Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/1

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar höfundur Snorri Sturluson
1. Hér hefur upp sögu Ólafs konungs Tryggvasonar

Ástríður hét kona sú er átt hafði Tryggvi konungur Ólafsson. Hún var dóttir Eiríks bjóðaskalla er bjó á Oprustöðum, ríks manns. En eftir fall Tryggva þá flýði Ástríður á brott og fór á launungu með lausafé það er hún mátti með sér hafa. Henni fylgdi fósturfaðir hennar sá er Þórólfur lúsarskegg hét. Hann skildist aldrei við hana en aðrir trúnaðarmenn hennar fóru á njósn, hvað spurðist af óvinum hennar eða hvar þeir fóru. Ástríður gekk með barni Tryggva konungs. Hún lét flytja sig út í vatn eitt og leyndist þar í hólma nokkurum og fáir menn með henni. Þar fæddi hún barn. Það var sveinn. En er hann var vatni ausinn þá var hann kallaður Ólafur eftir föðurföður sínum.

Þar leyndist hún um sumarið en er nótt myrkti og dag tók að skemma en veður að kólna þá byrjaði Ástríður ferð sína og Þórólfur með henni og fátt manna, fóru það eina með byggðum er þau leyndust um nætur og fundu enga menn. Þau komu fram einn dag að kveldi til Eiríks á Oprustöðum, föður Ástríðar. Þau fóru leynilega. Sendi Ástríður menn til bæjarins að segja Eiríki en hann lét fylgja þeim í eina skemmu og setja þeim borð við hinum bestum föngum.

En er þau Ástríður höfðu þar dvalist litla hríð þá fór brott föruneyti hennar en hún var eftir og tvær þjónustukonur með henni og sonur hennar Ólafur, Þórólfur lúsarskegg og Þorgísl sonur hans, sex vetra gamall. Þau voru þar um veturinn.