilismenn, sem áttu geymslu þar inni og annaðhvort voru feimnir við prestinn eða að minnsta kosti létust vera það.

Halla gekk þar um oft á dag og ævinlega hiklaust og einarðlega, en þó hæversklega og aldrei nema hún ætti erindi, sem oftast nær var eitthvað í hans þágu. Hún færði honum þvottavatn á hverjum degi, bjó upp rúmið hans, bar á borð fyrir hann, tók allt til handargagns, sem hann átti, tók af honum óhrein föt til þvotta og aðgerðar, bauð honum góðan daginn á morgnana og góða nótt á kvöldin, spurði hann, hvort hann vantaði nokkuð - en talaði annars aldrei við hann meira en nauðsynlegt var.

Venjulega fór hann út úr stofunni, meðan hún var að taka þar til, til þess að vera henni ekki til óþæginda, og þó var ekki laust við, að hann langaði til að vera þar kyrr inni og sjá til hennar.

Hann þreyttist heldur ekki á að sjá hana vinna eitthvert verk; að sjá, hve allir tilburðir voru fimlegir og rösklegir, látbragðið eðlilegt og tildurslaust og vöxturinn og limalagið fagurt og samsvarandi.

Hann þreyttist ekki á að horfa á handleggina, holduga og þriflega, þegar hún bretti upp treyjuermunum, og hendurnar smáu og nettu, en þó knálegu, sem báru þess ótvíræð merki, að þeim hafði ekki verið hlíft. Eða þá andlitið, ofur lítið freknótt og útitekið undan sumrinu, nett og feitlagið með dálítið harðlegan svip og tindrandi augu, sem þó voru ekki laus við að vera dreymandi.

Og svo þegar hún varð vör við, að hann horfði á hana, og feimnissvipur færðist yfir andlitið, en ofur lítill roði kom fram í kinnarnar. En hvað henni fór það vel!

Hann tók líka eftir hárinu, sem var þykkt og ljósjarpt og hún fléttaði í tvær fléttur, sem héngu niður um herðarnar; en uppi á höfðinu bylgjaðist það til beggja hliða út frá hárskiptinu og slútti ofur lítið fram yfir ennið.

En mest fannst honum þó til um, hve allur klæðnaður fór henni vel. Þótt það væri ekki annað en hversdagsfötin, og þótt þau væru bætt og slitin, þá voru þau hreinleg og sýndu vöxt hennar, án þess þó að þrengja nokkurs staðar of mikið að henni. Einkum þótti honum vænt um treyjurnar hennar fyrir það, hve vel þær sýndu brjóstin, sem voru þroskuð og fagurlega löguð og gjörn á að hefja sig við andardráttinn, einkum þegar hún kepptist við einhverja vinnu.

Hann fann það að vísu, að það var ósæmilegt að horfa allt of stöðugt á hana, þegar hún var inni hjá honum að vinnu sinni; en hann gat þó ekki að því gert að gefa henni hornauga við og við, og þó einkum þá, er hún sneri þannig við honum, að hann sá á hliðina og vangann á henni. Þannig hefði hann helst óskað sér að eiga mynd af henni.

Og þegar hann sá henni bregða fyrir á hlaðinu fyrir utan gluggana, þar sem hún meira sveif en gekk, þá leit hann upp frá því, sem hann var að fást við, hve guðrækilegt sem það var, og horfði á eftir henni, meðan hann gat séð til hennar.

Hann hafði glöggt auga fyrir kvenfegurð, og hann fann til nautnar við að virða fyrir sér þessa snotru sveitasúlku, sem honum fannst fullnægja flestum kröfum fagurfræðinnar og helst líkjast listaverkum þeim eða listaverkaeftirmyndunum, sem hann hafði svo oft glatt sig við að skoða og hugsa um.

Og honum fannst eins og birta í stofunni, þótt hún óvistleg væri, þegar Halla kom þar inn, eins og sólargeislar hefðu komið inn með henni. -

En þetta var allt saman aðeins skin milli skugga í lífi síra Halldórs á prestssetrinu. Honum leiddist þar ákaflega og honum fundust dagarnir svo kuldalegir og tilbreytingarlausir, að það var eins og þeir ætluðu aldrei að líða.

Hann fann sárt til þess, hvað allt var óhugnæmt í kringum hann, allt ömurlegt, þögult og leiðinlegt, bæði úti og inni.

Inni fannst honum líkjast því, að hann væri fangi í klefa, sem margar aldir hefðu erft hver eftir aðra og sem aðeins væri ætlaður ófrjálsum mönnum til aðseturs. Já, stofan var að mörgu leyti lakari en meðal-fangaklefar, og það eina, sem hún hafði fram yfir þá, var gott rúm og dyr, sem hann þó gat opnað þegar hann vildi, að minnsta kosti eins mikið og hurðin gekk, þangað til hún stóð föst í gólfinu.

Önnur hús bæjarins voru honum lítt kunn; hann sá aðeins inn í moldargöng, missigin, skökk og skæld, og oftast nær hálffull af móreyk úr eldhúsinu, sem lá þar einhvers staðar inni í bænum. - Hann fann aldrei til löngunar til að leggja í könnunarferð inn í það völundarhús, sem bærinn var í ímyndun hans.

Og úti var heldur ekki unandi til lengdar. Nú var farið að hausta og þokur og rigningar gengu dag eftir dag, með nístingskuldum, þótt ekki væru frost, eins og hafísinn væri fáar mílur í burtu.

Umhverfið var ekkert aðlaðandi. Hraunið á aðra hönd við bæinn var úfið og svipljótt, og þó það væri að mestu gróið upp og ætti sér margar fagrar og grasgefnar lautir og dældir, sem búendum þótti vænt um, en kindurnar kunnu þó best að meta, þá bar þó mest á brunahólunum og gjallhryggjunum, svörtum, brúnum eða dökkrauðum á litinn, eins og þeir væru úr ryðguðu járni. Og svo ásarnir uppi frá bænum, með leirflögum utan í hallanum, en breiðum, uppblásnum melum efst, og fjöllin á bak við þá: blásnir, kollóttir sandhólar, þar sem varla sást nokkur græn tó, ekkert nema sandskriður og aftur skriður, og þá ekki heldur því að heilsa, að þau hefðu fallega fjallalögun, með tignarsvip og hrikafegurð. Nei, þau voru kollótt og lágkúruleg, eins og þau fyriryrðu sig fyrir tilveru sína.

Skammt fyrir ofan túnið var heitur vatnshver, eða sjóðandi laug, sem var að vísu einstakur búbætir og allir prestar, sem þar höfðu verið, höfðu haft mestu mætur á, en síra Halldóri þótti ekkert skemmtilegur nágranni. Gráu gufustrókarnir upp úr honum prýddu lítið útsýnið, og stundum brá fyrir af honum brennisteinsfýlu alveg heim að bæ, þegar vindur stóð af þeirri átt.

Túnið var kargaþýft, með yfirgrónum hraunhólum hér og þar, og sums staðar stórum hraunklettum upp úr grassverðinum; en girðingarnar voru, eins og margt annað, í megnustu vanhirðu og lítið annað en aumkunarlegur vottur um bjálfaskap í búnaðinum.

Kirkjan var vindrifin timburkumbaldi, tjörguð utan, með fjórum hvítmáluðum gluggum á hlið og ofur litlu turntyppi á vesturburstinni. Kirkjugarðurinn var lélegur, með 2-3 minnismerkjum úr tré, mosavöxnum og grautfúnum, en engri annarri prýði, og trén, sem einu sinni höfðu verið umgerð um sáluhliðið, lágu flöt til hliðar við skarð það í girðingunni, sem þeim hafði verið ætlað að verja og prýða.

Þannig kom staðurinn hinum nýja húsbónda sínum fyrir sjónir. Honum hafði verið sagt, að jörðin væri afbragðskostajörð, og öllum prestum, sem þar höfðu verið, hefði græðst fé. Þetta gat nú vel verið satt. En hér var þó allt í niðurníðslu.

Það var sama hvert hann leit; hann fann hvergi neitt, sem honum þótti fagurt eða aðlaðandi.

Það fór hrollur um hann við þá hugsun, að þarna ætti hann að vera alla sína ævi, hvort sem honum félli það betur eða miður.

Og hann hugsaði til vesalings konunnar sinnar, þegar hún, sem var upp alin í Reykjavík og ekkert hafði séð annað en Reykjavík, ætti að fara að lifa lífi sínu á þessum ófagra og eyðilega stað.

Hann reyndi að friða huga sinn með því, að hér hefði hann mikið og göfugt skylduverk að vinna, að vera andlegur leiðtogi og huggari þessara lítið upplýstu útkjálkasálna, og láta líkamlega og andlega blessun af sér leiða.

En hann brosti að því sjálfur undireins á eftir.

Æðsta og sjálfsagðasta skylduverkið, sem á honum hvíldi, var þó það, að tryggja það, að sér og sínum liði sem best, meðan lífið entist.

Hann vissi vel, að um leið og hann lifði sjálfum sér til gagns, lifði hann mannfélaginu til gagns líka, og hann var ánægður með það. Þegar hann skoðaði og prófaði huga sinn fyrir sjálfum sér, fann hann í raun og veru enga löngun til að offra sér fyrir velferð annarra.

Og væri það ekki embættið, með þeim tekjum, sem því fylgdu, eða hann hefði vissu um eitthvert geðfelldara og álíka áreiðanlegt lífsstart, þá var hann ekki í augnabliks efa um, hvað hann ætti að gera. Hann var hvort sem er viss um, að á þessum stað mundi hann aldrei festa yndi.

Hann reyndi að hafa af sér leiðindin með því að sökkva sér niður í skriftir og lestur. En það var ekki nema stundar friður.

Þegar hann var háttaður á kvöldin, þegar niðamyrkur var úti og hann heyrði hvininn í storminum, þegar regnið dundi á rúðunum og vatnið spýttist inn með gluggaumgerðinni, en þungir dropar féllu með mismunandi millibili niður úr loftinu, svo að buldi í gólfinu, þegar hálfgert draugamyrkur var í allri stofunni og aðeins týrði á kertisskari, sem stóð á kistu við rúmið - þá komu þessar ömurlegu hugleiðingar aftur, komu til að kvelja hann og halda fyrir honum vöku, - gera honum lífið óbærilegt.

Hvers vegna var hann orðinn prestur? Hann hafði í raun og veru aldrei langað til að verða það, aldrei gert sér neinar glæsilegar vonir um það, - meira að segja, aldrei eiginlega trúað því, að hann mundi nokkurn tíma verða það, þó hann hefði verið að búa sig undir það nú um mörg ár, að hálfu leyti á móti vilja sínum.

Og nú var hann þó orðinn það samt og - búinn að fá brauð! - eitthvert leiðinlegasta útkjálkabrauðið á öllu landinu, og fluttur á það einsamall, - aleinn!

Var þetta í raun og veru annað en ljótur draumur? Var í raun og veru búið að svipta honum með slíku skyndi burt úr hópi glaðra æskuvina og kviksetja hann í þessu gleðisnauða prestsembætti, - hann, sem enn þá var ekki annað en unglingur, tæplega þrítugur?

En það var enginn draumur. Það var sorglegur veruleiki. Hann var orðinn prestur. Prófasturinn var búinn að setja hann inn í embættið. Og hann var sjálfur búinn að heilsa upp á söfnuðinn sinn af stólnum.

Já, ræðan. - Hann svitnaði við að hugsa til hennar.

Hann vissi um þá aðdáun, sem hún hafái vakið hjá söfnuðinum. En nú var honum orðið ljóst, að margfalt skárra var að pína sig til að tóna en að halda slíka ræðu. Þar sá fólkið, að hann var að vinna sér um megn, og hafði meðaumkun með honum.

En af stólnum hafði stóryrðunum rignt. Hvernig átti hann að fara að því að uppfylla öll þau feitu loforð, sem hann hafði látið til sín heyra? Var hann maður til þess? Gat hann látið þær fögru vonir rætast, sem hann hafði vakið í brjóstum safnaðarins?

Og ef hann gæti það nú ekki, - hvað þá?

Eða var hann fær um að halda slíkum ræðum áfram og halda öllum söfnuðinum föstum í þessu táli?

Eða var hann kannski fær um að lifa eftir öllu þessu, sem hann hafði sagt, og láta kenninguna í orði og verki fylgjast að?

Nei, nei. - Til þess þekkti hann sjálfan sig allt of vel!

Hann fann, að hann hafði tekið rösklega til flugsins og hafið sig hátt; nú lá fyrir honum að lækka - en hvað lengi?

Ef til vill þangað til hver einasta sál í söfnuðinum var búin að missa allt traust á honum og enginn fékkst til að sækja kirkjuna hans framar; eða þangað til orð hans máttu sín hvergi neins lengur og allir litu á hann sem algengan, hempuklæddan skjalara, sem ekkert væri að marka hvað segði; - eða þangað til vantraustið hefði klofið grundvöllinn milli hans og safnaðarins og úlfúð og ósamlyndi gerðu hverja tilraun til samvinnu árangurslausa?

Þessar og þvílíkar hugleiðingar settust að sálu hans eins og illfygli og gerðu honum framtíðarhorfurnar óbærilega svartar og vonlausar.

Þess vegna var sem hugur hans hrökklaðist aftur í tímann. Minningar frá liðnum dögum flykktust þá að honum; sumar brosandi og laðandi, sumar góðlega ásakandi, - en allar með einhverjum hálfóljósum, hálfþokukenndum blæ yfir sér, eins og vofur, sem stíga upp úr gröfum sínum.

En hvaða erindi áttu þær til hans nú? Hann hafði ekki gert boð eftir þeim. Honum var ami að þeim.

Til hvers var hann nú að minnast glaðra, bjartra stunda, þegar örlögin höfðu ýtt honum inn í skuggann og aldrei var von um, að birti framar? Til hvers var að minnast blárra blóma og bjartra rósa, þegar lífið rétti honum tómar feyskjur?

Nei, - minningarnar bættu aðeins á hugarstríð hans.

En þær komu samt.

Hann endurlifði í huganum sínar glöðustu og sælustu stundir, - endurlifði þær nú á miklu styttri tíma en þær höfðu tekið þá, því öllum óþörfum aukaatriðum var sleppt; allt færðist saman, eins og í sögu eða sjónleik.

Á þennan hátt rifjuðust upp fyrir honum stundirnar, sem hann hafði lifað með glöðum æskuvinum og skólabræðrum, - galsi, háværð, glaumur, samdrykkja og samvera í sorg og kæti, og jafnvel hin og önnur brek, sem annaðhvort höfðu haft óþægilegar afleiðingar eða þá að minnsta kosti gátu haft þær. Allt þetta var svo hjáleitt þeirri dauðakyrrð, því tilbreytingarleysi og lífleysi, sem nú umkringdi hann.

Hann minntist þess einnig, þegar hann var gestur efnaðra, menntaðra góðkunningja eða verndara, þar sem virðuleikablær húsbóndans og helgi heimilisfriðarins breiddu blæju sína yfir allt og gáfu öllu ilm og svip, um leið og þau steinþegjandi settu órjúfandi lög um það, hvað þar væri sæmilegt og hvað ekki. Hann minntist gólfábreiðanna mjúku, þar sem ekkert fótatak heyrðist, gljáskyggðra stofumuna úr völdum viði, blómanna, speglanna, skrautsins, og ekki síst hljóðfærisins, sem stóð þögult úti í horni og frúin ein dirfðist að snerta, þegar gestir voru nálægir, - þar sem gjafvaxta og hálfgjafvaxta dætur umgengust hann eins og bróður sinn, en aðgætin foreldraaugu hvíldu stöðugt á honum, síspyrjandi, sírannsakandi og sívegandi og metandi tengdasonarefnið, ef til kæmi.

Hann bar þetta saman við stofuna sína, eins og hún var nú. Skyldi þessu fólki vera mögulegt að trúa því, að hann gæti haldið lífi í öðru eins greni?

Hann minntist dansleikanna: fagurra kvenna í léttum viðhafnarbúningi; sumra í kjólum, sem flegnir voru niður á brjóst, og með bera handleggi, sumra í íslenskum búningi, með skautfald og bylgjandi slæðu, en sumra í nettum peysubúning - hvað innan um annað. En allar voru þær rjóðar í kinnum, heitar og móðar, en þó sífjörugar og óþreytandi, mjúkar í hreyfingum og svífandi léttar í dansinum.

Og svo - þegar danslagið svall um salinn, leikandi, þjótandi, æsandi - allt flaug af stað í lögleyfðum faðmlögum með handlegg yfir mitti og barm upp við barm - beran, barnslegan, róslitan kvenarm hvílandi á öxl honum. - Þegar heitur andardráttur af opnum, blóðrauðum vörum lék um hálsinn og hökuna, blandaður ilmi rósa og dýrra hörundssmyrsla, en íturvaxinn, léttklæddur líkami, iðandi af æsku og fjöri, fimur, laufléttur, sveif með honum eftir gólfinu. - Þegar jafnvel hin völdustu orð voru allt of grófgerð til samtals, þegar augun földu sig, en ofur viðkvæmar, næstum ósjálfráðar smáhreyfingar með hönd eða fæti - ef til vill aðeins einum fingri - var sú eina aðferð, sem trúað var til að bera boð og svar - saklausar símkveðjur - -! Allt þetta, sem rýkur í höfuðið á svo mörgum ungum mönnum.

Nei, hann mátti ekki hugsa til þess. Honum fannst það, sem áður hafði verið ein af sælustu nautnum hans, nú ætla að svipta sig vitinu.

Og svo minntist hann enn annarra unaðarstunda - ævintýranna sinna, atburða, sem enginn þekkti nema hann, og enginn mátti þekkja nema sá, sem hafði þar hlutverk á hendi; þar sem orðunum var ekki ofaukið, þótt lágt væri talað, og augun földu sig ekki.

Þau voru ekki mörg; en þeim mun kærri voru þau; hvert þeirra fyrir sig var ofur lítil, sjálfstæð saga, sem hafði byrjun - og endi - eins og aðrar sögur.

Og svo voru þessi ævintýri rík af sælum augnablikum, - sælum, brennandi sælum, og þó í svo mörgum og mismunandi myndum.

Nei, nei, hann mátti ekki heldur hugsa til þeirra. Nú var öllum ævintýrum lokið og hann orðinn prestur.

Og samt fannst honum þetta eins eðlilegt eins og lífið sjálft, eins nauðsynlegt eins og hreint loft og sólskin milli skugga og hreta. Hann hafði aldrei getað skilið, að það væri syndsamlegt, aldrei heldur síðan hann varð prestur; það var aðeins munaður eða nautn, saklaus leikur, og þó um leið auður, viðbót við safn hans kærustu minninga.

Hann vissi, að hann hafði afneitað því öllu, þegar hann tók prestsvígsluna; hann átti að berjast á móti því, nefna það freistingu, synd og svívirðingu og kenna djöflinum um það.

Honum fannst það bæði hlægilegt og sorglegt í einu!

Ó, þetta prestsembætti, - þetta þurra, strembna, gleðisnauða prestsembætti, sem var ekkert annað en menningarsteingervingur úr tvö þúsund ára gamalli heiðni! - hve innilega honum bauð við því!

En hann var öruggur. Forsjónin hafði séð vel fyrir honum, með því að flytja hann á þann stað, þar sem engin freisting varð á vegi hans, - langt, langt burtu frá hinum glaða, glepjandi höfuðstað, með öllu hans lokkandi táli, og þangað, sem innra og ytra ástandið passaði betur hvað fyrir annað, - umhverfið fyrir embættið.

Þetta ómilda, ömurlega landslag, sem hann hafði séð, hafði ekki margt að bjóða. Hér var allt hrjóstrugt, blásið og brunnið, alveg eins og eyðimörkin, afneitunarlandið, höfuðskeljastaðurinn, sem líf hans átti nú að liggja yfir.

Hér voru engin skrauthýsi, engir laðandi veitingastaðir, engir töfrandi danssalir, engir flegnir kjólar. - Og fólkið - ?

Hann renndi huganum yfir öll þau andlit, sem enn þá höfðu borið fyrir hann, og þar var ekkert, sem hann fann aðlaðandi; hann hafði séð því nær allan söfnuðinn saman kominn í kirkjunni og í kringum hana, og engin manneskja hafði að kalla mátti dregið að sér athygli hans, nema ein - Halla.

Honum fannst það undarlegt, hve oft svipur þessarar snotru þjónustustúlku gægðist fram í huga hans. Það hlaut að koma til af því, að hann umgekkst hana meira en aðrar manneskjur.

Hann reyndi að hrekja hana þaðan burtu; en hún kom jafnharðan aftur.

Honum fannst hún ekkert erindi eiga inn á meðal minninga sinna og fortíðardrauma; en hún var þó komin þangað án þess hann vissi nokkuð af.

Honum fannst það syndsamlegt af sér að vera að hugsa um hana; hvað kom hún honum eiginlega við? Hún var ekki annað en vinnukona gömlu prestsekkjunnar og hafði það verk á hendi að þjóna honum.

Honum fannst það enn fremur bera vott um veikleika hjá sér að geta ekki hrundið henni úr huga sínum, þegar hann vildi; eða þó að minnsta kosti skipað henni rúm, þar sem hún átti að vera. En það tókst ekki. -

En var það þá nokkuð syndsamlegt? Mátti hann þá ekki hugsa um hana líka við og við? Það var ekki af öðru en því, að hún hafði sérstaklega vakið eftirtekt hans, kannski mest eða aðeins vegna þess, hvar hann hafði séð hana; og honum þótti hún lagleg, já meira en það, falleg, þegar tillit var tekið til alls.

Hann bar hana í huganum saman við margar aðrar stúlkur, sem hann hafði séð og þekkt. Hún var ekki lík neinni þeirra, og þó bar engin þeirra af henni. Þessi látlausa æskuprýði, þessi fátæklegi en þó þokkalegi sveitabúningur, þessi óskeikulu, fimu handtök og allar hinar eðlilegu, óöguðu hreyfingar - allt þetta, sem klæddi Höllu svo vel; það hafði hann aldrei séð áður.

Hann gat ekki hugsað sér hana í flegnum kjól; varla einu sinni með skautafald; hann kunni best við hana eins og hann var farinn að venjast henni.

Hann bar hana meira að segja saman við konuna sína. En hvað þær voru ólíkar; hún hafði ætíð verið roðalaus í kinnunum, barnaleg og veikluleg, en ætíð vel búin, kát og ófeimin, þegar hann kynntist henni og fékk ást á henni. Hún hafði þá gengið honum á hönd með barnslegu trausti og lagt allt í sölurnar hans vegna, jafnvel hylli foreldra sinna; og hann fann, hve innilega hann var henni skuldbundinn, og hans dýrasta og hjartanlegasta heitstrenging, sem hann átti til í sálu sinni, var að bregðast aldrei trausti hennar.

En honum fannst hann ekki heldur gera það, þótt hann bæri hana, aðeins að ytra útliti, saman við þessa stúlku, sem var henni svo gagnólík.

Hann sá þær í huganum báðar í einu. Elín hans var enn þá fölari og veiklulegri en nokkurn tíma áður og leit á hann stórum, spyrjandi augum, sem kvíðinn gægðist fram í, ekki síður en vonin; en hún var með hringinn hans á hendinni og barnið hans á handleggnum. - Halla var sælleg, veðurbitin og hraustleg, orðfá og dul í skapi og - leit varla við honum. - -

Hann hafði henni ekkert að þakka, þekkti hana ekkert, hafði aldrei talað við hana, aldrei litið í augun á henni, - og hann vissi sig saklausan af að elska hana.

Og þó - þó fann hann alltaf betur og betur, að hún var hið eina, sem lýsti upp í kringum hann þar, sem hann nú var staddur.

Síra Halldór var ungur maður og lítt þroskaður og hafði enn þá ekki full tök á að hemja hugsanir sínar og ástríður. Hann var maður viðkvæmur og hjartagóður, en þreklítill og hviklyndur.

Honum varð því örðugt að fella sig við þá umbreytingu, sem svo snögglega varð á lífi hans og högum.

Hann hafði upprunalega haft tilhneigingu til alls annars en þess að verða kennimaður, þótt atvikin hefðu nú borið hann að þeirri stöðu; og þótt hann á endanum væri orðinn viðunanlega að sér í öllum þeim lærdómssetningum, sem að guðfræðiprófi lúta, hafði hann þó fráleitt gert sér grein fyrir þeim kröfum, sem prestsembættið hlaut að gera til hans.

Nú hafði hann tekið allan þennan þunga á herðar sér og sá ekki fram á annað en hann hlyti að vanmegnast; og þegar þar við bættist óyndi og ýmsar örðugar kringumstæður, fannst honum líf sitt líkast biluðu skipi milli brotsjóa.

Hann hafði verið gleðimaður og glæsimenni og hafði mikla löngun til að vera það áfram. Skólabræður hans höfðu sagt við hann í ertni, að hann mundi fljótt „forpokast“, þegar hann væri orðinn sveitaprestur. Hann hafði hlegið að því þá; nú fannst honum það hafa verið bitur spádómur, sem væri að rætast. Hér þurfti enginn að halda á glaðværð hans og glæsimennsku; hér bjuggust menn aðeins við hinum alvarlega, siðavanda presti, sem væri strangur bæði við sjálfan sig og aðra. Honum fannst því, að hann væri að fylgja nokkrum hluta af sjálfum sér, ásamt glaðværð sinni, til grafarinnar.

Það leið lengra fram á haustið. Dagarnir styttust jafnt og þétt og urðu æ kaldari og skuggalegri, kvöldin urðu lengri og illviðrin tíðari.

En með öllu þessu jókst óyndi unga prestsins og hans eigin skuggalegu hugsanir urðu enn áleitnari við hann.

Hann gat minnst af deginum skrifað eða lesið úti við gluggann fyrir kulda eða myrkri, og eyddi þá mest tímanum, sem hann var á flakki, til að ganga um gólf í stofunni og reykja pípu sína eða vindil.

En það hjálpaði lítið. Óróin og óyndið var að verða honum samgróið og gat ekki við hann skilið.

Hans eigin ástríður, - þær ástríður, sem hann fann sér skyldast að halda í skefjum, kviknuðu eins og maurildi í myrkrinu og störðu á hann óttalegum augum.

Hann fann stundum hjá sér óstjórnlega löngun til að slíta af sér öll bönd, gefa þetta auma prestsembætti dauðanum og djöflinum og varpa sér aftur út í hringiðu sinna fyrri nautna, lifa áhyggjulaus, eins og fuglar himinsins, sem hvorki „sá né uppskera“, - lifa í fátækt, en frelsi og gleði, teyga munaðarins blessaða bikar, hvenær sem í hann næðist og hvað sem á eftir kæmi.

En hann vissi, að hann hafði ekki þrek til þess. Allt þetta ætlaði að gera hann sturlaðan.

Hann greip þá stundum höndunum fyrir eyrun eða augun, eins og hann vildi hindra sinn eiginn anda frá því að heyra og sjá, og æddi fram og aftur um gólfið án þess að vita, hvað hann gerði.

Þegar svo stóð á, var það sannarlega lausnarstund fyrir hann, ef hann heyrði drepið hægt á dyrnar og heyrði marrið í hurðinni á eftir. Halla kom þá inn til hans til að afljúka einhverjum erindum.

Það kom ævinlega sólskin með henni inn í stofuna - eða, réttara sagt, inn í huga hans. - -

Og á eftir dögunum komu langar, dimmar andvökunætur. Sömu hugsanirnar komu aftur; sama eirðarleysið píndi hann þar, og sömu ástríðurnar réðust á hann þar með endurnýjuðu afli. Sama rekaldi af ógagnsæjum hreggflókum dreif þá yfir hugarhimin hans: skuggar framtíðar og samtíðar og skinblettir fortíðarinnar.

Og þegar svefninn gerði miskunnarverk sitt á honum, ófust allar þessar mislitu myndir saman við drauma hans.

Loks heyrði hann sagt: „Góðan daginn!“ gegnum síðasta drauminn. Og þegar hann opnaði augun, sá hann dagsbirtuna um alla stofuna og Höllu, brosandi, ljómandi af æsku og óveikluðum lífsblóma, standa fyrir framan rúmið sitt með morgunkaffið sitt á bakka. -

Það kom ævinlega sólskin með henni inn i stofuna!“