Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/102

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þá er þeir Sigvaldi jarl reru inn undir hólmann þá sáu það þeir Þorkell dyrðill af Trananum og aðrir skipstjórnarmenn, þeir er með honum fóru, að jarl sneri sínum skipum undir hólmann. Þá hlóðu þeir og seglum og reru eftir honum og kölluðu til þeirra, spurðu hví þeir fóru svo.

Jarl segir að hann vill bíða Ólafs konungs „og er meiri von að ófriður sé fyrir oss.“

Létu þeir þá fljóta skipin þar til er Þorkell nefja kom með Orminn skamma og þau þrjú skip er honum fylgdu og voru þeim sögð hin sömu tíðindi. Hlóðu þeir þá og sínum seglum og létu fljóta og biðu Ólafs konungs. En þá er konungurinn sigldi innan að hólmanum þá reri allur herinn út á sundið fyrir þá. En er þeir sáu það þá báðu þeir konunginn sigla leið sína en leggja eigi til orustu við svo mikinn her.

Konungur svarar hátt og stóð upp í lyftingunni: „Láti ofan seglið. Ekki skulu mínir menn hyggja á flótta. Eg hefi aldrei flúið í orustu. Ráði guð fyrir lífi mínu en aldrei mun eg á flótta leggja.“

Var svo gert sem konungur mælti. Svo segir Hallfreður:

Geta skal máls þess, er mæla
menn að vopna sennu
dólga fangs við drengi
dáðöflgan gram kváðu.
Baða hertryggðar hyggja
hnekkir sína rekka,
þess lifa þjóðar sessa
þróttar orð, á flótta.