Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/113
Eiríkur jarl Hákonarson eignaðist Orminn langa með sigrinum og hlutskipti mikið og stýrði jarl Orminum frá fundinum.
Svo segir Halldór:
- Hjálmfaldinn bar hilmi
- hrings að miklu þingi,
- skeiðr glæstu þá þjóðir,
- þangað Ormr hinn langi.
- En suðr að gný Gunnar
- glaðr tók jarl við Naðri.
- Áðr varð egg að rjóða
- ættgóðr Hemings bróðir.
Sveinn sonur Hákonar jarls hafði þá fest Hólmfríði dóttur Ólafs Svíakonungs. En er þeir skiptu Noregsveldi milli sín, Sveinn Danakonungur og Ólafur Svíakonungur og Eiríkur jarl, þá hafði Ólafur konungur fjögur fylki í Þrándheimi og Mæri hvoratveggju og Raumsdal og austur Ranríki frá Gautelfi til Svínasunds. Þetta ríki fékk Ólafur konungur í hendur Sveini jarli með þvílíkum formála sem fyrr höfðu haft skattkonungar eða jarlar af yfirkonungum. En Eiríkur jarl hafði fjögur fylki í Þrándheimi, Hálogaland og Naumudal, Fjörðu og Fjalir, Sogn og Hörðaland og Rogaland og norðan Agðir allt til Líðandisness.
Svo segir Þórður Kolbeinsson:
- Veit eg, fyr Erling utan,
- ár að hersar váru,
- lofa eg fasta Tý, flestir,
- farlands, vinir jarla.
- En eft víg frá Veigu,
- vel eg orð að styr, norðan
- land eða lengra stundu
- lagðist suðr til Agða.
- Allvalds nutu aldir.
- Una líkar vel slíku.
- Skyldr lést hendi að halda
- hann of Noregs mönnum.
- En Sveinn konungr sunnan
- sagðr er dauðr, en auðir,
- fátt bilar flestra ýta
- fár, hans býir váru.
Sveinn Danakonungur hafði þá enn Víkina svo sem hann hafði fyrr haft en hann veitti Eiríki jarli Raumaríki og Heiðmörk. Sveinn Hákonarson tók jarldóm af Ólafi hinum sænska.
Sveinn jarl var allra manna fríðastur er menn hafi séð. Eiríkur jarl og Sveinn jarl létu báðir skírast og tóku rétta trú en meðan þeir réðu fyrir Noregi létu þeir gera hvern sem vildi um kristnihaldið. En forn lög héldu þeir vel og alla landsiðu og voru menn vinsælir og stjórnsamir. Var Eiríkur jarl mjög fyrir þeim bræðrum um forráð öll.