Halla/9

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Halla höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

Þegar þau voru skilin og presturinn kominn aftur á heimleið, fóru skapsmunir hans að jafna sig eftir það, sem gerst hafði, og hann fór að geta hugsað um þetta með meiri ró og gætni.

Nóttin var svo kyrr, svo hljóð og svo hæfilega svöl, að honum fannst hressandi að vera lengur úti.

Hann settist á stein skammt fyrir ofan vallargarðinn og lofaði næturloftinu að anda um sig og þurrka burtu angistarsvitann, sem hafði komið fram á ennið á honum.

En því fór fjarri, að hann væri aftur búinn að ná sér, þótt því yrði ekki neitað, að hann væri með meira ráði en áður.

Þegar hann var setstur niður, færðist yfir hann einhver undarlegur sljóleiki, hálfgert andlegt ómegin. Það var sem eitthvert kuldalegt tóm umhverfis hann og innra hjá honum. Hugurinn fálmaði eftir hugsununum, minningunum og samhenginu í því, sem fram hafði farið.

Hann fann það að vísu, að embættisheiðrinum var borgið - að þessu var ef til vill öllu borgið á yfirborðinu. Halla hafði lofað því, svarið það, og sagt honum að treysta á sig.

Hún hafði sagt, að hún skyldi heldur láta lífið en að hamingju hans yrði spillt og heiður hans fótum troðinn. Hann vissi, að hún var reiðubúin til að halda orð sín; hann treysti henni.

Hann huggaði sig líka við það, að fráleitt mundi hún þurfa að taka til neinna óttalegra úrræða. Dæmin voru svo mörg, þar sem tekist hafði að breiða yfir leyndarmál, lík þessu, með sniðugum ósannindum. Það var algengasta aðferðin. Og hann efaðist ekki um, að hún mundi einnig verða reynd hér - og takast.

En hann hryllti við slíkum leikslokum. Hann hryllti við því að varpa allri ábyrgð og áhyggju yfir á herðar umkomulausrar, bláfátækrar stúlku, sem af göfuglyndi hafði tekið sökina á sig, til að bjarga honum. Hann hryllti við að mega ekki sjálfur gangast við faðerni barnsins síns, sjálfur annast það, uppala það og sjá það vaxa og þroskast ár frá ári. Hann hryllti við því að þurfa að skríða í skjól lyginnar til að dylja það, sem hann þó innst í sálu sinni taldi sér allra minnst til vansæmis.

Þótt hugsanirnar væru sljóar og hægfara, komu þær þó með slíkar myndir, að innan skamms breyttist hrollurinn í yl og ylurinn í vaxandi hita.

Hann hugsaði til Höllu, manneskjunnar, sem hafði fyrirgefið honum öll hans óheilindi og lagt allt í sölurnar fyrir hann, og sem nú sat og grét hinum megin við hæðina - grét yfir óhamingjunni, sem ást þeirra hafði leitt yfir hana. Hann viknaði, svo það lá við, að hann færi að gráta henni til samlætis, þar sem hann var.

Ástarkvalir þær, sem skáldin lýsa í ljóðum sínum, höfðu fram að þessu liðið fram hjá huga hans, eins og þær kæmu honum lítið við. Hann hafði aðeins kynnst munaði ástarinnar, en aldrei fyrr en nú sársauka hennar. Nú skildist honum, að þessi ljóð voru kveinstafir djúpra, óbærilegra tilfinninga, sem stundum leiddu til sturlunar og líftjóns. -

Hann var, eins og fleiri, skapaður með þeirri mannlegu tilhneigingu að velta sökinni af sér og yfir á eitthvað annað, dautt eða lifandi; kenna því um óhamingju sína og láta gremju sína bitna á því. Það er sagan um fyrstu foreldrana, sem þannig endurtekur sig daglega: maðurinn kenndi konunni, konan höggorminum.

Hann reyndi að leita orsaka allrar þessarar óhamingju. Og hann komst brátt að þeirri niðurstöðu, að þær væri helst að finna í ranglátum hugsunarhætti, menningar- og mannúðarsnauðum, og hjá kirkjustofnun þeirri, sem skapaði hann og varðveitti og lifði á honum.

Hann hafði aldrei kirkjuvinur verið, allra síst þjóðkirkjunnar; miklu fremur þvert á móti. En allar þær hugsanir og skoðanir, sem þessari eldgömlu stofnun voru miður vinveittar, hafði hann neyðst til að læsa vandlega inni, þegar hann fór að búa sig undir að ganga á mála hjá henni. Þær höfðu oft brotist um í klefum sínum á árum guðfræðinámsins, en þó ekki megnað að brjótast út. Hann var hræddur um, að kennarar sínir mundu samt hafa orðið varir við þær, eða að þeir hefðu haft einhvern grun um þær; en þeir höfðu ekkert orð á því. Ef til vill hafa þeir orðið áskynja um líkar hugsanir hjá fleirum og þekkt af reynslunni, hvernig oftast tekst að stinga þeim svefnþorn. - Að minnsta kosti höfðu þeir gert úr honum kennimann.

Hann hafði sjálfur um eitt skeið verið farinn að halda, að þær væru farnar að missa máttinn. En þær höfðu þó fylgt honum inn í prestsembættið.

En nú, - þegar hugur hans var á reiki og hugsanir hans á ruglingi, þegar allir sálarkraftar hans voru lamaðir af ofraun þeirri, er þeir nýlega höfðu ratað í, - nú komu þær aftur til sögunnar. Nú héldu þeim hvorki hurðir né lokur. Þær brutust fram, réðust á hann og lögðu hann allan undir sig í einni svipan.

Gremjan yfir kirkjuástandinu, eins og það oft hafði verið og eins og það var enn þá, gagntók hann eins og hitasótt. - -

Því lengur sem hann hugsaði um þetta, því æstari varð hann og ákafari í skapi.

Hann fann svo margt í fari kirkjuskipunar sinnar, sem hann var ekki ánægður með - æ fleira og fleira, sem honum fannst þurfa að laga og endurbæta. Þar á meðal voru afskipti kirkjunnar af einkamálum manna.

Hann áleit öll þau fyrirmæli, sem þar að lutu, lýsa svo miklum eintrjáningshætti og ónærgætni, að þau væru með öllu óþolandi.

Hann hugsaði til sjálfs sín. Brot hans var í raun og veru ekki mikið, - ef brot skyldi kalla. Og í samanburði við þá hegningu, sem við því lá, var það hverfandi.

Og afleiðingin var sú, að hann skreið í skjól ósannindanna, til að firra sig þeim ósköpum, bætti við nýju broti, sem var langtum andstyggilegri ósómi en hin fyrri yfirsjón. Og með slíkt mein í sálunni átti hann að halda áfram að vera prestur! En hann var rekinn áfram með ógnarlegum svipum. Hann gat ekki annað, hann þorði ekki annað.

Það fór hrollur um hann. Honum bauð við sjálfum sér.

Hann hugsaði til embættisbræðra sinna, bæði fyrr og síðar, sem hann hafði afspurn af, að líkt hefði staðið á fyrir, eða sem á einhvern hátt höfðu orðið að grípa til líkra óyndisúrræða til að skjóta sér undan hegnandi hendi þessarar miðaldalegu stofnunar.

Hann hugsaði til Jóns Þorlákssonar. Alltaf skildi hann hendingar hans betur og betur.

En þeir voru margir, og vissulega fleiri en nokkurn grunaði, sem eitthvað höfðu að dylja og samt neyddust til að halda áfram kennimennsku sinni og fordæma það í fari annarra, sem þeir sjálfir álitu ekki synd, en skjálfa sjálfir, hvenær sem þeir litu í augun á einhverjum þeim manni, sem yfirljómaði bresti sína með stórum kostum, í stað þess að klóra yfir þá með lygi.

Þannig kom honum allur þorri embættisbræðra sinna fyrir sjónir. Flestir þurftu meira eða minna á grímunni að halda. Hinir voru ef til vill aðeins undantekningar.

Honum bauð við þessu öllu saman. Honum bauð við þeim hálfleik, því andleysi og þeim óheilindum, sem þjóðkirkjan var full af, og öllum þeim leynigryfjum, öllum þeim mergfúa sem hún bjó yfir.

Nei, nei. Það mátti ekki við svo búið standa!

Engum stóð nær að hefjast handa en einum af þjóðkirkjunnar eigin prestum.

Hann vissi vel, að þótt kirkjan drottnaði enn þá yfir almenningsálitinu, eða réttara sagt, þótt flestir væru nógu þýlyndir til að þegja og ekki nema fáir þyrðu að ganga í berhögg við þessa voldugu stofnun, sem hafði ríkið að bakhjalli, - þá svaf þó innst í hugskoti flestra manna hugsjón um aðra kirkjuskipun, frjálslegri, göfugri og mannúðlegri, sem stæði á eigin fótum, gædd áhuga og trausti sem kirkjan á dögum postulanna, sem væri stríðandi og stæltist við hverja raun, en þyrfti ekki að kaupa sér neina valdhafavernd, - sem væri í einu orði samkvæmari aldarandanum og samboðnari guðdómshugmyndinni.

Og sá, sem vekti þá hugsjón og bæri hana fram til sigurs og öndvegis - - -!

Hann hugsaði ekki hugsunina til enda. Hann kipptist við og réttist upp í sæti sínu á steininum, eins og rafmagnsstraumur hefði verið leiddur um hann. Nýjar og nýjar hugsanir þutu fram í huga hans með einstakri viðkomu.

Ákafi skapsmuna hans hafði náð hámarki sínu. Hann sá, að það þurfti að gera uppreist móti öllu því, sem úrelt væri og einstrengingslegt í kirkju- og trúarlífinu, ráðast á það með odd og egg og láta það fara sömu förina og aflátssöluna, bannfæringarnar, galdrabrennurnar, stóradóm o. fl. o. fl., taka sér eldhúsdag og róta duglega til í þessari eldgömlu stofnun, róta henni um koll, ef því væri að skipta, en reisa á rústum hennar aðra stofnun, betri og fullkomnari, sem fær væri um að ganga í broddi hugmynda aldarinnar, en væri ekki á eftir í öllu.

Hann setti sig í stellingar eins og hann byggi sig til atlögu gegn þessu ofurefli. Hnefarnir krepptust og hnúarnir hvítnuðu. Hann sló út með hendinni, sem vildi hann gefa ósögðum orðum sannfærandi áherslu. - En steinninn, sem hann sat á, varð fyrir hendinni.

Hann stökk á fætur; hann hafði flumbrað sig á hendinni og kenndi töluvert til.

Sársaukinn truflaði hugsanir hans og hægði þær til muna. En þegar úr sviðanum dró, tók andi hans aftur til starfa, en þó ekki með slíkum ákafa sem áður.

Já, nýr Lúther - það var einmitt slíkur maður, sem þörf var á, til að kvista niður og uppræta það úr kirkjunni, sem Lúther hinn fyrri hafði skilið eftir.

Sá maður, sem gerði það, hlaut að launum ódauðlega frægð og óþrotlegt þakklæti.

Hann fór að taka saman í huganum eitthvað af þessum níutíu og fimm mótmælagreinum, sem þyrfti að festa upp, - og komst upp í þrettán.

- Eða þá sá maður, sem beita kynni vopnum listarinnar gegn kirkjunni, sem gæti sent henni hárbeitt skeyti í ljóðum, sýnt henni sjálfri sína aumkunarlegu mynd, hlegið máttinn úr hleypidómum hennar og kveðið þá niður að eilífu -! Fyrir slíkum manni mundi heimurinn beygja kné sem goði sínu og andlegum afburðamanni.

Hann rölti stundarkorn fram og aftur um holtið, meðan skapsmunir hans voru að jafna sig. Stundum datt honum í hug að fara upp að lauginni til Höllu og vita, hvernig henni liði. En hann hætti við það; þau höfðu kvaðst, og hún beðið hann að lofa sér að vera einni.

En mest hugsaði hann þó um það, hvílíkrar frægðar sá maður yrði aðnjótandi, sem fær væri um að vera Lúther II. - eða þó ekki væri nema Jón Þorláksson II.

Ó, ef hann væri skáld - - - -!

Síðan gekk hann í hægðum sínum heim yfir túnið, sem byrjað var að gróa.

Hugur hans sefaðist enn betur á leiðinni; hann fann of mikinn vanmátt hjá sér til að leggja út í stórræði, og þá var best að halda sér í skefjum og sætta sig við kjörin.

Hann fann ilminn af nýgræðingnum leggja á móti sér upp úr túninu; það var sem hressandi drykkur fyrir hann að anda honum að sér. Þetta gras spratt upp handa honum; þetta sumar átti hann að njóta örlætis náttúrunnar á þessu prestssetri.

Hann renndi augunum yfir túnið, um leið og hann gekk um það. Það var þýft, en það var grasgefið. Gamla prestsekkjan hafði heldur ekki sparað að bera vel á það; hún vildi skilja vel við allt á prestssetrinu. Það versta var, að óþarflega mikill áburður lá ónotaður undir húsveggjunum; en það skyldi nú leggjast niður!

Hann leit heim til bæjarins. Þar var mörgu ábótavant. En hann sá í anda, hvernig þar mundi líta út, þegar hann yrði búinn að byggja þar upp, fegra og prýða.

Það var þó ekki örvænt um heiður og hamingju í framtíðinni sem starfssamur bóndi, með prestsembættið að bakhjalli, sem fremsti maður sveitarinnar og safnaðarins, virtur í búri sem kór, og launaður með spesíum og lambafóðrum, sauðum og feitmeti - ef hann aðeins vildi vera eins og hinir.

Hann brosti sjálfur að þessum hugsunum, þegar hann bar saman við hinar fyrri. En það voru þó þær, sem réðu lífi hans að lokum.

Og þegar hann kom inn í stofuna, lá við, að hann gerði bæn sína og þakkargjörð til forsjónarinnar fyrir að sleppa svo dásamlega sem nú var útlit fyrir frá þeim voða, sem vofði yfir honum og embættisheiðri hans. Verndun hans var um leið verndun kirkjunnar. -

Það var farið að birta aftur, þegar hann fór að hátta.

Hann lá lengi vakandi og var að taka saman ræðuna til næsta sunnudags.

Hann átti að tala um sending heilags anda - ef einhver fengist til að hlusta á það.