Halla/3

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Halla höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

En einn vetur kom fyrir atburður á prestssetrinu, sem gerði þar mikla breytingu og hafði mikil áhrif á allt heimilisfólkið. Gamli presturinn, sem hafði þjónað þar í fjöldamörg ár, andaðist skömmu eftir nýárið.

Hann varð öllum harmdauður, bæði á heimilinu og í sveitinni. Hann hafði haft hvers manns hylli og haft flesta þá kosti til að bera, sem gera prest vel þokkaðan hjá söfnuði sínum. Þrátt fyrir langa sambúð við söfnuðinn var þó enginn þar, sem bar kala til hans.

Hann hafði aldrei verið eftirgangssamur með tekjurnar sínar, oft látið sér á sama standa, hvort hann fékk þær eða ekki, aldrei gert neina rellu út af landamerkjum kirkjunnar, rekanum hennar eða öðrum hlunnindum, og lofað öllu slíku að vera eins og það kom sér best. Hann bjó aðeins á prestssetrinu eins og meinleysis-bóndi, við heldur rýr efni, klakti upp börnum sínum, gerði þeim gott, sem að garði bar, og bar hluta af sveitarbyrðinni - eða réttara sagt, lét konuna sína gera þetta allt saman, nema prestsverkin.

Kennimaður hafði hann verið „svona eins og gerist“, og hinar og aðrar klausur úr ræðunum hans gengu eins og skrýtlur um sveitina, og gárungarnir höfðu einstakt yndi af því í sinn hóp að tóna eftir honum.

En svo hafði hann verið prófastur um nokkur ár, og öll sveitin var honum þakklát fyrir þann heiður, sem hann þannig hafði veitt henni. Því þótt ekki sé meira en það, þá þykir það þó vegsauki fyrir hverja sveit sem er, að prestssetrið þar sé prófastssetur, því þá standa nágrannaprestssetrin skör lægra. En hann var þó hættur að vera það fyrir nokkrum árum, og prófastsvirðingin flutt til næstu sveitar.

Nú var hann „lagstur á bakið“ fyrir fullt og allt. Andlátsfregn hans hafði snert allan söfnuðinn með viðkvæmni; það var þó gamall góðkunningi og gæðamaður, sem þarna var borinn til hinnar hinstu hvíldar. Syndir hans voru gleymdar og gæsku hans á lofti haldið, nafn hans var nefnt með lotningu og enginn dirfðist að tóna eftir honum né skopast að ræðunum hans. Fjöldi fólks fylgdi honum til grafar og stóð hljóður og höfði drepandi með dæmalausu þolgæði undir langri, langri lofræðu, sem prófasturinn hélt um kærleika hans og kristilegu og kennimannlegu dyggðir - og andaði létt, þegar hann loksins sagði amen. -

Ekkjan hélt búinu áfram, og nágrannaprestarnir messuðu við og við, svo allt gekk að því leyti sinn gamla gang, - og tilvera þjóðkirkjunnar á þessum hala veraldar gleymdist ekki alveg.

Vinnufólkið var allt vistráðið til næsta árs; þar á meðal þau Ólafur og Halla.


Íhlutun um veitingu brauða var á þeim árum ekki orðið hlutskipti safnaðanna. Hin hágöfuga kirkjustjórn, sem sat á rökstólum sínum suður í Reykjavík, áleit sig í sannleika einfæra um annað eins smáræði eins og það, að sjá fáeinum sauðmorauðum alþýðusálum í mögru útskagaprestakalli fyrir viðunanlegum hirði.

Menn voru heldur ekkert ólmir eftir þessum brauðbita, svo það var ekki úr mörgum að velja; fram yfir fardaga hafði alls enginn gefið sig fram. Þá var umsóknarfresturinn lengdur, en það kom fyrir ekki. Og ef til vill hefir þessi tregða prestanna á því að sækja verið aðalorsökin til þess, að nýbökuðum guðfræðingi frá prestaskólanum í Reykjavík var veitt brauðið.

Síra Halldór - sem nú átti að verða - var sonur góðkunnugs embættismanns til sveita, en hafði nú alið aldur sinn í Reykjavík um mörg ár, öll sín skólaár því nær óslitin, svo hann var orðinn sannur fóstursonur höfuðstaðarins; enda hafði kaupstaðarlífið óefað meira mótað líf hans og hugsunarhátt en sveitalífið.

Hann var myndarmaður ásýndum, og það var flestra kunnugra manna álit, að þótt skólavist hans væri nú orðin óþarflega löng, fyrst í lærðaskólanum og síðan í prestaskólanum, þá væri það ekki gáfnaskorti að kenna; enda er það engin nýjung í Reykjavík, og hefir aldrei verið, að glaðsinna unglingum sækist seint námið, svo ekki er vant að taka til þess. Þar við bættist, að menn vissu um ýmislegt, sem á daga hans hafði drifið og eðlilega hafði truflandi áhrif á lesturinn, þar á meðal óvanalega langætt ástarævintýr, sem hafði þann sjaldgæfa enda, að Halldór prestsefni staðfesti ráð sitt með hylli og samþykki vina og vandamanna beggja aðila, meðan enn þá var að minnsta kosti ár eftir af prestaskólavistinni.

En um þetta var auðvitað ekkert að segja; og hafi einhverjar frekari ástæður flýtt hjónabandinu en hin algenga þrá elskendanna til að vera saman og njótast og fá ást sína vígða og innsiglaða af kirkju og háyfirvöldum, - þá voru það þær ástæður, sem fáum komu við og ekki þótti sæmandi að spyrja um, allra síst upphátt.

Konan var barnung kaupmannsdóttir, að vísu ekki af efnuðu fólki komin, en þó viðunanlega á vegi stöddu og virðingarverðu í alla staði. Hún hélt að mestu leyti áfram að vera undir vernd og umsjá foreldra sinna, þrátt fyrir giftinguna; enda voru efni ungu hjónanna til búskapar auðvitað af skornum skammti, og aukaatvinna prestaskólanemenda þess eðlis, að litlar voru líkur til, að hún gæfi mikið af sér. Þar að auki átti Halldór erfitt með það, að minnsta kosti fyrst í stað, að una helgu og hófsömu hjúskaparlífi, einkum þar sem margt gamalkært og gamalkunnugt glapti og freistaði til nautnar.

Það var því mikil og óvænt heppni fyrir hann, og til mikillar gleði fyrir þá, sem báru hag hans fyrir brjósti, að hann þegar eftir prófið fékk prestakall, þótt rýrt væri og langt norður í landi. - - -

Þótt hjúskaparlíf Halldórs prestsefnis hefði ekki staðið lengi, var það langt frá því skuggalaust. Elín hans var að vísu góð og blíð kona, og hann var ekki í efa um, að henni þætti vænt um sig. En hún var kjarklítil og ósjálfstæð, og eins og öllum atvikum hagaði nú, var hún enn þá ekki annað en hlýðin dóttir foreldra sinna - enn þá barnslega auðmjúkari nú, vegna undangenginnar óhlýðni og óvarfærni í ástamálum sínum, sem ekki hafði verið gleymt að áminna fyrir. Þeirra vilji var hennar vilji og þeirra ráð hennar ráð. Þetta kom sér því verr, sem þeim Halldóri og tengdaforeldrum hans kom saman um fátt, og leyndi sér það ekki við mörg tækifæri, að þau voru ekki sem ánægðust með tengdasoninn, þótt við hann yrði nú að una, og ef til vill hafa þau ætlað dóttur sinni gjaforð úr sinni eigin stétt.

Þeim fannst því heyra til, að þau litu eftir öllu um hagi dóttur sinnar, meðan þau næðu til; og Elín hafði þá ekki meira traust á dugnaði og hagsýni manns síns en svo, að hún lét sér þetta einkar vel líka.

Halldóri fannst þetta líkara því, að hann væri giftur tengdaforeldrum sínum en dóttur þeirra, einkum þó tengdamóður sinni, geðríkri og fasmikilli kaupmannskonu af litlum ættum, sem mikið fannst til um núverandi frúarstöðu sína.

Þetta þyngdi því fremur skap hans, sem þessi göfuglynda tengdamóðir sparaði ekki að láta hann sjá það og finna við hvert tækifæri, hve innilega hún liti niður á hann og hve átakanlega dóttir sín þyrfti verndar sinnar við. Þennan hugsunarhátt reyndi hún líka af fremsta megni að innræta dóttur sinni, og tókst það vonum betur.

Þetta kældi til muna allan innileik milli ungu hjónanna; og þótt Halldór raunar vonaði, að konan sín mundi breytast og fá meira traust á sér, þegar hún væri komin undan beinum áhrifum móður sinnar, þá var honum það þó stöðugt kvíðaefni, að hún mundi líkjast móður sinni meira en hann óskaði, er hún eltist og harðnaði í skapi. -

Halldóri var veitt prestakallið frá síðastliðnum fardögum að telja, en hann gat ekki fengið prestsvígslu fyrr en seint í ágústmánuði.

Prestsvígslan var hátíðleg og áhrifamikil stund fyrir hann, því foreldrar hans komu til höfuðstaðarins og voru viðstödd, og tengdaforeldrar hans tóku athöfninni með miklum fögnuði á sína vísu, því þennan daginn var sem þeim fyndist hann þó vera „einn af ættinni“, þótt þeim sjaldan skildist það endranær.

En glöðust af öllum var þó Elín hans litla, sem alveg gleymdi að gefa gaum að aðvarandi augnatilliti móður sinnar, en hljóp klökk af fögnuði upp um hálsinn á manninum sínum, sem nú var orðinn prestur!

Þótt á væri liðið sumarið, varð síra Halldór þegar að fara til embættis síns. En þá er til þess kom að afráða, hvort konan skyldi þá þegar fara með honum, aftóku foreldrar hennar það með öllu.

Samgöngur á sjó og landi voru þá ekki komnar í það horf, sem við, sem nú lifum, höfum átt að venjast nú um nokkur ár. Og þótt okkur finnist enn mörgu ábótavant í því efni, þá ber þó ekki að gleyma því, að það hefir verið verra.

Það var líka gild hindrun fyrir hina ungu prestskonu, að barn þeirra var enn þá ekki ársgamalt, og varhugavert að leggja með það í langferð.

Það varð því að ráði, að Elín yrði eftir hjá foreldrum sínum um veturinn, og að maður hennar sækti hana sumarið eftir og veldi til þess besta tíma ársins til allra ferðalaga, fyrri part sumarsins.

Halldór var borinn atkvæðum um þetta mál, eins og oftar. Hann óttaðist, að þessi langi fjarvistartími sinn yrði notaður bæði til þess að láta Elínu gjalda sín á ýmsan hátt, og þó enn þá fremur til að gera hana sem fráhverfasta sér. Hvort tveggja féll honum þungt. Elín leit aftur á móti svo á, að þannig hlyti þessu máli að vera best til lykta ráðið, úr því það væri samhuga vilji foreldra sinna, og samþykkti vilja þeirra að vanda. En sárt féll henni skilnaðurinn, þegar hún kvaddi mann sinn, og átti ekki að sjá hann aftur í næstum heilt ár.

Svo lagði Halldór af stað landveg og varð pósti samferða, og hafði það eitt með sér af eigum sínum, sem hann síst af öllu mátti án vera.

Þegar hann síðast sá höfuðstaðinn hverfa, var sem strengur brysti í brjósti hans. Skilnaðurinn við Reykjavík, með öllu því, sem hún bjó yfir, gömlu og nýju, var honum þyngri en allt annað. Hann klökknaði, og hefði einhver yrt á hann þá, hefði hann ekki getað svarað.


Síra Halldór þekkti engan mann í prestakalli sínu og hafði því ekki til margra að snúa sér, þegar hann kom þangað. Hann heimsótti að vísu helstu bændur í sókninni, og þótt þeir tækju honum með allri alúð, þá tóku þeir honum þó sem alókunnugum manni.

Honum leist þó hvergi svo á bæi þeirra, að hann færi fram á að fá þar veturvist. Hann hafði því ekki annars úrkosta en koma sér fyrir á prestssetrinu, þar til hann tæki þar sjálfur við búi og staðarforráðum.

Honum var að vísu veitt brauðið frá síðustu fardögum að telja, en nú voru dagar komnir að hausti, menn búnir að afla sér heyja og annars bjargræðis og sá tími ársins fyrir hendi, þegar fæstir hyggja á flutninga af einni jörð á aðra.

Það kom því ekki til mála, að prestsekkjan gamla flytti burtu af prestssetrinu fyrr en í næstu fardögum, og samdist svo með þeim, síra Halldóri og henni, að hún skyldi gjalda honum leigur og landsskuld af jörðinni fyrir þetta yfirstandandi fardagaár, en svo skyldi hann kaupa af henni fæði, húsnæði og þjónustu og búa á prestssetrinu sem einhleypur maður.

Eftir að þessi atriði voru leidd til samkomulags, höfðu þau, síra Halldór og prestsekkjan, ekki næsta mikið saman að sælda.

Hún hafði verið rausnarkona allan sinn búskap og farið mikið orð af henni sem dugnaðar- og sómakonu og góðri húsmóður, en ætíð hafði hún verið orðfá og ómannblendin og þurrleg í framgöngu; líkaði mörgum það miður og kenndu um stíflyndi og stórmennsku. Nú var hún orðin öldruð kona, og með aldrinum hafði fálæti hennar heldur farið vaxandi en minnkandi, einkum við ókunnuga menn.

Hún umgekkst því hinn nýja prest mjög kuldalega og fálega.

Átti það og nokkurn þátt í fáleika hennar, að hún sá nú fram á, að það var óhjákvæmilegt, að hún yrði að flytja burt af prestssetrinu, en þar hafði hún lifað blómaár ævi sinnar með manni sínum og börnum, og hafði margs að minnast, svo hver einasti blettur þar var orðinn henni kær, og kveið hún fyrir að þurfa að slíta sig frá því öllu.

Og þótt ekkert vit væri í því að kenna unga prestinum um þetta eða láta hann gjalda þess, þá fannst henni þó þessar raunalegu hugsanir sínar vekjast meira upp, er hún sá hann, eins og þær væru að meira eða minna leyti við hann tengdar. Þess vegna sneiddi hún hjá honum.

Það var líka vandalítið, þar sem ekkjan hélt sig mest inni í herbergi sínu í öðrum enda baðstofunnar, en prestinum var fengin stofan til íbúðar, sem lá frammi í bænum og sneri gaflinum fram á hlaðið, og honum fært þangað allt, sem hann þurfti með og hægt var í té að láta.

Gömlu prestsekkjunni var þó annt um, að allt það, sem henni bar að gera fyrir prestinn, færi sem best og sómasamlegast úr hendi, og fyrir því valdi hún þá af vinnukonum sínum, sem hún treysti best og sem röskust var og handlögnust, til þess að vera þjónustustúlka prestsins og sjá honum fyrir öllum beina, og skyldi það ganga fyrir öllum öðrum störfum hennar.

Og fyrir þessu vali varð Halla.


Eins og nærri má geta, varð uppi fótur og fit í sveitinni, þegar það fréttist, að nýr prestur væri kominn.

Hann hafði enn þá komið á mjög fáa bæi, og fáir höfðu haft tækifæri til að sjá hann.

En þeim mun meiri varð forvitni manna og því meiri þorstinn eftir að sjá hann og heyra eitthvað af honum. Og svo var ekki talað um annað en hann í allri sveitinni um langan tíma.

Hann var ungur maður, fríður sýnum, - það var ekki lengi að berast út. En svo komu fleiri atriði til greina, og flestir girntust að vita eitthvað meira um sálusorgara sinn.

Var hann góður kennimaður? Skyldi hann tóna vel? Var hann efnaður eða fátækur? Var hann líklegur til að verða búsýslumaður og góður bóndi og húsbóndi? Var hann giftur? eða trúlofaður? - eða gat einhver í sveitinni átt von á tengdum? - því „útsprungin rós var þar ekki svo fá“. - Var hann gleðimaður og gestrisinn? Þótti honum gott í staupinu? o.s.frv.

Sín spurningin lá hverjum á hjarta. Svörin voru mörg og ósamhljóða, svo á þeim var lítið að græða. Tíminn svaraði þeim öllum smátt og smátt, hiklaust og ótvírætt; en tíminn er seinn til svars og lætur ekki vaða ofan í sig.

En skrafið hélt áfram um alla sveitina, og menn gerðu sér ferðir heim á prestssetrið í hinum ótrúlegustu erindum, til að reyna að verða einhvers vísari um prestinn.

Eldri bændur, sem eitthvað áttu undir sér, gerðu sig þá auðvitað heimakomna og gengu rakleitt inn í stofuna til hans, þótt lítið væri um erindi, til þess að heilsa upp á hann og spjalla við hann um stund.

En smábændur og vinnumenn urðu að láta sér nægja það af honum, sem þeir fengu að sjá inn um stofugluggana.

Áfjáðast var þó kvenfólkið, en jafnframt fengsælast. Það snuðraði upp hverja rifu og hvern þilbrest á stofunni - og þeir voru margir - til að geta lagt þar við augað og horft á prestinn án þess hann yrði þess var. Þótti þeim meira að segja til vinnandi að troða sér inn á milli þils og veggjar fyrir annað eins! - En heppnastar töldu þær sig þó, sem komu sér svo vel við Höllu, að þær fengu að koma inn í ganginn, sem lá bak við stofuna. Þar var raunar ekkert annað en stiginn upp á loftið uppi yfir stofunni, þar sem gamla prestskonan geymdi kaupstaðarvörur sínar og enginn gekk um, nema hún og Halla.

Á milli gangsins og stofunnar var einfalt þil úr fléttum og hefluðum rekavið, ekki plægt og nú orðið mjög gisið. Á þilinu var gluggi, eða réttara sagt ferstrent gat, svo birtu skyldi leggja úr stofunni fram á ganginn; auðvitað var ófært að gægjast í gegnum gatið, því þá sást andlitið innan úr stofunni. En rifurnar voru líka eins góðar; einkum þær sem mýsnar með frábærri elju höfðu víkkað út niður við gólfið.

Og vesalings presturinn vissi oftast lítið af því, þegar hann sat yfir bókum sínum og skriftum, að forvitin, ósýnileg augu hvíldu á honum úr hverri rifu, sem reyndu með fádæma græðgi að lesa út úr honum alls konar fróðleik um sjálfan hann og hagi hans og spá í svip hans um framtíð hans og forlög. - -

Þessi forvitni fólksins fékk þó ofurlitla svölun, þegar presturinn var „settur inn á brauðið“, sem kallað er.

Þá vissu menn, að messa mundi ekki bregðast, og þá gat heldur ekki hjá því farið, að menn fengju að sjá nýja prestinn og heyra til hans. Og því var ráð að nota tækifærið.

Þar að auki var von á prófastinum í embættisnafni, svo fleira en eitt bar til þess, að vert var að vera viðstaddur þessa merkisathöfn.

Síðan kirkjan var byggð, hafði það aldrei komið fyrir, að hún hefði ekki rúm fyrir þá, sem þangað sóttu; en í þetta skipti reyndist hún þó allt of lítil, og urðu þó margir að verða eftir heima hjá sér, sem fegnir vildu fara.

Guðsþjónustan var aumkunarleg. - Það er ætíð aumkunarlegt að vita menn vera neydda til að gera það, embættisskyldu sinnar vegna, sem þeir alls ekki geta, og sem þeir fráleitt létu sér koma til hugar að gera, ef ekki væri um lífsatvinnu þeirra að tefla.

Þetta var í fyrsta sinni, sem síra Halldór þurfti að annast öll prestsverk fyrir altarinu, frammi fyrir fjölda ókunnugs fólks. Hann vissi það vel, að hann var enginn raddmaður, og bar svo mikið skyn á sönglist, að hann gat því nærri, hvernig sér mundi farast þetta hákristilega hlutverk úr hendi. En hjá því varð nú ekki komist.

Honum hafði oft komið í hug að hætta við að verða prestur, meðal annars vegna þessa andlega „sóló“-söngs, sem hann hafði svo innilega óbeit á. En þó varð ekki af því. Nú varð hann að „dansa á glóðarskónum“!

Hann svitnaði af angist, þegar hann byrjaði, og það batnaði ekki, er hann heyrði rödd sína, skjálfandi og hikandi, hálfkafna í þessu loftþunga kirkjuskrifli, sem ekkert bergmál, engan grunnhljóm átti til honum til stuðnings. Honum hefði ekki komið það á óvart, þótt allur söfnuðurinn hefði farið að skellihlæja! En það var ekki líkt því. Allir sátu hljóðir og hátíðlegir. Það er oft furða, hve hláturmildi manna, sem þó er svo óstýrilátur eiginleiki, lætur temja sig í kirkjunum.

Það var sem honum heldur ykist hugur við að heyra tekið undir við sig. Það var þó til lakari söngur en hans sjálfs!

Orgel voru þá óþekkt í flestum sveitakirkjum, og „forsöngvarinn og fólkið“ önnuðust undirtektir við prestinn, eins og sönginn að öðru leyti, og mátti þar með sanni segja, að „hver syngi með sínu nefi“; enda voru menn því síður en óvanir, þó skortur væru á fegurð og samræmi. Sá var sjálfsagður forsöngvari, sem mesta hafði röddina og mest gat beljað, svo jafnan heyrðist til hans upp yfir aðra. Þótt hann sjaldan hefði lagið - eða þá enginn nema hann - það gerði minna til. Fegurðartilfinning safnaðarins þoldi meira en það!

En hvað um það. - Síra Halldór hélt áfram, stórhneykslislaust, í stöðugri baráttu við að springa ekki alveg á háu tónunum, og með besta vilja á að hafa hina sem minnst „falska“ og láta þá skjálfa sem minnst; þannig emjaði hann sig með mestu þrautum fram úr öllu því, sem handbókin fyrirskipaði, fyrst bæninni, svo pistlinum og síðast guðspjallinu. Að því búnu gafst honum nokkur hvíld og tóm til að þurrka af sér svitann, því prófasturinn átti að stíga í stólinn á undan honum.

Uppi í prédikunarstólnum byrjaði annar þátturinn í þessum vesæla kirkjuleik. Prófasturinn var að vísu orðlagður sæmdarmaður, fjárgæslumaður mikill og hirðusamur, bæði um sitt eigið og það, sem honum var á hendur falið, og naut hvers manns virðingar. En ræðumaður var hann enginn, og mundi sjaldan eða aldrei hafa borið það við að halda ræður, ef ekki hefði embættið neytt hann til þess.

Og þarna stóð hann nú, blessaður, með langa, skrifaða ræðu fyrir framan sig, um alls ekki neitt. Honum hafði engan veginn getað hugkvæmst neitt, sem ætti við þetta tækifæri öðrum fremur, og svo hafði hann rutt saman heilum ókjörum af prestslegu orðagjálfri og algengu biblíu-fimbulfambi, sem hann kunni utan að og orðið var margþvælt og slitið. - Ofan á þetta andleysi bættist, að honum gekk illa að lesa ræðuna, svo hann hjó og stamaði og reyndi að breiða yfir brestina með óskýrum, hálfvæmnum prédikunarmálrómi, sem hann hafði tamið sér allan sinn prestsskap, og sem söng allar setningar nákvæmlega með sama laginu, svo þær byrjuðu með hávaða, fóru smálækkandi og enduðu með hvísli, seimi, eða jafnvel hryglu, sem líktist því, að „hans velæruverðugheit“ væri að kveðja þennan synduga heim og berast á vængjum síns frjósama anda upp í föðurskaut Abrahams, til þess aldrei framar að miðla neinum jarðneskum söfnuði af ríkdómi sinnar djúpsæju kenningar.

Eftir að prófasturinn hafði barist baráttu sinni til enda, kom röðin aftur að síra Halldóri. Hann hafði góðan vilja á að láta þessa fyrstu ræðu sína, kveðju sína til safnaðarins, fara sér sæmilega úr hendi, og þótt hann raunar hefði ekki mikla trú á nytsemi þess, gerði hann einlæga bæn sína í hljóði um, að sér auðnaðist að vinna það upp á stólnum, sem hann hlyti að hafa tapað í áliti safnaðarins fyrir altarinu.

Hann lagði út af 12. versi í 4. kap. í bréfi Páls postula til Tímóteusar:

„Enginn fyrirlíti þig vegna æsku þinnar, en vertu trúaðra fyrirmynd í lærdómi, hegðun, elsku, trú og skírlífi.“

Honum fannst þessi texti best til þess fallinn að leggja út af honum við byrjun embættis síns. Honum fannst sem orð postulans væru beinlínis til sín töluð, heilræði, sem honum veitti ekki af, og honum fannst útlistun þeirra best eiga við skoðun sína á hinni helgu stöðu kennimannsins, sem engu minna væri fólgin í líferni en leiðbeiningum með orðum og ræðum, og vildi láta skýringu sína koma söfnuðinum í skilning um það, hvernig hann vildi kappkosta að vera og hverjar væru grundvallarreglur sínar.

Hann hafði skrifað upp alla ræðuna fyrirfram; en þegar hann fór að flytja hana, fannst honum hún hvergi nærri taka nægilega fram það, sem hann vildi segja, og vék svo meira og meira frá hinu skrifaða, þar til hann sleppti því alveg og talaði utan blaða.

Fyrst framan af var ræðan óstyrk og hvikul í rásinni, eins og barn, sem er að hætta að ganga meðfram. En svo jókst henni styrkur, er fram í sótti. Hann leyfði hugsununum að hlaupa fram í skyndibúningi sínum, án þess að skyggnast eftir smálýtum og búningsbótum, og lét tilfinningarnar tala. Málið rann eins og straumur af vörum hans, tildurlaust, gjálfurlaust og ókryddað af fornum biblíuspakmælum, með hrynjandi hljóðfalli og sívaxandi anda og áhrifum.

Að lokum var ræðan orðin himinhrópandi loforð, dýr eiðstafur um að reyna af ýtrasta megni að fylgja fyrirmælum postulans um að vera „trúaðra fyrirmynd í lærdómi, hegðun, elsku, trú og skírlífi“, sem endaði með brennandi bæn um náð og aðstoð í þessu göfuga áformi.

Hann hafði talað sig heitan og klökkan; aldrei áður hafði hann komist í slíkan guðmóð. -

Enginn, sem í kirkjunni var, hafði heyrt jafnsnjalla ræðu; enginn mundi aðra eins guðsþjónustugerð. Um alla kirkjuna höfðu menn setið hljóðir og alvarlegir, margir með klút fyrir augunum, en sumir höfðu grátið klútlaust, af því þeir gátu ekki slitið augun frá nýja prestinum.

Og í þetta skiptið var það ekki af gömlum vana eða fyrir siðasakir, að menn grétu. Ræðan hafði snortið tilfinningar margra manna, og það var eins og hver um sig sæi sjálfan sig vera að takast á hendur þessa þungu, heilögu ábyrgð með opnum augum fyrir vanmætti sínum og breyskleika.

Guðsþjónustan var að öðru leyti hvorki verri né betri en vant var. Menn höfðu alla sína ævi vanist lélegu tóni og lélegum söng, og lélegum ræðum í ofanálag, svo menn bjuggust aldrei við öðru, þegar þeir fóru til kirkju. Jafnvel fjöldi fólks var orðið svo spillt að smekk, að því þótti allt gott og blessað, sem fram fór í kirkjunni, hvernig sem það fór úr hendi.

Þessari guðsþjónustu hefði því eflaust verið skipað í röð með öðrum. En nú minntist enginn á tón eða söng; ræðan yfirljómaði það allt saman og gerði söfnuðinum þessa kirkjuathöfn ógleymanlega.

Nú höfðu menn fengið að sjá nýja prestinn og heyra til hans! Og þótt öllum spurningum viðvíkjandi honum væri enn ekki fullsvarað, var þó dómur hans þegar uppkveðinn, og söfnuðurinn prísaði forsjónina hástöfum fyrir að hafa sent sér annan eins prest!

En gömlu prestsekkjunni fannst fátt um alla þessa lofgjörð manna um nýja prestinn. Henni fannst þeir vera allt of fljótir að gleyma gamla prestinum sínum, manninum hennar, sem hafði þó verið svo góður prestur og góður maður og vægur í kröfum með tekjurnar. Hún skoðaði þetta mikla lof um nýja prestinn sem vanþakklæti við hann og minningu hans. Hún vissi líka sem gömul og reynd prestsekkja, að áhrif prestsins á söfnuð sinn eru ekki síður komin undir viðkynningu í langri sambúð en augnabliks-ræðuáhrifum. En hún hafði ekki orð á þessu við marga; síst af öllu vildi hún spilla fyrir nýja prestinum.

Prófasturinn, „velmetni“ og „velæruverðugi“, var heldur ekki orðmargur um ræðuna. Hann sagði, að góðar ræður væru góðar með öðru góðu, en - -. Hann sagði ekki meira. Þess þurfti ekki heldur, því allir vissu, hve mikla áherslu hann lagði á það, að skýrslurnar og staðarreikningarnir væru í góðu lagi.

Um messuna sat Halla á næsta bekk fyrir innan krókbekk. Hún var vön að vera ein á þeim bekk, en í þetta skipti hafði hún ekki frið til þess, því kirkjan troðfylltist, og meira en það.

Hún hafði stöðugt augun á prestinum, bæði meðan hann svitnaði svita ofraunarinnar fyrir altarinu og meðan orðin streymdu af vörum hans í stólnum. Ræðan hafði mikil áhrif á hana, eins og fleiri, og því meiri á hana, sem hún var mörgum öðrum móttækilegri fyrir þau.

Hún hafði oft undrast það, hve ræður þær, er hún heyrði í kirkjunni, voru bragðlausar og hver annarri líkar. Henni hafði tæpast getað skilist, að þær væru „guðsorð“. Henni fannst það sjálfsagt, að það, sem talað væri fyrir guðs munn, bæri eitthvað af því jarðneska, væri stórfelldara, háfleygara, göfugra, eða eitthvað því um líkt, eitthvað í ætt við þann anda, sem drottnaði í Passíusálmunum eða Jónspostillu. Það tvennt var hið besta af því tagi, sem hún þekkti.

En hún hafði sjaldan getað til þess fundið. Ekkert af því, sem hún hafði heyrt flutt frá þessum prédikunarstóli, hafði náð að gagntaka hana. Hún hafði aldrei getað grátið undir því; ekki einu sinni viknað. Hún gat stundum varla eirt undir því til enda. Og þó voru það einmitt þessi sjaldgæfu, hátíðlegu áhrif, sem hún þráði, og þráði brennandi heitt.

Slík þrá hinnar óspilltu, viðkvæmu mannssálar er það, sem kirkjan og leikhúsin, skáldin og listamennirnir keppast um að svala og lifa af.

Nú heyrði hún í fyrsta sinni ræðu, sem snerti tilfinningar hennar, ræðu, sem gagntók hana, því meira, sem á hana leið. Tárin komu fram í augu hennar; en hún gat samt ekki litið þeim af prestinum, þótt hún sæi hann stundum ekki nema í móðu, gegnum tárin.

Hún hafði séð hann oftar en nokkur manneskja önnur þar og reynt að lesa í útliti hans, hvað í honum byggi; samt hafði hún ekki séð neitt af því, sem hún nú sá og heyrði - nú, þótt endilöng framkirkjan væri á milli þeirra.

Henni fannst hann vaxa við hverja setningu, sem hann sagði, vaxa að persónulegu gildi og prestslegum skörungsskap. Svipur hins unga, fríða og hraustlega karlmanns, sem með einurð og auðmýkt játaði breyskleika sinn og ófullkomleika til hinnar þungu, vandasömu kennimannsstöðu sinnar og leitaði guðlegrar aðstoðar með eldheitri bæn, brenndi sig dýpra og dýpra inn í meðvitund hennar. Slíkur maður var í hennar augum sjálfkjörinn til að bera hinn mikla boðskap!

Hún bar sjálfa sig saman við hann og fyrirvarð sig. Henni fannst hún óverðug að þjóna slíkum manni, - og þó langaði hana fremur til þess nú en nokkurn tíma áður. Og hún ásakaði sjálfa sig; henni fannst hún hafa gert sig seka í ótrúmennsku, þegar hún var að lofa kunningjastúlkum sínum að skríða inn með stiganum og horfa á hann í gegnum glufurnar. Hún hét að gera það aldrei framar!

Hann var orðinn dýrlingur í augum hennar. - -

En ungi presturinn sjálfur var fölur og óstyrkur eftir messuna, sem væri hann nývaknaður af drykkjudúr. Hann hafði ofreynt sig fyrir altarinu og - talað yfir sig í stólnum.