Halla/10

Úr Wikiheimild
Halla höfundur Jón Trausti
10. kafli

Þegar Halla var orðin ein, setti að henni ákafan grát. Hún hafði stillt sig eins og hún gat, meðan hann var hjá henni, og jafnvel misboðið sjálfri sér með því að kefja tilfinningar sínar.

Nú var hún orðin ein eftir. Nú gat hún svalað sér með tárum sínum. Enginn heyrði kveinstafi hennar. Alls staðar umhverfis var dauðakyrrð. Ekkert heyrðist, nema sogið í hvernum, sem ýmist dró niðri í sér eða sauð og vall langt upp yfir barma sína.

Hún lá ýmist flöt í grasinu eða hún settist upp og reri fram á hendur sínar. Nýjar og nýjar gráthviður fengu vald yfir henni; bráðum varð hún þreytt af grátinum og tárin tóku að þverra; en geðshræringar hennar minnkuðu ekki fyrir það. Hún skalf eins og hrísla af þungum ekka.

Það leið góð stund þar til hún sefaðist svo, að hún gat nokkuð hugsað, og þótt hún reyndi það, voru hugsanirnar ruglaðar og sundurslitnar. Það var sem andlegir kraftar hennar væru lamaðir. Hún gat ekkert annað en gefið sig grátinum á vald að nýju.

Loks fór hún þó að geta hugsað með samhengi.

Hún byrjaði með því að rifja upp fyrir sér allt það, sem gerst hafði um nóttina. Hún mundi hvert einasta orð og atvik, sem þeim hafði á milli farið, hún mundi meira að segja hverja svipbreytingu, sem hún hafði séð á andliti hans, hvern drátt í þessum svipbreytingum, og hljóminn í hverju orði, sem hann hafði sagt.

Hún fann, að skilnaður þeirra að þessu sinni var skilnaður fyrir fullt og allt. Aldrei framar mundu þau hittast. Aldrei framar fengju þau tækifæri til að segja hvort öðru, hvað þeim byggi innan rifja. Með þessum fundi voru unaðsstundir þeirra innsiglaðar að eilífu. Hún fann, að hvort sem líf sitt entist lengur eða skemur, yrði þessi síðastliðni vetrartími þess fegursti og hlýjasti sólskinsblettur, þess dýrmætasta eign og endurminning - hverju sem síðar yfir þyrmdi. Hún þjáðist ekki af iðrun yfir því, sem hún hafði gert, heldur aðeins af söknuði horfinna heilla og kvíða fyrir því, sem koma ætti.

Hún mundi líka vel eftir, hverju hún hafði lofað honum. Hún hafði ekki gert það með yfirlögðu ráði. Hún hafði aldrei hugsað út í, að til þess mundi koma. Nú var það hennar að standa við heit sín.

Hann hafði tjáð sig vera glataðan mann. Nú var hann frelsaður, en hún - hún var glötuð stúlka.

Og honum var ekki borgið að heldur, nema hún bæri gæfu til að efna heit sitt. Hún hafði tekið alla sökina á sig, heitið honum að ábyrgjast allt saman, haft stór orð um, og jafnvel lagt við líf sitt. Hún vissi, að hann treysti á hana. Nú kom til efndanna.

Enn þá hafði henni ekki hugkvæmst neitt ráð.

Og ef þetta mistækist allt saman?

Það var svo hryllilegt til þess að hugsa, að hún gat varla fylgt því út í æsar. -

Hún gat því nærri, hvernig sveitafólkinu mundi smakkast önnur eins saga um prestinn sinn. Hún gat því nærri, hvernig þúsund munnar mundu leggjast á eitt til að auka hana og endurbæta og koma henni sem fljótast og víðast.

Og svo afleiðingarnar. - Allt það, sem hann hafði sagt um aðgerðir yfirvaldanna og aðferðir safnaðarins við afhelgun hans, rann fram fyrir hugskotsjónir hennar eins og straumur lifandi leiks. Þannig yrðu hans óumflýjanlegu forlög, sem hún hafði lofað að ábyrgjast.

Og hún sjálf. - Það færðist bros yfir andlitið, eins og hún horfði á eitthvað viðbjóðslegt. Hóra, skækja, frilla, hjónadjöfull og annað þvíumlíkt - það voru orðin, sem heimurinn mundi hafa á takteinum handa henni!

Það var sem hún sæi framan í sumt af fólkinu, þegar það hafði annað eins krydd í munninum!

Hún vissi að vísu, að margir mundu aumkast yfir sig og ef til vill hlífa sér við þessum háðungarnöfnum, ekki af því, að þeim fyndist hún ekki eiga þau skilið, heldur aðeins af því þeir af góðmennsku sinni vildu ekki berja hana með verstu gaddasvipunni.

En hvenær sem hún reyndi að sýna persónulegt sjálfstæði, hvenær sem þyrfti að brjóta hana á bak aftur eða hefna sín á henni, þá var hún ekki í efa um það, til hverra vopna yrði gripið. Hún þekkti hugsunarháttinn og - göfugmennskuna.

Hún hugsaði til stallsystra sinna, sem alltaf höfðu haft horn í síðu til hennar, alltaf öfundað hana og alltaf fundist hún skyggja á sig. Hvort þeim yrði ekki matur úr þessu! Það var sem hún heyrði í þeim pískrið, hláturinn, glósurnar, eða sæi hornaugun, sem þær gutu, bendingarnar, háðið, hefndargleðina! Þetta hafði hún af því að vera tekin fram yfir þær á heimilinu!

Eða þá piltarnir, sem hún þekkti. Piltarnir, sem höfðu verið hugfangnir af henni, að minnsta kosti annað kastið, og sem hún hafði kvalið með kulda og tvíræði, gefið undir fótinn og hrundið frá sér á víxl, sem hún hafði haft að leiksoppi, og það alveg að ósekju, sem hún hafði sært og jafnvel grætt, vegna góðra og göfugra tilfinninga fyrir heill hennar og hamingju.

Sumir af þeim voru vænir og efnilegir menn, sem hún vissi fyrirfram, að ekki mundu gleðjast yfir óförum hennar eða nota þær í hefndarskyni. Ef til vill mundu sumir þeirra aumka hana og leitast við að gera henni gott, aðrir mundu láta hana hlutlausa. En allir mundu þeir sneiða hjá henni með stakri fyrirlitningu.

Hún vissi, að ekkert á örðugra með að vinna sér uppreisn í augum ungra karlmanna en fallinn kvenmaður. -

Og húsmóðir hennar, gamla prestskonan! - Hún hugsaði einnig til hennar. Hún hafði trúað henni best allra hjúa sinna, og nú launaði hún henni með því að bregðast trausti hennar og gera heimili hennar hneisu, seinasta árið sem hún var húsmóðir. Hún gat því nærri, hve þungt henni mundi falla það.

Hún hugsaði til grunsemda þeirra, sem hún hafði orðið vör við hjá henni, hugsaði til augnanna, ströngu og spyrjandi, sem hún hafði litið hana. Hún vissi, að hún mundi ekki verða margmálug, ekki berja hana brigslum; en svipur hennar mundi verða þungur og ásakandi, og hún kveið meira fyrir því en nokkru öðru.

Af öllum þessum hugsunum setti grát að henni að nýju. Það fór hrollur um hana, hrollur angistar og örvilnunar.

Hún mátti til að umflýja allar þessar hörmungar, því hún gat ekki við þær lifað. Hún mátti til að villa heiminum sjónir - en hvernig átti hún að fara að því?

Hún sá engin sköpuð ráð.

Hún renndi huganum yfir alla þá karlmenn, sem hún þekkti og mundi eftir í svipinn, ef ske kynni, að hún fyndi einhvern, sem hún gæti beðið ásjár.

Hún vissi, að mörgum þeirra hafði litist vel á hana, en annað mál var það, hvað mikið þeir vildu leggja í sölurnar hennar vegna. Hún þekkti engan þeirra svo vel, að hún þyrði að trúa honum fyrir leyndarmáli sínu, og hún treysti engum þeirra svo vel, að hún léti við það lenda, þegar blekkingin kæmist upp, og þá yrði seinni villan argari hinni fyrri.

Eða átti hún kannski að ganga á röðina og leita fyrir sér meðal þeirra? Nei, aldrei! Til þess hafði hún ekki þrek. Hún fann það, að ef sá fyrsti neitaði sér um ásjá, þá hefði hún ekki geð til að biðja fleiri, hvað sem við lægi.

Auk þess var þá leyndarmálið komið á fleiri manna vitorð og óvíst, hvernig með það yrði farið. Hún hætti að hugsa um þann útveg, og þar með fannst henni fokið í það skjólið.

Henni datt í hug að þverneita að segja til faðernis barnsins og láta skíra það undir hvaða nafni sem verkast vildi. En hún sá það jafnframt, að sér mundi aldrei líðast það.

Og þótt henni liðist það, þá var það lítið betra en að segja satt frá, því þá tæki almenningur til þess að feðra og mundi eflaust fara nærri um þann rétta.

Henni datt í hug að fara eitthvað langt burtu, þangað sem enginn þekkti hana, og ala barnið þar. En hvert átti hún að fara? Hún hafði aldrei farið eitt fet út tyrir sveitina. Hún þekkti engan mann í öðrum sveitum. Enginn var þar til, sem gat komið henni á framfæri. Og atleiðingin yrði ef til vill sú, að hún yrði innan skamms send hreppaflutningi á sveit sína.

Allar þessar hugsanir voru fálm út í loftið eftir úrræði, sem ekki var til. - -

Meðan Halla var að velta þessu fyrir sér, var morgunninn að leggja undir sig allt loftið. Skýin beltuðu sig góðviðrislega í austrinu og voru öll með eldrauðum kögrum; aðeins ofur lítill kjarni í miðju skýinu var dimmur.

Sólin var komin upp, en enn þá hulin skýjum.

Morgunninn var undur fagur og mildur; en Halla gaf því engan gaum. Hún sat og leit til jarðar og braut heilann um óhamingju sína. Hún hélt áfram að pína fram nýjar og nýjar hugsanir, ný og ný úrræði, sem öll fóru sömu förina.

Hún fann sáran verk í höfðinu. Hún hafði ofreynt sig á að hugsa.

Hún fann ekkert nema vanmátt sinn og einstæðingshátt gagnvart þessum vonleysis-kringumstæðum. Hún gat ekkert annað en gefist upp og grátið.

Þegar svo er komið, er alger örvænting ekki langt frá. -

Allt í einu birti allt í kringum hana, eins og ljóma væri varpað af himni niður yfir blettinn, þar sem hún sat; yfir vorgræna lægðina á laugarbakkanum, þar sem úðinn úr hveragufunni hafði setst á hvert strá í svalri lágnættiskyrrðinni, og allt glitraði; og yfir klettana að baki hennar, þar sem ármenn hversins og laugarinnar, sem höfðu það hlutverk með höndum að vernda þá frá slysum, sem þar höfðust við, - bjuggu innan luktra steindyra.

Það var sólin, sem kom fram í rifu milli tveggja skýja í austrinu og varpaði skæru, rauðu morgunskini yfir þennan hluta sveitarinnar.

Allt, sem móti sólu vissi, varð blóðrautt og brosandi fagurt, eins og barn, sem rís upp í vöggu sinni eftir langan og væran dúr.

Hverinn varð líka rauður, og vatnshöglin, sem hann hreytti upp úr sér, urðu eins og neistaflug út frá vermandi arinloga.

Það var eins og náttúran gerði sér allt far um að birta Höllu velþóknan sína. En augu hennar voru svo haldin, að hún sá það ekki.

Hún hrökk við.

En það var ekki morgunkveðja sólarinnar, sem hafði þessi áhrif.

Ein hugsunin enn hafði flogið fyrir í örmagna huga hennar, eitt úrræði enn þá - það síðasta, það hryllilegasta: að farga barninu.

Aftur og aftur hafa kringumstæður líkar þessum rekið yfirgefna einstæðinga til þessa óttalega úrræðis, sem hverju mannshjarta býður við; og árlega gera þær það og munu gera, meðan hinn ríkjandi hugsunarháttur er jafnómannúðlegur.

Á öllum öldum, næstum árlega, hafa vesalings, yfirgefnar mæður reynt að grípa til þeirrar heimsku að fæða börn sín á laun og bera þau út.

Þess vegna er til jafnóttalegt örnefni eins og Drekkingarhylur.

En Halla lagði ekki út í að hugsa jafnviðbjóðslega hugsun. „Aldrei, aldrei“, hljómaði í hug hennar, svo hátt og einbeitt, að það yfirgnæfði slíkar djöfuls raddir sem freistni til barnsmorðs.

Nei, - þá heldur að láta lífið með því. Þar með var endi bundinn á allt þetta stríð. Og henni hafði enn þá ekkert annað úrræði komið til hugar.

Örvæntingin var að koma með öllu sínu feigðarafli. - Halla varpaði sér á grúfu niður á jörðina, með hendurnar fyrir andlitinu, og hrópaði hástöfum með angist og skelfingu hina síðustu kveinstafi hinnar úrræðalausu mannssálar:

„Drottinn, guð almáttugur! Frelsaðu mig frá þessum ósköpum!“

Þannig lá hún fáein augnablik og endurtók þennan kveinstaf sinn hvað eftir annað, fyrst upphátt og síðan lægra og lægra, þar til hann að lokum dó á vörum hennar, og hún lá þegjandi og stundi, án þess að geta tárfellt lengur. - -

Þá jarmaði kind skammt frá henni, og í sömu svipan var hóað með hásum, mjóum karlmannsrómi, og rétt á eftir gjammaði rakki.

Halla leit upp.

Þessi gamalkunni hávaði og algengi í sveitunum vakti hana af hugsunum hennar. Hann rauf líka næturkyrrðina allt of tilfinnanlega, sem hafði ríkt svn lengi.

Hún reis upp og litaðist um. Ef til vill kynni einhver að ganga fram á hana þarna, og það var henni ekki um.

Fleiri kindajarmar heyrðust síðar og meiri hundgá.

Henni varð litið upp til ásanna, sem voru bládimmir þeim megin, sem að henni vissi. Fáeinar kindur gengu þar í röð hver á eftir annarri upp yfir gamla hjarnfönn. Neðan undir fönninni var annar hópurinn, sem einnig raðaði sér í halarófu, og uppi á ásbrúninni hillti undir þann þriðja, eins og kolsvarta díla, sem bar í loftið, logandi af morgunskininu. Betur að gáð var allur ásinn kvikur af fé, sem seig hægt og hægt og með miklum tvístringi upp eftir, og hvarf loks upp yfir brúnina.

Það var eins og birti yfir svip Höllu við þessa sjón. Varirnar bærðust, en orðið heyrðist varla. En það var nafn þess manns, sem nú kom fram í huga hennar:

„Ólafur sauðamaður!“

Hún hafði gleymt honum, þegar hún renndi huganum yfir þá karlmenn, sem hún þekkti og sem hugsandi var til að biðja ásjár. Nú kom hann fram í huga hennar eins og frelsandi engill.

Ólafur sauðamaður sem frelsandi engill -! Hver skyldi hafa trúað öðru eins?

En nú voru þeir tímar komnir, að jafnvel hið ótrúlegasta gat skeð.

Hún hafði eiginlega aldrei haft andstyggð á honum, eins og sumir aðrir höfðu. Í raun og veru hafði hún haft gaman af honum, og þess vegna hafði henni aldrei verið annt um það, að hann hætti að elta sig.

Hann var að vísu hvorki fríður né karlmannlegur - það hefði verið synd að segja það. - Hún vissi það líka, að hann var ekki greindur; en samt fannst henni alltaf sem eitthvað leyndist í honum. Og margt af því, sem hún þekkti til hans, meðal annars þolinmæði hans við að reyna að vinna ástir hennar, bar vott um, að hann væri ef til vill ekki allur, þar sem hann væri séður.

Og væru þá sumir hinna mikið betri, þegar öllu var á botninn hvolft? Þeir voru mannborlegri og meiri á velli, fríðari sýnum og meiri afkastamenn. En gat þá ekki verið vandséð líka, hvernig þeir reyndust?

Ólafur hafði eflaust fáa af kostum þeirra, en líka fáa af ókostum þeirra.

Og hann hafði líka kosti. Hann var lundbetri og dagfarshægari en þeir flestir; og hann var betri fjármaður en þeir allir að samanlögðu.

En samt rann henni sem kalt vatn milli skinns og hörunds við þessar hugsanir.

Að hugsa sér þennan ólánlega, ómannborlega vöxt, þessa limu, sem dingluðu og slettust áfram í ótal hlykkjum, og þetta sísyfjaða andlit, með augnalokin niður fyrir augun! - Að hugsa sér, að þetta ætti að verða maðurinn hennar!

En hvað um það? Það var efamál, hvort hún hefði nokkurn tíma átt valið, þegar á átti að herða; hvort hún nokkurn tíma hefði staðið í því áliti í augum ungra manna, að hún hefði getað kosið sér þann, sem henni geðjaðist best að öllu leyti. Því láni eiga fáar stúlkur að fagna.

Og þótt svo hefði einhvern tíma verið, þá var sá tími nú liðinn. Nú átti hún ekki valið. Það var að minnsta kosti víst.

Og eins og ástæður hennar voru nú, þá fannt henni Ólafur standa sér miklu ofar. Hann var heiðarlegur maður. Enginn hafði neitt að brigsla honum um. Hann gat litið öruggum augum framan í hvern mann og þurfti ekki fyrir neitt að fyrirverða sig.

En hún -?

Hún var ekki í efa um, hvernig almenningsálitið mundi dæma um samanburð þeirra, ef allir málavextir lægju ljósir fyrir. Henni fannst það meira að segja lýsa göfuglyndi hjá honum og sannri ást, ef hann tæki við henni, eins og nú stæði á.

Og hve ómetanlegan greiða hann gerði henni með því! Hún fann, að hún gat jafnvel unnað honum einungis fyrir það og mundi verða honum þakklát alla ævi.

Og hún efaðist ekki um, að hann mundi gera það. Hún vissi, að tilfinningar hans fyrir henni mundu verða ríkari, þegar á reyndi, en tilfinningin fyrir hans eigin metnaði. Og hún vissi, að á þann hátt var leyndarmálinu vel borgið. Ólafur mundi verða þögull eins og gröfin.

Og hann var líka eini maðurinn, sem hægt var að villa almenningi sjónir með. Allir vissu, að hann hafði sótt eftir henni lengi og gert sér dælla við hana en nokkur maður annar. Og allir vissu líka, að hún hafði aldrei hrundið honum frá sér.

Þannig var ákvörðun hennar þegar tekin. - -

Hún gekk heim, furðanlega létt í lundu, og gladdi sig yfir því að hafa fundið veg út úr þessum vandræðum, sem hún hafði tekið öll upp á sig. Nú var honum borgið, sem hún vildi leggja allt í sölurnar fyrir.

En við sál hennar loddi þó eitthvað, sem hún gat ekki losað sig við og sem blandaði sigurgleðina með beisku galli. Það var kvíðinn - fyrir því að þurfa að ganga að eiga Ólaf.

Næsta sunnudag á eftir átti hún langt eintal við Ólaf.

Hún gekk hreint til málsins. Sagði honum, að ef honum hefði nokkurn tíma leikið hugur á því að fá sig fyrir eiginkonu, þá væri það nú auðsótt - með einu skilyrði.

Hún tjáði honum hreinskilnislega alla málavöxtu og var blíð og elskuleg í viðmóti við hann. Hún sagði honum, að hann væri eini maðurinn, sem nú vissi þetta leyndarmál sitt. Nú væri það undir honum komið, hvort fleiri yrðu áskynja um það.

Ólafur gekk að skilyrðinu, en þó dræmt. Hann hafði hugsað sér þá stund allt öðruvísi en þetta, sem þau, hann og Halla, byndu lag sitt saman og festu tryggðarheit sín.

Allt þetta kom svo undarlega flatt upp á hann. Hann átti bágt með að botna í því öllu saman. Og þess vegna sat hann hljóður og hugsandi og leit í gaupnir sér, góða stund eftir að hann hafði sagt já.

En hann vissi, hvílíkt ágætiskonuefni Halla var. Það gat því ekki komið til mála fyrir hann að hrinda henni frá sér fyrir þessar sakir. Þess mundi hann lengi iðra.

Og hvar fékk hann annað eins konuefni?

Hann var fyrir löngu sannfærður um allt þetta, og hann hafði aldrei á ævi sinni fellt hug til neinnar stúlku, nema hennar einnar. Umhugsunin um hana var orðin rótgróin hjá honum á mörgum árum. Honum fannst hann ekki geta án hennar lifað.

Og þess vegna ætlaði hann að skera sig á háls, þegar séð væri fyrir endann á því, að hann fengi hana ekki. Nú var óþarfi að gera ráð fyrir því framar.

Auk þess runnu honum mjög til rifja bágindaástæður hennar, og eins jafnvel prestsins, sem hann var orðinn ofurlítið málkunnugur og farið að þykja vænt um.

„Nú koma spesíurnar þínar okkur að góðu liði, Ólafur minn!“ sagði Halla brosandi. Henni hafði tekist ágætlega að dylja óbeit sína á öllu þessu, sem fram fór á milli þeirra. Nú, eins og oftar, gat hún stjórnað geði sínu.

„Já, nú koma þær að góðu liði“, svaraði Ólafur, eins og út í hött, og leit ekki upp.

En við talið um spesíurnar breiddist einkennilegt, íbyggið bros yfir syfjaða andlitið, sem Halla tók ekki eftir.

Honum datt í hug, hvort ekki mundi mega takast að auka spesíuforðann til dálítilla muna við þetta tækifæri. Presturinn var vitanlega í slæmri klípu, og þótt hann oft hefði vikið kunnuglega að honum, þá var hann þó sannarlega ekki of góður til að þægja dálítið fyrir að sleppa svo fyrirhafnarlítið út úr henni. Það var líka syndlaust, því það var auðvitað, hvar hann mundi taka þá skildingana aftur.

En það varð að fara aðeins á milli þeirra tveggja. Hann þorði ekki fyrir sitt líf að láta Höllu komast að því.