Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/101

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Sveinn Danakonungur og Ólafur Svíakonungur og Eiríkur jarl voru þar þá með allan her sinn. Þá var fagurt veður og bjart sólskin. Gengu þeir nú á hólminn allir höfðingjar og sveitir með þeim og sáu er skipin sigldu út á hafið mjög mörg saman og nú sjá þeir hvar siglir eitt mikið skip og glæsilegt.

Þá mæltu báðir konungarnir: „Þetta er mikið skip og ákafa fagurt. Þetta mun vera Ormur hinn langi.“

Eiríkur jarl svarar og segir að ekki er þetta Ormur hinn langi. Og svo var sem hann sagði. Þetta skip átti Eindriði af Gimsum. Litlu síðar sáu þeir hvar annað skip sigldi miklu meira en hið fyrra.

Þá mælti Sveinn konungur: „Hræddur er Ólafur Tryggvason nú. Eigi þorir hann að sigla með höfuðin á skipi sínu.“

Þá segir Eiríkur jarl: „Ekki er þetta konungsskip. Kenni eg þetta skip og seglið því að stafað er seglið. Þetta er Erlingur Skjálgsson. Látum sigla þá. Betra er oss skarð og missa í flota Ólafs konungs en þetta skip þar svo búið.“

En stundu síðar sáu þeir og kenndu skip Sigvalda jarls og viku þau þannug að hólmanum. Þá sáu þeir hvar sigldu þrjú skip og var eitt mikið skip. Mælti þá Sveinn konungur, biður þá ganga til skipa sinna, segir að þá fer Ormur hinn langi.

Eiríkur jarl segir: „Mörg hafa þeir önnur stór skip og glæsileg en Orm hinn langa. Bíðum enn.“

Þá mæltu mjög margir menn: „Eigi vill Eiríkur jarl nú berjast og hefna föður síns. Þetta er skömm mikil svo að spyrjast mun um öll lönd ef vér liggjum hér með jafnmiklu liði en Ólafur konungur sigli á hafið út hér hjá oss sjálfum.“

En er þeir höfðu þetta talað um hríð þá sáu þeir hvar sigldu fjögur skip og eitt af þeim var dreki allmikill og mjög gullbúinn.

Þá stóð upp Sveinn konungur og mælti: „Hátt mun Ormurinn bera mig í kveld. Honum skal eg stýra.“

Þá mæltu margir að Ormurinn var furðu mikið skip og frítt, rausn mikil að láta gera slíkt skip.

Þá mælti Eiríkur jarl svo að nokkurir menn heyrðu: „Þótt Ólafur konungur hefði ekki meira skip en þetta þá mundi Sveinn konungur það aldrei fá af honum með einn saman Danaher.“

Dreif þá fólkið til skipanna og ráku af tjöldin. En er höfðingjar ræddu þetta milli sín sem nú er sagt þá sáu þeir hvar sigldu þrjú skip allmikil og hið fjórða síðast og var það Ormur hinn langi. En þau hin stóru skip, er áður höfðu siglt og þeir hugðu að Ormurinn væri, það var hið fyrra Traninn en hið síðara Ormur hinn skammi. En þá er þeir sáu Orminn langa kenndu allir, mælti þá engi í mót að þar mundi sigla Ólafur Tryggvason, gengu þá til skipanna og skipuðu til atlögunnar.

Voru það einkamál þeirra höfðingjanna, Sveins konungs og Ólafs konungs og Eiríks jarls, að sinn þriðjung Noregs skyldi eignast hver þeirra ef þeir felldu Ólaf konung Tryggvason en sá þeirra höfðingja er fyrst gengi á Orminn skyldi eignast allt það hlutskipti er þar fékkst og hver þeirra þau skip er sjálfur hryði.

Eiríkur jarl hafði barða einn geysimikinn er hann var vanur að hafa í víking. Þar var skegg á ofanverðu barðinu hvorutveggja en niður frá járnspöng þykk og svo breið sem barðið og tók allt í sjá ofan.