Fara í innihald

Halla/2

Úr Wikiheimild
Halla
Höfundur: Jón Trausti
2. kafli

Það var því engin furða, þótt Ólafi sauðamanni litist vel á Höllu. Hann væri sjúkur af ást til hennar, og honum varð að því leyti fleiri góðra manna dæmi.

Hitt var meiri furða, og í því skildi enginn, að hann skyldi geta látið sér detta önnur eins flónska í hug eins og sú, að hann nokkurn tíma gæti látið Höllu lítast vel á sig.

En þetta datt nú Ólafi samt í hug, og hann var meira að segja furðuvongóður. Vonin var nú orðin nokkurra ára gömul, en það voru þó enn engin ellimörk á henni. Hún hafði fremur styrkst en veikst með aldrinum. Og þessi von var Ólafi bæði til gagns og yndis.

Ólafur var ekki í næsta miklu áliti í sveitinni. Hann þótti verkmaður minni en í meðallagi til flestra algengra verka, lingerður, seinn í snúningum og seinráður og langt frá því að vera laus við sérhlífni.

Hann fékk margsinnis að heyra því fleygt sér í nasir, að hann væri ekki kvensterkur; og ekki nóg með það. Hinar og aðrar gáskafullar vinnukonur létu hann beinlínis sanna það sjálfan á tilfinnanlega niðrandi hátt, ekki einungis með því að taka takið, sem hann gekk frá, heldur blátt áfram með því að espa hann í votta viðurvist, gera hann bálvondan, takast svo á við hann í fúlli alvöru og skella honum. Þetta var gamall leikur alls staðar, þar sem Ólafur var, og enginn meðalkvenmaður hikaði við að fást við hann, að því er krafta snerti.

Það kom fyrir, að Halla tók þátt í þessum leik, viðstöddum til mikillar skemmtunar. Hún vissi, að ekkert var í hættunni. Ólafur var bráðlyndur, en ekki langrækinn, allra síst við hana.

Ólafur hafði því ekki meira en meðalkaup, þar sem hann var í vistum, og það var ekki nema um há-bjargræðistímann, sem honum var ætluð vinna með öðrum hjúum, því annars var honum alls staðar ætlað sérstakt verk, sem sé að gæta sauða.

En það verk var honum vel lagið. Hann var sem skapaður fyrir sauðagæslu, einkum úti við, og í sveitum, þar sem beitt er á haglendi því nær allan veturinn og jarðbönn eru sjaldgæf, er það vel metinn kostur.

Ólafur var hverjum manni fjárgleggri, þekkti hverja skepnu af svip og lit og gaf þeim öllum nöfn. Hann mundi og utan að hvert mark í sveitinni og vissi um kyn hverrar skepnu, sem hann hafði undir höndum, þótt hann hefði oft 3-4 hundruð fjár að gæta. Af þessu leiddi, að hann kynntist einnig skapferli og þoli hverrar kindar og umgekkst féð með stakri nærgætni, sigaði ekki ógætilega á það hundum, en vandi það á að hlýða sér, er hann hóaði eða lét hundinn gjamma, og lét það jafnan síga hægt í hagann og úr honum aftur.

Það var því ekki allra meðfæri að taka við fjárgeymslu, þar sem Ólafur hafði verið árið áður.

Þessi fjárgæsla átti einkar vel við skapferli Ólafs. Þarna var hann sjálfráður og gat farið í hægðum sínum eins og hann vildi. Þarna var hann engu húsbóndaeftirliti háður; frá því hann var tekinn við fjárgeymslunni á haustin og þar til hann skilaði henni af sér um fráfærur á vorin, var hann einvaldur yfir henni.

Hann spurði aldrei húsbóndann ráða, og flestum þeim húsbændum, sem hann var hjá, lærðist það líka fljótt, að skipta sér sem minnst af því, sem honum annars var falið. Fénu leið vel, og það var aðalatriðið.

Ólafi leið líka vel, og aldrei betur en þegar hann var einn hjá kindunum. Honum leiddist ekki; honum stóð nokkurn veginn á sama um hvernig veðrið var, því þótt hann hefði ekki miklum manni að má, var hann samt fyrir löngu orðinn þaulvanur vosi og veðrabrigðum og þoldi manna best útistöður.

Hann kom sjaldan heim, og oft og einatt aldrei allan daginn frá morgni til kvölds, og þegar hann kom heim, stóð hann stutt við í einu.

Komið gat það fyrir, að húsbændur hans hreyfðu því, hvort brýn þörf mundi vera á því að vera yfir fénu allan daginn, þegar vel viðraði, og kváðust sárþurfa á mannsliði að halda, þótt ekki væri nema stund úr deginum.

En Ólafur eyddi því með hægð. Hann sagði, að fénu veitti ekki af manninum með sér, ef vel ætti að fara, og þuldi upp langa skrá yfir hættur, sem væru á vegi þess, svo sem uppætur, keldur, pytti, ár og læki, hengjur og ótrygga ísa, og ekki að gleyma bannsettri tófunni eða hundunum af hinum bæjunum, svo þeim blöskraði og leist best á að láta hann ráða.

Aftur kom það ósjaldan fyrir, að Ólafur sá sér fært að bregða sér frá fénu heim á aðra bæi og slóra þar góða stund eftir bita eða sopa, og eins var það ekki svo fjarri að vera heima kafla úr sunnudögunum, því þá var helgi og þá komu stundum gestir með vasaglas, einkum nú, síðan hann varð fjármaður á prestssetrinu.

En hvað um það. Ólafur stundaði fjármennskuna af allri prýði; um það bar öllum húsbændum hans saman.

Hann fann líka vel, að einmitt í þessu voru yfirburðir hans fólgnir, og réð sig ævinlega með því skilyrði, að hafa fjárgeymsluna á hendi. Hann fann til þess með talsverðri velþóknun, að hann hafði þýðingarmikla sérstöðu á heimilinu, þar sem honum var fyrir miklu trúað og þar sem hann deildi ekki við neinn.

Hann sá það vel, að margir litu á hann smáum augum og drógu dár að honum; þess vegna var best að vera sem minnst á vegi þeirra. En í fjármennskunni gat hann boðið hverjum manni út, þótt hann væri ekki „kvensterkur“ og þótt gárungarnir hefðu gaman af að erta hann og reita hann til reiði. Hann gat betur verið án þeirra en þeir án hans.

Þannig varð Ólafur smátt og smátt einrænn og sérlundaður.

Hann var í ágætu skapi, þegar hann stóð hjá fénu, og talaði þá oft upphátt við sjálfan sig eða taldi saman og reiknaði fyrir munni sér. Hversdagshugsanir hans, sem hann þá hafði sér til stundastyttingar, voru ekki margbrotnar eða víðtækar, en þær höfðu þó furðanlegt lag á því að skipta um búninga því nær daglega og koma aftur og aftur með einhverri ofur lítilli gervisbreytingu.

Kindurnar voru lengsta og erfiðasta viðfangsefnið þeirra; stundum einnig framtíðarvonirnar og framtíðarhorfurnar, og nú á síðustu árum Halla.

Já, Halla, - hún var honum mikið og erfitt umhugsunarefni, næstum eins mikið og erfitt eins og allar kindurnar til samans! En hún var líka gleðilegasta og kærasta umhugsunarefnið hans.

Ólafur duldi hugsanir sínar og tilfinningar vandlega fyrir þeim, sem hann umgekkst daglega. Reynslan hafði kennt honum að treysta varlega einlægni manna, og ekkert sárnaði honum meira en að heyra trúnaðarmál sín hent á lofti og höfð til ertinga og athlægis. Hann vissi vel, að þær hugsanir, sem glöddu hann í einrúmi, höfðu lítil skilyrði fyrir því að verða öðrum til yndis, og þá var best, að hann nyti þeirra einn. Hversu fátæklegar sem þær voru, þá voru þær þó börn hans eigin sálar.

Eigi að síður höfðu margir einhvern grun um það, að hann hugsaði æði mikið um Höllu, og gáfu honum það í skyn á ýmsan hátt, þótt gætilega færu, en leituðu jafnframt lags um að komast eftir meiru um hugarfar hans, með því að tala um hana við hann og gylla fyrir honum á ýmsar lundir, ef hægt væri að koma honum til að biðja hennar, því þá fyrst hefði þeim verið skemmt! En Ólafur sá við þessu. Honum þótti að vísu vænt um að heyra vel talað um Höllu, en hvað bónorðið snerti, gekk hann sínar eigin götur.

Ólafur var í raun og veru geðbesti maður, alltaf ánægður með lífið og sjálfan sig, og þótt hann sneiddi fremur hjá öðrum og firrtist fjölmenni, var það sjaldnast af fýlu eða kala, heldur miklu fremur til þess að forðast allt það, sem raskað gæti jafnvæginu í skapi hans.

Hann leitaði ekki á neinn að fyrra bragði og vildi líka vera laus við glettur og áleitni annarra. Hvers vegna mátti hann ekki vera í friði? Hvað kom það öðrum við, hvort hann var heimskur eða ekki „kvensterkur“ eða ekki, eða hvort hann hugsaði um Höllu eða einhverja aðra, o.s.frv. Þessi afskiptasemi annarra af því, sem honum einum kom við, gerði honum svo gramt í geði, að hann sveifst einskis til þess að reyna að venja menn af því, en hitti þó aldrei á það ráðið, sem líklega hefði best gefist, að taka ertninni með þolinmæði og jafnaðargeði.

En einmitt það, að sjá Ólaf umhverfast, verða bálöskuvondan, líkari mannýgum tudda en manni - það var æðsta unun þeirra, sem stríddu honum. Þess vegna var tíminn milli fráfærna og gangna sannur píslartími fyrir hann, og á engjunum gekk leikurinn oft svo úr hófi, að húsbændurnir neyddust til að láta til sín taka.

Ytra útlit Ólafs átti drjúgan þátt í þessu. Hann var flestum mönnum óásjálegri. Hann var fremur lítill vexti og samsvaraði sér illa. Búkurinn var of langur í hlutfalli við aðra líkamshluta, bakið bogið og lendarnar hoknar. Handleggirnir voru langir, en linir og vöðvalitlir; höfðu aldrei við mikið erfiði fengist og sýndust best til þess fallnir að slettast aðgerðarlausir fram og aftur með síðunum eða krossleggjast á bakinu. Skrefið var stutt, en fæturnir stórir og bognir inn á við, og þegar þeir voru klæddir í stóra og stagbætta hrossleðursskó og skinnleista, sem reyrðir voru að leggnum fyrir neðan hné, en brettu út börmunum fyrir ofan bindinginn, svo þeir stóðu í allar áttir og voru jafnan glerharðir og skrjáfuðu við - og þannig voru þeir oftast til fara - þá varð það varla sagt, að fótabúnaðurinn væri tiltakanlega fríður eða fimlegur.

Þó voru þeir ekki margir, sem treystu sér til að skopast að vaxtarsvip Ólafs og búningi hans, því betur að gáð hafði það allmörg þjóðerniseinkenni og útlit þeirra, sem mannborlegri voru og betur limaðir, hneigðist allt of mjög í sömu áttina. Hann var að þessu leyti steyptur í gamalkunnu móti, og væri skopast að honum fyrir þetta, var hætt við, að fleirum yrði kinnroði gerður. Ólafur hefði því sloppið mun betur hjá hæðni manna, hefði andlitssvipurinn verið fríður og nær um að bæta nokkuð upp vaxtarlýtin.

En þessu var ekki þann veg farið. Ólafur var fremur ófríður ásýndum. Nefið var breitt og nokkuð flatt, munnurinn víður og hakan fremur lítil, ennið lágt og breitt og andlitið allt sviplítið. Hörundið var brúnt og veðurbitið og Ólafur var sjaldan hreinn í framan. Hár og skegg prýddu heldur ekki mikið; hárið var ljóst, en oftast ógreitt, og skeggið ekki annað en hýjungur.

Andlitið hefði þó samt sem áður ekki verið svo næsta óviðfelldið, hefði það ekki haft lýti, sem enn eru ótalin, en flestir tóku fyrr eftir en andlitsfallinu að öðru leyti, en það voru augun, eða réttara sagt augnaumgerðin, einkum augnalokin. Þau voru allt of stór og héngu eins og pokar, lin og læpuleg, niður á augun og skýldu þeim meira en til hálfs, svo ekki sá til augnanna sjálfra, nema í ofurlítilli rifu. Það var engu líkara en að Ólafur væri sísyfjaður, og upplitið var jafnan ódjarflegt og kindarlegt. Þetta var því meiri skaði fyrir hann, sem augun höfðu margt að geyma og mundu hafa dregið að sér eftirtekt margra, hefði nokkurn tíma séð í þau. Þetta gaf tilefni til ýmsra hrópyrða og uppnefna, sem Ólafi sárnaði. En ekkert af þeim festist þó við hann, því allir sáu, að honum voru þessi lýti ósjálfráð. Hann hélt því áfram að heita Ólafur sauðamaður eða Sauða-Láfi, og það tók hann sér aldrei nærri.

Sjálfur hafði hann mikla raun af þessum síðu augnalokum og gerði sér mikið far um að venja þau af því að hanga þannig niður á augun. En árangurinn varð aðeins sá, að brýnnar brettust upp og augnaumgerðin varð enn fáránlegri við áreynsluna. Og þegar Ólafur rölti kringum kindur sínar, álútur, með hendurnar á bakinu og tautaði fyrir munni sér, þá varð honum það sjaldan á að líta annað en niður á tærnar á sér, og þá höfðu augnalokin nægan frið til að liggja eins og þeim líkaði.

En að bregða Ólafi um það, að hann væri sísyfjaður í raun og veru, náði engri átt. Það hefði legið nær að segja, að hann væri aldrei syfjaður, enginn maður var árrisulli og svefnléttari; það var líkast því, sem ljósgráu augun með svarta dílnum í miðjunni, sem skotruðu undan síðu augnalokunum, væru raunar sívakandi og þyrftu ótrúlega lítið að sofa.

Ólafur var lítið meira en þrítugur að aldri, en leit þó út fyrir að vera nokkuð eldri. Margvísleg veður höfðu alla hans ævi haft næg tækifæri til að leika um andlit hans, og stormurinn og hríðin höfðu oft engum blíðutökum beitt. Það var ekki sjaldgæft á veturna að sjá hann koma heim með grímu af samanbörðum snjó og klaka fyrir því nær öllu andlitinu, sem skegghýjungurinn og hárið var frosið saman við, svo aðeins voru holur fyrir vitunum. En Ólafur brá sér hvergi við það. Það lá aldrei betur á honum en á meðan hann var að þíða og reyta af sér klakakleprana, án þess að slíta allt of mörg hár með, því þeir báru honum vitni um, að hann hefði staðið sig á við hina þann daginn.

Og næsta morgun á eftir, meðan allir steinsváfu og hrutu í baðstofunni, meðan kolsvarta myrkur var úti og inni og skeflt í öllum gluggum, þá klæddi Ólafur sig hljóðlega og fálmaði sig fram og út - út í hríðina, frostið og fannirnar, til að vitja kinda sinna.

Þau Ólafur og Halla höfðu verið nágrannar um nokkur ár og þannig haft tækifæri til að sjást og kynnast hvort öðru. Hann hafði einnig verið alltíður gestur á bænum, þar sem hún var seinast, án þess nokkur vissi aðra orsök til þess en þá, að honum yrði tíðreikað frá fénu, og til þess tók enginn. Engum hafði þá komið til hugar, að Ólafur „gengi á biðilsbýfum“, nema ef til vill Höllu.

En þegar hér var komið sögunni, voru þau samtíða á prestssetrinu. Hún var þar vinnukona, og hann sauðamaður að vanda.

Hann hafði komist að því eitt vor, að hún var vistráðin þangað. Hann var þá enn ekki búinn að ráða sig til næsta árs; þess þótti sjaldan við þurfa fyrr en í síðustu lög, þegar húsbændur og hjú þóttust hvort í sínu lagi viss um, að engar breytingar væru í vændum. Ólafur notaði sér þessar haganlegu kringumstæður til að koma sér í vist hjá prestinum, sem tók því tveim höndum að fá annan eins fjármann. En gamla húsbóndanum kom þessi ráðabreytni nokkuð á óvart, þegar hann komst að henni nokkru fyrir krossmessuna.

Ólafur hélt, eins og fleiri, að saman mundi draga með sér og Höllu við daglega viðkynningu og samvist á heimilinu. Það var nú heldur ekki ólíklegt. En tvö ár voru þau nú samt búin að vera þarna saman, án þess sýnilegt væri að þau væru nokkra vitund nær því að verða hjón en þegar þau byrjuðu.

Ólafur hugsaði löngum um Höllu sína, þegar hann stóð yfir fénu uppi í högunum. Hann útmálaði fyrir sér með mörgum og ljósum litum þá hamingju, sem hann yrði aðnjótandi, ef hann fengi hennar. Hann vissi um marga af kostum hennar, þótt hann hefði ekki auga fyrir þeim öllum. Hann vissi, að hún var greind og glaðlynd og að hún kunni margt skemmtilegt og var fróð um margt. En einn var þó sá kostur hennar öðrum fremur, sem hann gat ekki hrundið úr huga sér, og hann var sá, hvílíkt búkonuefni hún væri.

Hann sá, eins og fleiri, að Halla hlífði sér ekki og var sívinnandi, að hún var hraustbyggð og hafði næstum karlmannskrafta, þótt hún væri smá vexti. Hann sá líka, að hún hafði lag á að ganga þriflega til fara, var sparsöm og nýtin og gerði sér furðanlega mikið úr litlu, og það þótti honum vænt um, því hann var sjálfur hneigður til sparnaðar.

Hann hafði að vísu ekki ljósa hugmynd um sínar eigin kröfur til kvenlegrar fegurðar, en hann heyrði öllum bera saman um það, að Halla væri lagleg stúlka. Og hann trúði því, að svo væri, án þess að gera sér frekari grein fyrir því. Hann hafði heldur engin lýti á henni séð; enda mundi honum síðast af öllum hafa komið til hugar að bera á móti, að hún væri fríð stúlka. Að öllu þessu athuguðu komst hann að sömu niðurstöðu og fleiri, að Halla væri ákjósanlegasta konuefni.

En jafnframt duldist Ólafi það ekki, að hann var ekki sá einasti, sem felldi hug til Höllu, og ekki heldur hitt, að hann stóð flestum eða öllum keppinautum sínum að baki í öllu því, er gengur í augun á ungum stúlkum. Hann var ekki fríður; hann þufti ekki annað en að líta ofan í lygnan leirpoll til að sjá það; og hann var ekki heldur sterkur, fimur eða mannborlegur á við hina, lítið reyndur að öðru en fjármennsku og ógjarn á að halda sér til eða láta bera mikið á sér í fjölmenni, og orðfár og sérlundaður, svo margir misskildu hann.

Hann treysti þó Höllu til að gera það ekki. En honum sárnaði þó enn þá meira, þegar honum var strítt að henni viðstaddri, og þó mest af öllu, þegar hún gerði það sjálf. En svo leit hún svo hýrt, svo innilega hýrt til hans skömmu á eftir, að honum var öllum lokið. Hann var þá ekki í neinum efa um það framar, að ertnin hennar var ekki af öðru en græskulausum gáska.

Eina ráðið, sem Ólafur fann til þess að komast fram úr keppinautum sínum og vinna hylli Höllu fremur en þeir, var það, að safna peningum. Hann vissi vel, að það gerðu fæstir hinna yngri manna, og því fór oft illa fyrir þeim þegar á hinum fyrstu búskaparárunum. Og Halla væri þá ekki eins skynsöm stúlka eins og bæði hann og fleiri höfðu ætlað, ef hún kynni ekki að meta fyrirhyggjuna.

Hann gerði sér því allt far um að komast yfir peninga og geyma þá. Hann heimtaði kaup sitt í peningum, að svo miklu leyti, sem unnt var að fá það þannig vegna nauðsynlegra fata og kindafóðra, og tók peninga í kaupstaðnum út á allt það, sem hann lagði inn. Hann seldi allt fyrir peninga, sem hann gat við sig losað, og safnaði öllu saman í kistuhandraðann sinn.

Þar lágu langar raðir af ríkisdölum og spesíum, einkum spesíum - því þetta var á efstu árum spesíumyntarinnar -. Þær risu þar á rönd og hölluðust hver að annarri, hlemmstórar og spegilfagrar, daglega taldar og daglega séðar með ást og ánægju, og daglega hagrætt í handraðanum, eins og brothættum eggjum.

Og það voru Ólafs kærustu og vonglöðustu stundir, þegar hann gat kallað á Höllu, svo lítið bæri á, fram í bæjardyraloft, þar sem kistan hans stóð, og sýnt henni ofan í handraðann. Ánægjan skein út úr honum, þegar hann heyrði hana dást að því, hvað hann væri sparsamur og iðinn að safna - og svo tillitið, sem hún sendi honum um leið! Nei, hann var ekki í efa um, að þessi aðferð var sú eina hyggilega, og svo hélt hann áfram.

En það komst þó aldrei svo langt, að hann bæði Höllu. Honum bjó það stöðugt í hug, hvenær sem þau voru ein saman, og það lá við stundum, að hann væri byrjaður á því. En það var eins og Halla sæi það á honum, og þá varð hún allt í einu önnur og svo kuldaleg, að honum féll allur ketill í eld, eða þá að hún mátti ómögulega tefja lengur, og fór þá frá honum.

Og þegar hann stóð úti í hríðum og frostum og hélt á sér hita með því að berja sér, þá hvarflaði hugurinn, sjúkur af afbrýði, heim í bæinn til Höllu. Ef til vill voru nú meðbiðlar hans að gera sér dælt við hana! Hláturinn hennar ómaði fyrir eyrum hans, eins og hann heyrði hann skammt frá sér! Þessar hugsanir voru honum til daglangrar kvalar, því hann þoldi ekki, að nokkur annar karlmaður gerðist henni of nærgöngull og hverfði ef til vill huga hennar frá sér og spesíunum. Og honum brann hugur í brjósti, þegar hann heyrði hana hlæja við einhverjum öðrum. En hann vissi þó, hve hætt var við þessu; og hann hefði glaður viljað gefa nokkrar spesíur fyrir að geta verið henni ósýnilega nálægur allan daginn.

Hann lagði margsinnis niður fyrir sér í huganum, hvað hann ætlaði sér að gera, ef Halla brygðist vonum hans og tæki einhvern af meðbiðlum hans. Hann ætlaði að grafa þessa ögn af peningum, sem hann ætti, niður í jörð, þar sem hann var viss um, að enginn fyndi þá, og svo ætlaði hann að reka féð upp í Beitihaga sama morguninn sem hún gifti sig, eins og ekkert væri um að vera, en - þar ætlaði hann að skera sig á háls!

En tilefnið til jafnsögulegs atburðar dróst þó, sem betur fór. - - -

En Höllu var innilega skemmt með allri þessari viðleitni Ólafs til að ná hylli hennar; hún furðaði sig að vísu á því, jafnvel meira en aðrir, að honum skyldi koma til hugar, að hún vildi líta við honum í fullri alvöru.

Þó gat ekki komið til nokkurra mála að segja honum það sjálfum eða láta hann verða þess áskynja að svo stöddu. Hún mundi sakna hans, ef hann hætti að draga sig eftir henni, og skarð hans í hóp þeirra manna, sem gerðu það sama, yrði seint fyllt. Þar að auki hafði Ólafur ekki annað en gott af því að safna peningum!